laugardagur, maí 31, 2008

Krafin svars

Í vetur spjallaði ég við leikskólakennara sem tjáði mér að hún ætti stundum í stökustu vandræðum með að svara spurningum barnanna þegar eilífðarmálin bæri á góma. Henni fannst hún ekki hafa neinn rétt til að segja börnunum frá afstöðu sinni í þeim efnum, í því fælist trúarleg innræting sem hún mætti alls ekki gerast sek um. Sjálf missti hún móður sína þegar hún var barn. Þegar börnin spyrja hana hvar móðir hennar sé nú finnst henni hún ekki geta svarað þeim samkvæmt sannfæringu sinni að hún sé engill á himnum og bíði hennar þar.
Þegar við erum spurð svörum við, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. Það er svarað með þögninni og því að fara undan í flæmingi. Það eru kannski verstu svörin sem börnin geta fengið. Í því felast þau skilaboð að spurningin hafi verið óviðurkvæmileg, börnin hafi gert eitthvað af sér án þess að þau hafi neinar forsendur til að vita hvað. Er betra að innræta þeim það?
Börn búa nefnilega yfir þrákelkni í ríkum mæli. Þau finna svör við spurningunum sem leita á þau. Ef þau fá ekki svörin hjá foreldrum sínum eða kennurum leita þau þeirra annars staðar, hjá jafnöldrum eða fólki sem hikar ekki við að deila skoðunum sínum með hverjum sem er. Oft vegna þess að í huga þess eru skoðanir þess ekki skoðanir heldur staðreyndir. Ég held að börn hafi gott af því að vita að það eru ekki allir á einu máli um þetta, að þau sjái að þótt pabba og mömmu finnist eitt, kennaranum annað og foreldrum félaganna jafnvel enn annað, þá komi öllu þessu fólki vel saman og sýni hvert örðu virðingu.
Börn eru einlæg og heiðarleg. Þau eiga heimtingu á að vera svarað jafnheiðarlega og af sömu einlægni, óháð því hverjar hugmyndir okkar um framhaldslíf eða skort á því eru. Hvort sem við trúum því að látnir ástvinir okkar bíði okkar í einhvers konar handantilveru, þeir séu endurfæddir í nýjum líkama eða jafndauðir og síld í tunnu og horfnir að eilífu, þá ættum við að vera óhrædd að ræða þá trú okkar, við börn vitaskuld af þeirri nærgætni sem sýna ber þeim.
Hins vegar er líka nauðsynlegt að bæta við: „En þetta er bara það sem ég trúi. Um þetta verður ekkert vitað með vissu. Þú verður sjálf(ur) að ákveða hverju þú vilt trúa – og hvers vegna.“
Bakþankar í Fréttablaðinu 30. maí 2008

þriðjudagur, maí 27, 2008

Skömm Skagans

Ég er alinn upp við að þar sem sé hjartarúm sé húsrúm. Að okkur beri að hjálpa hvert öðru. Að enginn sé svo aumur að hann geti ekki hjálpað þeim sem eru enn aumari og að öllum beri að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn að aðeins betri stað fyrir alla menn. Hvers vegna ég er alinn upp við þessi gildi veit ég ekki. Mig rekur nefnilega ekki minni til þess að hafa hlotið sérlega kristilegt uppeldi, alltjent ekki með miklu guðsorðahjali eða kirkjurækni. Sennilega var bara alin upp í mér virðing við mannúð og náungakærleik. Margir aðhyllast þessi sjónarmið í verki án þess að kalla sig kristna menn.
Aðrir aðhyllast þessi sjónarmið í orði og segjast ekki myndu vera í vafa um það hvernig þeir ættu að bregðast við ef svo ólíklega myndi vilja til að þeir stæðu nú einhvern tímann frammi fyrir siðferðilegu álitamáli. Það hvarflar hins vegar ekki að þeim að þessi sjónarmið geti átt við í dagsins önn, að daglegar ákvarðanir þeirra og framferði sýni afstöðu þeirra í siðferðilegum efnum. Þeim dettur ekki í hug að mannúð og náungakærleikur geti komið pólitík eða hagfræði við, ekki frekar en að hugtök eins „ást“ og „fegurð“ séu nothæfur mælikvarði í akademískum raunvísindum. Við praktískar ákvarðanir hljóti auðvitað einu viðmiðin að vera hagnaður og arðsemi. Andlega talið sé gott og blessað svo langt sem það nær, en auðvitað eigi það aðeins við um innra líf manneskjunnar.
Þeir eru allir af vilja gerðir að reynast náunganum vel, nema náttúrlega ef það kostar þá eitthvað eða ómakar á nokkurn hátt. Þeir nota skort á húsrúmi sem afsökun fyrir skorti á hjartarúmi. Þannig hýsa þeir til dæmis ekki flóttamenn, af því að sumir hafa það ekki sem best í plássinu þeirra, rétt eins og staða þeirra sé sambærileg við aðstæður landflótta palestínskra ekkna. Þannig efast ég ekki um að margir þeirra Skagamanna sem skrifað hafa nafn sitt á lista til að mótmæla komu erlends flóttafólks í bæinn telji sig til kristinna manna. Orð Krists, „það sem þér gerið einum mínum minnstu bræðra gerið þér mér“, hafi í huga þeirra enga skírskotun til úrlausnarefna líðandi stundar heldur séu bara fallegt orðagjálfur til skrauts á sunnudögum.
Til er gott, rammíslenkst orð yfir þannig fólk. „Hræsnarar“.
Bakþankar í Fréttablaðinu 25. maí 2008

þriðjudagur, maí 20, 2008

Prédikun


Fyrr í vetur kom Sr. Bjarni Karlsson, prestur í Laugarneskirkju, að máli við mig og bað mig að prédika hjá sér í kirkjunni við tækifæri. Ég þakkaði boðið, en ýtti því á undan mér vegna anna.
Nú þegar ég var búinn í prófum og farið var að hægjast um hjá mér hafði ég enga afsökun lengur og sl. sunnudag steig ég því í prédikunarstólinn í Laugarneskirkju. Fyrir þá sem hafa áhuga er prédikunin mín nú komin á vefinn. Hana má finna hér.

laugardagur, maí 03, 2008

Dans um stræti og torg

(Ivy Jo Hunter/William Stevenson/Marvin Gayeísl. þýð.: Davíð Þór Jónsson)

Hrópum allan heiminn á:
„Viltu heyra alveg nýjan brag?“
Um stræti'og götur glymur þá
tær gleði nótt og dag.

Látum borgarbúa
bæði'og dreifara
bökum saman snúa.

Ljúfir ómar líða mjög víða,
um laut og dal og fjörð.
Nú skal þeyta skífur, skaka bífur,
skrall um alla jörð. Ó!

Í spjarir þeirra spáð ei er
sem í sprellið skila sér.
Og því skal halur hver hrífa sprund
um heimsins alla koppagrund.
Enda dunar
dans um stræti'og torg.

Og í hófið kalla skal heimsbyggð alla
svo hljómi borg úr borg.
Látum hamingjuna fossa, funa
og flæða'um stræti'og torg.

Austur á Egilsstöðum,
á Ólafsvík og á Hlöðum,
í Keflavík og Kópavogi
kyndill stuðsins logi,
á Bíldu- og Búðardal
brjála lýðinn skal.

Ljúfir ómar líða mjög víða,
um laut og dal og fjörð.
Nú skal þeyta skífur, skaka bífur,
skrall um alla jörð. Ó!

Í spjarir þeirra spáð ei er
sem í sprellið skila sér.
Og því skal halur hver hrífa sprund
um heimsins alla koppagrund.
Enda dunar
dans um stræti'og torg.