mánudagur, júní 22, 2009

Æðri menntun

Þegar ég var á sjónum vorum við tveir um borð sem vorum með stúdentspróf. Enda vorum við alltaf kallaðir „menntamennirnir“ og mikið grín gert að því þegar okkur fórst eitthvað óhönduglega. Ef við vorum saman á vakt á dekki og vorum mikið að þvælast hvor fyrir öðrum, eins og óvanir menn eiga til, gátu gamanmálin sem af því spruttu haft ofan af fyrir áhöfninni allmarga róðra. Þetta þótti körlunum segja allt sem segja þyrfti um tilgangsleysi æðri menntunar sem ekki fæli í sér neina kennslu í vinnubrögðum til sjós, því sem þjóðin hefði nú lífsviðurværi sitt af þegar allt kæmi til alls.
Þetta „sýndu mér hvað þú getur, ekki segja mér hvað þú veist“ viðhorf karlanna um borð kom vel fram í afstöðu þeirra til stjórnmálamanna. Enginn var í meiri metum hjá þeim en Lúðvík Jósepsson, þótt hann væri löngu horfinn af sviði stjórnmálanna. Hann átti nefnilega að hafa haft það fyrir sið, þegar hann kom niður á bryggju að afla fylgis fyrir kosningar, að beita eins og eitt bjóð á meðan hann spjallaði við karlana. Það að sitja ekki auðum höndum yfir skrafinu heldur vera til gagns þótti þeim sýna að þar væri alvörumaður á ferð. Sjávarútvegsráðherra sem var liðtækur beitningamaður hlaut að vita hvað hann söng.
Ég man að á sínum tíma fór þetta menntahatur skipsfélaga minna í taugarnar á mér. Mér fannst það í raun aðeins vera ástæðulaus minnimáttarkennd gagnvart þeim sem höfðu einhverja skólagöngu umfram skyldunám, því eins og þeir voru iðnir við að benda á gerði námsgráðan okkur svo sannarlega ekki að betri sjómönnum en hina sem stigið höfðu ölduna árum saman. Mér fannst þessi jarðbundna, pragmatíska rörsýn á lífið og tilveruna lýsa andlegri fátækt.
Með tímanum hef ég þó orðið þakklátari fyrir að hafa fengið að finna fyrir þessari lífsafstöðu á mínu eigin skinni. Síðan hef ég nefnilega kynnst fólki sem komið er af mörgum ættliðum menntastétta og hjá því orðið var við lítt sæmandi hroka gagnvart undirstöðu þess; saltinu, slorinu og moldinni. Sumt af því hefur jafnvel látið í ljós þau viðhorf að það að vinna fyrir sér með höndunum, „heiðarleg vinna“ eins og það var kallað á sjónum, feli í sér örlög verri en dauðann. Það viðhorf er nefnilega að minnsta kosti jafnfátæklegt.

Bakþankar í Fréttablaðinu 20. júní 2009

mánudagur, júní 08, 2009

Bensínbruðl

Um síðustu helgi var ég gestgjafi nokkurra Norðurlandabúa sem hér voru í heimsókn. Þeir voru áhugasamir um hrunið og kreppuna og m.a. spurði Finninn mig um bensínverðið hér á landi. Ég sagði honum það og að nýleg hækkun þess hefði ekki gert lukku meðal landsmanna. Hann reiknaði þetta í huganum og tilkynnti mér svo að bensínið væri samt ódýrara hér en það hefur verið í Finnlandi árum saman.
Um alllangt skeið hef ég forðast að vera á ferð um borgina á ákveðnum tímum sólarhringsins vegna umferðarteppunnar sem þá er viss passi. Síðast þegar ég tók þátt í henni taldi ég að gamni mínu farþegana í hinum bílunum. Tuttugasti hver bíll reyndist hafa fleiri um borð en bílstjórann einan. Þegar allir eru á ferð í einu og hver einstaklingur þarf 12 fermetra af stáli undir rassgatið á sér einum er auðvitað ekki von að vel fari. Ég efast um að nokkur maður myndi kæra sig um að búa í borg sem væri undirlögð af vegakerfi sem réði við slík ósköp.
Í raun væri einfalt mál að minnka umferðarþungann á álagstímum um helming. Það þyrfti aðeins að skikka fólk til að taka einhvern með sér sem væri á sömu leið. Í sumum löndum er hvatt til þess að fólk taki sig saman um bílferðir með sérstökum akreinum fyrir bíla með farþegum. Hér á landi fer neyslustýring á hinn bóginn fram með sköttun og verðlagningu.
Í síðustu viku heyrði ég útvarpsmann nokkrun býsnast ósköpin öll yfir því hvað það væri orðið dýrt að aka í vinnuna. Reyndar var honum svo misboðið að hann hvatti til þess að fólk færi niður á Austurvöll með sleifar og potta til að mótmæla því að það væri orðið skynsamalegra að taka strætó í vinnunna eða að nokkrir vinnufélagar væru samferða á morgnana en að rúnta þennan spöl einn á sínum prívatbíl. Það voru ekki hagsmunir atvinnubíljstóra sem honum voru svona hugleiknir, heldur fannst honum einfaldlega með öllu óverjandi að hinar óhjákvæmilegu efnahagsaðgerðir vegna óstjórnar undanfarinna ára skyldu miða að því að draga úr svifryks- og koltvísýringsmengun í borginni, jafnframt því að stemma stigu við hinu hömlulausa bensínbruðli sem Íslendingar hafa tamið sér, með því að gera verðlagningu á eldsneyti hér á landi sambærilegri því sem tíðkast meðal siðaðra þjóða.
Ég er ósammála honum.

föstudagur, júní 05, 2009

Fljóð þrá bara fjör

(Cindy Lauper/Robert Hazard – íslenskur texti: D. Þ. J.)

Í rauðabítið er rangla ég heim
mig ræðir við móðir mín með hrútshornum tveim.
Æ, mamma, vertu stillt, á stóryrðin spör
því fljóð þau þrá bara fjör.
Ó, fljóð þau þrá bara fjör.

Um miðja nótt í mig er oft hringt.
Það misbýður föður mínum heilagt og sýknt.
Æ, elsku besti pabbi, yggldu'ekki vör
því fljóð þau þrá bara fjör.
Ó, fljóð þau þrá bara fjör.

Þau vilja ung og ör
allt fjör.
Þau eru svo úr garði gjör
að fljóð – þau þrá bara fjör.
Ó, fljóð þau þrá bara fjör.

Fljóð þau þrá … þrá bara fjör,
fljóð … þrá bara …

Ef þú hyggst í ungmeyju ná
og einangra stúlkuna heiminum frá
ei verður lukkuleg lífs hennar för
því fljóð þau þrá bara fjör.
Ó, fljóð þau þrá bara fjör.

Þau vilja ung og ör
allt fjör.
Þau eru svo úr garði gjör
að fljóð – þau þrá bara fjör.
Ó, fljóð þau þrá bara fjör.

Fljóð þau þrá … þrá bara fjör,
fljóð … þrá bara … fjör.

Þau þrá bara … þau þrá bara … fjör.