mánudagur, júní 28, 2010

Kettir og menn

Ef ég mætti velja mér að vera dýr myndi ég vilja vera köttur. Mér finnst makalaust hvað köttum getur liðið vel þannig að það fari ekki fram hjá neinum. Það eitt að sjá kött rísa á fætur eftir góðan blund, geispa duglega og teygja svo makindalega úr öllum skrokknum, allt frá hnakka og aftur í rófubrodd, hlýtur að hafa heilsusamleg áhrif á hvern mann. Ég trúi ekki öðru en að sú slökun og æðruleysi, sem einkennir sæmilega haldinn heimiliskött, smiti út frá sér. Að geta síðan ekki annað en hljóðvætt vellíðan sína með ósjálfráðu, áreynslulausu mali hlýtur að vera toppurinn á tilverunni.

En vitaskuld er það eitt að vera köttur engin trygging fyrir sælu. Með reglulegu millibili heyrast hryllingssögur frá ýmsum velunnurum þessara göfugu skepna af illri meðferð manna á þeim. Kettlingar eru teknir frá mæðrum sínir og látnir út á guð og gaddinn til þess eins að deyja úr hungri og vosbúð. Fólk, sem verður leitt á kettinum eða getur ekki hýst hann lengur, skilur hann jafnvel eftir einhvers staðar úti í buskanum til að bjarga sér sjálfur. Þegar ferðast er um erlendar stórborgir kemur maður líka stundum auga á ketti sem virðast hreint ekki öfundsverðir af hlutskipti sínu, grindhoruð, vannærð og misbækluð grey sem greinilega hafa fengið fá tilefni til að mala um dagana. Þannig að ef ég væri köttur vildi ég vera elskaður heimilisköttur.

En ef ég fengi í raun að velja hvaða dýr ég væri myndi ég að sjálfsögðu vilja vera maður. Við megum nefnilega ekki gleyma því að við sjálf erum dýr, náskyld simpönsum. Það eru ekki nema 500.000 kynslóðir síðan sameiginlegur forfaðir okkar var uppi. Maðurinn er auðvitað kóróna sköpunarverksins. Reikistjarnan öll liggur fyrir fótum okkar. Við njótum fagurra lista, menntunar og menningar. Við höfum þekkingu, húmor og jafnvel trú. Við getum auðsýnt óeigingjarnan kærleika og samúð. Við getum skynjað smæð okkar og stöðu í alheiminum og fyllst auðmýkt og lotningu. Auðvitað vil ég í alvöru ekki skipta á þessu og hæfileikanum til að mala.

En reyndar er það eitt að vera maður ekki heldur nein trygging fyrir sælu. Sár fátækt og neyð eru landlægar allt of víða. Víðtæk og skipulögð mannréttindabrot hafa viðgengist of víða of lengi. Að vera maður leggur því, að mínu mati, á mann þá skyldu að lifa og framkvæma það sem gerir það einhvers virði að vera maður.

Calabría

Um daginn átti ég erindi norður til Akureyrar. Ferðafélagi minn hafði það þá á orði að helsti munurinn á Reykjavík og Akureyri væri hve Esjan væri nálægt á Akureyri. Það reyndist rétt hjá honum. Fjallið hinum megin við fjörðinn er miklu nær en í Reykjavík. Það heitir að vísu eitthvað allt annað en Esja.

Um þessar mundir er ég staddur í Calabríu á Suður-Ítalíu. Fyrir þá sem vilja glöggva sig á landafræðinni þá er Calabria stóratáin. Eins og á Akureyri er það fyrsta sem maður veitir athygli, þegar maður horfir út á sjóinn héðan frá Tropea, hve Snæfellsjökull er nálægt. Keilulaga eldfjallið við sjóndeildarhringinn er tíu til tuttugu sinnum stærra. Það heitir að vísu ekki Snæfellsjökull heldur Stromboli.

Calabría er eins ólík Íslandi og hægt er að hugsa sér, bæði hvað varðar gróðurfar sem dýra- og mannlíf. Til dæmis hafa Calabríumenn þann undarlega sið að byggja þorp sín og bæi á bjargbrúnum. Þar sem klettar skaga í sjó fram eru veggir húsanna gjarnan í beinu framhaldi af þeim, gott ef byggingarnar slúta ekki sums staðar fram af brúninni. Ekki lofthræddir, Ítalirnir. Þessu má líkja við að Ísfirðingar hefðu ákveðið að byggja þorpið sitt á Látrabjargi. Á ystu nöf. Ef þeir hefðu öldum saman haft sömu ástæðu og Calabríumenn til að óttast sjóræningja og þurft að gera ráðstafanir til að verjast árásum þeirra hefðu þeir reyndar sennilega gert það.

Calabríumanni fyndist hann sennilega illa rættur og undarlega settur á Íslandi, svo vitnað sé í skáldið. Hann sæi líklega lítið annað en nöturlegan og gróðurvana klett í eilífum útsynningi og hraglanda. Með réttu. Það væri eðlileg upplifun manns frá stað þar sem helstu farartálmar rútubílanna, sem reyna að þræða þröngu vegarslóðana sem hlykkjast hér upp og niður fjallshlíðarnar, eru ósveigjanlegar greinar aldinna ólífutrjáa sem teygja sig yfir veginn og – þegar verst lætur – inn um glugga bifreiðanna.

Sjálfum finnst mér ferðalög um framandi slóðir þroska og stæla þjóðernisvitund mína. Þá á ég ekki við að ég fyllist yfirlæti og finnist Ísland bera af öðrum löndum, að það sé merkilegra íslenskur en af öðru þjóðerni. Svo er ekki. Að upplifa sig sterkt sem aðkomumann gerir mér aftur á móti ljósara hver náttúruleg heimkynni mín eru og hvers virði þau eru mér. Annars staðar er ég aldrei neitt annað en hafrekið sprek á annarlegri strönd.

miðvikudagur, júní 02, 2010

Um andfeminísk viðhorf mín

Ég hef þrisvar sinnum gengið til liðs við framboð með þeim hætti að bjóða fram aðstoð mína í sjálfboðavinnu. Í öll skiptin var það vegna þess að ég hafði trú á einstaklingunum sem voru þar í forsvari og vildi fá að leggja meira af mörkum en bara atkvæðið mitt.
Fyrst þegar það gerðist hafði ég reyndar ekki einu sinni kosningarétt. Það var árið 1980, ég var fimmtán ára og Vigdís Finnbogadóttir var í forsetaframboði. Mér fannst hún langglæsilegasti frambjóðandinn og ég studdi hana með ráðum og dáð. Það gerði pabbi líka. Mamma studdi Pétur og Danni bróðir, sem þá var 9 ára, studdi Guðlaug. Ég vona að ég sé ekki að afhjúpa fjölskylduleyndarmál með þessu. Á kjördag stóð ég því í kaffiuppáhellingum og vöfflubakstri í kosningakaffi Vigdísar í Gúttó í Hafnarfirði. Hún kom í heimsókn og áritaði „Veljum Vigdísi“ límmiða fyrir mig sem lengi hékk innrammaður uppi á vegg í herberginu mínu.
Árið 1994 var eins og flokkakerfið væri í uppstokkun og margt ungt félagshyggjufólk átti sér draum um sameiningu. Mér er sérstaklega minnistætt að eftir að hafa starfað með Röskvu í Háskólanum, þar sem eining og samstaða ríktu, skyldi ég hitta félaga mína af þeim vettvangi í Háskólabíói þar sem þeir voru að dreifa kosningaáróðri fyrir þrjá stjórnmálaflokka. Mér fannst sárgrætilegt að við skyldum ekki geta unnið saman á landsvísu líka. Þegar leið að borgarstjórnarkosningum og vinur minn, Helgi Hjörvar, sagði mér að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gæti hugsað sér að leiða sameiginlegt framboð þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um. Þegar R-listinn varð til mætti ég því gallvaskur og eyddi nokkrum dögum í að ganga í hús með bæklinga og blöð.
Haustið 1994, að mig minnir, varð Þjóðvaki líka til. Mér fannst það tilraun til sameiningar á landsvísu að fyrirmynd R-listans, ekki síst í ljósi þess að listann leiddu frambærilegustu einstaklingarnir úr flokkunum sem mér fannst að ættu að vinna saman. Auðvitað var það þó oddvitinn, heiðarlegasti og einarðasti stjórnmálamaður þess tíma, Jóhanna Sigurðardóttir, sem réði úrslitum um stuðning minn. Ég skipulagði því tónleika vítt og breitt um Reykjavík á vegum Þjóðvaka þar sem ungar hljómsveitir fengu tækifæri til að sýna sig og frambjóðendur flokksins fengu tækifæri til að hitta unga kjósendur. Í þetta eyddi ég nokkrum dögum af lífi mínu.
Reyndar er ég að gleyma allri sjálfboðavinnu minni fyrir VG árin 1997 – 2004, en þá var það eiginlega eiginmannsskylda mín að leggja eitthvað af mörkum. En, vel á minnst, þá þjónaði framlag mitt líka þeim tilgangi að styðja efnilegan stjórnmálamann, núverandi menntamálaráðherra.
Ég er nú bara að rifja þetta upp vegna þess að ég hef verið vændur um að vera ekki mikill feminsti. Ekki veit ég hve mikill feministi ég er, ég læt lesendum eftir að meta það út frá verkum mínum. En þegar ég hef gefið tíma minn og vinnu í að afla framboðum fylgis hefur það undantekningalaust verið til að koma konum til valda.

þriðjudagur, júní 01, 2010

Það sem Vinstrigræn fatta ekki

Viðbrögð einnar ónefndrar ungvinstrigrænnar fésbókarvinkonu minnar við hruninu á fylgi flokksins í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík sl. laugardag voru í því fólgin að lýsa því yfir í stöðunni sinni að hún væri hrifnari af sóleyjum en fíflum. Við þessu er í sjálfu sér ekkert að segja, hver hefur rétt til að vera haldinn eins flokksblindri sjálfsréttlætingu og hann kýs. En ég fékk það nánast á tilfininguna að á kosningaskrifstofu VG hljóti að vera töfraspegill sem með reglulegu millibili er spurður: „Spegill, spegill, herm þú mér / hvaða flokkur bestur er.“ Vitaskuld getur svar spegilsins aðeins verið í því fólgið að spegla það sem honum er sýnt. Komi svo í ljós að flokkurinn fari úr 13,5% fylgi niður í 7%, þá hafa einfaldlega 93% kjósenda rangt fyrir sér. Spegillinn sagði þeim það. Spegillinn sagði þeim alla vega ekki að oddvitinn þeirra hefði hrakið helming kjósenda frá flokknum. Ástæðunnar hlýtur því að vera að leita í því hvað kjósendur eru mikil fífl.
Á kosninganóttina sagði önnur ungvinstrigræn vinkona mér að henni þætti sorglegt að Sóleyju skyldi vera refsað á þennan hátt fyrir að vera feministi. Ég hef fréttir handa henni. Sóley var ekki refsað fyrir að vera feministi. Flokknum var refsað fyrir að velja sér oddvita sem ófær er um annað en að leggja einatt, með þindarlausu offorsi, kvenpíslarvætti og helmingaskipti kynjanna að jöfnu við kvenfrelsi og afgreiða, eins og hún eigi persónulega einkarétt á hugtakinu, alla aðra túlkun feminisma sem ranga. Önnur túlkun sést nefnilega ekki í töfraspeglinum hennar. Þetta er því eins og að segja að þeir sem ekki fíli kæsta skötu hljóti að hata sjávarfang. Halló! Það er ekki sjórinn sem er vandamálið. Það er fnykurinn.
Svo sanngirni sé gætt er þó rétt að benda á að ekki aðeins Vinstrigrænum var refsað í Reykjavík. Úrslit kosninganna í heild voru áfellisdómur kjósenda yfir íslenskum sjórnmálum. Allir hefðbundnir sjórnmálaflokkar fengu á baukinn. Í Hafnarfirði, þar sem fjórflokkurinn var einn í framboði, kaus ríflega þriðjungur kjósenda að sitja heima og af þeim sem mættu á kjörstað kusu 14,6% að skila auðu, 130 kjósendum meira en kusu VG. Kjósendur ældu á fjórflokkinn.
Önnur villa sem vinstrigræn eru haldin er sú að þeir séu ekki hluti af fjórflokknum. Fjórflokkurinn sé ekki til, hann sé illgjörn lygi andstæðinga VG til að draga þá ofan í svaðið með hinum flokkunum. VG hafði engin völd, kom ekki að hruninu og er því að mati þeirra gersamlega „stikkfrí“ frá allri ábyrgð á þeim hörmungum sem flokksræðið á Íslandi leiddi yfir þjóðina. Þetta er alrangt. Fjórflokkurinn er staðreynd sem verið hefur við lýði á Íslandi, með litlum breytingum, eins lengi og ég man, þótt hann hafi vissulega að ytra formi tekið breytingum með tilfærslu einstaklinga, nafnabreytingum og kennitöluflakki stjórnmálahreyfinga þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag urðu að Samfylkingu og VG. VG er óaðskiljanlegur og innmúraður hluti af kerfinu sem kjósendur höfnuðu. Það að VG hafi ekki haft nein völd breytir engu um það. Kerfið gerði aldrei ráð fyrir því að þeir hefðu nein völd hvort sem er, nema í stutta stund í einu á meðan hinir flokkarnir þurfa frí til að gróa sára sinna. Og kerfið er að virka.
VG er nefnilega eins og matrixið við hliðina á matrixinu, sérútbúið fyrir þá sem verða að hafa það á tilfinningunni að þeir séu ekki í matrixi. Þeir eru frávikið sem tölfræðin gerir ráð fyrir og tekur með í reikninginn. Þeir eru lopapeysuhippahólfið í kerfinu sem þjónar þeim tilgangi að þeir sem eru á móti kerfinu geti verið hluti af því án þess að fatta það. Þótt þeir hafi ekki haft völd breytir það engu um þá staðreynd að í aðdraganda hrunsins stuðluðu þau staðfastlega að áframhaldandi stöðugleika kerfisins, með því að sýna að innan þess rúmast víst áhyggjur af litnum á ábreiðunum á fæðingardeildinni, súludansi í Kópavogi og skorti á nýjum og framsæknum hugmyndum um list í opinberu rými. Þeir voru því alveg jafnmiklir leikarar í hildarleiknum og allir hinir, þótt þeim hafi verið tæpkastað í hlutverk fíflsins.
Niðurstaða kosninganna er ekki sú að kjósendur sé andfeminískir kvenhatarar. Niðurstaðan er ekki heldur sú að fólk flykki sér um leikara og poppstjörnur án þess að vita fyrir hvað þær standi. Fólk veit af biturri reynslu fyrir hvað kerfið stendur og kaus því hvað sem er annað, í trausti þess að hvað svo sem hið óþekkta standi fyrir hljóti það að vera skárra, þótt ekki nema sé vegna þess að með því er kerfinu sagt stríð á hendur. Og vinstrigræn geta ekki þvegið hendur sínar af aðildinni að kerfinu.
Góðu fréttirnar eru auðvitað þær að í Reykjavík nýtur hin nytsama lækninga- og matjurt fífilllinn fimmfalt meiri vinælda en litfagra illgresið sóley. Og það er ekki vegna þess að kjósendur séu fífl. Fíflið hlýtur að vera sá sem var allsendis ónæmur á hina þungu undiröldu í þjóðfélaginu og klórar sér svo í hausnum eftir á, gjörsamlega orðlaus af forundran yfir því að fólk skuli ekki taka mark á töfraspeglinum hans.