föstudagur, október 20, 2006

Óunarkenning Davíðs Bullustamps

Það sem snertir mann ekki og maður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af er í raun ekki til fyrir manni. Svo dæmi sé tekið þá efast ég um að ósónlagið hafi í raun verið til í huga alls þorra almennings fyrr en honum var kennt að óa við þynningu þess.
Heimurinn verður með öðrum orðum til við óun.
Fylgist spennt með í næstu viku þegar hinn gallharði óunarsinni Davíð Bullustampur leggur fram öpunarkenninguna.

miðvikudagur, október 18, 2006

Skóunarkenning Davíðs Bullustamps

Undanfarin 147 ár, eða allt frá því að enski líffræðingurinn Charles Darwin (1809 – 1882) lagði fram kenningu sína um uppruna tegundanna, hefur nokkuð borið á ágreiningi og illindum á milli þeirra sem aðhyllast þá kenningu, svokallaðra þróunarsinna, og hinna, sem aðhyllast bókstafstrú á sköpunarsöguna eins og hún birtist í upphafi Fyrstu Mósebókar, svokallaðra sköpunarsinna.
Þar sem mér leiðast illdeilur og finnst best að allir séu vinir langar mig að leggja fram mína eigin kenningu í von um að sátt geti myndast um hana og sköpunarsinnar og þróunarsinnar geti sæst á milliveginn. Þessa kenningu bý ég til með því að sameina sköpun og þróun og út úr því fæ ég ... skóun. Þetta er með öðrum skóunarkenningin og sjálfur er ég orðinn gallharður skóunarsinni.
Einu sinni var ég nefnilega skólaus. Þá þurfti ég að hanga heima hjá mér. Ég komst ekki neitt og því var heimurinn í raun hvorki til fyrir mér né ég fyrir honum. En um leið og ég fékk skó komst ég hvert sem ég vildi og þá varð heimurinn til eins og ég skynja hann. Heimurinn varð sem sagt til fyrir skóun.
Fylgist spennt með í næstu viku þegar Davíð Bullustampur leggur fram skröpunarkenninguna.

þriðjudagur, október 17, 2006

Alvöru martröð


Mig dreymdi að ég væri einn af dvergunum sjö. En okkur fannst við engir dvergar heldur ungir, menntaðir og fluggáfaðir menn í gáfulegum samræðum. Þá sagði ég: "Mikið ég elska konuna mína nú heitt og leiðist að heyra talað illa um hana!" Við þetta varð uppi fótur og fit og hinir litu hneykslaðir hver á annan.
Síðan sagði sá fyrsti: "Hvernig ætlarðu þá að afsaka það hvað hún var ódæll og leiðinlegur krakki?"
Sá næsti sagði: "Ertu fullkomlega siðblindur? Hvernig ætlarðu að réttlæta alla glæpi og grimmdarverk kvenfólks í gegn um tíðina?"
Sá þriðji bætti um betur, varð sár á svipinn og sagði: "Gerirðu þér ekki grein fyrir því hvað það er tillitslaust af þér að segja svona upp í opið geðið á mér, náttúruleysingjanum? Þú áttar þig greinilega ekki á fordómunum í garð náttúrulausra sem þjóðfélagshóps og hvað það er erfitt að vera náttúrlaus á Íslandi. Hvert sem maður lítur á góðviðrisdögum er ástfangið fólk að kjassast og kyssast. Hvernig væri að fólk héldi þessum tilfinningum fyrir sig? Þjóðfélagið gengur út frá því að allir hafi náttúru. Ég þarf meira að segja að búa við það að börnin mín fái kynfræðslu í skólanum!"
Sá fjórði tók næst til máls og sagði: "Þú hlýtur að átta þig á að ást er bara ímyndun. Menn bjuggu til þetta bull í fornöld til að útskýra það sem vísindin eru farin að afgreiða miklu betur í dag. Þetta er bara röskun á hormónajafnvægi líkamans sem þjónar þeim tilgangi að viðhalda tegundinni. Ég trúi ekki að þú takir mark á svona kukli og kjaftæði!"
Sá fimmti bætti við: "Og hvernig geturðu verið slíkur nautshaus að fullyrða að þessi kona sem þú ímyndar þér að þú elskir sé yfirhöfuð til? Enn hafa ekki verið færð nein óhrekjanleg rök fyrir tilvist efnisheimsins!"
Loks æpti sá sjötti afmyndaður af bræði: "Svo lýgurðu því, helvískur, að ég tali illa um konuna þína!"
Þá hrökk ég upp með andfælum. Fyrst fannst mér eins og þetta væri allt satt og rétt og ég að gæti aldrei framar treyst neinu. En svo hjúfraði ég mig upp að konunni minni sem lá við hlið mér, fann ylinn frá henni, þakkaði fyrir að þetta væri raunveruleikinn og sofnaði vært.
Svona vitleysu myndi auðvitað enginn láta út úr sér í alvörunni, er það?

Bakþankar í Fréttablaðinu 15. október 2006

fimmtudagur, október 12, 2006

Þennan dag í síðustu viku ...

... fór ég á Sinfóníutónleika í tilefni Norrænna músíkdaga. Það var áhugavert. Það sem einkum vakti áhuga minn var þó ekki tónlistin, heldur það sem stóð í prógramminu um eitt verkið, Unter himlen – Intermezzi, eftir Bent Sörensen: "Nú fá íslenskir tónleikagestir smjörþefinn af meistaraverki Sörensens ..." Ég fletti þessu upp í Orðabók Marðar, af því að ég trúði ekki mínum eigin augum, en komst að því að ég var með merkingu orðasambandsins "að finna smjörþefinn af e-u" á hreinu: "kenna á e-u, þola óþægilegar afleiðingar e-s".
Ég get semsagt ekki sagt að ég hafi ekki verið varaður við.

miðvikudagur, október 11, 2006

Þennan dag í síðustu viku ...

... las ég þetta á bls. 16 í Fréttablaðinu: "Vissir þú ... að auga ostrunnar er stærra en heilinn?"

Ekki fylgir sögunni hvaða heili. Sjálfum finnst mér nógu merkileg uppgötvun að ostrur (e. oyster) hafi auga til að ekki bætist við að þær hafi líka heila, jafnvel þótt hann reynist minni en augað. Eina skepnan sem ég vissi að væri með minni heila en auga er strúturinn (e. ostrich).
Er hugsanlegt að þeir sem vinna við að þýða gagnslausar upplýsingar af ensku fyrir Fréttablaðið kunni ekki ensku?

þriðjudagur, október 10, 2006

Þ.R.A.U.K. 10: Að drepast úr ástarsorg

Einn kunningi minn er að drepast úr ástarsorg. Bókstaflega. Ég veit að ástarsorg er ekki banvæn í sjálfri sér, en skorpulifur er það.
Mig langar ekki að gera lítið úr fallegum og göfugum tilfinningum eins og sorg eftir ástvinamissi. Auðvitað er djöfullega erfitt að þurfa að endurmeta öll framtíðaráform sín á einu bretti eftir að manneskjan sem var órjúfanlegur hluti af þeim öllum ákveður að hún vilji ekki lengur taka þátt í þeim heldur vilji hún eitthvað annað, eitthvað þar sem ekki er pláss fyrir mann sjálfan. Það er eðlilegt að syrgja allt það fagra sem átti að verða og hefði getað orðið. Það er eðlilegt að vera hnugginn á meðan maður gengur í gegn um slíkt.
En þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Það er eðlilegt að ganga í gegn um slíkt. Það er ekki eðlilegt að grafa sig í því, gefast upp og neita að halda áfram með líf sitt. Og að gera sorgina að blóraböggli fyrir eigin aumingjaskap, að nota hana sem afsökun fyrir því að hætta að bera ábyrgð á lífi sínu og drekka sig í hel er beinlínis ljótt.
Það sem einkum gerir það ljótt er hrokinn sem það lýsir. Mér finnst það hreinlega móðgandi að þessi kunningi minn virðist vera þeirrar skoðunar að þótt aðrir hafi jafnað sig eftir skilnað geti það ómögulega gerst í hans tilfelli, nánast eins og hann sé fær um að elska á einhvern dýpri hátt en allir aðrir, að aldrei hafi maður elskað konu eins heitt og hann sína fyrrverandi og því sé sorg hans sárari en nokkur fær megnað að skilja. Hann virðist trúa því að sem tilfinningavera sé hann á einhverju æðra plani en restin af mannkyninu.
En hvað er svo á bak við þessa ástarsorg? Jú, hann vill að þessi kona sé frekar með honum en manninum sem hún er með núna. Auðvitað kjósa konan, nýji maðurinn hennar og allir vinir þeirra frekar núverandi ástand. Sú staðreynd að hann er eina manneskjan í heiminum sem er á bömmer yfir því hvernig málum er háttað gefur honum enga ástæðu til að reyna að breyta því sem hann vill.
Það sem í raun fyllir þennan kunningja minn sorg er semsagt að annað fólk skuli voga sér að láta tilfinningar sínar og ástarlíf snúast um annað en að gera honum til hæfis. Hann þjáist í raun aðeins af banvænni frekju og eigingirni undir þunnu lagi af bleikri málningu.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. 7.
Birt á "Lífið er auðvelt" 13. júlí 2006

mánudagur, október 09, 2006

Friðarsúlan

Að allir þrái alheimsfrið
er engin tímaskekkja.
En hvernig er að vinna við
að vera ekkja?

Þ.R.A.U.K. 9: Drekkjum Valgerði!

Einu sinni fékk ég morðhótun. Síminn hringdi og sallaróleg kvenmannsrödd innti mig eftir því hvort ég væri sá sem ég er. Þegar konan hafði fengið það staðfest tilkynnti hún mér að það ætti að skjóta mig í hausinn og að hún hygðist sjá til þess að það yrði gert á næstunni. Ég verð að viðurkenna að mér varð hreint ekki um sel. Ég hringdi í lögguna og kærði þetta og síðan hringdi ég í vinkonu mína, þjóðþekkta og umdeilda manneskju, og sagði henni að ég hefði fengið morðhótun. Hennar svar var: "Velkominn í klúbbinn."
Það er því miður staðreynd að á Íslandi er fullt af sjúku fólki sem fær eitthvað kikk út úr því að hringja í þekkt fólk, einkum umdeilt, og hóta því lífláti. Þess vegna eru mjög fáir þjóðþekktir, umdeildir Íslendingar í símaskránni. Þetta lasna lið finnur til sín, það fyllist einhverri valdstilfinningu og finnst það menn að meiri með því að geta komið einhverjum frægum í uppnám. Hins vegar er það staðreynd að þetta lið er heybrækur og raggeitur sem aldrei gætu mannað sig upp í að framkvæma það sem það er að hóta. Það er aðeins hugrakkt í gegn um síma og undir nafnleynd. Nú eru tíu ár síðan ég fékk þessa morðhótun og hafi mér verið sýnt morðtilræði á þeim tíma hefur það verið svo gersamlega mislukkað að ég varð þess ekki einu sinni var.
Morðhótanir sem málaðar eru á borða sem gengið er með í skrúðgöngu niður Laugaveginn án þess að borðaberar reyni að hylja andlit sín eru auðvitað engar morðhótanir heldur slagorð. Slagorð þurfa ekki alltaf að vera vel til fundin og slagorðið "Drekkjum Valgerði, ekki Íslandi" er að mínu mati handan velsæmismarka og málstaðnum ekki til framdráttar. Ennfremur er það vanhugsað því það gefur virkjunarsinnunum höggstað á okkur, þeir víkja sér undan að ræða málefnið til að ræða slagorðið – eins og raun ber vitni.
En þar sem æska og eldmóður fara saman er ekki alltaf pláss fyrir etíkettur.
Hins vegar þarf alveg gríðarlega vænisýki og veruleikabrenglun til að að taka þetta slagorð bókstaflega og halda að lífi iðnaðarráðherra sé í raun ógnað. Slíkt fólk er búið að loka sig af inni í sínum eigin heimi ásamt gagnrýnislausum jábræðrum sínum of lengi. Umhverssinnar eru í huga þess orðnir siðlausir terroristar sem ekki víla fyrir sér mannrán og morð frekar en Al Kaída. Andri Snær og Osama Bin Laden eru af sama sauðahúsi í hausnum á því. Hernaðaraæfingar miða ekki við árás fjandsamlegs ríkis heldur hryðjuverkaárás af hálfu Hörpu Arnardóttur, leikkonu, og félaga hennar. Þarf frekari vitnanna við?
Finnist Valgerður Sverrisdóttir eftir að hafa verið drekkt í baðkarinu heima hjá sér má bóka að síðasta fólkið sem líklegt er að verið hafi þar að verki er fólkið sem labbaði með orðin "Drekkjum Valgerði" á borða niður Laugaveginn skömmu áður. Mun líklegra er að morðinginn sé einhver sem sér sér hag í að freima þá aðila fyrir glæpinn. Það þarf ekki að hafa lesið margar glæpasögur eða horft á marga CSI þætti til að sjá þetta í hendi sér.
Morðingjar auglýsa nefnilega yfirleitt ekki fyrirætlanir sínar, það erfiðar þeim að ljúka verkinu. Þannig að í raun ætti maður að fagna því að fá morðhótun. Þar með er einum einstaklingi færra sem hætta er á að drepi mann.
Birt á "Lífið er auðvelt" 6. júní 2006

Þ.R.A.U.K. 8: Litlir karlar á stórum dekkjum

Fyrir mörgum árum átti ég litla, rauða Mözdu, tvennra dyra bíltík sem ég komst á allra minna ferða, hvert á land sem var í öllum veðrum. Hún klessulá á öllum vegum þegar ég sentist landshluta á milli og á henni gat ég skotist eins og rotta um öngstræti hundraðogeins og lagt henni hvar sem glufa gafst.Einu sinni þurfti ég að fara austur fyrir fjall um hávetur, átti að skemmta á Hótel Örk í Hveragerði. Það var mikill snjór og óvíst um færð á leiðinni þannig að áður en ég lagði á háheiðina kom ég við í Litlu kaffistofunni til að fræðast um akstursskilyrðin. Þar var mér sagt að verið væri að ryðja veginn og að ef ég dokaði við í 15 – 20 mínútur, fengi mér kaffi og kleinu og læsi blöðin, yrði heiðin mér enginn farartálmi þótt á smábíl væri. Og þá ég það.
Að þessum tíma liðnum, kaffinu drukknu, kleinunni étinni og blöðunum lesnum hélt ég áfram ferð minni. Það vakti athygli mína að á meðan ég staldraði þarna við bar hóp manna að garði sem mér þótti skemmtilegur söfnuður, því þeir áttu það allir sameiginlegt að vera litlir, þybbnir karlar með skalla. Fyrst hélt ég að hér væri einhver stuðningshópur lítilla, sköllóttra bumbukalla á ferð, en þegar ég kom út á planið fyrir utan sá ég hvernig í öllu lá. Á planinu voru jeppar, jafnmargir og karlarnir, allir á dekkjum jafnstórum Mözdunni minni (þ. e. a. s. bifreiðinni sjálfri, ekki dekkjunum undir henni). Ég brosti með sjálfum mér og fór yfir heiðina til Hveragerðis, gjörsamlega vandkvæðalaust, og skemmti fólkinu eins og best ég gat.
Seinna fór ég að velta þessu fyrir mér og reyna að setja það í samhengi. Þá varð mér ljóst hvað er á bak við þessa jeppaáráttu og hvað þessir karlar eru að bæta sér upp. Þessi farartæki eru greinilega fyrir lágvaxna kyrrsetumenn svo þeir komist út úr bænum sitjandi kyrrir. Þeir fara saman í hópum, einn á hverjum bíl, þannig að þeir þurfa að koma við á Litlu kaffistofunni til að fá einhvern félagsskap út úr sportinu. Ég reikna með að þeir hafi komið þar við til að spjalla saman, nema þeim hafi staðið jafnmikill stuggur af færðinni og mér á Mözdunni minni.
Hugsanaferlið á bak við þessa íþrótt er nokkurn veginn svona: "Ég er svo lítill og feitur að ég verð að fá mér eitthvað tómstundagaman til að láta mér líða betur með sjálfan mig. Ég veit! Ég kaupi mér jeppa til að komast allra minna ferða allan ársins hring, svona eins og hver maður getur gert á japönskum smábíl ef hann á annað borð kann að keyra og þarf ekki beinlínis lífsnauðsynlega á því að halda að geta anað út í hvaða ófærð og fárviðri sem er fyrirvaralaust. En ég set á hann svo stór blöðrudekk að ég kemst ekki upp í hann hjálparlaust – til þess að geta keyrt hann þar sem ekki á að keyra bíla, utan vega og uppi á jöklum og svoleiðis. Þetta get ég gert í félagsskap annarra sem vita ekkert skemmtilegra en að sitja einir í bíl. Þannig getum við dúllað okkur við að "vera í samfloti" frekar en að verða samferða og hafa félagsskap hver af öðrum. Skítt með það þótt þannig spænum við upp vegi og land á kostnað samborgaranna og mengum umhverfið margfalt á við það sem þyrfti til að komast á þessa sömu staði, til dæmis fótgangandi. Ef ég gerði það myndi ég kannski hrista af mér spikið og verða myndarlegur og í kjölfarið missa þessa knýjandi þörf fyrir að eiga stóran jeppa."
Ég ætla ekki að þræta fyrir það að þetta eru magnaðir bílar og að í verstu stormunum yfir háveturinn geta þeir verið hentugir fyrir afdalabændur, landsbyggðarlækna og sveitapresta. Aðrir hafa eiginlega ekkert við þá að gera. Jú, það er hægt að fara á þeim upp á jökul í stað þess að gera það á skíðum og þannig lágmarka útvistina og hreyfinguna sem af því fæst og um leið valda heilmiklu raski. Ég las meira að segja um það fyrir nokkrum árum að einhverjum hefði tekist að fara á svona bíl upp á Hvannadalshnjúk. Ferðin tók á annan sólarhring, en þennan spöl er hægt að labba fram og til baka á einum eftirmiðdegi ef maður sleppir því að drösla tveim tonnum af stáli með sér.
Gallinn er að þegar þessir labbakútar húrra á umhverfisslysunum sínum ofan í einhverjar holur uppi á jökli þarf að ræsa út bandaríska herinn til að bjarga lífi þeirra. Að réttlæta Íslandsdvöl þessa stolta kostunaraðila fyrirbæra á borð við Víetnamstríðið, Íraksstríðið og Guantanamo með því að annars væri enginn til að ná þessu liði ofan af jöklinum aftur er einfaldlega út í hött í mínum huga.
Auðvitað geta íbúar hinna dreifðu byggða landsins þurft á skyndilegri læknisaðstoð að halda eða sægarparnir okkar slasast við skyldustörf á hafi úti. Sömuleiðis geta þeir sem stunda heilbrigða útivist lent í hrakningum. En það ætti að mínu mati ekki að vera í verkahring Bandaríkjahers að koma þeim undir læknishendur. Lágvaxnir, gildvaxnir, tekjuháir og hégómlegir kyrrsetumenn í reykvískum úthverfum með kólestrólvandamál og tilvistarkreppu sem knýr þá til að fara sér að voða á fjöllum uppi á tilgangslausum tryllitækjum sem þeir ráða ekkert við eru því máli gjörsamlega óviðkomandi.
Birt á "Lífið er auðvelt" 22. mars 2006

sunnudagur, október 08, 2006

Þ.R.A.U.K. 7: Lítil hugleiðing um listina að sannfæra fólk um ágæti einhvers með því að segja ekkert um það

Ég er mikill aðdáandi sannfæringarkrafts. Sjálfur hef ég í gegn um tíðina öðru hverju staðið mig að því að hafa sannfært sjálfan mig um augljósustu rökleysur með sannfæringarkraftinn einan mér til fulltingis. Sannfæringarkraftur er líka mikilvægur í auglýsingum. Það er ekki nóg að segja að það sem er verið að selja sé gott, það þarf að segja það þannig að engu sé líkara en að þeim sem tali sé það mikið hjartans mál að enginn efist um að svo sé.
Nú er til dæmis verið að auglýsa ameríska bifreiðategund í sjónvarpinu. Ekki ætla ég að draga í efa að þetta sé út af fyrir sig ágætisbíll og vissulega heyrir maður ekki betur en að lesarinn sé sannfærður um að svo sé þegar hann segir: "Einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum!" Ég held að ég hafi þurft að heyra þessa auglýsingu tíu sinnum þegar ég hætti að heyra hvernig þetta var sagt og fór að heyra hvað var sagt. Þetta er nefnilega alveg skelfilega veik fullyrðing þegar orðin ein eru skoðuð. Hvað er í raun verið að segja mér? Í fyrsta lagi að þetta er ekki vinsælasti bíllinn neins staðar, hvorki Bandaríkjunum né annars staðar ... aðeins að þetta sé "einn vinsælasti" bíllinn. Hvað þýðir það nákvæmlega? Sjá fjórði vinsælasti? Einn af hundrað vinsælustu?
Í öðru lagi er ekki einu sinni fullyrti að þetta sé einn vinsælasti bíllinn svona almennt heldur einungis "í sínum flokki". Hvaða flokkur er það? Eru það bílar af svipaðri stærð? Bílar í svipuðum verðflokki? Bílar af svipaðri stærð í svipuðum verðflokki? Amerískir bílar í svipaðri stærð og á svipuðu verði? Í ljósi þess að þetta er frekar lítill amerískur bíll getur samkeppnin ekki verið mikil.
Í þriðja lagi er þetta ekki einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki, hver sem hann svosem er, neins staðar annars staðar en "í Bandaríkjunum" – þar sem hann er framleiddur. Þetta er ekki "einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki" ... punktur. Nei, það þarf að þrengja það niður í framleiðslulandið eitt til að þessi veika fullyrðing eigi við rök að styðjast.
Fyrirvarinn er í raun orðinn þrefaldur! Þegar að er gáð segir yfirlýsingin: "Einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum" nefnilega ekkert annað en: "Sumir aka um á svona bíl í landinu þar sem hann er framleiddur!" En það myndi náttúrlega enginn kaupa bíl sem ekki hefur neitt annað sér til ágætis en það, sama hvað það væri sagt af miklum sannfæringarkrafti.
Birt á "Lífið er auðvelt" 5. mars 2006

Þ.R.A.U.K. 6: Ísland

Ísland er glæsihöllin mín háa
og heim þangað glaður ég sný.
Ísland er kotið mitt kalda og lága
sem kúldrast ég dapur í.

Ísland er ferskt eins og angan úr grasi
og ylhýrt sem vorsins þeyr.
Ísland er gamall og úreltur frasi
sem enginn skilur meir.

Ísland er sigrar og ánægjustundir,
afrek og hetjudáð.
Ísland er byrði sem bogna ég undir
er brestur mig þrek og ráð.

Ísland er sanna ástin mín stóra,
ástríðna logandi bál.
Ísland er gömul og útjöskuð hóra,
örmagna á líkama og sál.

Birt á "Lífið er auðvelt" 6. febrúar 2006 (hefur verið breytt örlítið)

laugardagur, október 07, 2006

Yfirlýsing

Eyvindur Karlsson er ekki allra fremur en snjallir menn hafa nokkurn tímann verið. Einhverjum er meira að segja beinlínis í nöp við hann. Hann ætti ekki að kippa sér upp við það. Atli Heimir Sveinsson ofursnillingur orðaði ástæðuna fyrir því einna best í nýlegu viðtali þegar hann var spurður að því hvort það hefði ekki virkað niðurdrepandi á hann hve illa honum var tekið í upphafi ferils síns. Hann sagði: "Mér fannst ég ekkert vera í vondum félagsskap. Ég veit ekki betur en helstu listamönnum þjóðarinnar hafi verið illa tekið. Það var alltaf verið að segja manni að Jón Leifs gerði vonda tónlist. Hann var eini maðurinn sem gerði eitthvað sem var varið í. Það var sagt að Steinn Steinarr kynni ekki að yrkja. Hann bar af öðrum skáldum. Það var sagt að Halldór Laxness væri sérlega vondur rithöfundur, hann var langbestur."
Eyvindur er fastur pistlahöfundur á Rás 2 um þessar mundir þar sem hann gerir út á að flytja "pólitískt vitlausar" hugleiðingar um lífið og tilveruna. Í þessum pistlum sínum hefur hann m. a. líkt Magnúsi Scheving við Adolf Hitler, hæðst að kvenfólki og gefið í skyn að Gunnar í Krossinum og hans líkar séu barnamorðingjar. Aldrei hefur hann fengið nein viðbrögð við þessum pistlum sínum fyrr en núna. Í þessari viku varð honum það nefnilega á að hæðast að trúleysingjum og þá fyrst var eins og hann færi yfir strikið. Vanþóknunarbylgja mikil skók Ríkisútvarpið í kjölfarið og hávær krafa um afsökunarbeiðni kom frá sjálfum skynsemihyggjuprédíkurunum og vitsmunadýrkendunum í Vantrú. Fyrir vikið verður í framtíðinni hægt að bæta við framansögð orð Atla Heimis: "Að Evindur Karlsson væri ekki fyndinn. Hann var hillaríus." Því viðbrögð Vantrúarmanna eru auðvitað brandari vikunnar.
Þeir þykjast þess umkomnir að vaða með fúkyrðaflaumi, skítkasti og skömmum yfir það sem öðrum er kært og heilagt í skjóli þess hvað Kalli biskup, Gunnar í Krossinum og kerlingin sem skrifaði greinina í Moggann hérna um árið hafa verið vondir við þá í gegn um tíðina. Þeir mega kalla heilt trúfélag Nasistaflokk Íslands, presta annað hvort greindarskerta eða siðlausa og guðfræðimenntun nám í að tala gegn betri vitund (eða "skinhelgi" eins og ég kallaði það og er strax farinn að dauðsjá eftir að hafa kennt þeim það orð, því framvegis munu þeir sennilega nota það yfir hugsun sem þeir þurftu áður heila aukasetningu til að tjá). Þegar mér sárnar þessi aðför að akademísku gildi menntunar minnar og lífgefandi mætti trúar minnar, saka þá um dónaskap og bið þá vinsamlega að gæta orða sinna ... þá leysast þeir hins vegar upp í 14 ára stelpur í dramakasti fastar í líkama fullorðinna karlmanna, finnst að sér vegið á ómaklegan hátt og neita að hætta að grenja fyrr en maður segir "Fyrirgefðu".
Nú geng ég undir nafninu "Davíð Þór óheiðarlegi" í einhverjum glugga með bloggurum og bý við það að hafa neyðst til að vernda sálarheill mína með því að hætta að taka þátt í asnalegu samtali undir "Rökþrota! Rökþrota!" hrópum vantrúarofstækismanna – þegar öllum mátti ljóst vera að ég nennti bara ekki að eyða ævinni í að tyggja ofan í þá það sem allir nema þeir sjálfir voru löngu búnir að átta sig á. Ég benti nákvæmlega á slóðir fjölmargra yfirlýsinga sem ég taldi handan velsæmismarka. (Ég nenni ekki að linka á þær hér í þriðja eða fjórða sinn í þessari umræðu.)
(Þeir brugðust meðal annars við með því að telja það dæmi um lélegan lesskilning minn að mér þætti ósanngjarnt að fullyrða að "það yrði friðvænlegra í heiminum ef trúarbrögð legðust af," sem haft var eftir Messíasi þeirra trúleysingjanna, Dawkins. Hvað um það – það er önnur umræða sem ég ætla ekki að ýta úr vör, en sjálfsagt myndu þeir í Vantrú ekkert kippa sér upp við að fullyrt væri "að friðvænlegra væri í heiminum ef trúleysi legðist af" eða hvað?)
Þegar ég síðan var búinn að sýna fram á það með dæmum að bloggari að nafni Örvitinn og fastur penni á Vantrú væri sennlega kominn á bak við lás og slá fyrir að svívirða meiðyrðalöggjöfina (og hér er ég alls ekki að mæla með fangelsun hans) hefði hann skrifað í blöð en ekki á netið kom hin gáfulega athugasemd: "Ekki eru allir trúleysingjar Örvitinn." Því er til að svara að ég veit það vel. Enda sagði ég það aldrei. Og nú ætla ég að gefa mér leyfi til að byrsta mig aðeins:
HVERNIG VÆRI AÐ LESA HELVÍTIS HANDRITIÐ ÁÐUR EN FARIÐ ER AÐ ANDSKOTAST YFIR ÞVÍ SEM Í ÞVÍ STENDUR???
Ég sagði orðrétt: "Þeir sem trúa því að Guð sé skáldskapur virðast því miður allmargir ..." ATH. allmargir, ekki allir (hver er með lélegan lesskilning?) "... hafa gefið sjálfum sér leyfi til að míga á helstu kurteisisreglurnar sem ætlast er til þess að þeir sem trúa öðru um Guð fylgi í sínum boðskap. Vanhugsuð og heimskuleg orð sem páfi lét nýlega falla um múslima eru beinlínis vingjarnleg miðað við sumt sem guðleysingjar setja á prent ..." Eða sagði páfinn kannski að banna ætti Islam með lögum eins og Jóni Frímann Blogg finnst eðlilegasti hlutur í heimi að segja í athugasemd hér á þessari síðu? Kallaði hann Islam kannski "ómerkilega lygaþvælu" sem varða ætti við lög, orð sem Birgir Baldursson veigrar sér ekki við að viðhafa í umræðu um trúmál á vefsvæði þeirra piltanna? "... svo sem að ekki séu þeir sem eiga sér trú einasta fáfróðir, illgjarnir og skinhelgir ..." (sjá hér að ofan) "... heldur að trúin sé beinlínis orsök alls ills."
Ég get beðist afsökunar á nákvæmlega einu orði. Einu orði! Orðinu "alls". Hefði ég haft lengri tíma til að vinna þessa grein hefði ég við nánari athugun sleppt því og getað staðið fullkomlega við hvert orð. Hafi þetta gert einhvern "bitran yfir óheiðarleikanum" biðst ég afsökunar á því.
Eigum við að snúa dæminu við? Skoðum fullyrðinguna: "Allmargir kristnir menn hafa farið langt yfir öll velsæmismörk í orðum sínum um trúleysi." Ég hefði ekki einu sinni hugmyndaflug til að móðgast ef ég heyrði þetta af því að það myndi einfaldlega ekki hvarfla að mér að átt væri við mig. Sennilega myndi ég kynna mér rökstuðninginn á bak við yfirlýsinguna og enda á því að taka undir hana, enda lítill jábróðir Kalla biskups og þaðan af síður Gunnars í Krossinum. Hvers vegna eitthvað af því sem ég sagði ætti að ganga fram af þeim sem ekki vissu upp á sig skömmina er mér því fullkomlega hulin ráðgáta.
Hver getur lesið í pistlinum (sem hér er allur) að ég telji "bannað að gagnrýna trú og trúfólk" eins og hér er fullyrt, en neðar á sömu síðu er ég síðan sakaður um að gera trúleysingjum upp afstöðu.
Það er sorgleg staðreynd að ofvirkir, vefvæddir vantrúarofstækismenn hafa gert fjölmarga bloggara skíthrædda við að tjá sig um trúmál á netinu af því að það hefur margsýnt sig að þeir hópast eins og engisprettufaraldur inn á kommentakerfi þeirra sem voga sér það, með aðdróttunum um að trúi maður á Guð verði maður að verja allt frá umskurn kvenna til trúar á dauðar kerlingar í Grindavík! Halló?!? Er einhver hissa á að maður hafi annað við líf sitt að gera en að eiga svona spjall?
Um þessar mundir ríkir í bloggheimum ógnarþögn um trúmál af því að enginn vill jú kalla "engispretturnar" yfir sig. Hver sá sem er nógu fífldjarfur til að tjá sig um trúmál á netinu á annan hátt en þann sem hentar því hvernig Vantrú sér heiminn getur nefnilega á endanum aðeins valið um þrennt:
I. Varið því sem hann á eftir ólifað í að karpa um trú sína við menn sem mæta til umræðunnar með orðið "trúarnöttari" á vörunum og skilja ekki að nokkrum geti fundist það haldlítið upplegg fyrir gefandi skoðanaskipti. (Þetta er eins gáfulegt og að reyna að eiga síðasta orðið í rifrildi við bergmál.)
II. Neitað "að vera með í svona asnalegu leikriti" og látið kalla sig rökvana vitleysing. (Sem er særandi.)
III. Skipt um skoðun, viðurkennt að hann hafi verið úti að skíta í því sem honum var helgast og kærast og bjargaði jafnvel lífi hans og beðið Óla Gneista, Örvitann, Bigga Baldurs og hina strákana í klúbbnum afsökunar á því að hafa leyft sér þá heimsku að halda að raunveruleikinn væri öðruvísi en þeir halda ... nei ... TRÚA ... að hann sé.
Hvað skyldi það annars hafa gerst oft? Greinilega nógu oft til að þeir telji "engisprettumeðferðina" þjóna einhverjum tilgangi. Varla væru þeir svona iðnir við þetta ef þetta skilaði ekki árangri. Ég hef ekki það lítið álit á þeim að ég trúi því að líf þeirra sé svo innihaldslaust að þeim finnist þetta í raun og veru skemmtilegt.

Og þá er komið að yfirlýsingunni:

Ég viðurkenni vanmátt minn gagnvart mínum eigin tilfinningum. Mér gremst að vera borinn röngum sökum. Það særir stolt mitt að vera kallaður óheiðarlegur. Lái mér það hver sem vill. Gremja og sært stolt eru hins vegar tilfinningar sem ég hef ekki efni á eins og sakir standa, þær valda mér vanlíðan, trufla einbeitingu mína og koma í veg fyrir að ég sé fær um að sinna verkefnum sem skipta mig meira máli og eru meira aðkallandi, af þeirri alúð sem þau verðskulda og þarfnast.
Ég hef því ákveðið að varast samskipti sem ganga út á að sigra eða tapa, að hafa yfirhöndina eða að verða undir, samskipti þar sem mér finnst á mig ráðist persónulega þegar menn eru ósammála skoðunum mínum og við menn sem finnst á þá ráðist persónulega þegar ég leyfi mér að vera ósammála skoðunum þeirra. Rökræður og skoðanaskipti eru í lagi. Þetta helvíti er hvorugt.
Fyrst og fremst verð ég þó að forðast tvennt í mannlegum samskiptum og gildir þá einu hvort það er ég sem beiti því eða er beittur því: Hroki og píslarvætti.
Ég treysti mér því engan veginn til að halda áfram samræðum við aðstandendur Vantrúar, því ég tel reynslu mína og allra annarra sem það hafa reynt sýna berlega að það sé ógjörningur án þess að þær einkennist einmitt af öllu ofantöldu.

Ég hef því ákveðið að tjá mig ekki framar um trúmál opinberlega.

Í stað þess að auglýsa trú mína og afsaka ætla ég framvegis að einbeita mér að því að rækta hana.

Að sjálfsögðu mun ég þó áfram ræða trúarskoðanir mínar í bróðerni þegar trú ber á góma í einkasamtölum .
Í sjálfsvörn hef ég ennfremur gert kommentakerfi þessarar síðu óvirkt. Það verður opnað aftur að viku liðinni. Þangað til er ég með sjálfan mig í víkingameðferð við bráðameðvirkni. Ég vona að þetta mæti skilningi ykkar og mæti þetta honum ekki bið ég Guð um æðruleysi til að vera sama.
Guð blessi ykkur öll.

Þ.R.A.U.K. 5: Íslenskukennsla

Sérfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum sínum af því að íslenskan sé í útrýmingarhættu og að eftir hundrað ár verðum við farin að tala frumstæða ensku. Þótt ég sé ekki reiðubúinn til að taka undir þennan bölmóð er því ekki að neita að málfræðikunnátta mætti almennt vera meiri, ekki bara meðal sauðsvarts almúgans heldur líka meðal þeirra sem fást við ritaðan og talaðan texta. Mig langar því til að leggja mitt af mörkum til viðhalds móðurmálinu með því að miðla eilítið af þekkingu minni hér á þessari síðu.
Eitt af því sem fáir ráða við að gera rétt er að nota orðasamböndin "hver annar" og "hvor annar". Gildir þá einu hvort það er í töluðu máli eða á prenti. Til dæmis er hreinlega hending að sjá þetta gert rétt í dagblöðum sem er ekkert skrýtið, enda liggur þetta alls ekki í augum uppi auk þess sem blaðamönnum er almennt margt betur til lista lagt en að fara vel með íslenskt mál. Þetta er flókið og erfitt málfræðiatriði og sjálfur var ég til að mynda kominn á þrítugsaldur þegar mér loksins varð ljóst hvernig á að gera þetta rétt.
Þannig er nánast algilt að sagt sé: "Strákunum er illa við hvorn annan." Þetta er rangt. Hér er um það að ræða að "hvorum" stráknum er illa við "annan". Rétt er því að segja: "Strákunum er illa hvorum við annan." Þá að því tilskildu að strákarnir séu aðeins tveir. Ef þeir eru fleiri er rétt að segja: "Strákunum er illa hverjum við annan," ekki: "... við hvern annan" þar sem "hverjum" er illa við "annan."
Möguleikarnir eru fjórir: hver ... annar, hvor ... annar, hverjir ... aðrir og hvorir ... aðrir. Förum yfir þetta lið fyrir lið.
1. ... hvor annar
Þegar tveir (tvær, tvö) eiga hlut að máli notar maður orðasambandið "hvor annar" ("hvort annað" eða "hvor önnur"). Einfaldast er að útskýra þetta með dæmum:
"Hundurinn og kötturinn forðast hvorn annan" er rangt. "Hvor" forðast "annan" og því er rétt að segja: "Hundurinn og kötturinn forðast hvor annan." Þegar forsetning er með í spilinu gerir hún þetta flóknara á yfirborðinu en grunnreglan er sú sama: "Hundinum og kettinum er illa við hvorn annan" er þarafleiðandi rangt. Hér er um það að ræða að "hvorum" er illa við "annan" og því rétt að segja: "Hundinum og kettinum er illa hvorum við annan." Hér gildir kyn orðanna einu. "Dýrunum er illa við hvort annað" er sem sagt rangt og ætti að vera: "Dýrunum er illa hvoru við annað" þar sem "hvoru" dýrinu er illa við "annað".
Kyn orðanna og föllin breyta ekki reglunni. "Læðan og tíkin eru andstæðingar hvor annarrar" er rétt, en ekki "hvorrar annarrar". Önnur "hvor" þeirra er nefnilega andstæðingur "annarrar" þeirra. Séu tvær skyrtur settar saman í þvottavél geta þær flækst "hvor í annarri" en ekki "í hvorri annarri".
2. ... hver annar
Þegar þrír (þrjár, þrjú) eða fleiri eiga hlut að máli notar maður "hver annar" ("hvert annað" eða "hver önnur"). Reglan er sú sama og um "hvor annar".
"Stjórnmálaflokkarnir berjast við hvern annan um atkvæði" er rangt. "Hver" berst við "annan" og því er rétt að segja: "Stjórnmálaflokkarnir berjast hver við annan um atkvæði." Kynið breytir ekki reglunni. "Fylkingarnar berjast hver við aðra" ekki "við hverja aðra" – því "hver" fylking berst við "aðra".
Á sama hátt eru fylkingarnar andstæðingar "hver annarrar" en ekki "hverrar annarrar" því "hver" fylking er andstæðingur "annarrar". Þannig eru flokkarnir jafnframt andstæðingar "hver annars" en ekki "hvers annars", "hver" flokkur er jú andstæðingur "annars". Flokkar bjóða því ekki fram "gegn hverjum öðrum" heldur "hver gegn öðrum" og ólíkar fylkingar berjast "hver gegn annarri", ekki "gegn hverri annarri".
3. ... hvorir aðrir
Orðasambandið "hvorir aðrir" ("hvorar aðrar", "hvor önnur") er notað þegar um tvo hópa er að ræða, það er að segja þegar báðir aðilar eru fleirtöluorð.
"Kommúnistar og kapítalistar eru andstæðingar hvorir annarra", ekki "hvorra annarra". "Hvorir" eru andstæðingar "annarra". "Hundar og kettir forðast hvorir aðra" ekki "hvora aðra" – "hvorir" forðast "aðra".
Eins og í hinum dæmunum geta forsetningar og kyn orða flækt þetta við fyrstu sýn, en reglan er þó alltaf eins. "Hnakkamellur og pönkaragellur forðast hvorar aðrar" ("hvorar" forðast "aðrar") og: "Hnakkamellum og pönkaragellum er illa hvorum við aðrar" ("hvorum" er illa við "aðrar").
Hafa ber í huga að tala orða er einvörðungu málfræðilegt atriði. Þannig er "fylking" eintöluorð á meðan "buxur" er fleirtöluorð. Séu tvennar buxur settar saman í þvottavél geta þær því flækst "hvorar í öðrum" ("hvorar" flækjast í "öðrum") en ekki "í hvorum öðrum". Þaðan af síður geta þær flækst "hvor í annarri" og alls, alls ekki "í hvorri annarri".
4. ... hverjir aðrir
Þetta orðasamband er notað þegar aðilar eru þrír eða fleiri og allir fleirtöluorð. "Sjálfstæðismenn, kratar og sósíalistar keppa hverjir við aðra um atkvæði." "Hverjir" keppa við "aðra". Þrennar gallabuxur flækjast "hverjar í öðrum".
Ég hef þetta ekki lengra að sinni og vona að þetta geti orðið einhverjum að gagni í meðferð móðurmálsins. Ég ítreka að þetta er eitt af því sem fæstir gera rétt og þessum leiðbeiningum alls ekki ætlað að vera settar fram af neins konar yfirlæti heldur einungis í auðmjúkri viðleitni til þess að leggja mitt af mörkum til vandaðrar málnotkunar og viðhalds tungunni. Menn eiga jú að vera óhræddir við að bjóða hver öðrum aðstoð.
Vonandi verður þess ekki langt að bíða að blaðamenn beri gæfu til að skrifa um að Íslendingar ráðist hver á annan og veiti hver öðrum áverka eins og sönnum víkingum sæmir, en ekki að þeir séu að ráðast "á hvern annan" og veita "hverjum öðrum áverka" eins og illa talandi aumingjar.
Birt á "Lífið er auðvelt" 29. janúar 2006

föstudagur, október 06, 2006

Þ.R.A.U.K. 4: Leyfi til að hræsna

Hinn geðþekki leikari Roger Moore bættist nýverið í ört stækkandi hóp Íslandsvina. Hann kom hingað til að láta gott af sér leiða og vekja máls á þeirri skelfilegu staðreynd að dag hvern deyja 40.000 börn úr hungri hér á reikistjörnunni. Gott verk og þarft. Mér skilst að karlinn hafi boðið af sér góðan þokka í hvívetna og heyrði ekki betur en að hann léti býsna vel af kynnum sínum af landi og þjóð. Ég sá viðtal við hann í Kastljósinu þar sem hann fór fögrum orðum um galakvöldverðinn sem haldinn var og hve mikið fé safnaðist þar handa bágstöddum. Gott ef hann lét ekki í ljós sérstaka aðdáun á því að jafn fámenn þjóð og Íslendingar gæti snobbað á heimsmælikvarða.
Reyndar hafði ég frétt af þessu partíi og uppboði sem þar var haldið, meðal annars seldist ómálað málverk á 21 milljón og einhver borgaði nokkrar milljónir fyrir að fá að segja veðurfréttir í sjónvarpinu. Ég ætla ekki að draga það í efa að þessir peningar muni koma að góðum notum í baráttunni gegn hungri og vosbúð í fátæku löndunum. En eitthvað við þetta allt saman gerði það nú samt að verkum að mér varð óglatt.
Vandamálið er nefnilega misskipting auðsins. Þeir sem slett geta fram tugum milljóna fyrir málverk upp á von og óvon um hvort þeir eigi eftir að fíla það og finnst sniðugt að flagga ríkidæmi sínu með því að borga árslaun verkamanns fyrir að sjást í sjónvarpi ... þeir eru með öðrum orðum vandamálið – EKKI lausnin.
Það er eitthvað ferlega ógeðfellt við það að vestræn efnishyggja haldi óhófi sínu veglegan fögnuð til styrktar fórnarlömbum sínum. Það ber siðferðisvitund þjóðarinnar ekki fagurt vitni að enginn skuli sjá tvískinnunginn sem þarna tröllríður húsum, að frá þessu sé sagt eins og sniðugri, jafnvel svolítið sætri og krúttlegri sérvisku ríka fólksins sem undir niðri er svo vel innrætt að það vill láta gott af auðlegð sinni leiða.
Enn ógeðfelldara er þó að með þessu er þeim sem feitustum hesti ríða frá nauðgun þriðja heimsins, frumforsendu vestrænnar velmegunar, stillt upp sem einhverjum mannkynslausnurum og þeim veittur stimpill upp á göfugt innræti. Ógeðfelldast er þó þegar gefið er í skyn að deyjandi börn kúgaðra þjóða standi í einhverri þakkarskuld við þetta pakk. Það má líkja þessu við að taka ránmorðingja í dýrlingatölu fyrir að láta brotabrot af þýfinu renna til aðstandenda fórnarlambsins.
Sá sem vill slá sjálfan sig til riddara með því að rétta fátækum manni brauð og er svo ósmekklegur að finnast við það tilefni vera við hæfi að hlaða á sig skartgripunum sínum (hverra andvirði gæti brauðfætt meðalstórt þorp í eitt ár) á ekki skilið hól heldur löðrung. Þessi kvöldstund var hátíð til dýrðar vandamálinu, ekki lausninni. Það þarf einhverja óskiljanlega siðblindu til að geta ruglað þessu tvennu svona gjörsamlega saman.
Birt á "Lífið er auðvelt" desember 2005

Þ.R.A.U.K. 3: Frægi karl vikunnar

Ég veit þetta eitt: Að þú eldist, svo deyrðu.
Á endanum hverfurðu sýnum
og sést ekki framar í Séðu og heyrðu
í samkvæmisfötunum þínum.

Þú heldur að þá beygi alþýðan af
af því að þú sért svo dáður
og síðan farist himinn og haf.
En heimurinn snýst eins og áður.

Og þú verður gleymdur Pétri og Páli
og pöplinum horfinn úr minni
og allt það sem skipti þig einhverju máli
mun eyðast í gröfinni þinni.

Birt á "Lífið er auðvelt" 29. nóvember 2005

fimmtudagur, október 05, 2006

Þ.R.A.U.K. 2: Ó, að allt væri alltaf eins og það var þegar það var best!

Ég var að hlusta á útvarpið í dag, nánar tiltekið á Helga Björns syngja með miklum ágætum eitthvað lag eftir Magnús Eiríksson. Í því kom fyrir setningin: "Hvenær verður allt eins og áður?" eða eitthvað á þá leið. Fínt lag og tiltölulega aulahrollslaus texti eins og yfirleitt úr þeirri átt. En Magnús er alls ekki eina skáldið sem ort hefur eitthvað á þessa leið. Svo virðist vera að sú hugmynd að draga ánægjustundir lífsins eins mikið á langinn og kostur er sé eftirsóknarverð í hugum ótrúlegra margra. Ég vil leyfa mér að vera ósammála, ekki bara á forsendunum: "... ef það væru alltaf jólin ..." o. s. frv.
Það er eðli lífsins að það heldur áfram. Það líður og það sem leið er og verður liðið. Jafnvel mesti ánægjudagur lífsins yrði að "Groundhog Day" kvalræði ef maður þyrfti að ganga í gegn um hann nokkurhundruð sinnum í röð. Ekki vildi ég að "allt yrði eins og áður" jafnvel þótt þetta "áður" vísaði til mestu gleðistunda lífs míns. Ef allt yrði aftur eins og það var þá ... þá gæti ég ekki minnst þeirra stunda, hlýnað um hjartaræturnar og fyllst þakklæti fyrir að hafa fengið að upplifa þær.
Allt sem lifir tekur breytingum. Reyndar heldur það líka áfram að taka breytingum eftir að það deyr en þá er það dautt svo það nær ekki að verða vitni að þeim. Ef lífið væri alltaf eins og það var þegar það var best væri það ekki líf. Það væri ekki einu sinni dauði. Það væri einhvers konar steingervingur með meðvitund ... örlög verri en dauðinn!

Kannski er ekki að marka mig og auðveldara fyrir mig en flesta að vera laus úr viðjum fortíðardýrkunarinnar, en ég bý við það að fortíð minni hefur verið mokað upp á vörubílspalla og dreift um byggðir landsins.
Ég var í sveit á hverju sumri fram að fermingu hjá afa mínum og ömmu á Stóru-Fellsöxl í Skilmannahreppi. Þar voru iðjagræn tún, kýr á beit, mjór malarvegur fram hjá bænum og urð og melar fyrir ofan bæinn alveg upp í fjall. Gömlu hjónin voru nítjándualdarfólk, fædd í torfbæjum löngu fyrir vélvæðingu sveitanna. Þau urðu vitni að meiri samfélagsbreytingum en nokkur önnur kynslóð Íslendinga. Á bænum var farið með rímur, kveðist á og afi minn kenndi mér ferskeytlur og undirstöðuatriði bragfræðinnar. Á haustin fór ég síðan heim í Vesturbæinn í Reykjavík. Ég ólst með öðrum orðum upp í skáldsögu eftir Ármann Kr. Einarsson. Nema Ármann hefði líklega ekki haft hugmyndaflug til að setja malagryfju í jaðarinn á heimatúninu.
Þegar ég var lítill var malargryfjan bara lítil hola þar sem skurðgröfur náðu öðru hverju í vörubíl og vörubíl af möl þegar einhvers staðar vantaði möl í nágrenninu. Einhvern tímann á unglingsárum mínum gerðist það hins vegar að ákveðið var að reisa járnblendiverksmiðju í landi næsta bæjar, Klafastaða. Hún gengur í dag undir nafninu Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga. Þetta kostaði miklar vegaframkvæmdir, mikla möl.
Síðar var ákveðið að bora göng undir Hvalfjörðinn og leggja Hringveginn í gegn um þau, með þeim afleiðingum að nú liggur hann um túnin hans afa míns, þar sem áður var mjór malarvegur með þriggja stafa númeri (afleggjari af afleggjaranum út á Akranes). Í það þurfti líka mikla, mikla möl.
Gömlu hjónin brugðu búi, húsið lenti fljótlega í niðurníðslu og hefur nú verið rifið. Þegar maður ekur um Þjóðveg 1 undir Akrafjalli má sjá skrýtinn trjálund uppi í hlíðinni, litlu norðan við Fellsenda, lítinn reit með undarlega háum trjám. Þetta er garðurinn sem áður var við bæinn Stóru-Fellsöxl. Á ferðum mínum um landið renni ég stundum upp að gamla bæjarstæðinu og labba þar um, svona til að jarðtengja mig og muna hvaðan ég kem (einhvern veginn finnst mér það hjálpa mér að átta mig á því hver ég er að minna mig á það hvaðan ég er).
Stundum labba ég út fyrir jaðarinn á heimatúninu og skoða gömlu malarnámuna. Hún er horfin. Reyndar er allt horfið, melarnir og móarnir sem ég rak kýrnar um í gamla daga ... horfið. Þarna er eitt gapandi tóm. Megninu af jörðinni hans afa míns hefur verið mokað burt, margir hektarar (að því er mér finnst) af æskuslóðum mínum eru horfnir, farnir – þar er nú laust loft og margir metrar niður á fast land sem er bara sandur og sviðin jörð eins langt og augað eygir. Landið þar sem ég steig bernskunnar spor er horfið og í staðinn er komið gat ofan í jörðina, margra metra djúpt og nokkrir hektarar að flatarmáli.
Ekki er einasta að landið sem ég rak kýrnar um sem ungur drengur sé horfið. Kýrnar eru horfnar, bærinn er horfinn, sveitabragurinn er horfinn, afi og amma eru horfin og ungi drengurinn er líka horfinn. Hann varð að manni og heimurinn varð að ... þessu.
Það er erfitt að fyllast fortíðarþrá þegar fortíðin er svona gjörsamlega horfin ... ekki bara í merkingunni liðin, dáin og grafin – heldur bókstaflega rifin niður, mokað upp á vörbílspalla og ekið burt.
Birt á "Lífið er auðvelt" 11. október 2005

miðvikudagur, október 04, 2006

Ofstækisvaktin

Skrif mín um vantrúarofstækið hafa vakið talsverða athygli og eins og gefur að skilja hefur fólk skiptst í tvö horn, þá sem fannst þetta orð í tíma töluð (fólk sem býr við það að því finnst það hvernig áróður trúleysingja er settur fram oft á tíðum fara yfir öll velsæmismörk) og þá sem finnst trúleysingjar ekki einasta hafa rétt til þess að tala um alla trú af sama virðingarleysi og stöku trúmenn hafa talað um trúleysi þeirra heldur sé það nánast skylda þeirra. Auðvitað eru líka til hófsemdarmenn í hópi trúleysingja sem segja aðeins: “Nú skiljið þið kannski loksins hvernig okkur líður.” En það réttlætir auðvitað ekki að sparka í litlu systur sína að stóra systir hafi sparkað í mann fyrst.
En vegna góðu viðbragðanna (í tvígang var hringt heim til mín daginn sem hann birtist til að þakka mér fyrir – en það hefur ekki gerst áður) dettur mér í hug að það löngu sé tímabært að áróðri trúleysingja sé veitt sama aðhald og trúleysingjar hafa nú um allnokkurt skeið veitt trúaráróðri. Ég hef nefnilega töluvert verið inni á vef þeirra, vantrú.net, og verð að segja eins og er að mér finnst nánast hver einasta grein þar vera efni í aðra grein þar sem fordómarnir, ofstækið og rökvillurnar sem þar vaða uppi væru afhjúpuð.
Því langar mig að biðja þá sem eru sama sinnis og ég að gefa sig fram við mig til að við getum stofnað netsíðu í sameiningu sem hefði þessi markmið:
Að verja rétt fólks til að trúa.
Að verja rétt fólks til að vera ekki gerðar upp skoðanir sem ekki eru hluti af trú þeirra.
Að verja rétt fólks til að vera ekki stillt upp við vegg og gert að verja, réttlæta eða afsaka trú sína.
Að berjast gegn því að trú fólks sé dæmd út frá trú eða gjörðum annarra en þess sjálfs.
Að berjast fyrir því að trú sé sýnd virðing.
Að vinna að þessum markmiðum með því að grandskoða rækilega allan áróður gegn trú og afhjúpa opinberlega alla þá fordóma, rökvillur og ofstæki sem í honum kunna að birtast.

Áhugasamir þurfa að eiga sér trú, vera rökfastir, sanngjarnir og sæmilega vel skrifandi á íslenskt mál. Setjið nöfn og netföng í orðabelginn og þið verðið boðuð á stofnfund innan tíðar.

Þ.R.A.U.K. 1: Lífið er auðvelt

Mig langar til að deila með ykkur uppgötvun sem ég er tiltölulega nýbúinn að gera og mér finnst alveg stórmerkileg. Ég geri mér grein fyrir því að þessi uppgötvun á eftir að verða umdeild, enda gengur hún þvert á viðteknar skoðanir á viðfangsefninu og gæti valdið uppþoti meðal þeirra fjölmörgu sem helgað hafa líf sitt því að vera öndverðrar skoðunar, hafa jafnvel hagað lífi sínu gagngert þannig að það sanni hið gagnstæða. Þessi merka uppgötvun er á þessa leið: Lífið er auðvelt.
Já, ég veit að þetta hljómar eins og hroki og sjálfumgleði. Einhverjir kunna að hugsa sem svo: "Það má vera að þitt líf sé auðvelt, en þú ættir nú að fara varlega í svona alhæfingar, vinur minn. Þú veist sko ekki hvernig það er að vera ég." Því er rétt að ég útskýri þetta betur. Lífið er auðvitað ekkert auðvelt ef maður vill ekki hafa það þannig. Ef maður gengur um hokinn af þeirri sannfæringu að lífið sé ein þrautaganga um dimman táradal þá bregst það auðvitað ekki, þá munu eymd og erfiðleikar blasa við manni hvert sem litið er. Hvert verk sem þarf að vinna verður auðvitað mun erfiðara ef maður gengur til þess með því hugarfari að þetta verði nú ljóti þrældómurinn sem ósanngjarnt sé af lífinu að leggja á mann. Það er því kannski rétt að bæta aðeins við fullyrðinguna svo hún verði ekki misskilin. Lífið er auðvelt þegar maður hættir að gera sér það erfitt.
Á Skjá einum er um þessar mundir verið að sýna þætti sem heita Worst Case Scenario, sem útleggja mætti sem "Það versta sem getur gerst". Þessi þáttur er sérhannaður fyrir vænisjúka Ameríkana og gengur út á að leiðbeina fólki um það hvernig það getur bjargað lífi sínu þegar allt fer í hund og kött. Þarna er fólki meðal annars kennt að henda sér út úr bifreið á ferð, að bregðast rétt við því þegar brjálaður bílstjóri reynir að þvinga það út af veginum og hvað það á að gera ef bremsurnar bila þegar það er einmitt á fleygiferð niður í móti eftir þröngum og kræklóttum vegarslóða. Sjálfsagt eru þetta allt þarfar og góðar upplýsingar og gott að búa að þessari þekkingu þegar maður lendir í þessum aðstæðum. En þegar líf manns er orðið eitt Worst Case Scenario ætti maður kannski að hugsa sinn gang aðeins. Við megum ekki gleyma því að líkurnar á því að maður lendi í þessum kringumstæðum eru hverfandi. Og þegar maður getur ekki farið í bíltúr án þess að vera ávallt viðbúinn því einhver reyni að þvinga mann út af veginum, bremsurnar hætti að virka á lífshættulegum stað og maður verði að vera tilbúinn til að fleygja sér út úr bílnum á ferð ... þá er nú ánægjan af sunnudagsbíltúrnum orðin ansi lítil, ekki satt?
Það er nefnilega ekki það sama að vera viðbúinn hinu versta og að búast stöðugt við hinu versta. Það fyndna er að þegar í harðbakkann slær þá gerir það mann ekkert hæfari til að bregðast við að hafa verið í keng árum saman af áhyggjum yfir því að svo bregðist krosstré sem önnur og allt kunni nú enn að fara á versta veg. Eiginlega þvert á móti. Þeim sem helgað hefur líf sitt og vilja því að það sé kvalræði að vera til og bara tímaspursmál hvenær allt fari í kaldakol fellur allur ketill í eld þegar út af ber, þarna fékk hann kærkomna staðfestingu á því að hans versti ótti hafi verið á rökum reistur og það sé ekki til neins að ætla að stríða gegn beiskum forlögunum, á meðan sá sem er sannfærður um að lífið sé auðvelt áttar sig á því að þetta hefði nú getað farið miklu verr og það hljóti nú að vera hægt að kippa þessu í liðinn.
Þetta er ekki bara eitthvað innihaldslaust hamingjuþrugl í mér, ef þið haldið það. Nei, vísindalegar rannsóknir á heppni hafa leitt í ljós að heppið fólk er í raun ekkert heppnara en annað fólk. Það sem heppið fólk á meðal annars sameiginlegt er að það sér tækifæri þar sem aðrir sjá vesen og að það væntir góðs af lífinu og sú lífssýn skyggir á það sem aflaga fer, því auðvitað sleppur enginn alveg við óhöpp. Ennfremur treystir heppið fólk öðru fólki og er reiðubúið að taka áhættu. Eitt af því sem gerir lífið erfitt, eða öllu heldur: sem maður gerir líf sitt erfitt með, er nefnilega ótti við það hvað aðrir halda um mann. Þessar áhyggjur þjaka heppið fólk í minna mæli en ógæfumenn.
Það er gömul og góð speki að maður myndi hafa miklu minni áhyggjur af því hvað aðrir hugsa um mann ef maður gerði sér grein fyrir því hvað þeir gera það sjaldan. Það er nefnilega í raun alveg dæmalaus frekja að vera að gera sér í hugarlund hvað aðrir halda um mann, að ætlast til þess af öðru fólki að það sé að eyða tíma sínum og orku í að hafa á manni skoðun. Ennfremur er það hrein og bein mannfyrirlitning að ganga alltaf út frá því að fólk haldi hið versta um mann, þar með er maður ekki einasta svo sjálfhverfur að maður sé að gera öðru fólki upp áhuga á manni, heldur er maður aukinheldur að ætla því mannvonsku og illgirni. Eða svo ég vitni í þekkta dæmisögu þá er auðvitað erfitt að fá lánaðan tjakk ef það fyrsta sem maður segir við alla sem á annað borð gætu lánað manni tjakk er: "Eigðu þinn helvítis tjakk sjálfur!"
Nei, lífið er auðvelt. Og það yndislegasta við þessa fullyrðingu er að eftir því sem maður er sannfærðari um að hún sé sönn, þeim mun réttara hefur maður fyrir sér.
(pistill fluttur á Rás 1 26. ágúst 2005)
Birt á "Lífið er auðvelt" 4. október 2005

þriðjudagur, október 03, 2006

Lífið á afmæli í dag

Í dag er eins árs afmæli þessarar síðu. Hamingjuóskir af því tilefni eru þegnar. Í aðdraganda þessara tímamóta velti ég því allengi fyrir mér hvort og þá hvernig ég ætti að halda upp á þau og ákvað að þiggja/stela hugmynd frá bróður mínum. Hún lýsir sér í því að ég ætla að halda upp á afmælið alla næstu viku með því að birta einu sinni til tvisvar á dag brot af því skásta (að eigin mati) frá liðnu ári, endurtekið efni. Þessa efnisþætti hef ég af hógværð minni ákveðið að kalla Það Rismesta Af Undangengnu Klóri (skst. Þ.R.A.U.K.) og er sá fyrsti væntanlegur í fyrramálið.
Restin af þessari færslu hérna er síðan bara hugleiðingar mínar um eðli bloggs almennt og þessa ákveðna bloggs, sem í sjálfu sér er engin ástæða til að lesa sé maður ekki sérstakur áhugamaður um blogg, eðli þess og framsetningu.

Á þessu ári hef ég dálítið pælt í þeim sið að blogga og hvaða tilgangi hann þjónar eiginlega. Áður en ég tók upp á þessum óskunda hafði ég nefnilega lítinn skilning á þessu fyrirbæri og bar fyrir því litla virðingu. Mér fannst með ólíkindum að allt þetta fólk skyldi telja daglegt líf sitt eiga erindi fyrir allra augu og pælingar sínar svo djúpar og spennandi að setja þyrfti þær beint á vefinn. Síðan kynntist ég Þórunni Grétu og varð var við það hvernig hún notar bloggið sitt og þá opnaðist fyrir smá skilningsglætu hjá mér og ég ákvað að prófa, án þess að hafa í raun neina ákveðna hugmynd um hvað fyrir mér vakti.
Nú blogga ég til að vera í betra sambandi við fólk. Ég hringi til dæmis ekki daglega í Huldu, Danna bróður eða mömmu upp úr þurru bara til þess að heyra í þeim hljóðið og spyrjast fyrir um hvað þau séu að gera. Hins vegar fer ég reglulega inn á síðurnar þeirra og kem kannski með athugasemdir við færslur þeirra. Þannig á ég samtal við þau sem ég annars færi á mis við, læt vita af mér og næ að fylgjast með mínum nánustu og taka þátt í pælingum þeirra.
Sömuleiðis hef ég smám saman komið mér upp rúnti af fólki sem ég kíki reglulega á bloggið hjá. Listinn yfir það er hér til hliðar og kallast Misgáfulegt lið. Vegna titilsins er rétt að taka það fram að ég álít ekkert heimskt lið vera á honum, ég kræki ekki í heimskt lið. Allt er þetta lið að mínu mati gáfulegt, misgáfulegt þó. Ég spjalla við það um daginn og veginn, fíflast í því með alls konar athugasemdum og skiptist á skoðunum við það. Nú eða ég læt mér bara nægja að hlusta. Þetta kemur nánast í stað kaffistofunnar í vinnunni (ég er einyrki og vinn heima í stofu), en hefur þá kosti að ég þarf ekki að nuddast utan í neinum sem mér leiðist og get valið mér hverja ég hitti í kaffipásum. Auðvitað kemur þetta ekki alfarið í stað persónulegra samskipta, en fer býsna langt með það.
Ennfremur hefur þetta orðið til þess að ég hef kynnst fullt af fólki sem ég í raun þekki ekki neitt og það finnst mér skemmtilegast. Ég er til dæmis ekki alltaf sammála Hnakkusi, ég veit ekki einu sinni hvað hann heitir, en mér finnst aldrei leiðinlegt í heimsókn hjá honum (jafnvel ekki þegar mér finnst hann mætti gæta orða sinna betur). Ég álpaðist inn á síðuna hans af tilviljun af því að Hjörtur Howser er með krækju á hann. Fjallabaksleiðin er líka áhugaverð, náungi sem ég hef spjallað við en myndi varla þekkja á götu ef hann væri ekki skælbrosandi með hatt. Tótu pönk kannast ég að vísu við frá því í gamla daga. Ef við ynnum á sama stað og ég reykti færum við líklega oft í sígópásur saman. Ég heimsæki fleiri reglulega sem of langt mál yrði að nefna hér og kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir viðveruna (samveruna er ekki alveg rétt orð í þessu samhengi).
Gallinn er auðvitað sá að alls konar lið hefur aðgang að því sem maður er að pæla og gera og er í aðstöðu til að henda í mann hvaða skít sem því þóknast í orðabelgnum, einkum ef bloggið er auglýst og athugasemdirnar fara að skipta tugum. Hér eru tildæmis nokkrar sem að mínu mati eru ekki bætanna virði sem varðveita þær. Fyrir vikið getur maður lent í því að vera í bullandi vörn á sinni eigin síðu og nánast þurft að réttlæta veru sína í sínu eigin partíi. Mér finnst nefnilega eitthvað siðferðilega rangt við að þurrka út athugasemdir sem maður fílar ekki eða að lagfæra færslur eftir á. Það hef ég aðeins gert til að leiðrétta það þegar tæknin dælir sömu athugasmed oft inn og þegar mér verður það á að fara augljóslega rangt með staðreyndir (eins og í hvaða flokki menn eru), en ekki þegar ég sé eftir á að sennilega hefði ég átt að gaumgæfa orðalag hugsana minna aðeins betur áður en ég setti þær á prent. Því auðvitað hef ég stundum hlaupið á mig. Nú síðast setti ég reiðilestur um málfræðivillur í Ríkisútvarpinu inn á vefinn til þess eins að vera bent á það skömu síðar að ég hefði rangt fyrir mér, að máltilfinning mín væri einfaldlega röng skv. Orðabók Marðar. Ég varð þó alltjent fróðari fyrir vikið. Mér finnst blogg með óvirkt kommentakerfi eiginlega ekki þjóna tilgangi sínum, bloggsíða á að mínu mati vera vettvangur samskipta en ekki einhliða yfirlýsinga. Hins vegar er það mjög góð vörn gegn meðvirkni og bloggfíkn svo ég skil þá sjálfsvarnarráðstöfun vel.
Hinn gallinn er nefnleiga sá hve meðvirkur ég er að eðlisfari. Ég þarf að taka á öllu sem ég á til að finnast ég ekki stöðugt verða að vera vakandi yfir þessu, passandi síðuna eins og ungabarn og alltaf að eiga síðasta orðið í öllu sem hér er rætt og yfirhöfuð varðar mig á netinu. En við það gæti ég auðvitað orðið ellidauður (einkum þegar trúmál ber á góma). Nú er ég að vinna markvisst í því að sleppa tökunum.

Upp á síðkastið hef ég verið að föndra með mát (e. template) síðu þessarar, þ. e. hvernig ég flokka tenglana. Ég hef verið með vini, kunningja, fjölskyldu, Hafnfirðinga og þar fram eftir götunum flokkaða eftir ýmsum reglum nánast eftir því hvernig ég hef verið stemmdur frá degi til dags. Þetta hefur gert það að verkum að ég hef þurft að velta því fyrir mér hverja ég þekki, hve vel, hvernig og hvort ég þekki þennan betur en hinn, upp á það í hvaða flokki hann eigi heima. Þetta leiddist mér og ákvað þess vegna að setja bara alla í einn flokk. Þetta þýðir reyndar að góðir vinir mínir eins og Kolbeinn Proppé lenda í hópi með bláókunnugum mönnum eins og Gneistanum. En sjálfsagt er þeim sem heimsækja síðuna nokk sama um persónleg tengsl mín við þá sem hér eru til hliðar, hins vegar er það spurning hvort vinir mínir móðgist við að vera hafðir í almenningnum. Hvað aðra tengla varðar er ég hálfpartinn úti að aka og veit ekki hvaða ástæða er til að vera með svoleiðis ef nokkur. Í raun byrjaði ég á því að vera með krækjur á aðrar síður af því að allir eru með svoleiðis og fannst sjálfsögð kurteisi að tengja á þá sem tengdu á mig.
Allar ábendingar frá dyggum lesendum varðandi viðmót síðunnar minnar, hvað megi betur fara til að gera hana aðgengilegri, hvað vanti, hverju sé ofaukið o. s. frv. eru vel þegnar.

Að lokum vona ég að þessi síða eigi eftir að vera vettvangur gefandi samskipta við annað fólk um áraraðir.

Vantrúarofstæki

Trúarofstæki er afskaplega hvimleitt. Það er sérlega ógeðfellt þegar fólk þykist hafa einkarétt á því hvernig skilja á eitthvað jafnóskiljanlegt og eðli almættisins og níðir alla þá sem voga sér að skilja það öðruvísi. Það er ömurlegt að hafa aðeins gífuryrði og fordæmingaráróður til málanna að leggja. Gildir þá einu hver skilningur ofstækismannanna er nákvæmlega. Ofstækið er jafnandstyggilegt hvort sem þungamiðja þess er að Jósef hafi ekki verið líffræðilegur faðir Jesú, að laugardagurinn sé hinn eini rétti hvíldardagur, að Guð sé karlremba, að Guð sé hommahatari, að Guð sé þríeinn, að Guð heiti Jehóva eða að Guð sé ekki til, svo nokkrir þekktir ásteitingarsteinar séu nefndir. Ekki bætir úr skák þegar látið er fylgja að allir sem séu ósammála séu illa innrættir heimskingjar og hræsnarar.
Undanfarið hefur mér einkum fundist þeim sem aðhyllast síðastnefnda skilninginn hætta til að fara offari í þeirri sannfæringu sinni að þeir hafi höndlað hinn eina, endanlega sannleik um lífið, alheiminn og allt það. Þeir sem trúa því að Guð sé skáldskapur virðast því miður allmargir hafa gefið sjálfum sér leyfi til að míga á helstu kurteisisreglurnar sem ætlast er til þess að þeir sem trúa öðru um Guð fylgi í sínum boðskap. Vanhugsuð og heimskuleg orð sem páfi lét nýlega falla um múslima eru beinlínis vingjarnleg miðað við sumt sem guðleysingjar setja á prent, svo sem að ekki séu þeir sem eiga sér trú einasta fáfróðir, illgjarnir og skinhelgir heldur að trúin sé beinlínis orsök alls ills.
Þannig er fullyrt að starf móður Teresu hafi verið af hinu illa. Að Desmond Tutu hafi gengið erinda hins illa þegar sáttastarf hans kom í veg fyrir borgarastyrjöld í Suður-Afríku eftir afnám aðskilnaðarstefnunnar. Að það sé slæmt þegar hjálparstofnun kirkjunnar tryggir börnum í þróunarlöndunum aðgang að hreinu vatni. Að áfallahjálp við ástvinamissi sé vond. Að afleitt sé að trúarleg reynsla geri eiturlyfjaneytendur og drykkjusjúklinga að nýtum þjóðfélagsþegnum.
Fyrst og fremst er því þó trúað að um þá sem sannfærðir eru í vantrú sinni gildi aðrar reglur um mannasiði en þá sem sannfærðir eru í trú sinni. Já, og að aðeins hinir trúuðu þurfi að hugsa áður en þeir opna á sér munninn.

Bakþankar í Fréttablaðinu 1. 10. 2006

sunnudagur, október 01, 2006

Dæmd til dauða án dóms og laga

Tímarit eitt heitir Orðlaus og er kvenkyns. Það fylgir Blaðinu. Í síðasta tölublaði þess var stórfróðleg grein. Hún er svona:
"Sawney Beane, kona hans, synir, sex dætur og 32 barnabörn sem höfðu öll komið undir með sifjaspelli1, voru fjölskylda sem stundaði morð og mannát. Hópurinn hélt til í hellum nálægt bænum Galloway í Skotlandi í byrjun 17. aldar. Talið er að fjölskyldan hafi myrt hátt í þúsund manns á 25 ára tímabili áður en þau náðust og voru dæmd til dauða án dóms og laga."
Þetta þykir mér merkilegt. Saga þessarar óvenjulegu fjölskyldu er tvímælalaust efni í athyglisverða kvikmynd, nema endalok hennar, þegar þau voru "dæmd án dóms", sem eru sennilega frekar efni í lagaheimspekilegar þrætur.
Annars segir Wikipedia að þetta sé að öllum líkindum bara skáldskapur.
1. Líklega ætti að standa "sifjaspellum". Ég hef ekki heyrt þetta orð notað í eintölu áður og finnst ólíklegt að heil 32 barnabörn geti orðið til með einu spelli.

föstudagur, september 29, 2006

Smiðshöggið rekið á níðingsverkið

Í gær hófst vatnssöfnun í Hálslón. Skrúfað hefur verið fyrir Jöklu. Ómetanlegri náttúruperlu verður drekkt á næstu mánuðum. Stærsta ósnortna víðerni Evrópu verður fórnað til að íslenskir skattgreiðendur geti niðurgreitt raforku til mengunarframleiðslu á Reyðarfirði, verkefni sem þvingað var í gegn með skjalafölsunum, atvinnurógi og kúgunum þvert á landslög.
Það sem einna helst gerir það að verkum að við þetta missir maður trúna á manninn er sú staðreynd að þetta var lýðræðisleg ákvörðun. Hún var samþykkt á Alþingi með 44 atkvæðum gegn 9. Margir þessara fjörutíu og fjögurra hafa reyndar skipt um skoðun síðan og gagnrýna nú háværum rómi hvernig staðið var að verki.
Af einhverjum ástæðum þurftu níu stallsystkin þeirra þó ekki á þeim skoðanakönnunum að halda né viðbótarupplýsingum sem síðan hafa komið fram í dagsljósið, til greiða atkvæði gegn virkun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal þegar árið 2002. Níu þingmönnum þóttu nægar upplýsingar til að taka skynsama afstöðu liggja fyrir þá þegar.
Þar sem margir þjóðníðinganna sem að umhverfishryðjuverkinu stóðu reyna nú í aðdraganda kosningavetrar að þvo hendur sínar af þessum glæp gegn landinu er við hæfi að rifja upp hverjir þeir eru – svo fólk sem vill elska sitt land geti forðast að greiða þeim atkvæði í næstu kosningum.

Þjóðníðingarnir 44 eru:

Arnbjörg Sveinsdóttir, Sjálfstæðisflokki
Árni M. Mathiesen, Sjálfstæðisflokki
Ásta Möller, Sjálfstæðisflokki
Bryndís Hlöðversdóttir, Samfylkingu
Drífa Hjartardóttir, Sjálfstæðisflokki
Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki
Einar Oddur Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki
Einar Már Sigurðarson, Samfylkingu
Geir H. Haarde, Sjálfstæðisflokki
Gísli S. Einarsson, Samfylkingu
Guðjón Guðmundsson, Sjálfstæðisflokki
Guðmundur Hallvarðsson, Sjálfstæðisflokki
Guðni Ágústsson, Framsóknarflokki
Guðrún Ögmundsdóttir, Samfylkingu
Halldór Ásgrímsson, Framsóknarflokki
Halldór Blöndal, Sjálfstæðisflokki
Helga Guðrún Jónasdóttir, Sjálfstæðisflokki
Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki
Ísólfur Gylfi Pálmason, Framsóknarflokki
Jóhann Ársælsson, Samfylkingu
Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingu
Jón Kristjánsson, Framsóknarflokki
Jónína Bjartmarz, Framsóknarflokki
Karl V. Matthíasson, Samfylkingu
Kjartan Ólafsson, Sjálfstæðisflokki
Kristinn H. Gunnarsson, Framsóknarflokki
Kristján L. Möller, Samfylkingu
Kristján Pálsson, Sjálfstæðisflokki
Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingu
Magnús Stefánsson, Framsóknarflokki
Margrét Frímannsdóttir, Samfylkingu
Páll Pétursson, Framsóknarflokki
Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki
Sigríður Ingvarsdóttir, Sjálfstæðisflokki
Sigríður A. Þórðardóttir, Sjálfstæðisflokki
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki
Sólveig Pétursdóttir, Sjálfstæðisflokki
Sturla Böðvarsson, Sjálfstæðisflokki
Svanfríður Jónasdóttir, Samfylkingu
Tómas Ingi Olrich, Sjálfstæðisflokki
Valgerður Sverrisdóttir, Framsóknarflokki
Vilhjálmur Egilsson, Sjálfstæðisflokki
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki
Össur Skarphéðinsson, Samfylkingu

Megi smán þeirra vera í minnum höfð svo lengi sem land byggist.

fimmtudagur, september 28, 2006

Digranesprestur fermir ekki fríkirkjusálir

Enda segir í Biblíunni: "Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki nema þau séu í vitlausu trúfélagi."
Í tilefni af forsíðu Blaðsins í dag

fimmtudagur, september 21, 2006

Hvítrússneska biblíufélagið ...

... heitir BSRB (Biblical Society of the Republic of Belarus). Þetta þótti mér jafnvel enn merkilegra en að Ástralska Biblíurannsóknastofnunin í Sydney skuli heita SÍBS (Sydney Institute for Biblical Studies). Þegar maður er farinn að eyða tíma sínum á netinu í að gera svona uppgötvanir ætti maður kannski að fara að hugsa sinn gang.

þriðjudagur, september 19, 2006

Drengurinn sem hrópaði: "Glatað! Glatað!"

Þegar DV kom út daglega var það kallað "hörð blaðamennska" sem þar var stundað. Slík blaðamennska á fullan rétt á sér, fjölmiðlum ber að vera ágengir, án þess auðvitað að vera ósanngjarnir eða óheiðarlegir. DV flaskaði hins vegar á því að þar var það beinlínis skylda að hafa stríðsfyrirsögn á hverjum degi og Ísland er bara hvorki nógu stórt né spillt til að standa undir 365 stríðsfyrirsögnum á ári. Því reyndist stormviðri dagsins stundum eiga sér stað í kaffibolla þegar að var gáð og sanngirnin hugsanlega umdeilanleg öðru hverju. Auðvitað þarf stundum að nota stóra letrið, en til hvaða leturs getur sá sem notar stærsta letrið á hverjum einasta degi gripið þegar þannig stendur á? Sá sem er alltaf uppi á háa C-inu getur ekki brýnt raustina þegar ástæða er til.
Eins á hörð gagnrýni fullan rétt á sér. Enginn er yfir gagnrýni hafinn. Stundum má gagnrýni meira að segja að vera sérstaklega ófyrirleitin, einkum þegar hún beinist að þeim sem gefa sig út fyrir að vera ófyrirleitnir sjálfir. Slík gagnrýni getur verið mjög skemmtileg aflestrar. Hárfínar, meinhæðnar athugasemdir eru sannkallaður gleðigjafi. En rýnir sem alltaf er ófyrirleitinn verður fljótt ómarktækur. Þegar maður getur gefið sér það fyrirfram að niðurstaðan sé að umfjöllunarefnið sé glatað, óháð því hvert það er, hættir maður að nenna að lesa, jafnvel þótt rýnirinn reyni að vera eins fyndinn og hann getur. Stundum getur verið rík ástæða til að rakka eitthvað niður, en hvernig ætlar sá sem aldrei hefur gert annað en að rakka allt niður sem hann fjallar um, að miðla því að eitthvað sé alveg sérstaklega niðurrökkunarvert?
Vera má að stundum sé nauðsynlegt að fara í fýlu (þótt sjálfum detti mér reyndar ekki í hug neinar kringumstæður þar sem önnur viðbrögð eru ekki bæði skynsamlegri og skemmtilegri). En það er með fýluna eins og punktastærðina í fyrirsögnunum hjá DV: Minna er meira.
Því skora ég á þá sem vilja nýta sér stjórnarskrárbundið tjáningar- og prentfrelsi sitt til að vera í fýlu að fara úr henni öðru hverju, þótt ekki sé nema til þess að maður sjái að þeir séu færir um það. Annars lýsa skrif þeirra þeim sjálfum miklu betur en því sem þeir fjalla um.
Bakþankar í Fréttablaðinu 17. 9. 2006

laugardagur, september 16, 2006

Húsavík: Hvalaþorpið við nyrsta haf

Ég var að koma frá Húsavík, en alllangt er síðan ég kom þangað síðast. Það er skemmst frá að segja að heimsóknin var öll hin ánægjulegasta og kom það mér mjög þægilega á óvart hve margt hefur breyst til betri vegar frá því að ég kom þangað síðast.
Það er ekki laust við að þegar ég renndi inn í bæinn eftir aðalgötunni rifjaðist upp fyrir mér þegar ég kom til borgarinnar Brindisi á Ítalíu fyrir u. þ. b. tuttugu árum. Það eina sem vakti fyrir mér í þeirri borg var að gista þar eina nótt og koma mér svo um borð í ferju til Grikklands. Ég man að í lestinni (þetta var á Interrail ferðalagi) hafði ég pínulitlar áhyggjur af því að þar sem ég var ekki með neinar upplýsingar um borgina og ofaníkaupið ekki mælandi á ítölsku gæti reynst erfitt að finna farfuglaheimili og miðasölu ferjunnar, enda sá ég fyrir mér einhvers konar ítalsk-gríska útgáfu af Akraborginni eða flóabátnum Baldri.
Þegar ég kom út úr lestarstöðinni uppgötvaði ég hins vegar að næsta auðvelt yrði að finna gistingu þarna því u. þ. b. fjórða hvert hús var auðkennt sem "Youth Hostel". Reyndar sá ég strax að það eina sem yrði auðveldara en að finna gistingu yrði að kaupa miða með ferju því hin þrjú húsin af hverjum fjórum voru merkt "Tickets to Greece." Það var nokkuð augljóst hver aðalatvinnuvegur bæjarbúa var.
Eins er algjör óþarfi að hafa áhyggjur af því að erfitt geti verið að finna miðasöluna í hvalaskoðunina frá Húsavík. Hvalir og hvalaskoðun eru einfaldlega orðin meginauðkenni bæjarins, mér liggur við að segja jafnvel frekar en kirkjan, sem er tvímælalaust eitt fegursta hús landsins. Hvert sem litið er minnir eitthvað á hvali og hvalaskoðun. Veggir hótelsins, sem nú er að vísu verið að gera upp af miklum myndarskap, eru myndskreyttir með frímerkjum frá öllum heimshornum sem eiga það sameiginlegt að á þeim eru myndir af hvölum. Barinn á staðnum heitir Moby Dick og er myndskreyttur með ýmsu úr alþjóðlegum afþreyingariðnaði sem tengist þeirri hvítu skaðræðisskepnu. Jafnvel barstólarnir líta út eins og hvalsporður. Á þeim er þægilegt að sitja og sötra appelsín. Borðin eru litlir bátar.
Það er nokkuð augljóst þegar komið er til Húsavíkur hver helsta lyftistöngin í atvinnulífi bæjarins er um þessar mundir. Í beinu framhaldi af því er bærinn allur svo snyrtilegur að hreinn sómi er að, enda býður almennilegt fólk ekki gestum í heimsókn og hefur allt í drasli hjá sér á meðan. Mér finnst eins og óvenjulega mikið sé um falleg og vel hirt gömul hús á Húsavík, en kannski finnst manni það bara vegna þess hve öllu virðist vera vel við haldið á staðnum.
Vera má að allur þessi hvalabisnes hafi gert Húsvíkinga ónæma fyrir sérstöðu bæjarins, menn hætta að meta það sem þeir hafa fyrir framan nefið á sér á hverjum degi. Jafnvel má vera að venjulegir Húsvíkingar séu komnir með upp í háls af hval og hvalaskoðun. En fyrir erlenda ferðamenn hlýtur heimsókn til Húsavíkur dagsins í dag að vera ógleymanleg upplifun. Litla hvalaþorpið við nyrsta haf lifir áreiðanlega lengi í minningu þeirra sem eru það sniðugir að heimsækja það núna, því ég leyfi mér að fullyrða að það mun skyggja verulega á upplifunina að hafa risastóra álfabrikku gnæfandi yfir þessu fallega póstkorti, spúandi eitri út í umhverfið, eins og margt bendir því miður til að framtíðin beri í skauti sér.
Í Staksteinum Moggans í dag er skrifað eindregið gegn hvalveiðum og gefið í skyn að þær kynnu að drepa hvalaskoðunina frá Húsavík og ferðaþjónustu henni tengda, sem orðin er undirstöðuatvinnuvegurinn á staðnum. Ég get svosem tekið undir þær áhyggjur, en ég held að Húsvíkingum stafi ekki minni hætta af sínu eigin álæði.
Því skora ég á Húsvíkinga að hugsa sinn gang. Við þurfum ekki fleiri Reyðarfirði eins og Reyðarfjörður er orðinn. Hins vegar mættu hér að ósekju vera fleiri Húsavíkur eins og Húsavík er orðin.

mánudagur, september 11, 2006

Krumpaður karlfauskur kreperar

Þegar ég var reiður ungur maður sór ég þess dýran eið að ég skyldi aldrei verða krumpaður karlfauskur. Fátt fór eins mikið í taugarnar á mér og þessir gömlu karlar sem ekki virtust hafa neitt annað til málanna að leggja en hvað æskan væri vonlaus og hvað framtíðin væri í vondum málum að lenda í höndunum á henni, en mér finnst eins og þá hafi verið miklu meira af þeim en nú á dögum.
Ég man að á tímabili var Þráinn Bertelsson sérstaklega iðinn við kolann. Hann skrifaði hverja greinina á fætur annarri í blöðin þar sem hann býsnaðist yfir því að fólk skyldi skemmta sér niðri í miðbæ og voga sér að leika tónlist á meðan. Ég held að ástæðan sé sú að hann hafi keypt sér íbúð í miðborginni og orðið ofsalega hissa þegar hann komst að því að það var ekki grafarþögn úti á götunni eftir miðnætti um helgar. Gott ef það var ekki hreinlega súludansstaður á jarðhæðinni hjá honum.
Friðrik Erlingsson er annar af þessum körlum. Það er merkilegt að annar eins ágætismaður og hann er að öðru leyti skuli alltaf leysast upp í náttúrulausan nítjándualdar siðapostula þegar hann stingur niður penna. Nú síðast tjáði hann sig í einhverju blaðinu um unga fólkið og verslunarmannahelgina af svo forpokaðri siðavendni að það hefði mátt halda að þarna væri verið að rifja upp einhver skrif sem voru aðdragandinn að stofnun Góðtemplarareglunnar á sínum tíma.
Þessi meinloka virðist reyndar vera innbyggð í mannskepnuna. Á öllum tímum hefur ráðsetta fólkið borið kvíðboga fyrir því sem ungu hálfvitarnir myndu taka til bragðs þegar þeim yrði rétt keflið. Einhvern tímann las ég meira að segja texta sem hefði getað verið eftir Þráin/Friðrik, en reyndist síðan vera eftir Sókrates. Boðskapurinn var einmitt sá að æskan væri ómöguleg og siðmenningin færi í hundana þegar hún myndi lenda í höndunum á henni. Hann reyndist ekki sannspár. Nema þetta séu hundarnir?
Þannig að ég ákvað ungur að verða aldrei Þráinn/Friðrik/Sókrates sem verður með reglulegu millibili að kveða sér hljóðs á obinberum vettvangi í þeim tilgangi að ná ekki upp í nefið á sér af hneykslan yfir smekk og framferði sér yngra fólks.
En svo koma fram fyrirbæri eins og Sigur Rós.

Sigur Rós

Ekki misskilja mig. Ég gleðst ofsalega yfir því hvað Sigur Rós hefur slegið í gegn í útlöndum, einfaldlega af því að þá er hljómsveitin sem mest þar og sem minnst hérlendis. Því eru nefnilega afskaplega lítil takmörk sett hvað mér finnst Sigur Rós ævintýralega vont band.
Það er til tónlist sem maður einfaldlega hefur ekki áhuga á af því að hún hreyfir ekki við manni, lætur mann algerlega ósnortinn. Síðan er til tónlist sem maður reynir beinlínis að forðast að sitja undir, maður rýkur til og slekkur á viðtækjum sem hún berst úr eða stillir í snatri yfir á aðra rás. Í mínu tilfelli eru þetta einkum Whitney Houston, Mariah Carey, Celine Dion og þessar helstu söngkonur sem mér virðast þenja í sér raddböndin í þeim eina tilgangi að ekki fari á milli mála hvað þær eru duglegar að þenja í sér raddböndin.
Síðan er til tónlist sem hefur þau áhrif á mann að manni finnst maður vera hjá tannlækni án deyfingar. Þannig tónlist leikur Sigur Rós. Tónlist sem er hrein þolraun að sitja undir. Ég hef ekki orðið fyrir þeirri upplifun af neinni annarri tónlist. Wagner-óperur eru beinlínis katsí í samanburði.
Líkamleg vanlíðan getur verið margs konar. Ein sú andstyggilegasta er tilfinningin sem maður fyllist þegar maður rekur puttann á sér óvart á kaf í rotinn ávöxt. Þetta er ekki beint sársauki. Maður getur ekki fullyrt að manni sé illt, að maður finni til, en þetta er samt vont á einhvern alveg sérstakan hátt. Maður grettir sig ósjálfrátt og eðlileg viðbrögð eru ekki að þau að kippa að sér hendinni snöggt eins og þegar maður brennir sig heldur dregur maður hana hægt að sér svona eins og maður hafi áhyggjur af því að hún hafi úldnað út frá skemmdinni og kunni að detta af manni fari maður ekki að öllu með gát. Þegar ég heyri í Sigur Rós verð ég fyrir tónlistarlegri hliðstæðu þessarar tilfinningar í mússíkeyranu. Ég rýk ekki að tækinu og slekk á því í offorsi heldur þagga ég niður í henni með fasi manns sem er að fjarlægja kúkableyju. Hann fer að öllu með gát svo óþverrinn subbi ekkert út, jafnvel þótt það þýði að hann þurfi að umbera fýluna aðeins lengur en ítrasta nauðsyn krefst.

Tónlistargagnrýni

Textanum hér að ofan er ekki ætlað að vera tónlistargagnrýni. Ég geri mér nefnilega grein fyrir því að hljómsveit sem veldur hlustendum þjáningum nær ekki vinsældum. Því tel ég sýnt að um heim allan hljóti stór hópur fólks að elska þetta skerandi surg sem Sigur Rós kallar tónlist, því varla seljast þessar plötur í bílförmum ef þær eru aðeins leiknar í þeim tilgangi að pynta fólk. Ég er því líklega ekki manna best til þess fallinn að gagnrýna hljómsveitina af sanngirni þótt ég hafi vissulega rétt til að finnast það sem mér sýnist um hana og segja frá því á þann hátt sem mig lystir.
Ef það yrði hringt í mig í kjölfar þessara yfirlýsinga minna um Sigur Rós og ég beðinn að skrifa tónlistargagnrýni um nýjustu hljómplötu sveitarinnar í víðlesið tímarit myndi það því óneitanlega hvarfla að mér að tilgangur ritstjórnarinnar með því væri ekki sá að sýna Sigur Rós sem mesta sanngirni. Reyndar er sennilegra að ég drægi þá ályktun að með því væri einmitt verið að fiska eftir sem neikvæðastri umfjöllun um sveitina.
Það er nákvæmlega þannig sem mér fannst The Reykjavík Grapevine koma fram við Bubba Morthens með því að fela Sindra Eldon það verkefni að fjalla um afmælistónleika hans. Um þá skoðun mína leyfði ég mér að skrifa bakþanka í Fréttablaðið (Reykjavík greip væl) sem ég síðan birti hér á þessari síðu. Það er skemmst frá að segja að engir bakþanka minna frá upphafi hafa fengið nálægt því jafnmikil viðbrögð, ekki bara í kommentakerfi þessarar síðu, heldur líka á förnum vegi og símleiðis. Langlanglangflest þessara viðbragða hafa verið vægast sagt afar jákvæð þannig að ég dreg þá ályktun að ég sé ekki einn um þessa skoðun.

Rétturinn til að vera sellát

Viðbrögðin hafa þó ekki öll verið á jákvæðu nótunum. Jafnvel hefur mér verið legið á hálsi að vilja meina reiðum, ungum mönnum að rífa kjaft. Að ég vilji bara samfélag jáara þar sem fólk með óvinsælar skoðanir er útskúfað, að ég vilji slá einhverja skjaldborg um heilagar kýr sem ekki megi gagnrýna, að menn sem ekki geti verið smekklegir og þægilegir aflestrar hafi ekki rétt til að munda stílvopnið.
Satt að segja er ég ekki yfir það hafinn að sárna slík viðbrögð, því ég efast um að margir Íslendingar hafi orðið fyrir eins miklum árásum fyrir tjáningarfrelsið og ég, eins miklum rógi og níði fyrir það sem stjórnarskrá lýðveldisins tryggir okkur réttinn til að setja á prent og segja opinberlega, eins miklum óþægindum fyrir að verja óvinsælar skoðanir. (Fyrigefið mér að slá mér aðeins á brjóst, en þessi síða er jú einu sinni mitt partý – eða eins og vitur maður mælti forðum: "Ég held mig ekkert á mottunni þegar ég á alla helvítis teppabúðina!")
Fyrir utan það þá hvarflar auðvitað ekki að mér að eyða orku í að vernda Bubba fyrir hnýfilyrðum utan úr bæ. Bubbi er stór strákur og hefur staðið margt verra en óhróður og skítkast af sér. Auk þess er ég sannfærður um að löngu eftir að þessi "ungi, reiði maður" verður dauður og grafinn og öllum gleymdur munu verk Bubba Morthens lifa góðu lífi með þjóðinni og halda minningu hans á lofti.
En ég get þó ekki stillt mig um að furða mig á því að reiði þessa meinta unga, reiða manns skuli beinist að því að Bubbi Morthens sé sellát! Árið 1983 var ég nefnilega í pönkhljómsveit sem hét Dossbaradjamm, en hún hélt einmitt eftirminnilega kveðjutónleika það ár. Meðal laganna á efnisskrá þeirra var lagið "Bubbi Morthens fær raflost" þar sem var sungið: "Þeir hringdu í morgun, sögðu að Bubbi væri orðinn óður, / að við litlu pönkarana væri hann ekki lengur jafngóður, / hann væri hættur að syngja um verkamenn / og menningarsnobbara, / hann væri sjálfur orðinn menningarsnobb / og héngi inni á Mokka-a-a-a-aaah! / Bubbi Morthens fær raflost! ..."
Þannig að ef það er einhver uppgötvun að Bubbi Morthens hafi svikið málstað farandverkamannanna þá er hún tæpum aldarfjórðungi of seint á ferðinni til að ég uppveðrist, en auðvitað kann að vera að þetta sé eitthvað sem "ungu, reiðu mennirnir" í dag eru nýbúnir að fatta og fyllir þá eldmóði. Gott hjá þeim. Sjálfur er ég hins vegar löngu búinn að taka þessa gatslitnu lummu af prógramminu hjá mér og farinn að flytja nýrra efni.

Misskilningurinn

Mér virðist að þeir sem brugðust illa við þessum þönkum hafi misskilið mig og auðvitað er aðeins við mig að sakast að hafa ekki tjáð mig skýrar. Mér sárnaði þessi umfjöllun um Bubba Morthens alls ekki fyrir hönd Bubba, eins og margir virðast hafa haldið. Mér sárnaði hún fyrir hönd The Reykjavík Grapevine. Blað sem ég hafði borið virðingu fyrir og þótt skemmtilegt að lesa var dottið ofan í pytt nöldurs og fýlu sem ég kærði mig ekki um að taka þátt í. Það sem verið hafði skemmtilegur félagsskapur var orðið beinlínis niðurdrepandi kompaní. Það má kannski vel vera að fólkið sem ekkert hefur nema aðfinnslur til málanna að leggja sé nauðsynlegt fyrir lýðræðislega umræðu, en það er ekki þar með sagt að manni beri einhver skylda til að finnast það skemmtilegt og návist þess eftirsóknarverð.
Mér finnst til dæmis miklu skynsamlegra að virða það við menn að vera góðir í fótbolta, að hafa náð þeim árangri í íþróttinni að vera atvinnumenn í henni og vera í hópi ellefu bestu knattspyrnumanna þjóðarinnar sem gera sitt besta til að halda uppi heiðri hennar á vellinum, heldur en að hanga við hliðarlínuna og æpa sig hásan af gremju yfir því hvað þetta landslið sé "paþþetikk" og lélegt af því að það tapar oftast fyrir stórþjóðum – án þess auðvitað að geta sjálfur sparkað bolta þótt maður ætti að vinna sér það til lífs.
Þannig finnst mér líka miklu aðdáunarverðara að vera á skjánum í alþjóðlegum sjónvarpsþætti að sýna sönghæfileika sína þannig að heimsbyggðin taki eftir þeim, heldur en að sitja límdur við skjáinn emjandi og veinandi, í keng yfir því hvað þetta sé hallærislegur þáttur og ömurlegur flutningur, auðvitað án þess að geta sjálfur sungið svo mikið sem Gamla Nóa skammlaust.
Sömuleiðis finnst mér miklu virðingarverðara að standa á sviði og flytja frumsamið efni sem þjóðin þekkir og elskar og tekur undir með, heldur en að sitja úti í sal, sjóðandi af bræði yfir því að gæinn á sviðinu sé svo kommersíal að hann njóti hylli og ennþá jafnmikið sellát og fyrir aldarfjórðungi.
Stærsti misskilingurinn er þó auðvitað sá að þetta sé einkenni ungra, reiðra manna. Svo er alls ekki. Þvert á móti. Þetta er einmitt það sem einkennir getulausa og krumpaða karlfauska.
Það er þess vegna sem ég stend mig æ oftar að verki við að taka undir með þessum gömlu körlum allra alda sem eipað hafa á unga fólkinu sem æskunni er svo sannarlega sóað á. Guð hjálpi framtíðinni að lenda í höndunum á þessum fúllyndu fauskum sem nú eru ungir menn.

þriðjudagur, september 05, 2006

,,Burt með eiturlyfin. Vestfirska forlagið.”

Ég hef yndi af því að heyra eitthvað sem fær mig til að velta fyrir mér hlutunum. Nú hef ég í tvígang í dag heyrt tilkynningu lesna í útvarpið sem vakið hefur óskipta athygli mína. Hún er svona: ,,Burt með eiturlyfin. Vestfirska forlagið.” Ég get einhvern veginn ekki annað en velt því fyrir mér hver sagan á bak við tikynninguna sé og í augnablikinu dettur mér þrennt í hug.
I. Þau hjá Vestfirska forlaginu eru sannfærð um að þegar dópistar landsins heyra orðin ,,Burt með eiturlyfin” lesin í útvarpið innan um auglýsingar fyrir rafmagnsverkfæri, hettukápur og kjötfars sjái þeir samstundis að sér og láti af þeim ósið að neyta fíkniefna, að áhrifamáttur Vestfirska forlagsins sé slíkur að það sem til þessa hafi vantað upp á að ráða niðurlögum fíkniefnadjöfulsins í eitt skipti fyrir öll hafi verið að afstaða þess gagnvart þessu heilbrigðisvandamáli væri ljós.
II. Þau hjá Vestfirska forlaginu grunar að fjöldi manna standi í þeirri meiningu að það tilheyri þeim stóra hópi sem einmitt er hlynntur eiturlyfjaneyslu og finnst því ástæða til að leiðrétta þann misskilning.
III. Í nánasta umhverfi Vestfirska forlagsins eru eiturlyf sem það vill ekki hafa fyrir augunum lengur og er hér um að ræða tilkynningu til eigenda þeirra vinsamlegast að fjarlægja þau.

Nú er bara að uglasata hverju maður á að trúa því mér finnst þetta allt einhvern veginn jafnsennilegt. Er annars einhver fjórði möguleiki í stöðunni sem mér er að yfirsjást?

Reykjavík greip væl

Þegar tímaritið The Reykjavík Grapevine hóf göngu sína var ég einn þeirra fjölmörgu sem tók því fagnandi, enda var blaðið eins og ferskur andvari. Það var róttækt og meinhæðið, með hvassa og málefnalega ádeilu á íslenskt samfélag sem ekki var vanþörf á. Glöggt er gests augað.
Því finnst mér það sorglegt að nú virðist blaðið vera komið í hendur manna sem ekki gera greinarmun á háði og níði, ádeilu og illkvittni, manna sem telja víðtækt önuglyndi bera vott um róttækni. Þannig hafa úrillir stráklingar undanfarið fengið að níða skóinn af hverjum þeim sem ekki er nógu hipp og kúl að þeirra mati óhindrað á síðum blaðsins. Gleggst sást þetta í umfjöllun blaðsins um afmælistónleika Bubba Morthens, þar sem hann, fimmtugur maðurinn, var borinn þeim þungu sökum að miða listsköpun sína ekki við tónlistarsmekk unglingspilts að nafni Sindri Eldon. (X) Tíðkast þau nú hin breiðu spjótin.
Í nýjasta tölublaðinu verður Magni Ásgeirsson fyrir barðinu á óskeikulleika blaðsins í málefnum er varða hipp og kúl. Glæpur hans er að hafa nýtt tækifæri sem honum bauðst til að vekja heimsathygli sem tónlistarmaður og gera það þannig að hann hefur verið sjálfum sér, fjölskyldu sinni, landi og þjóð til staks sóma. Það sem mér finnst einkum aðdáunarvert við framgöngu Magna er hve auðmjúkur og heiðarlegur hann hefur verið gagnvart öllu þessu tilstandi. Auðmýkt og heiðarleiki þykja hins vegar ekki hipp og kúl á The Reykjavík Grapevine, hafi þeir sem þar vinna á annað borð einhvern tímann heyrt slíks getið, og þar sem blaðið er að þeirra mati allt of hipp og kúl fyrir þennan þátt finnst þeim ósköp eðlilegt að kalla Magna líkníðing á síðum þess.
En hvað eru svo þessir töffarar, sem eru of samanherptir í sínu þurra og skorpna töffaraattitjúdi til að geta glaðst yfir velgengni annarra en þeirra sem þeir hafa sérstaka velþóknun á og standa utan skjallbandalagsins sem þeir tilheyra, annars að gera sem gerir þá svona miklu meira hipp og kúl en aðra? Jú, þeir sitja á sínum hipp og kúl rassi og skrifa sína hipp og kúl sleggjudóma í sitt hipp og kúl blað í þeirri sannfæringu að þeir séu hið endanlega átórítet um allt hipp og kúl í heiminum.
Fyrirgefið mér að leita annað að skilgreiningu á hippi og kúli.
Bakþankar í Fréttablaðinu 3. 9. 2006

sunnudagur, september 03, 2006

Umhverfisvitund Samfylkingarinnar

Það rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað hefur Samfylkingin komið sér upp umhverfisvitund daginn sem hún las það í blöðunum að Draumalandið hans Andra Snæs væri að seljast í bílförmum og því væri það sennilega líklegt til vinsælda að hafa svoleiðis. Nú verður Gallup bara að gera skoðanakönnun strax um tilboðið hans Steingríms svo Samfylkingin geti komið sér upp afstöðu til þess.
Tilvitnun dagsins: "Fyrstu viðbrögð Ingibjargar Sólrúnar eru þau að kalla tillögu Steingríms fjölmiðlaleikrit. Það hlýtur að vera særandi fyrir Steingrím að fá þessa einkunn frá leiðtoga Samfylkingarinnar, þetta er svona eins og að vera sakaður um ofleik af Glanna glæp."
Illugi Gunnarsson í Fréttablaðinu í dag

laugardagur, september 02, 2006

Sinnaskipti Steingríms

Ég var ánægður með Steingrím J. og tillögu hans um að núverandi stjórnarandstaða stillti saman strengi sína fyrir næstu kosningar til að geta boðið upp á raunhæfan valkost við núverandi ríkisstjórn, enda glatað að íslensk pólitík fari að snúast upp í keppni um að skríða upp í til íhaldsins. Hins vegar fannst mér á viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar að hún skildi ekki alveg hvað hún var að tala um, því hún virtist halda að með þessu væru einhver sinnaskipti að eiga sér stað hjá Steingrími. Vísaði hún þar til þess að árið 1999 var Samfylkingin stofnuð sem kosningabandalag þáverandi vinstri flokkanna. Steingrímur vildi ekki vera með og stofnaði sinn eigin. Það að Steingrímur vilji frekar starfa með Samfylkingunni en Sjálfstæðisflokknum bendir ekki til þess að hann hafi skipt um skoðun á neinu. Því hvernig væri að skoða aðeins hvernig þetta "bandalag vinstri flokkanna" sem kallar sig Samfylkinguna hefur sinnt því að vera bandalag vinstrimanna?
Þegar ljóst var að herinn vildi úr landi fór þáverandi formaður þessara meintu vinstrimanna grátandi í kjölfarið á þeim Davíð og Halldóri með skilaboðin "Ekki fara!" frá íslenskum vinstrimönnum.
Þegar vanda menntakerfisins og heilbrigðiskerfisins hefur borið á góma hafa "vinstrimennirnir" í Samfylkingunni stungið upp á meiri einkavæðingu.
Núverandi formaður Samfylkingarinnar getur ekki núna allt í einu þóst vera formaður flokks sem hefur umhverfissjónarmið að leiðarljósi eftir aðkomu sína að Kárahnúkamálinu. Staðreyndin er að Samfylkingin var öll (með tveim undantekningum) hlynnt því umhverfishryðjuverki.
Samfylkingin hefur frá öndverðu verið einkavæðingar-, NATO- og Kárahnúkaflokkur. Sinnaskiptin áttu sér greinilega stað annars staðar en hjá Steingrími. Að halda því fram að íslenskir umhverfissinnar og vinstrimenn hafi hlaupist undan merkjum með því að taka ekki þátt í starfi Samfylkingarinnar bendir því til þess að viðkomandi skilji merkingu hvorugs orðsins, umhverfi eða vinstri.

Netið er komið

Nú er ég kominn með internet inn á heimilið og þarf því ekki lengur að stóla á heita reiti á kaffihúsum borgarinnar. Þetta þýðir að hvenær sem mér dettur eitthvað í hug get ég sett það beint á netið. Kannski gerist ég örbloggari og set allt sem ég hugsa beint á netið um leið og mér dettur það í hug án nokkurs samhengis við neitt þannig að enginn skilur bofs.

Kúlukerti

Já, meðan ég man. Hvar finn ég kúlukerti, þ. e. kerti sem eru kúlulaga? Ég á nefnilega svo flottan kertastjaka fyrir stórt, kúlulaga kerti og kertið sem fylgdi er niðurbrunnið.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Hjartarsalt frá 2002

Í gegn um tíðina hef ég leitast við að vera ekki efnishyggjumaður. Ég hef ekki sankað að mér mörgum dauðum hlutum um dagana og þótt vænt um þá. Ég á reyndar sjónvarp, vídeótæki og X-box sem einnig fúnkerar sem DVD-spilari, auk nútímaþæginda á borð við ísskáp og þvottavél. Ég er enginn meinlætamaður.
En það er alveg merkilegt hvað safnast að manni mikið af drasli. Ég var nefnilega að flytja í vikunni og blöskraði allur óþarfinn sem ég, sjálfur andans maðurinn, hafði hugsunarlaust viðað að mér, að því er virðist einungis í þeim tilgangi að fergja mig niður og gera mér erfiðara um vik að færa mig um set.
Þarna voru til dæmis allra handa plastdollur og dósir með hvers konar festingum og tengjum sem ég hefði ekki getað ráðið í hvaða tilgangi þjónuðu þótt ég hefði átt að vinna mér það til lífs, bunki af pappírum sem ýmist voru ábyrgðir fyrir símann, úrið, útvarpsvekjaraklukkuna, brauðristina, myndavélina, X-boxið, rakvélina, ísskápinn eða þvottavélina eða eitthvað bull sem ég hafði geymt af því að mér þótti það sniðugt á sínum tíma, snúrur til að tengja myndavélina, vídeótækið eða X-boxið við tölvuna eða sjónvarpið og til að hlaða símann, rakvélina og tækið sem hleður endurhlaðanlegu batteríin sem ég nota aldrei af því að ég man aldrei að ég á svoleiðis, að ógleymdum listaverkum barnanna frá því í leikskóla (sem ekki má henda vegna tilfinningalegs gildis þeirra og hafa því safnað ryki í geymslum víðs vegar um vesturhluta Reykjavíkur undanfarinn áratug) og dós af hjartarsalti sem var best fyrir árslok 2003 af því að vorið 2002 bjó ég til rétt sem þurfti að nota eina teskeið af hjartarsalti í – svo fátt eitt sé nefnt. Margir svartir plastpokar fullir af hlutum sem ég tók einhvern veginn aldrei þá ákvörðun að eignast, en örlögin eða hvunndagurinn eða lífsins bárur eða hvað sem maður vill kalla það skoluðu inn til mín og ég vissi ekki einu sinni að ég ætti, yfirgáfu heimilið við flutningana.
Það er bara ekki hægt að vera frelsaður einstaklingur í föllnu samfélagi, það er eins og að vera eini hreini vatnsdropinn í drullupollinum. Efnishyggjan þarna úti þröngvar sér inn á heimili manns og gegnsýrir líf manns án þess að maður sé eitthvað hafður með í ráðum um það.
Bakþankar í Fréttablaðinu 20. 8.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Ég þarf að losna við reytur

Ég hef verið lélegur í blogginu undanfarið og stafar það af miklum önnum við annað, kvikmyndaleik, þýðingar og önnur skrif. Ennfremur er þannig í pottinn búið hjá mér að ég hef ekki internet heima hjá mér og þarf því að stunda blogg á heitum reitum kaffihúsa borgarinnar. Reyndar má eiga von á því að ég verði duglegri á næstunni því þann fimmtánda flyt ég og hef sambúð á Hjarðarhaganum með minni heittelskuðu. Við það að við ruglum saman reytum okkar verða hins vegar til tvö eintök af sumum reytum og því eðlilegt að sú reytan sem er í lakara ástandi víki. Þess vegna þarf ég að losna við þetta:

1) Ísskáp. Hann er í toppstandi, nema hvað rafmagnsperan er farin. (Það er svo bjart í eldhúsinu hjá mér að það kemur ekki að sök). Hann er frekar nýlegur, þótt unnustan eigi annan nýrri, og þess vegna langar mig að fá pening fyrir hann. Ég held að 10.000 kall sé sanngjarnt.

2) Þvottavél (sambyggð þvottavél og þurrkari) af gerðinni Candy Alice. Hún er ókeypis fyrir hvern þann sem nennir að ná í hana. Hún er komin til ára sinna og er lítillega biluð, en það er væntanlega lítið mál að laga það auk þess sem ég hef notað hana með góðum árangri þrátt fyrir bilunina alllengi. Bilunin er þannig að þegar vélin er á næstsíðasta stað í þvottaprógramminu, rétt áður en hún fer á "stop", hættir prógrammið að halda áfram og hún er endalaust á þessum stað (þar sem hún færi yfir í þurrkun væri stillt á þurrkun). Með því að snúa takkanum einfaldlega yfir á "stop" þegar þangað er komið í prógramminu er hins vegar hægt að taka úr vélinni þvottinn sinn tandurhreinan.

3) Ryksugu. Hún fæst líka gefins. Hún er líka biluð en vel nothæf þrátt fyrir bilunina. Bilunin er í því fólgin að hún fer í gang um leið og henni er stungið í samband, þ. e. ræsirofinn (on/off takkinn) virkar ekki (er fastur á "on"). Þessari ryksugu fylgja nokkrir ryksugupokar. Þar sem ég sit á kaffihúsi get ég ekki skotist inn í eldhús og talið þá.

Það gaf svo skolli góða raun að nota bloggsíðuna til að losna við kettlingana hérna um árið að mér datt í hug að ég gæti notað hana til að losna við þessi heimilstæki líka. Áhugasamir geta skilið eftir nafn og símanúmer í kommentakerfinu hér á síðunni eða flett upp á mér í símaskránni.