þriðjudagur, janúar 02, 2007

Muna: Ekki horfa á fréttaannálana!

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs af öllu hjarta.
Ég má varla vera að því að hugsa þessa dagana. Það er svo þrotlaus vinna að berja saman handritin fyrir Gettu betur. Hins vegar rifjaðist dálítið upp fyrir mér í gær sem ég ætla að setja hér á netið svo ég gleymi því aldrei:
EKKI HORFA Á FRÉTTAANNÁLA ÁRSINS!
Ég er allt of hrifnæmur til að ráða við það. Ég fer í hnút af gremju út í þessa asna sem stjórna landinu og asnakjálkana sem kjósa þá yfir sig aftur og aftur og aftur. Og ég á ekki einu sinni orð yfir brjálæðingana úti í heimi. Maður rétt meikar þennan guðsvolaða táradal einn dag í einu, en eitt ár á klukkutíma ... Það er of mikið fyrir mína veigalitlu mótstöðu gegn illsku og hálfvitagangi heimsins.
Einkum er leiðinlegt hvað maður lendir í mikilli innbyrðis mótsögn. Maður bölvar og ragnar þessu kóngapakki og hneykslast á þjóðunum sem kjósa að hafa þessar afætur á fóðrunum, lið sem aldrei þarf að dýfa hendinni í kalt vatn og þykir hafa unnið einhver afrek um hver áramót með því einu að hafa ekki hrokkið upp af síðan síðast. Frakkar og Rússar eru fundu endanlega lausn á þessari plágu, þeir klipptu einfaldlega hausinn af öllu liðinu!
(Rússar gerðu reyndar þau reginmistök að láta Anastasíu sleppa. Fyrir vikið kom upp goðsögn. Sú stríðalda dekurrófa varð að einhverri álagaprinsessu í ímynd næstu kynslóða en ekki forréttindatuðran sem hún var í raun og það fréttnæma verður þá ekki grimmdarlegir glæpir föður hennar gagnvart sveltandi alþýðu Rússlands, heldur meint villimennska bolsévikkanna sem sáu til þess að hann fengi makleg málagjöld.)
Að þessu loknu horfir maður svo upp á Saddam Hussein hengdan og nær ekki upp í nefið á sér yfir viðbjóðnum. Að mannkynið skuli ekki vera vaxið upp úr svona ógeði! Og bingó ... það stendur ekki steinn yfir steini í því sem maður þykist standa fyrir.
Millilendingin er sú að Kínverjarnir hafi farið rétt að þessu. Keisarinn gat auðvitað ekkert að því gert að hann væri keisari, hann var á ákveðinn hátt fórnarlamb líka. Hann gat orðið gegn þjóðfélagsþegn í garðyrkjunni. Kínverjar tóku reyndar séns, rétthafi krúnunnar var hafður á lífi. (Hvað ef Rússar hefðu tekið þennan séns? Væru Anastasía og Elísabet II núna sötrandi te saman, akandi í ráðherrabílum og spiki, elskaðar og dáðar af Englendingum og Rússum fyrir það eitt að vera ekki dauðar? – Muna: "ef" og "hefði" eru orðin sem andskotinn notar til að stjórna heiminum.)
Í kvöld sá ég hins vegar fyrrihlutann á mynd um Reyni Traustason og áhuga hans á einhverjum orðljótum furðufugli og manngæsku hans í garð furðufuglsins, sem áreiðanlega hefur verið áhugaverð fyrir þá sem hafa áhuga á honum, þ. e. Reyni.
Að lokum áttum við reyndar skemmtilegar samræður um heimildagildi fornsagna og nútímasagna og út frá því sannleikshugtakið og eðli þess. Ég náði að setja fram vísi minn að kenningu um stuld sagnfræðinnar á sannleikshugtakinu án þess að vera kveðinn í kútinn, aldrei þessu vant, en sú kenning er enn í smíðum og efni í annað blogg.
Bið að heilsa!

14 ummæli:

Jimy Maack sagði...

Hjartanlega sammála. Ég er fréttafíkill en horfði fyrst á fréttaannál S2 þar sem skemmtilegt hljóðspor einkennir þá annála einatt. En fyndin samsetning hljóðs og myndar var samt skammgóður vermir þegar til efnisins var litið og ég þurfti að stíga upp og ganga frá stofunni og einbeita mér að e-u öðru og sleppa annálnum á RÚV til þess eins að drepast ekki úr reiði og þunglyndi...

Hvað varðar Saddam, þá er kaldhæðnislegt til þess að hugsa að BNA menn þykjast dreifa lýðræði um heiminn eins og um kynsjúkdóm væri að ræða, uppræta Habeas Corpus og stunda ennþá dauðarefsingar...

Alda sagði...

Eins og talað út úr mínu hjarta. Ég hafði einmitt orð á þessu við minn heittelskaða á gamlársdag - skildi ekki hvers vegna við vorum að hlusta á samantekt af hörmungum heimsins í útvarpinu yfir matseldinni, nóg fannst okkur þetta ömurlegt í fyrra skiptið. Maður á ekkert með að vera að velta sér endalaust upp úr eymdinni.

Gleðilegt ár - og takk fyrir pistlana á því gamla!

Nafnlaus sagði...

Þú átt við japanska garðyrkjukeisarann er það ekki?

Og takk fyrir skemmtileg skrif á liðnu ári.

Nafnlaus sagði...

Reynir Traustason hefur tekið upp þann stíl í sínum heimildamyndum að setja sjálfan sig alltaf í miðju atburðarásarinnar. Þannig eru þetta ekki heimildamyndir um t.d. börn í dópi, heldur kynni Reynis af börnum í dópi - ekki af sérvitringi á Grænlandi, heldur kynni Reynis af börnum í dópi. Þetta gæti virkað ef Reynir væri áhugaverður. Svo er ekki.

Nafnlaus sagði...

Þarna átti að sjálfsögðu að standa "kynni Reynis af sérvitringi á Grænlandi." Hitt hefði þó sannarlega veri athyglisvert.

Davíð Þór sagði...

Þessi mynd var einmitt um Reyni Traustason að gera mynd um furðufugl. Mér fannst myndin ekki góð. Hin myndin, um gerð hverrar þessi mynd fjallaði, hefði áreiðanlega verið mun betri.

Davíð Þór sagði...

PS. Já, Kolbeinn. Hitt hefði sannarlega verið athyglisvert. Ég var einmitt að bölva sjálfum mér fyrir að hafa ekki horft á myndina til enda þangað til ég las seinni athugasemdina.

Móðir, kona, meyja sagði...

Mæltu manna heilastur. Þetta eru asnar.

Alda Berglind sagði...

1. mér fannst myndin mjög áhugaverð svona þegar mér tókst að horfa framhjá heimildarmyndagerðarmanninum og pirrandi "make-over" atriðinu.

2. er sagan ekki alltaf skrifuð af sigurvegurunum (hver sagði þetta aftur?) sbr. að atburðirnir í Dresden sem voru alltaf bara hafðir í svona lítilli klausu til hliðar einhvers staðar í sögubókunum.

3. "gamli" listasögukennarinn minn (hann er varla fertugur) benti okkur á það að ástæðan fyrir því að Gombrich (sem á held ég heiðurinn af því að hafa skrifað mest seldu listasögubók í heimi) nefndi bókina sína "Story of Art" en ekki "History of Art" væri sú að benda okkur á að "sagan" (sagnfræði) sé upphaflega bara byggð á - sögum - og því megi aldrei taka sögu sem heilagan sannleika frekar en við getum tekið heimildarmyndir sem alheilaga endurspeglun á raunveruleikanum.

hmmm, átti ekki að verða svona langt.

Allavega... gleðilegt ár...

Nafnlaus sagði...

Þriðjudaginn 2. janúar, 2007 - Bréf til blaðsins

Ég las frábæra grein um daginn í mogganum og varð að leyfa ykkur að sjá hana eða hluta af henni.

kv, Egill


Fjöldamorð og hvaladráp
Frá Gísla Hvanndal Jakobssyni:

Frá Gísla Hvanndal Jakobssyni: "Í SEINNI heimsstyrjöldinni eða hinni miklu helför eins og hún var kölluð er talið að yfir 6,5 milljónir manna, konur og börn hafi verið drepnar, og á meðan því stóð leit heimurinn undan og virtist enginn vita neitt fyrr en undir lokin."


Í SEINNI heimsstyrjöldinni eða hinni miklu helför eins og hún var kölluð er talið að yfir 6,5 milljónir manna, konur og börn hafi verið drepnar, og á meðan því stóð leit heimurinn undan og virtist enginn vita neitt fyrr en undir lokin.
Bandaríkjamenn ráðast inn í Írak til að handsama Saddam Hussein á þeim forsendum að heiminum stafi ógn af honum vegna kjarnorkuvopna sem hann átti að hafa undir höndum. Sem síðar reyndist ekki rétt. Tugþúsundir láta lífið og er jafnvel talað um yfir hundrað þúsund, enginn virðist vita réttan fjölda látinna. Það er eitthvað kaldhæðnislegt við það að þjóð sem á kjarnorkuvopn skuli ráðast á aðra þjóð á sömu forsendum. Bandaríkjamenn virðast telja sig alheimsvald í heiminum í dag. En allavega, þetta stríð virðist hafa verið látið viðgangast með stuðningi annarra þjóða, meðal annars okkar Íslendinga. Í Darfúr-héraði eða Súdan er búið að drepa hundruð þúsunda og er enn verið að, auk þess að yfir 2 milljónir manna eru á flótta þar. Heimurinn virðist ekki heldur bregðast við þar. Það virðist sem ríkisstjórnir vilji frekar fara í stríð en að bjarga mannslífum frá fjöldamorðum.

Íslendingar taka upp hvalveiðar í atvinnuskyni og leyfa veiðar á nokkrum hvölum. Áður en einhver snýr sér við rísa 25 þjóðir upp úr myrkrinu og mótmæla hvaladrápum?

Hvað er að heiminum í dag og í gær? Þarna eru þjóðir sem eiga, hafa átt og eru að vinna með kjarnorkuvopn. Þarna eru þjóðir sem stutt hafa stríð og tekið þátt í stríðum sem enginn virðist skilja upp né niður í. Fjöldamorð eru framin fyrir framan nefið á okkur og enginn grípur inn í. Það dugar ekki að senda friðargæsluliða til Súdan. Það stoppar ekki drápin, því miður. Ég skil ekki af hverju t.d. Bandaríkjamenn taka sig ekki saman í andlitinu og hjálpa þessu fólki í Súdan. Svo virðist sem þeir vilji frekar halda tilgangslausu stríði sínu áfram í Írak þar sem allt er í óreiðu. Auðvitað átti að taka Saddam Hussein úr umferð fyrir syndir sínar og fjöldamorð, en að drepa tugi þúsunda borgara í leiðinni finnst mér ekki réttlætanlegt. Ímyndið ykkur bara að þetta myndi ske á Íslandi. Ímyndið ykkur ef hann Hr. Ólafur okkar væri harðstjóri og það væru spurningar á lofti um hvort hann ætti kjarnorkuvopn. Allt í einu ráðast Bandaríkjamenn á Ísland og

1/3 þjóðarinnar er myrtur. Við verðum nefnilega að setja okkur aðeins í spor þessa fólk til að skilja þeirra martröð. Ég vil taka fram að stríð gegn hryðjuverkamönnum er ekki í Írak, það stríð er í Afganistan. En nú þegar Bandaríkjamenn eru í Írak flykkjast hryðjuverkahópar til Íraks til að berjast. Það er hræðilegt að hugsa til allra þeirra saklausu karla, kvenna og barna sem látið hafa lífið í Írak. Sjónvarpið gefur okkur einhverja mynd af aðstæðum þar en ekki alveg rétta né fulla.

Það er sorglegt að þegar hvalveiðibátur fer úr höfn í Reykjavík þá loks rísi 25 þjóðir upp úr myrkrinu og segja STOPP. Það er sorglegt að það þurfi að skjóta hval til að ríkistjórnir standi upp sameinaðar og hrópi STOPP.

Anna Kristjánsdóttir sagði...

Ég setti þessa athugasemd inn hér af því að ég fann ekki netfangið þitt:
Hvernig datt þér í hug að krakkarnir viti hvað kynusli er? Ég veit það ekki einu sinni sjálf!

Nafnlaus sagði...

Ég geri nú eins og Anna að ofan því ég finn ekki netfangið þitt. Í mínum bókum hefst Passíusálmur númer 50 nefnilega á orðunum:

Öldungar Júða annars dags
inn til Pílatum gengu strax...

Ekki veit ég svo sem hvað Megas söng, en svona kom þetta frá Hallgrími.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir ágætis spurningar í Gettu betur í kvöld. Ég ætla að gera sömu athugasemd og Benedikt Waage hér að ofan. Ég vil bæta því við að "Allt eins og blómstrið eina" er upphaf sálmsins "Um dauðans óvissan tíma".

Nafnlaus sagði...

Frábærar keppnir í gærkvöldi. Ég bið þig að hafa ekki áhyggjur af þyngd spurninga. Það er nefnilega ekkert að marka fyrstu umferðina þar sem mörg liðanna eru þar bara upp á grínið. Þetta eru með skemmtilegustu spurningum sem ég hef heyrt í GB í langan tíma. Krökkunum veitir ekki af að læra aðeins um íslenska menningu.