Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafði ekki hugmynd um hvað fyrirtækið hans var að bedrífa í útlöndum á meðan hann sat þar í stjórn. Hann vissi ekki heldur um milljarðana sem fjölskyldufyrirtækið hans rændi af íslensku þjóðinni með ólögmætu olíuokri árum, ef ekki áratugum, saman. Af tvennu illu finnst honum nefnilega skárra að vera gersamlega vanhæfur stjórnandi en að vera gerspilltur stjórnmálamaður.
Komið hefur í ljós að í aðdraganda hrunsins var annar ríkisstjórnarflokkurinn ekki hafður með í neinum ráðum þótt þau vörðuðu málaflokka sem heyrðu beint undir ráðherra hans. Þar voru menn of uppteknir af því að vera ráðherrar til að hafa rænu á að vinna vinnuna sína. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, þáverandi formaður og fjármálaráðherra véluðu landið einir til helvítis sín á milli. Það var ekki fyrr en á síðustu metrunum sem Samfylkingin var upplýst um ástandið.
Leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn er margfaldur Íslandsmeistari í að svara einföldustu spurningum með því að tvinna saman innihaldslausa frasa og pólitískar klisjur í svo endalausar langlokur að þeir sem ekki sofna undir ósköpunum eru löngu búnir að gleyma spurningunni þegar svarið er búið. Þannig er Samfylkingin, snotrar umbúðir um ekki neitt.
Í aðdraganda hrunsins höfðu Vinstrigræn mestar áhyggjur af litnum á ábreiðunum á fæðingardeildinni og þeirri karlrembu að reisa Reykjavíkurskáldinu styttu. Engin von er til að þetta breytist með nýjum oddvita flokksins í borginni, rörsýnasta dólgafeminista síðari tíma. Maður vonaði að hún væri umborin í flokknum, ekki að hún væri þar leiðtogaefni.
Framsóknarflokkurinn býður lausnir á ástandinu, en er ekki einu sinni fær um að standa að formannskjöri innan sinna eigin raða án ógleymanlegs klúðurs.
Frjálslyndi flokkurinn hefur afneitað borgarfulltrúa sínum.
Besti flokkurinn hefur stolið því flottasta úr stefnuskrám hinna flokkanna, en ólíkt þeim lýgur hann því ekki að kjósendum að hann ætli að framkvæma eitthvað af því. Í ljósi ástandsins er óneitanlega grátbroslegt að heyra Besta flokkinn kallaðan grínframboð. Hin sorglega augljósa staðreynd er sú að í næstu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík verða eintóm grínframboð í boði. Ég segi fyrir minn hatt að ég vil frekar að stjórnmálamenn séu brandarakarlar en þeir séu brandari – á minn kostnað.
Bakþankar í Fréttablaðinu 20. 2. 2010