þriðjudagur, maí 02, 2006

Fordómar mínir gegn Laugvetningum

Í fyrrasumar ákvað ég að reyna að losa mig við bresti mína af því að þeir voru aðeins sjálfum mér og öðrum til ama og jafnvel tjóns. Ekki svo að skilja að þeir hafi verið mjög miklir eða megnir, mest hroki, öfund, geðvonska og leti. Ég held því ekki fram að mér hafi tekist þetta til fullnustu, en þó tel ég mig meðvitaðari um þá og hef því vit á að vera á varðbergi þegar þeir skjóta upp kollinum.
Einn er þó sá brestur sem ég var sannfærður um að plagaði mig ekki og ég þyrfti því ekki að losa mig við, en það eru fordómar. Þeir örfáu hommar og svertingjar sem ég þekki eru nefnilega indælisfólk og heimskulegt að hafa horn í síðu þeirra vegna litarháttar eða smekks í ástamálum. Það kom mér því gersamlega í opna skjöldu í síðustu viku þegar ég gekk af öllu afli beint á fordóma mína eins og glervegg og skall beint á rassinn.
Það atvikaðist þannig að dóttir mín sem er að klára 10. bekk nú í vor spurði mig hvort hún mætti fara í Menntaskólann á Laugarvatni. Ég hélt nú ekki! Þessir litlu heimavistarskólar úti á landi væru bara drykkju-, kynlífs- og dópbæli þar sem öll menntun væri í skötulíki. Hvernig mætti annað vera? Hópur af unglingum þar sem enginn fullorðinn er til að þefa af þeim áður en þeir fara að sofa og vaka yfir því að enginn sofi hjá þeim! Kennararnir væru auk þess allir aumingjar því hvaða almennilegur kennari fer á Laugarvatn ef honum á annað borð býðst staða í Reykjavík? Sjálfsagt tómar fyllibyttur og vandræðafólk.
Auðvitað eru þetta aðeins fyrirfram gefnar hugmyndir um stað og fólk sem ég veit ekki neitt um af eigin raun. Öðru nafni: Fordómar. Aukinheldur er eina ástæða þess að ég hef þessar hugmyndir um Laugarvatn sú að ef ég hefði verið nemi þar hefði ég hagað mér svona og að ef ég væri kennari á Laugarvatni væri eina ástæða þess sú að ég hefði af einhverjum ástæðum ekki fengið djobb í bænum.
Það er auðvelt að vera svo umburðarlyndur, víðsýnn og líbó að maður áttar sig ekki á því að maður er í raun í keng af fordómum gagnvart einhverju jafnnálægu og Laugvetningum, að vera með aðalatriðin svo mikið á hreinu að maður fattar ekki að maður er með allt niður um sig í smáatriðunum.
Bakþankar í Fréttablaðinu 30. apríl 2006

7 ummæli:

Rustakusa sagði...

heyr heyr, ég kannast "aðeins" við svona bresti.. fordóma (hræðslutengt hjá mér) !!

Nafnlaus sagði...

Ég er haldin sömu fordómum þe.a.s. gagnvart skólum út á landi. Það sem mér þykir samt erfiðara að viðurkenna en er staðreynd er að það skiptir mig máli hvort það væri dóttir eða sonur sem færi í skólann. Strákurinn myndi redda sér en ég þyrfti að passa upp á stelpuna.

Þórunn Gréta sagði...

Já, það er vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig, ég hef aldrei komist í annan eins lífsháska eins og skólagöngu í heimavistarskóla úti á landi. Einu sinni fann ég tyggjóklessu á gangstéttinni fyrir utan skólan. Hún hefði getað gert gat á ósonlagið. Og háskólagráður lærimeistarana urðu náttúrulega að engu um leið og þeir fóru að kenna utan Reykjavíkur.

Nafnlaus sagði...

Talandi um fordóma, eftirfarandi texti innan gæsalappa var nýlega skráður á bloggsíðu stúlku sem var alin upp í litlu þorpi úti á landi. Þar er lýst samtali sem ritari síðunnar átti við mann í vesturbæ Reykjavíkur og heldur einnig úti bloggsíðu.

"Sönn saga

Þriðjudagur 18. apríl anno 2006, kvöldverðarborð í vesturbæ Reykjavíkur. Viðstaddir: Faðir, dóttir, sonur og ég.

Faðir: Fólk sem er alið upp í litlum þorpum úti á landi er annars flokks fólk.

Ég: Annars flokks fólk?

Faðir: Kannski ekki annars flokks fólk, en alið upp við annars flokks aðstæður og ég kæri mig ekki um að börnin mín kynnist þannig fólki.

Ég: Hahahaha.

Faðir: Nei, í alvöru, svona þröngsýnisviðhorf fólksins vill ekki sjá neitt sem það þekkir ekki...."

Má ekki segja að viðbrögð föðurins jaðri við "þröngsýnisviðhorf"=fordóma?

Þakka þér annars skemmtileg skrif á síðuna þína, þegar fjallað er um annað en þröng viðhorf - gangvart helmingi landsmanna.

Einlægur félagi í "úti á landi liðinu"

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð.

Dóttir mín er líka í 10. bekk. Mér finnst slæmt hvernig skólakerfið kemur fram við mig. Ég er mamman! Eini framhaldsskólinn sem hefur sýnt mér athygli hingað til er Kvennó, foreldrum var boðið í heimsókn þangað.

Dóttir mín er búin að heimsækja nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu með bekkjarfélögum sínum. Hún tók sér tíma til að heimsækja þá skóla sem henni fundust áhugaverðir, en hún kom heim ennþá óákveðnari. Hún er 15 ára gömul og samkvæmt lögum er hún á mína ábyrgð í tæp 3 ár í viðbót. Þess vegna finnst mér að framhaldsskólarnir ættu að sína mér meiri áhuga.

Ég virði barnið mitt og vil ekki taka fram fyrir hendurnar á henni án þess að geta fært skynsamleg rök fyrir ákvörðunni. Mér finnst ekki rök að segja henni að endanleg niðurstaða málsins sé byggð á 20 ára gömlum minningum um fíling fyrir hvernig sá skóli var.

Ég var búin að sjá fyrir mér Laugarvatn sem lausn á streituvandamálinu, eitthvað annað en Kvennó eða MR þar sem stelpan kom heim í uppnámi eftir bekkjarheimsóknina í þá skóla af því að námsráðgjafarnir sögðu krökkunum að þeir tæku ekki inn fólk sem settu þá í annað sæti. (Hún fór ein, kannski hefur hún misskilið samkeppnina um skólapláss eða ekki hlustað allan tíman af athygli?).

Áhugi minn á Laugarvatni fékk samt snöggan endi þegar vinkona hennar sagði að hún ætlaði þangað. Litla barnið mitt fer ekki með stelpu sem getur ekki beðið eftir að losna undan eftirliti í heimavistarskóla!

Ég var í heimavistarskóla í fyrsta bekk í menntó og veit af eigin reynslu að óákveðið fólk er mjög áhrifagjarnt.

Dóttir mín fer ekki á Laugarvatn og hún er ekki í heimafangelsi, hún fær áfram lúxusinn af því að vísa í yfirvaldið þegar vinir eru að stinga upp á einhverju sem hún er ekki sátt við og ekki nógu þroskuð til að segja nei við ennþá. - Nema hún ákveði núna að Laugarvatn sé það sem geri hana hamingjusama...

Ég er samt að spá í hvort Laugar eða Egilsstaðir séu ekki góð hugmynd. Þar fengi hún tækifæri til að byrja án vinaböggs, hún gæti fengið hestinn sinn þangað og hver veit hvað?

Það versta sem gæti gerst væri að ég þyrfti að heimsækja barnabörnin mín norður eða austur...

ErlaHlyns sagði...

Ég fór í heimavistarskóla órafjarri Reykjavík og það er eitthvað það besta sem ég hef gert. Mér finnst að ALLIR eigi að fara í heimavistarskóla minnst eitt ár á ævi sinni ;)

Það sem mér fannst einna best við þetta var að þarna voru allir félagar. Það var ekki lengur íþróttafólkið, námshestarnir, fallega fólkið, pönkarnarnir... Öll dýrin í skóginum voru vinir og brölluðu margt skemmtilegt saman. Ég gleymi aldrei öllum skemmtilegu hrekkjunum sem dundu á okkur, hrekkjum sem höfðu hvergi getað átt sér stað nema á heimavist.

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki hvernig það er í dag, en einn gamall vinur minn var á Vatninu í gamla daga og fannst það frábært. Einmitt vegna þess að það var fátt aðhafst annað en að stunda kynlíf með sitthvorri stelpunni flest kvöld, heljarinnar fyllerí (ódýrum landa reddað á bæ í nágrenninu...) ótt og títt og til að slaka á var horft á enska boltann eða farið í billiard. Námið var frekar neðarlega á listanum hjá honum og hans félögum. Hins vegar þekki ég miklu fleira fólk sem hefur verið þarna (5 vinkonur, einn frændi og kærasta hans) og ekkert þeirra hefur slíkar sögur í sínum brunni og þekkja varla til þess. Ég býst við að fólk geri það þarna sem það myndi hvort eð er gera heima hjá sér undir misgóðu eftirliti foreldra.