Viðbrögð einnar ónefndrar ungvinstrigrænnar fésbókarvinkonu minnar við hruninu á fylgi flokksins í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík sl. laugardag voru í því fólgin að lýsa því yfir í stöðunni sinni að hún væri hrifnari af sóleyjum en fíflum. Við þessu er í sjálfu sér ekkert að segja, hver hefur rétt til að vera haldinn eins flokksblindri sjálfsréttlætingu og hann kýs. En ég fékk það nánast á tilfininguna að á kosningaskrifstofu VG hljóti að vera töfraspegill sem með reglulegu millibili er spurður: „Spegill, spegill, herm þú mér / hvaða flokkur bestur er.“ Vitaskuld getur svar spegilsins aðeins verið í því fólgið að spegla það sem honum er sýnt. Komi svo í ljós að flokkurinn fari úr 13,5% fylgi niður í 7%, þá hafa einfaldlega 93% kjósenda rangt fyrir sér. Spegillinn sagði þeim það. Spegillinn sagði þeim alla vega ekki að oddvitinn þeirra hefði hrakið helming kjósenda frá flokknum. Ástæðunnar hlýtur því að vera að leita í því hvað kjósendur eru mikil fífl.
Á kosninganóttina sagði önnur ungvinstrigræn vinkona mér að henni þætti sorglegt að Sóleyju skyldi vera refsað á þennan hátt fyrir að vera feministi. Ég hef fréttir handa henni. Sóley var ekki refsað fyrir að vera feministi. Flokknum var refsað fyrir að velja sér oddvita sem ófær er um annað en að leggja einatt, með þindarlausu offorsi, kvenpíslarvætti og helmingaskipti kynjanna að jöfnu við kvenfrelsi og afgreiða, eins og hún eigi persónulega einkarétt á hugtakinu, alla aðra túlkun feminisma sem ranga. Önnur túlkun sést nefnilega ekki í töfraspeglinum hennar. Þetta er því eins og að segja að þeir sem ekki fíli kæsta skötu hljóti að hata sjávarfang. Halló! Það er ekki sjórinn sem er vandamálið. Það er fnykurinn.
Svo sanngirni sé gætt er þó rétt að benda á að ekki aðeins Vinstrigrænum var refsað í Reykjavík. Úrslit kosninganna í heild voru áfellisdómur kjósenda yfir íslenskum sjórnmálum. Allir hefðbundnir sjórnmálaflokkar fengu á baukinn. Í Hafnarfirði, þar sem fjórflokkurinn var einn í framboði, kaus ríflega þriðjungur kjósenda að sitja heima og af þeim sem mættu á kjörstað kusu 14,6% að skila auðu, 130 kjósendum meira en kusu VG. Kjósendur ældu á fjórflokkinn.
Önnur villa sem vinstrigræn eru haldin er sú að þeir séu ekki hluti af fjórflokknum. Fjórflokkurinn sé ekki til, hann sé illgjörn lygi andstæðinga VG til að draga þá ofan í svaðið með hinum flokkunum. VG hafði engin völd, kom ekki að hruninu og er því að mati þeirra gersamlega „stikkfrí“ frá allri ábyrgð á þeim hörmungum sem flokksræðið á Íslandi leiddi yfir þjóðina. Þetta er alrangt. Fjórflokkurinn er staðreynd sem verið hefur við lýði á Íslandi, með litlum breytingum, eins lengi og ég man, þótt hann hafi vissulega að ytra formi tekið breytingum með tilfærslu einstaklinga, nafnabreytingum og kennitöluflakki stjórnmálahreyfinga þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag urðu að Samfylkingu og VG. VG er óaðskiljanlegur og innmúraður hluti af kerfinu sem kjósendur höfnuðu. Það að VG hafi ekki haft nein völd breytir engu um það. Kerfið gerði aldrei ráð fyrir því að þeir hefðu nein völd hvort sem er, nema í stutta stund í einu á meðan hinir flokkarnir þurfa frí til að gróa sára sinna. Og kerfið er að virka.
VG er nefnilega eins og matrixið við hliðina á matrixinu, sérútbúið fyrir þá sem verða að hafa það á tilfinningunni að þeir séu ekki í matrixi. Þeir eru frávikið sem tölfræðin gerir ráð fyrir og tekur með í reikninginn. Þeir eru lopapeysuhippahólfið í kerfinu sem þjónar þeim tilgangi að þeir sem eru á móti kerfinu geti verið hluti af því án þess að fatta það. Þótt þeir hafi ekki haft völd breytir það engu um þá staðreynd að í aðdraganda hrunsins stuðluðu þau staðfastlega að áframhaldandi stöðugleika kerfisins, með því að sýna að innan þess rúmast víst áhyggjur af litnum á ábreiðunum á fæðingardeildinni, súludansi í Kópavogi og skorti á nýjum og framsæknum hugmyndum um list í opinberu rými. Þeir voru því alveg jafnmiklir leikarar í hildarleiknum og allir hinir, þótt þeim hafi verið tæpkastað í hlutverk fíflsins.
Niðurstaða kosninganna er ekki sú að kjósendur sé andfeminískir kvenhatarar. Niðurstaðan er ekki heldur sú að fólk flykki sér um leikara og poppstjörnur án þess að vita fyrir hvað þær standi. Fólk veit af biturri reynslu fyrir hvað kerfið stendur og kaus því hvað sem er annað, í trausti þess að hvað svo sem hið óþekkta standi fyrir hljóti það að vera skárra, þótt ekki nema sé vegna þess að með því er kerfinu sagt stríð á hendur. Og vinstrigræn geta ekki þvegið hendur sínar af aðildinni að kerfinu.
Góðu fréttirnar eru auðvitað þær að í Reykjavík nýtur hin nytsama lækninga- og matjurt fífilllinn fimmfalt meiri vinælda en litfagra illgresið sóley. Og það er ekki vegna þess að kjósendur séu fífl. Fíflið hlýtur að vera sá sem var allsendis ónæmur á hina þungu undiröldu í þjóðfélaginu og klórar sér svo í hausnum eftir á, gjörsamlega orðlaus af forundran yfir því að fólk skuli ekki taka mark á töfraspeglinum hans.