þriðjudagur, maí 16, 2006

Lille Jonna

Þegar ég var yngri var ég mjög góður í dönsku og þurfti lítið fyrir því að hafa að fá góðar einkunnir í henni. Ég er stúdent af málabraut þar sem þurfti að ljúka átta einingum í dönsku en ekki sex eins og á öðrum brautum.
Þegar ég hafði lokið þessum átta einingum var boðið upp á frjálsan valáfanga í dönsku í skólanum, dönsku 352 – samtímabókmenntir. Ég skráði mig í þann áfanga af því að ég hélt að þetta yrðu tvær auðveldar einingar fyrir mig. Annað kom á daginn. Þetta var árið 1983 og danskar samtímabókmenntir það ömurlegasta sósíalrealismatorf sem nokkru sinni hefur verið sett á prent. Lesa átti bókina Lille Jonna eftir Kirsten Thorup, alveg hreint ævintýralega leiðinlega bók. Þegar ég gerði heiðarlega tilraun til að lesa hana þurfti ég á þriggja til fjögurra setninga fresti að standa upp og gera eitthvað annað til að sigrast á þessari yfirþyrmandi löngun til að stytta mér aldur sem hellst hafði yfir mig.
Til að fá að taka lokapróf þurfti að skila fjögurra síðna ritgerð um hana sem gilti 20% af lokaeinkunn. Mér tókst að pára tvær síður, en vissi að ég gæti tekið restina af prófinu upp á tíu og klórað mig upp í A. Kennarinn neitaði hins vegar að taka við ritgerðinni, hún uppfyllti ekki skilyrðin. Til að gera langa þrjóskukeppni stutta var mér á endanum meinað að taka prófið og ég fékk E.
Á útskrift eru falleinkunnir þurrkaðar burt og afburðanemendur leystir út með bókagjöf. Afburðanemandi í dönsku var skilgreindur sem nemandi sem lokið hafði meira en sex einingum í dönsku og fengið A í öllu. Ég fékk því tvær bækur í verðlaun.
Bækurnar sem ég fékk voru Lille Jonna eftir Kirsten Thorup og Den lange sommer eftir sama höfund, sjálfstætt framhald af Lille Jonna. Þegar mér varð litið framan í dönskukennarann minn á útskriftinni komst ég ekki hjá því að sjá glottið á andlitinu á henni.
Þessar bækur eru enn ólesnar uppi í hillu hjá mér – mér til ævarandi áminningar um ... hroka minn? Norrænan sósíalrealisma? Skopskyn dönskukennara? Ég veit það ekki. Kannski að það skiptir ekki máli hvað maður getur heldur hvað maður gerir.
Hins vegar er ég enn þeirrar skoðunar þessar bækur séu svo drepleiðinlegar að það sé glæpur að pína óharðnaða unglinga til að lesa þær.
Bakþankar í Fréttablaðinu 14. maí

4 ummæli:

Saumakona - eða þannig sagði...

Ha,ha, þá voru mínar dönskuverðlaunabækur nú betri, H.C. Andersen, bæði í gagga og menntó!

Nafnlaus sagði...

hehehe, þetta er hneggjað fyndinn kennari. Serves you right !!! hehe

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þú ættir endilega að gefa þér tíma til að lesa allar fjórar bækurnar um Jonnu. Þetta er meiriháttar litteratúr og ég er sannfærð um að ef þú lætur þig hafa það að böðlast í gegnum allar þessar mörgþúsund síður kemstu að raun um að þú hefur á röngu að standa og líka að þú ert allt annar og þroskaðri maður en á menntaskólaárunum.

Kaffikella sagði...

er ekki von á færslum hér? Erum nokkur sem bíðum spennt