þriðjudagur, maí 30, 2006

Kvikmyndagagnrýni Davíðs Þórs

Fyrir nokkrum árum sá ég kvikmynd sem hét The English Patient. Það var leiðinlegasta kvikmynd sem ég hafði séð á ævinni. Söguþráðurinn var nokkurn veginn þannig að fyrst gerðist ekkert í einn og hálfan klukkutíma, síðan var reynt að drepa aðalsöguhetjuna með því að fljúga flugvél á hana og að því loknu hélt ekkert áfram að gerast í einn og hálfan klukkutíma til viðbótar.
Í gærkvöld brá hins vegar svo við hjónaleysin ákváðum að taka okkur spólu, svona til tilbreytingar, kvikmynd sem hvorugt okkar hefði séð, eina af þessum virkilega góðu sem hefði farið fram hjá okkur á sínum tíma. Kvikmyndin Lost in Translation með Bill Murray og Scarlett Johannson varð fyrir valinu. Hún fékk víst góðar viðtökur og hlaut einróma lof á sínum tíma.
Söguþráður myndarinnar er á þá leið að ekkert gerist – í Japan. Myndin er jafnskemmtileg og The English Patient hefði verið ef atriðinu með flugvélinni hefði verið sleppt.
Hvað veldur því að hreinræktuð leiðindi á borð við þessa skelfingu eru hafin upp til skýjanna? Hvað veldur því að leikur Bills Murrays í þessari mynd er vegsamaður? Hafi hann ekki verið á sterkum deyfilyfjum allan tímann má að vísu til sanns vegar færa að það þurfi alveg sérstaka leikhæfileika til að geta drattast jafntilþrifalítið í gegn um heila kvikmynd, en fyrr má nú rota en dauðrota. Það eina sem hann gerir í myndinni er að vera í henni, jafnsympatískur og propsið, og það eina sem Scarlett gerir er að vera sæt. Þorði enginn að segja að keisarinn væri í engum fötum? "Best að ausa myndina lofi svo enginn fatti að ég fattaði ekki snilldina"? Niðurstaðan er óverðskulduðustu Óskarsverðlaun kvikmyndasögunnar og er þá mikið sagt.
Ég ætla mér ekki að stunda reglulega kvikmyndagagnrýni á þessari síðu, aðeins að greina frá því merkilegasta sem á daga mína drífur og í gærkvöld sá ég sem sagt leiðinilegustu kvikmynd sem borið hefur fyrir augu mín í 41 ár. Næst verður fjallað um kvikmyndir hér þegar ég sé eitthvað leiðinlegra en þetta helvíti ... sem vonandi verður aldrei.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessari rýni var snarað yfir á frönsku lauslega yfir kvöldmat í gær. Maðurinn minn bað mig um að þakka þér innilega fyrir þessi orð. Parísardaman Kristín.

Nafnlaus sagði...

Ég bið forláts á orðalaginu hér á undan. Svona er að lesa sjálfan sig EFTIR að maður staðfestir. KJ.

Saumakona - eða þannig sagði...

Mikið er ég sammála þér um enska sjúklingin, mér fannst hún svo drepleiðinleg að ég gekk út, sem gerist nú ekki oft!
Sem betur fer hef ég ekki reynt að horfa á vondu þýðinguna, Ég hugsa að ég sleppi því alveg, þar sem við virðumst hafa svipaðan smekk fyrir kvikmyndum, að minnsta kosti eftir þessu að dæma.

Nafnlaus sagði...

Það var auðvelt að sjá það fyrir að enski veiklingurinn væri alveg maukleiðinleg mynd, en ég hafði lúmskt gaman af því að sjá L.O.T, kannski aðallega vegna þess að mér finnst Japanirnir alveg óborganlegir í henni..."lip dem!!!" hehe

Nafnlaus sagði...

Sástu Juliette Binoche og Jean Reno í Jet Lag? Ég fílaði myndina í botn (hreifst af henni) en dóttir mín sagði að hún væri lengsta fyrirsjáanlega niðurstaða máls síðan CSI! Er ekki málið að njóta stundarinnar þegar maður horfir á annað borð? Það er ekki við neinu öðru að búast af kvikmyndum en að þær endi annað hvort dásamlega eða hræðilega.