mánudagur, febrúar 22, 2010

Grínframboð

Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafði ekki hugmynd um hvað fyrirtækið hans var að bedrífa í útlöndum á meðan hann sat þar í stjórn. Hann vissi ekki heldur um milljarðana sem fjölskyldufyrirtækið hans rændi af íslensku þjóðinni með ólögmætu olíuokri árum, ef ekki áratugum, saman. Af tvennu illu finnst honum nefnilega skárra að vera gersamlega vanhæfur stjórnandi en að vera gerspilltur stjórnmálamaður.

Komið hefur í ljós að í aðdraganda hrunsins var annar ríkisstjórnarflokkurinn ekki hafður með í neinum ráðum þótt þau vörðuðu málaflokka sem heyrðu beint undir ráðherra hans. Þar voru menn of uppteknir af því að vera ráðherrar til að hafa rænu á að vinna vinnuna sína. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, þáverandi formaður og fjármálaráðherra véluðu landið einir til helvítis sín á milli. Það var ekki fyrr en á síðustu metrunum sem Samfylkingin var upplýst um ástandið.

Leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn er margfaldur Íslandsmeistari í að svara einföldustu spurningum með því að tvinna saman innihaldslausa frasa og pólitískar klisjur í svo endalausar langlokur að þeir sem ekki sofna undir ósköpunum eru löngu búnir að gleyma spurningunni þegar svarið er búið. Þannig er Samfylkingin, snotrar umbúðir um ekki neitt.

Í aðdraganda hrunsins höfðu Vinstrigræn mestar áhyggjur af litnum á ábreiðunum á fæðingardeildinni og þeirri karlrembu að reisa Reykjavíkurskáldinu styttu. Engin von er til að þetta breytist með nýjum oddvita flokksins í borginni, rörsýnasta dólgafeminista síðari tíma. Maður vonaði að hún væri umborin í flokknum, ekki að hún væri þar leiðtogaefni.

Framsóknarflokkurinn býður lausnir á ástandinu, en er ekki einu sinni fær um að standa að formannskjöri innan sinna eigin raða án ógleymanlegs klúðurs.

Frjálslyndi flokkurinn hefur afneitað borgarfulltrúa sínum.

Besti flokkurinn hefur stolið því flottasta úr stefnuskrám hinna flokkanna, en ólíkt þeim lýgur hann því ekki að kjósendum að hann ætli að framkvæma eitthvað af því. Í ljósi ástandsins er óneitanlega grátbroslegt að heyra Besta flokkinn kallaðan grínframboð. Hin sorglega augljósa staðreynd er sú að í næstu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík verða eintóm grínframboð í boði. Ég segi fyrir minn hatt að ég vil frekar að stjórnmálamenn séu brandarakarlar en þeir séu brandari – á minn kostnað.

Bakþankar í Fréttablaðinu 20. 2. 2010

fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Áskorun til íslenskra hönnuða

Reykingar eru ósiður sem ætti að leggja niður. Þetta vita allir. Þær eru ofboðslega óhollar og skaðlegar samfélaginu. Samt reykir fjöldi manna, sífellt færri að vísu, en dágóður hopur samt. Ýmsar aðferðir hafa verið fundnar upp til að hjálpa fólki að hætta að reykja. Margar þeirra eru eru í því fólgnar að aðeins reykingunum sjálfum er hætt – ekki er sigrast á nikótínfíkninni sem slíkri. Undir þetta flokkast nikótínplástrar, tyggjó og nikótínsoghólkar.
Mín tilfinning er sú að þeir, sem setja þessi ósköp á markaðinn, hafi hins vegar brugðist þeirri skyldu sinni að kynna sér hugarfar og sjálfsmynd markhópsins, þ.e. reykingamanna, og því sé árangurinn af erfiði þeirra minni en hann gæti verið.
Staðreyndin er sú að við reykingamenn eru hégómlegir. Við byrjum að reykja af því að okkur finnst það töff, ekki af því að okkur finnist það gott. Það kostar mikinn sjálfsaga og jafnvel sjálfspíslir að koma sér upp nikótínfíkn. Sígarettan, vindillinn eða pípan verður þannig að leikmun (propsi) eða því sem tískuhönnuðir kalla „accessorie“ sem þjónar þeim tilgangi að skapa ímynd, segja það um reykingamanninn sem hann vill að fólk haldi um sig.
Pípureykingamenn eru flokkur út af fyrir sig. Pípureykingamaður veltir því gaumgæfilega fyrir sér hvernig pípu hann eigi að fá sér. Pípan verður að ríma við „karakter“ hans. Hann dundar sér við það að hreinsa hana og skafa, troða í hana og púa. Pípureykingamaður sem ekki hefur stillt sér upp fyrir framan spegil með pípuna sína í kjaftinum til að gá hvernig hann tekur sig út með hana er jafnfáséður og gleraugnaglámur sem ekki skoðar sjálfan sig í spegli með gleraugun á nefinu áður en hann festir kaup á þeim.
Þess vegna er það með öllu ofvaxið mínum skilningi að framleiðendur nikótinsoghólka skuli láta sér detta það í hug ófullir að nokkur reykingamaður með sjálfsvirðingu vilji láta sjá sig opinberlega með þessi plasthylki uppi í sér. Það er akkúrat ekki neitt töff við þau. Þetta er úr hvítu sjúkrahúsplasti og líkist einhverju sem rifið er úr sótthreinsuðum pappírsumbúðum í Blóðbankanum, ekki handverki eða hönnun sem keypt er af lista- eða handverksmanni eða stimamjúkum eiganda notalegrar, persónulegrar tóbaksbúðar á borð við Björk og fjölda verslana í útlöndum. Að vera með nikótínsoghólk í kjaftinum er jafn töff og að vera með næringu í æð.
Samt er þetta sáraeinfalt tæki. Þetta er bara rör með hólfi sem nikótínhylkið smellur í þannig að innisigli rofnar með þeim afleiðingum að loft sem dregið er í gegn um rörið blandast nikótíninu. Þetta eru engin geimvísindi.
Af hverju hefur þá engum dottið í hug að framleiða hólka fyrir þessi hylki sem eru dálítið smartir. Af hverju eru þeir ekki til langir og stuttir, beinir og bognir, úr leðri, roði, bambus og harðviði, útskornir og mynstraðir? Af hverju get ég ekki sett nikótínhylkið mitt í eitthvað „accessorie“ sem ég get verið svolítið ánægður með heldur bara í sjúkrahúshvítt plasthylki sem lætur mig líta út eins og asma- eða langlegusjúkling?
Ég skora á íslenska hönnuði og handverksmenn að ráða bót á þessu. Þannig geta þeir lagt sitt af mörkum til baráttunnar við þann heilbrigðisvanda sem tóbaksreykingar eru. Þannig geta reykingamenn lagt sígarettuna, vindilinn eða pípuna á hilluna og svalað nikótínfíkninni með vönduðum hlut sem þeim getur þótt vænt um, sem svalar að einhverju leyti hégómleik þeirra og þeim finnst vera í stíl við þann „karakter“ sem þeir vilja sýna umheiminum. Það „accessorizar“ enginn með þeim soghólkum sem nú eru í boði.

mánudagur, febrúar 08, 2010

Englar Guðs

Orðið „engill“ er myndað af gríska orðinu „angelos“ sem strangt til tekið merkir aðeins „sendiboði“. Það er af sama stofni og orðið „angelion“ sem merkir „frétt“. Með forskeytinu „ev-„ sem merkir „vel“ verður til orðið „evangelion“ sem merkir „gleðifrétt“, en hefð hefur skapast fyrir því að þýða það sem „fagnaðarerindi“.

Einu sinni varð mikið flóð í dal nokkrum. Fólk þusti til kirkjunnar því hún var uppi á hól. Presturinn var guðhræddur og grandvar maður og hann leiddi söfnuðinn í bæn til Guðs um að hann léti flóðinu linna. Þá var kirkjudyrunum hrundið upp og hjálparsveit kom til að bjarga fólkinu. Presturinn harðneitaði þó að láta bjarga sér. „Drottinn er minn hirðir,“ sagði hann. „Mig mun ekkert bresta.“ Hjálparsveitin hélt því leiðar sinnar án hans.

Enn hækkaði vatnið og presturinn varð að príla upp á þak kirkjunnar til að drukkna ekki. Þá bar þar að fólk á flekaskrifli sem það hafði tjaslað saman úr hinu og þessu. Fólkið vildi endilega bjarga prestinum, en hann harðneitaði enn og sagði: „Drottinn bjargar mér. Guð sér um sína.“ Fólkið neyddist því til að skilja hann eftir þarna á þakinu.

Áfram hélt vatnið að hækka og presturinn varð að klifra upp í kirkjuturninn til að drukkna ekki. Hann stóð ofan á krossinum og vatnið náði honum upp í höku þegar björgunarþyrla kom á vettvang. Sigmaður var látinn síga niður eftir prestinum, en hann barðist um á hæl og hnakka og vildi ekki sjá neina björgun. Hann var sannfærður að Guð myndi koma honum til bjargar, bænahiti hans og guðhræðsla væri með svo miklum eindæmum að annað væri óhugsandi. Þyrlan varð því að halda sína leið án hans.

Vatnið hélt áfram að hækka og presturinn drukknaði. Hann fór til himna og gekk á fund Guðs sársvekktur. „Ég hef verið góður og grandvar maður og hagað lífi mínu í einu og öllu eftir fyrirmælum þínum,“ sagði hann við Guð. „Hvers vegna komst þú mér ekki til bjargar þegar ég þarfnaðist þín?“

Guð svaraði á móti sárreiður: „Hvað meinarðu? Ég sendi hjálparsveit eftir þér, ég sendi þér fólk á fleka, ég sendi meira að segja heila björgunarþyrlu. Við hverju bjóstu? Kraftaverki?“

Boðskapur sögunnar er þessi: Ekki bíða eftir kraftaverki. Guð sendir þér engla sína. Ef þú ert með augu og eyru opin, að ekki sé minnst á hjartað, þá þekkirðu þá þegar þeir birtast. Ekki á vængjunum, heldur erindinu.

Bakþankar í Fréttablaðinu 6. 2. 2010

þriðjudagur, febrúar 02, 2010

Lagið um Vetrarbrautina

(lag & texti: Monty Python / íslenskun: D. Þ. J.)

Minni lífið á skelfingu og skandal, frú Hvanndal,
og skímu er hvergi að sjá,
því fólk er bæði óþolandi leiðinlegt og ljótt,
mig langar að benda þér á ...

... að jörðin snýst um möndul sinn, það mundu hverja stundu,
á meira en þúsund kílómetra hraða.
Á hundrað þúsund sendist hún um sól sem er vort skjól
og sína orku ber til allra staða.
Sólin okkar fer og allt sem fyrir augu ber
í ferðalag sem býsna hratt er stefnt.
Sjötíu þúsund kílómetra á klukkustund hún spanar
um kerfi eitt sem Vetrarbraut er nefnt.

Vetrarbrautin hefur svona hundrað milljarða stjarna.
Ein hundrað þúsund ljósár þvermálið er.
Hún sverust er í miðið, sextán þúsund ljósár þar,
en þrjú þúsund ljósár myndi hún vera hér.
Þrjátíu þúsund ljósár miðja hennar reiknast héðan,
hver hringferð tekur milljónir alda tvær
og okkar Vetrarbraut er aðeins ein af milljörðum
í alheimi sem stöðugt þokast fjær.

Því alheimurinn sjálfur er að þenjast út og þenjast
og það er alveg ótrúlegt hve greitt.
Á ljóshraða hann þýtur, já, allt uns yfir þrýtur,
þrjú hundruð milljón metra á sekúndu, hraðar fer ei neitt.
Svo mundu, ef þú ert niðurdregin, társtokkin og trist,
hve tilveran er miklum undrum gjörð.
Og vonandi er í geimnum eitthvert vitsmunalíf,
því það vottar ekki fyrir því á jörð.