miðvikudagur, desember 21, 2005

Fjölskyldumyndir

Ég var búinn að lofa að setja fjölskyldumyndir hér inn um leið og það væri orðið tímabært. Það er reyndar löngu orðið tímabært en sakir leti og dugleysis hefur ekki orðið af því fyrr en nú.
Hér eru fjórir kurteisir og kassavanir, sjö vikna kettlingar. Einn þeirra er búinn að fá gott heimili og á eftir að gleðja lítinn dreng á aðfangadag. Hinir þrír óska allir eftir heimili.

Kisa (mamman) á góðum degi í sumar.

Systkinahópurinn allur.

Móri (einlitur grár högni) snyrtir sig fyrir myndatöku ...

... og núna er maður orðinn sætur.

Zorró (einlitur kolsvartur högni) óskar eftir góðu heimili.

Jólakötturinn í ár, Gustur (grár og hvítur högni), hefur þegar fengið heimili.

Er Læða fallegasti köttur í heimi?

Það skal tekið fram að þótt þetta séu einkar vel upp aldir og þægir kettlingar þá gegna þeir ekki nafni þótt þeir hafi fengið eins konar "vinnuheiti" hjá mennskum fjölskyldumeðlimum. Þeir sem hafa áhuga á að deila heimili með einhverjum þeirra þriggja sem enn er óráðstafað geta haft samband við mig hér á þessari síðu eða í heimasímann minn – 551 6302.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Júbí og Djeibí


Júbí

Þá er hún Unnur Birna okkar (eða Júbí eins og hún kallar sig núna) orðin Ungfrú heimur. Sjálfur er ég enginn aðdáandi fegurðarsamkeppna og fylgdist ekki með þessu. Hins vegar er varla nokkrum blöðum um það að fletta að hún hlýtur að hafa staðið sig þokkalega, stelpan, hvað svo sem segja má um réttmæti þess sem hún var að standa sig í.
Mér finnst varla nein ástæða til að fetta fingur út í það að henni sé óskað til hamingju með þetta. Það fellur varla undir starfslýsingu forsætisráðherra að fella dóma um réttmæti fegurðarsamkeppna. Hins vegar fellur það að sönnu undir starfslýsingu hans að senda fólki hamingjuóskir sem nær árangri í nafni þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Reyndar blæs ég á allt þetta tal um að í Júbí sé einhver landkynning fólgin. Ég hef alla vega ekki enn hitt neinn sem veit hverrar þjóðar ein einasta alheimsfegurðardrotting hefur verið síðastliðin tíu til fimmtán ár. Keppnin verður ekkert merkilegri en hún hefur verið bara af því að Íslendingur vann í ár.
Ég er ekki heldur neinn aðdáandi hnefaleika og finnst þeir draga upp úrelta mynd af karlmennsku, að hún gangi út að vera flinkur að lumbra á öðrum. Hins vegar þætti mér eðlilegt ef Íslendingur yrði heimsmeistari í hnefaleikum að forsætisráðherrann óskaði honum til hamingju með það, jafnvel þótt íþróttin sé bönnuð á Íslandi og mér finnist hún lágkúruleg. Fegurðarsamkeppnir eru að minnsta kosti ekki ólöglegar.
Vissulega má til sanns vegar færa að það sé niðurlægjandi fyrir konur að spranga um á bíkíníi og láta leggja mat á sig eins og hvern annan hlut. Það er þó ekki niðurlægjandi fyrir neinar aðrar konur en þær sem sjálfar taka þá ákvörðun að taka þátt í því, og að mínu mati ekki næstum því eins niðurlægjandi og að standa á Arnarhóli með skilti sem á stendur: Niður með Sverri Stormsker.
Einhvern veginn finnst mér hnefaleikar ekkert niðurlægjandi fyrir mig þótt mér finnist þeir vera það fyrir þá sem taka þátt í þeim, að láta etja sér saman eins og hönum fyrir peninga.

Djeibí

Gaman að endurkomu Jóns Baldvins. Hann talar þannig að maður nennir að hlusta á hann, pólitík gengur ekki bara út á debet og kredit þegar hann opnar á sér munninn. Hins vegar veit ég ekki hvaða erindi hann á í stjórnmálabaráttuna aftur, þótt vissulega yrði það ánægjulegt að sjá Samfylkinguna ná jafnmiklu fylgi og Alþýðuflokkurinn sálugi fékk undir stjórn hans á sínum tíma.
En það vakti athygli mína að hann sagðist vera orðinn vinstrisinnaðri en hann var. Mér fannst það dálítið á skjön við það sem hann hefur sagt áður og nánast merki um að hann sé að viðurkenna að hann sé að ganga í barndóm eða verða fyrir elliglöpum. Hann er nefnilega einn hinna fjölmörgu sem haldið hefur því fram að sá sem ekki sé róttækur um tvítugt sé illa innrættur, en sá sem sé það um fertugt sé illa gefinn. Þar vitnar hann í fleyg orð höfð einhverjum þýskum tæknikrata sem ég kann ekki að nefna.
Það er að vísu gleðilegt ef honum er loksins að skiljast að það að glata æskuhugsjónum sínum og eldmóði er ekki þroskamerki heldur hrörnunarmerki. Þegar manni fer með aldrinum að verða sama um göfugari tilgang þess sem maður er að fást við og hugsar einvörðungu um hvernig það getur þjónað betur þeim tilgangi að hlaða sem mýkstum sessum undir rassgatið á manni sjálfum er maður að verða fyrir því sem kallað er kulnun í starfi og er ekki eitthvað sem maður á að stæra sig af eða réttlæta með því að kalla það þroska, jafnvel þótt einhver þýskur pólitíkus hafi einhvern tímann í fyrndinni getað kreist smávegis hlátur út á það í einhverju kokteilpartíinu.
Þegar mér er orðið skítsama um þig er það ekki vegna þess að ég hafi öðlast heilbrigða sjálfsvirðingu heldur af því að ég hef glatað mannúð minni. Það væri gaman að heyra hvað hinum nýja og vinstrisinnaða Djeibí finnst um þessa speki í dag og hvort hann vill biðja þá sem haldið hafa í hugsjónina um frelsi, jafnrétti og bræðralag þrátt fyrir að árin hafi færst yfir þá afsökunar á að hafa kallað þá fávita hérna í fyrndinni.
Sjálfur er ég nefnilega orðinn fertugur og verð stöðugt róttækari eftir því sem skítalyktin úr spillingarfjósi alheimskapítalismans verður stækari allt í kring um mig. Guð forði mér frá því að verða nokkurn tímann samdauna henni og telja það til marks um að lyktarskyn mitt sé orðið þroskaðara en það var.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Leyfi til að hræsna


Hinn geðþekki leikari Roger Moore bættist nýverið í ört stækkandi hóp Íslandsvina. Hann kom hingað til að láta gott af sér leiða og vekja máls á þeirri skelfilegu staðreynd að dag hvern deyja 40.000 börn úr hungri hér á reikistjörnunni. Gott verk og þarft. Mér skilst að karlinn hafi boðið af sér góðan þokka í hvívetna og heyrði ekki betur en að hann léti býsna vel af kynnum sínum af landi og þjóð. Ég sá viðtal við hann í Kastljósinu þar sem hann fór fögrum orðum um galakvöldverðinn sem haldinn var og hve mikið fé safnaðist þar handa bágstöddum. Gott ef hann lét ekki í ljós sérstaka aðdáun á því að jafn fámenn þjóð og Íslendingar gæti snobbað á heimsmælikvarða.
Reyndar hafði ég frétt af þessu partíi og uppboði sem þar var haldið, meðal annars seldist ómálað málverk á 21 milljón og einhver borgaði nokkrar milljónir fyrir að fá að segja veðurfréttir í sjónvarpinu. Ég ætla ekki að draga það í efa að þessir peningar muni koma að góðum notum í baráttunni gegn hungri og vosbúð í fátæku löndunum. En eitthvað við þetta allt saman gerði það nú samt að verkum að mér varð óglatt.
Vandamálið er nefnilega misskipting auðsins. Þeir sem slett geta fram tugum milljóna fyrir málverk upp á von og óvon um hvort þeir eigi eftir að fíla það og finnst sniðugt að flagga ríkidæmi sínu með því að borga árslaun verkamanns fyrir að sjást í sjónvarpi ... þeir eru með öðrum orðum vandamálið – EKKI lausnin.
Það er eitthvað ferlega ógeðfellt við það að vestræn efnishyggja haldi óhófi sínu veglegan fögnuð til styrktar fórnarlömbum sínum. Það ber siðferðisvitund þjóðarinnar ekki fagurt vitni að enginn skuli sjá tvískinnunginn sem þarna tröllríður húsum, að frá þessu sé sagt eins og sniðugri, jafnvel svolítið sætri og krúttlegri sérvisku ríka fólksins sem undir niðri er svo vel innrætt að það vill láta gott af auðlegð sinni leiða.
Enn ógeðfelldara er þó að með þessu er þeim sem feitustum hesti ríða frá nauðgun þriðja heimsins, frumforsendu vestrænnar velmegunar, stillt upp sem einhverjum mannkynslausnurum og þeim veittur stimpill upp á göfugt innræti. Ógeðfelldast er þó þegar gefið er í skyn að deyjandi börn kúgaðra þjóða standi í einhverri þakkarskuld við þetta pakk. Það má líkja þessu við að taka ránmorðingja í dýrlingatölu fyrir að láta brotabrot af þýfinu renna til aðstandenda fórnarlambsins.
Sá sem vill slá sjálfan sig til riddara með því að rétta fátækum manni brauð og er svo ósmekklegur að finnast við það tilefni vera við hæfi að hlaða á sig skartgripunum sínum (hverra andvirði gæti brauðfætt meðalstórt þorp í eitt ár) á ekki skilið hól heldur löðrung. Þessi kvöldstund var hátíð til dýrðar vandamálinu, ekki lausninni. Það þarf einhverja óskiljanlega siðblindu til að geta ruglað þessu tvennu svona gjörsamlega saman.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Kitl

Rétt áður en ég byrjaði að blogga reið eitthvað æði yfir netheima sem kallað var klukk og var í því fólgið að fólk þurfti að greina frá einhverju persónulegu. Ég slapp við það. Nú er hins vegar ný bylgja að ganga yfir sem nefnist "kitl". Sá sem er "kitlaður" þarf að gera sjö lista með sjö atriðum. Þórunn Gréta kitlaði mig í síðustu viku og hér eru listarnir mínir:

7 frægar sem ég hef (einhvern tímann) verið skotinn í:
1. Jodie Foster (í Bugsy Malone)
2. Olivia Newton-John (í Grease)
3. Agnetha Fältskog, söngkona
4. Vigdís Gunnarsdóttir, leikkona
5. Linda Pétursdóttir, fegurðardrottning
6. Katrín Jakobsdóttir, stjórnmálamaður
7. Cameron Diaz, Íslandsvinur
7 hlutir sem ég get:
1. Ort
2. Eldað mat
3. Skipt um dekk á bíl
4. Smíðað millivegg
5. Sagt brandara
6. Tengt rafmagnsklær
7. Talið upp það sem ég get
7 hlutir sem ég get alls ekki (þetta var erfitt):
1. Haldið bókhald
2. Haldið lagi
3. Haldist á peningum
4. Kosið Sjálfstæðisflokkinn
5. Horft á dagskrárkynningar fyrir Fólk með Sirrý án þess að fá aulahroll
6. Náð meira en 475% í Civilization II (hættur að reyna, kominn með Civ III)
7. Orðið skotinn í heimskum stelpum (mér finnst það alltaf svo mikið "turnoff" þegar stelpurnar í Girls of the Playboy Mansion opna á sér munninn)
7 atriði sem ég segi oft:
1. Mig langar, ekki mér langar! (við börnin mín)
2. Ég hlakka til, ekki mig hlakkar til! (sömuleiðis við börnin mín)
3. Barþjónn, einn kaffi! (miklu oftar nú en áður)
4. … eða þannig. (þetta bentu börnin mín mér á)
5. Hvar er fjarstýringin?
6. Og það er slæmt af því að … ?
7. Stveláetta. (eina orðið í íslensku sem byrjar á stv)
7 gallar í fari mínu sem ég á erfitt með að forðast (þetta var enn erfiðara):
1. Besserwiss
2. Hroki/Stolt
3. Leti/Frestunarárátta
4. Kvíði/Áhyggjur
5. Gremja
6. Að svara einfaldri spurningu með löngum fyrirlestri
7. Að skítnýta snooze takkann á útvarpsvekjaraklukkunni minni
7 hljómsveitir sem ég hef séð live og einkenna mig sem manneskju:
1. Babatunde Tony Ellis
2. Human League
3. Utangarðsmenn
4. Purrkur Pilnikk
5. Stuðmenn
6. Sviðin jörð
7. Geirfuglarnir
7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey (þetta var erfiðast):
1. Verða skuldlaus
2. Láta hverjum degi nægja sína þjáningu
3. Verða gráhærður
4. Verða gráskeggjaður
5. Nota gleraugu
6. Hafa farið suður fyrir miðbaug
7. Verða afi (reyndar er það mál ekki lengur í mínum höndum, ég hef nú þegar lagt allt sem í mínu valdi stendur af mörkum til þess að svo geti orðið)

Að lokum á að kitla sjö manns í viðbót. Ég kitla Huldu, Ísold, Núma, Mömmu, Danna, Jakob og Pétur.

mánudagur, desember 05, 2005

Það sem ég lærði af sjónvarpinu í síðustu viku


1. Þegar ég var yngri var rómantík tilfinning á milli karls og konu. Hún spurði ekki um stað og stund, stétt eða (fjárhags)stöðu. Núna er rómantík búin til úr egypskri bómull og seld í rúmfataverslun við Grensásveg. Það þarf ekki einu sinni konu. (Þessi þróun hefur auðvitað augljósa kosti.)

2. Ef geimfarar drekka orkudrykk þegar þeir eru á sporbaug um jörðina verður hræðilegt slys, flaugin fer eitthvað út í geiminn og ekkert spyrst til hennar framar.

3. Ef maður notar tannkrem sem verndar viðkvæmar tennur og gerir þær hvítari fer maður að tala þannig að varahreyfingarnar passa ekki við það sem maður segir.

4. Að syngja með jafndrepleiðinlegri hljómsveit og INXS hlýtur að láta hvern mann á endanum grípa til örþrifaráða til að stytta sér stundir ef ekki aldur.

5. John Lennon hafði gaman af "drikkju". (Ég á hins vegar eftir að komast að því hvað það er.)

6. Allir geta fengið Avis kort og losnað þannig við að standa í biðröð. (Hvernig þeir ætla að leysa biðraðavandann þegar allir eru komnir með Avis kort er mér hins vegar enn hulin ráðgáta.)

7. Dag hvern svelta 40.000 börn í hel. Til að berjast gegn því er af einhverjum ástæðum skynsamlegra að éta fjórréttaðan galakvöldverð og eyða 21 milljón í málverk sem maður hefur ekki einu sinni séð heldur en að gefa 21 milljón plús andvirði fjórréttaðs galakvöldverðar til hjálparstarfs.

8. Til er kjöthitamælir fyrir gæðinga. Ég sem hélt að þeir væru yfirleitt ekki étnir.

9. Skjár 1 getur ekki boðið upp á dagskrá allan sólarhringinn því þá þyrftu þeir að endursýna hvern einasta þátt 30 sinnum, en eins og allir vita er 20 sinnum hæfilegt.

10. Það er svo mikið af peningum í bókaútgáfu að það er eðlilegasti hlutur í heimi að rithöfundur láti farga allri fyrstu prentun bókar sinar rétt áður en hún fer í dreifingu af því að hann fær þá flugu í höfuðið á síðustu stundu að hún mætti vera styttri. (Einhver góðhjartaður maður mætti benda Hallgrími Helgasyni á þetta.)