þriðjudagur, maí 30, 2006

Stjórnmálarýni Davíðs Þórs

Í nýyfirstöðnum borgarstjórnarkosningum hlaut Sjálfstæðis- flokkurinn næstverstu útreið sem hann hefur hlotið í sögu sinni hér í borginni (6% minna fylgi en R-lista flokkarnir samtals, sama fylgi og Samfylking og Vinstri-græn samanlagt). Þetta kallar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sigur og túlkar sem kröfu borgarbúa um að hann setjist í stól borgarstjóra. Sér til fulltingis hefur hann fengið Framsóknarflokkinn sem ekki hefur hlotið verri kosningu í Reykjavík í hálfa öld. Hvernig hægt var að lesa það úr úrslitum kosninganna að þetta væri vilji borgarbúa er síðan öllum nema Birni Inga og Villa hins vegar hulin ráðgáta. Þó má færa rök fyrir því að í ljósi þessi hvernig komið var á annað borð hafi þetta verið skásta lendingin og verður það nú gert:
Þar sem Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndir voru samtals með átta borgarfulltrúa var ljóst að annan hvorn flokkinn þurfti í meirihluta. Með áherslu sinni á flugvallarmálið voru Frjálslyndir hins vegar sjálfir búnir að dæma sig úr leik. Flokkur sem setur það sem skilyrði fyrir meirihlutasamstarfi að flugvöllurinn skuli vera áfram í Vatnsmýrinni er einfaldlega ekki stjórntækur. Reykvíkingar samþykktu það í lýðræðislegum kosningum að hann færi og slíkar ákvarðanir á ekki að selja fyrir borgarstjórastól. Tíu prósenta flokkur á ekki að geta kúgað fram minnihlutaskoðun í krafti oddaaðstöðu og þannig ógilt niðurstöðu lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu.
Gott og vel. Frjálslyndir eru sem sagt ónothæfir þannig að íhaldið verður ekki flúið. Hverja er þá best að hafa með þeim? Þeir höfnuðu Frjálslyndum vegna flugvallarmálsins og svo þeir njóti nú sannmælis þá fengu þeir prik í kladdann hjá mér fyrir vikið. Þá koma þrír til greina, Framókn, Samfylking eða Vinstri-græn.
Allir vita hvernig fer fyrir smáflokkum sem púkka undir Sjálfstæðisflokkinn – það sýnir sig í kosningum æ ofan í æ. Því var ekki hægt að hugsa sér samstarfaðila með íhaldinu sem verðskuldar þau örlög meir en álóða afturhaldið í Framsókn. Í raun má því segja að Framsókn sé nú búin að reka síðasta naglann í sína löngu tímabæru pólitísku líkkistu og allt gott og heilbrigt hugsandi fólk hefur enn ríkari ástæðu en áður til að hlakka til alþingiskosninganna að ári.
Að lokum tilnefni ég Björn Inga til póltískra Darwin-verðlauna.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var því miður eini starfhæfi meirihlutinn. Er sjálfstæðismaður og er orðin leið á að sjá minn flokka endalaust púkka upp á þennan framsóknarflokk. Hefði kosið vinstri græna í samstarfi en þeir höfðu ekki áhuga. Hvað kom þá til greina?

Nafnlaus sagði...

Enn sýnir Davíð Þór pólitíska gáfu sína og síðasten ekki síst að hann er algjörlega hlutlaus í stjórnmálum. Er ekki rétt mun að aþú styður loosera kosninganna sjálfa Samfylkinguna? ;)

Egill Ó sagði...

Er það ekki rétt munað hjá mér að þátttaka í þessum blessuðu kosningum um flugvöllinn hafi verið undir því takmarki sem R-listinn setti til þess að þær yrðu marktækar?
Ekki það að þessi flugvöllur á að fara.

Davíð Þór sagði...

Mér hefur aldrei dottið í hug að halda því fram að ég sé hlutlaus í stjórnmálum. Reyndar vil ég ganga svo langt að halda því fram að hlutleysi í stjórnmálum jafngildi skeytingarleysi og hálfvitagangi. Maður getur alveg verið marktækur þótt maður sé ekki hlutlaus. Og ... nei, ég er vinstrisinnaður unhverfissinni og get því ekki kosið NATO-, einkavæðingar- og Kárahnúkaflokka eins og alla flokka á Íslandi ... nema einn.

Gummi Erlings sagði...

Greinilega finnst þeim ekki nóg af nöglum í líkkistuna rekið fyrst Finnur beibífeis á að taka við formennskunni.

Nafnlaus sagði...

Allveg sérstaklega nicely put þessi rýni