Þegar Cassius Clay kastaði kristinni trú, gerðist múslimi og tók sér nafnið Múhameð Alí gerði hann engar kröfur á sitt gamla trúfélag. Hann krafðist þess ekki að það breytti hjálpræðisskilningi sínum í þá átt að Jesús hefði í raun ekki verið frelsari allra manna heldur bara mikill spámaður, en þó ekki eins mikill og Múhameð. Hann fór ekki fram á að kirkjan breytti guðsþjónustuforminu eða kirkju- og sakramentisskilningi sínum. Ég held að flestir sjái reyndar í hendi sér hve ósanngjörn slík krafa hefði verið. Enda gat Múhameð Alí að sjálfsögðu látið sér það í léttu rúmi liggja hvernig hans gamla trúfélag skildi og skilgreindi hið mannlega hlutskipti og aðkomu æðri máttarvalda að því – hann tilheyrði því ekki lengur.
Sömuleiðis er það þannig að þegar múslimi gerist kristinn getur hann ekki krafist þess að hans gamli söfnuður hafni spámanni sínum og helgiriti. Hann getur ekki einu sinni farið fram á að nafnið hans verði þurrkað út af farþegalistanum í pílagrímsferðinni sem hann fór til Mekka, hvað þá að Islam breyti því hverjar hinar fimm stoðir trúarinnar skuli vera og hvernig þær skuli túlkaðar. Kirkju- og moskubókum (séu þær yfirhöfuð til) er ekki breytt eftir á af tillitssemi við þá sem síðar vilja fara sjálfstæðar leiðir í andlegu lífi sínu. Þegar fólk yfirgefur trúarbrögð, hvort heldur sem er til annarra trúarbragða eða engra, á það einfaldlega engar dogmatískar kröfur á hendur sínu gamla trúfélagi.
Íslendingar hafa einstakt lag á því að dýrka þrjósku. Fyrir þeim er það einhver ómótstæðileg dyggð að vera nógu andskoti þrár, alveg óháð málstaðnum eða forsendum hans. Þannig er ekki langt síðan Gísli nokkur á Uppsölum í Selárdal við Arnarfjörð varð að einhvers konar þjóðhetju hér á landi. Afrek hans var í því fólgið að hafa bitið það í sig ungur að árum, vegna persónulegrar beiskju í garð ættingja sinna, að dalinn sinn skyldi hann aldrei yfirgefa. Háaldraður var hann orðinn svo einangraður og utangarðs að hann var hættur að geta tjáð sig þannig að landar hans skildu hann. En honum var hampað sem einhvers konar holdgervingi alls sem íslenskt var, þótt í raun væri hann ekki holdgervingur neins annars en sinnar eigin heimsku, í upphaflegastri merkingu orðsins – „heim-elsku“. Er kannski eitthvað sérstaklega íslenskt við þann eiginleika?
Nú er annar Íslendingur fallinn frá, sem vakti aðdáun samborgara sinna fyrir þrjósku, sem vissulega var aðdáunarverð ef hægt er að nota það lýsingarorð um fyrirbærið. Sambanburðurinn nær kannski ekki lengra. Árum saman var Helgi Hóseasson, „mótmælandi Íslands“, hluti af götumyndinni við Langholtsveg með skilti sín. Margir vilja af þeim sökum reisa honum einhvers konar minnisvarða og er það að mínu mati vel við hæfi. Það sem ekki væri við hæfi væri að opinberir aðilar hefðu einhverja aðkomu að slíkum minnisvarða umfram þá að útvega honum einhverja fermetra í borgarlandinu, gjarnan við Langholtsveginn. Annað væri móðgun við málstað og minningu Helga.
Hins vegar finnst mér sú „kanónísering“ hans sem einhvers konar píslarvottar, sem hófst strax í kjölfar andláts hans, býsna vanhugsuð. Minn ágæti vinur og samstarfsmaður til margra ára, Karl Th. Birgisson, birti nýverið hressandi
pistil um Helga á heimasíðu Herðubreiðar. Þar fullyrðir hann tæpitungulaust að Helgi hafi frá unglingsaldri verið upp á kant við umhverfi sitt, ekki lynt við neinn og alls staðar komið sér út úr húsi. Um þetta er Karl fróðari en ég, enda voru þeir Helgi náskyldir. Ég tek heilshugar undir upphaf pistils Karls þegar hann segir: „Það er meira en lítið ógeðfellt að fylgjast með einu allsherjarpisseríi þeirra, sem á annað borð tjá sig, utan í minningu Helga Hóseassonar frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Fæst er þar iðkað af smekkvísi og flest af grunnhyggni. … Staðreyndin er sú að Helgi Hó var snarklikkaður, en hafði einn góðan málstað.“ Síðan byrjum við Karl reyndar strax að vera ósammála.
Að mínu mati var það góður og göfugur málstaður hjá Helga Hóseassyni að benda á þá ósvinnu sem þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra gerðust sekir um þegar þeir ákváðu sín á milli í einu símtali að taka sér vald, sem þeir höfðu ekki samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins, og gera Íslendinga að beinum aðilum að styrjöld Bandaríkjamanna í Írak um olíuhagsmuni hernaðarveldisins í vestri. Hér hefði auðvitað samstundis átt að rjúfa þing, svipta þá kumpána allri embættis- og þinghelgi og draga þá fyrir dómstóla ákærða fyrir landráð og valdníðslu. Það var auðvitað ekki gert.
Að mati Karls, misskilji ég hann ekki, var hinn góði málstaður Helga aftur á móti barátta hans fyrir því að kirkjan rifti skírnarsáttmála hans, sem móðir hans gerði fyrir hans hönd, væntanlega í góðri trú með andlega hagsmuni hvítvoðungsins í huga. Hér held ég að Karl falli í þá gildru að álíta óvin óvinar síns vin sinn, óháð því hvort heil brú sé í málstað hans eða ekki, og að persónuleg kirkju- og trúarandúð Karls aftri honum frá því að skoða málið af sanngirni gagnvart báðum aðilum, sem annars er fjarska ólíkt þeim sómapilti. Af hverju Helga var svona mikið í mun að fá þetta ógilt er mér hulin ráðgáta. Hafi hann í raun verið eins trúlaus og hann lét í veðri vaka, af hverju gilti það hann þá ekki einu hvaða merkingu einhverjir karlar úti í bæ lögðu í þetta vatnsgutl í frumbernsku hans, sem fyrir honum hlaut að vera orðið merkingarlaust með öllu? Heyrst hefur að kirkjuna hafi á einhvern hátt sett niður við að verða ekki við þessum kröfum hans, hún hafi sýnt óbilgirni og gott ef ekki ósanngirni líka. Að mínu mati hefði kirkjuna þó fyrst sett niður ef hún hefði farið að hringla í skilningi sínum, túlkun og útleggingu á því, sem fyrir henni hefur í tæp tvöþúsund ár verið álitið heilagt sakramenti, af meðvirkni með fixídeu eins „snarklikkaðs“ einstaklings (svo ég haldi mig við termínólógíu Karls). Það er hægt að vera andvígur kirkju og kristni á margvíslegum forsendum, að hún sé sjálfri sér samkvæm gagnvart því sem hún álítur heilagt er ekki ein þeirra forsendna.
Reyndar má segja að Helgi hafi haft sigur í baráttu sinni.
Árið 1982 lýsti þáverandi biskup því yfir að hann áliti skírnarsáttmála Helga ónýttan. Frá sjónarhóli kirkjunnar væri aftur á móti ekki hægt að gera það á annan hátt en Helgi hefði sjálfur gert. Hins vegar væri það ekki á valdi kirkjunnar að ónýta hann, aðeins Helga sjálfs. Þetta nægði Helga þó ekki.
Erfitt er að benda á það hvaða mannréttindi eiga að hafa verið brotin á Helga Hóseassyni. Hann naut fullkomins trúfrelsis og tjáningarfrelsis sem hann nýtti sér út í ystu æsar – ef ekki lengra. Útför hans fór að öllu leyti fram samkvæmt óskum hans. Sjúkrasögu hans þekki ég ekki, né heldur meinta aðkomu kirkjunnar að henni, sem Karl ýjar að í grein sinni. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að frelsið er og verður þess eðlis að það nær aðeins upp að nefinu á næsta manni. Trúfrelsi einstaklings A getur ekki skikkað einstaklinga Á til Ú til að breyta því hvernig þeir skilja með sjálfum sér trúarleg atriði sem á engan hátt kássast upp á persónufrelsi, trúfrelsi, ferðafrelsi eða tjáningarfrelsi einstaklings A. Hvað væri þá orðið um trúfrelsi einstaklinga Á til Ú? Það, hversu augljóslega ósanngjarnan málstað Helgi hafði að verja hvað þetta atriði varðar, virðist hins vegar eiga afskaplega erfitt með að rata inn í umræðuna. Það er jafnvel hulið þeim skynsemispilti Karli Th. Birgissyni. Þótt hann veigri sér ekki við því að segja „Helgi var nefnilega uppfullur af hleypidómum, rugli og þvælu, hann var einsýnn og við hann var ekki hægt að skiptast á skoðunum“ er eins og þessi barátta hans hljóti sjálfkrafa að hafa verið undanskilin þessum skapgerðareiginleikum hans vegna þess eins að hinum megin var fyrirbærið kirkja.
Allir sem þekktu Helga persónulega, sem ég gerði ekki, virðast á einu máli um að hann hafi verið einstaklega hjartahlýr maður, vel meinandi og með eindæmum barngóður. Um það hvarflar ekki að mér að efast og síst af öllu vakir fyrir mér að sverta minningu Helga Hóseassonar á nokkurn hátt. En það er hárrétt sem Karl segir í niðurlagi pistils síns og ég tek undir: „... sjálfum fannst Helga sannleikurinn alltaf sagna beztur og rómantíkin um hann er í mörgum tilvikum svo yfirgengileg að það er beinlínis nauðsynlegt að tala ekki í kringum hlutina “
Vera má að Helgi Hóseasson hafi verið einhvers konar fórnarlamb, en ekki kristninnar. Hafi hann verið píslarvottur var píslarvætti hans aðeins af völdum hans eigin skapgerðar.
Ég votta öllum aðstandendum Helga samúð mína og óska minningu hans allrar blessunar.