Þegar ég var reiður ungur maður sór ég þess dýran eið að ég skyldi aldrei verða krumpaður karlfauskur. Fátt fór eins mikið í taugarnar á mér og þessir gömlu karlar sem ekki virtust hafa neitt annað til málanna að leggja en hvað æskan væri vonlaus og hvað framtíðin væri í vondum málum að lenda í höndunum á henni, en mér finnst eins og þá hafi verið miklu meira af þeim en nú á dögum.
Ég man að á tímabili var Þráinn Bertelsson sérstaklega iðinn við kolann. Hann skrifaði hverja greinina á fætur annarri í blöðin þar sem hann býsnaðist yfir því að fólk skyldi skemmta sér niðri í miðbæ og voga sér að leika tónlist á meðan. Ég held að ástæðan sé sú að hann hafi keypt sér íbúð í miðborginni og orðið ofsalega hissa þegar hann komst að því að það var ekki grafarþögn úti á götunni eftir miðnætti um helgar. Gott ef það var ekki hreinlega súludansstaður á jarðhæðinni hjá honum.
Friðrik Erlingsson er annar af þessum körlum. Það er merkilegt að annar eins ágætismaður og hann er að öðru leyti skuli alltaf leysast upp í náttúrulausan nítjándualdar siðapostula þegar hann stingur niður penna. Nú síðast tjáði hann sig í einhverju blaðinu um unga fólkið og verslunarmannahelgina af svo forpokaðri siðavendni að það hefði mátt halda að þarna væri verið að rifja upp einhver skrif sem voru aðdragandinn að stofnun Góðtemplarareglunnar á sínum tíma.
Þessi meinloka virðist reyndar vera innbyggð í mannskepnuna. Á öllum tímum hefur ráðsetta fólkið borið kvíðboga fyrir því sem ungu hálfvitarnir myndu taka til bragðs þegar þeim yrði rétt keflið. Einhvern tímann las ég meira að segja texta sem hefði getað verið eftir Þráin/Friðrik, en reyndist síðan vera eftir Sókrates. Boðskapurinn var einmitt sá að æskan væri ómöguleg og siðmenningin færi í hundana þegar hún myndi lenda í höndunum á henni. Hann reyndist ekki sannspár. Nema þetta séu hundarnir?
Þannig að ég ákvað ungur að verða aldrei Þráinn/Friðrik/Sókrates sem verður með reglulegu millibili að kveða sér hljóðs á obinberum vettvangi í þeim tilgangi að ná ekki upp í nefið á sér af hneykslan yfir smekk og framferði sér yngra fólks.
En svo koma fram fyrirbæri eins og Sigur Rós.
Sigur Rós
Ekki misskilja mig. Ég gleðst ofsalega yfir því hvað Sigur Rós hefur slegið í gegn í útlöndum, einfaldlega af því að þá er hljómsveitin sem mest þar og sem minnst hérlendis. Því eru nefnilega afskaplega lítil takmörk sett hvað mér finnst Sigur Rós ævintýralega vont band.
Það er til tónlist sem maður einfaldlega hefur ekki áhuga á af því að hún hreyfir ekki við manni, lætur mann algerlega ósnortinn. Síðan er til tónlist sem maður reynir beinlínis að forðast að sitja undir, maður rýkur til og slekkur á viðtækjum sem hún berst úr eða stillir í snatri yfir á aðra rás. Í mínu tilfelli eru þetta einkum Whitney Houston, Mariah Carey, Celine Dion og þessar helstu söngkonur sem mér virðast þenja í sér raddböndin í þeim eina tilgangi að ekki fari á milli mála hvað þær eru duglegar að þenja í sér raddböndin.
Síðan er til tónlist sem hefur þau áhrif á mann að manni finnst maður vera hjá tannlækni án deyfingar. Þannig tónlist leikur Sigur Rós. Tónlist sem er hrein þolraun að sitja undir. Ég hef ekki orðið fyrir þeirri upplifun af neinni annarri tónlist. Wagner-óperur eru beinlínis katsí í samanburði.
Líkamleg vanlíðan getur verið margs konar. Ein sú andstyggilegasta er tilfinningin sem maður fyllist þegar maður rekur puttann á sér óvart á kaf í rotinn ávöxt. Þetta er ekki beint sársauki. Maður getur ekki fullyrt að manni sé illt, að maður finni til, en þetta er samt vont á einhvern alveg sérstakan hátt. Maður grettir sig ósjálfrátt og eðlileg viðbrögð eru ekki að þau að kippa að sér hendinni snöggt eins og þegar maður brennir sig heldur dregur maður hana hægt að sér svona eins og maður hafi áhyggjur af því að hún hafi úldnað út frá skemmdinni og kunni að detta af manni fari maður ekki að öllu með gát. Þegar ég heyri í Sigur Rós verð ég fyrir tónlistarlegri hliðstæðu þessarar tilfinningar í mússíkeyranu. Ég rýk ekki að tækinu og slekk á því í offorsi heldur þagga ég niður í henni með fasi manns sem er að fjarlægja kúkableyju. Hann fer að öllu með gát svo óþverrinn subbi ekkert út, jafnvel þótt það þýði að hann þurfi að umbera fýluna aðeins lengur en ítrasta nauðsyn krefst.
Tónlistargagnrýni
Textanum hér að ofan er ekki ætlað að vera tónlistargagnrýni. Ég geri mér nefnilega grein fyrir því að hljómsveit sem veldur hlustendum þjáningum nær ekki vinsældum. Því tel ég sýnt að um heim allan hljóti stór hópur fólks að elska þetta skerandi surg sem Sigur Rós kallar tónlist, því varla seljast þessar plötur í bílförmum ef þær eru aðeins leiknar í þeim tilgangi að pynta fólk. Ég er því líklega ekki manna best til þess fallinn að gagnrýna hljómsveitina af sanngirni þótt ég hafi vissulega rétt til að finnast það sem mér sýnist um hana og segja frá því á þann hátt sem mig lystir.
Ef það yrði hringt í mig í kjölfar þessara yfirlýsinga minna um Sigur Rós og ég beðinn að skrifa tónlistargagnrýni um nýjustu hljómplötu sveitarinnar í víðlesið tímarit myndi það því óneitanlega hvarfla að mér að tilgangur ritstjórnarinnar með því væri ekki sá að sýna Sigur Rós sem mesta sanngirni. Reyndar er sennilegra að ég drægi þá ályktun að með því væri einmitt verið að fiska eftir sem neikvæðastri umfjöllun um sveitina.
Það er nákvæmlega þannig sem mér fannst The Reykjavík Grapevine koma fram við Bubba Morthens með því að fela Sindra Eldon það verkefni að fjalla um afmælistónleika hans. Um þá skoðun mína leyfði ég mér að skrifa bakþanka í Fréttablaðið (Reykjavík greip væl) sem ég síðan birti hér á þessari síðu. Það er skemmst frá að segja að engir bakþanka minna frá upphafi hafa fengið nálægt því jafnmikil viðbrögð, ekki bara í kommentakerfi þessarar síðu, heldur líka á förnum vegi og símleiðis. Langlanglangflest þessara viðbragða hafa verið vægast sagt afar jákvæð þannig að ég dreg þá ályktun að ég sé ekki einn um þessa skoðun.
Rétturinn til að vera sellát
Viðbrögðin hafa þó ekki öll verið á jákvæðu nótunum. Jafnvel hefur mér verið legið á hálsi að vilja meina reiðum, ungum mönnum að rífa kjaft. Að ég vilji bara samfélag jáara þar sem fólk með óvinsælar skoðanir er útskúfað, að ég vilji slá einhverja skjaldborg um heilagar kýr sem ekki megi gagnrýna, að menn sem ekki geti verið smekklegir og þægilegir aflestrar hafi ekki rétt til að munda stílvopnið.
Satt að segja er ég ekki yfir það hafinn að sárna slík viðbrögð, því ég efast um að margir Íslendingar hafi orðið fyrir eins miklum árásum fyrir tjáningarfrelsið og ég, eins miklum rógi og níði fyrir það sem stjórnarskrá lýðveldisins tryggir okkur réttinn til að setja á prent og segja opinberlega, eins miklum óþægindum fyrir að verja óvinsælar skoðanir. (Fyrigefið mér að slá mér aðeins á brjóst, en þessi síða er jú einu sinni mitt partý – eða eins og vitur maður mælti forðum: "Ég held mig ekkert á mottunni þegar ég á alla helvítis teppabúðina!")
Fyrir utan það þá hvarflar auðvitað ekki að mér að eyða orku í að vernda Bubba fyrir hnýfilyrðum utan úr bæ. Bubbi er stór strákur og hefur staðið margt verra en óhróður og skítkast af sér. Auk þess er ég sannfærður um að löngu eftir að þessi "ungi, reiði maður" verður dauður og grafinn og öllum gleymdur munu verk Bubba Morthens lifa góðu lífi með þjóðinni og halda minningu hans á lofti.
En ég get þó ekki stillt mig um að furða mig á því að reiði þessa meinta unga, reiða manns skuli beinist að því að Bubbi Morthens sé sellát! Árið 1983 var ég nefnilega í pönkhljómsveit sem hét Dossbaradjamm, en hún hélt einmitt eftirminnilega kveðjutónleika það ár. Meðal laganna á efnisskrá þeirra var lagið "Bubbi Morthens fær raflost" þar sem var sungið: "Þeir hringdu í morgun, sögðu að Bubbi væri orðinn óður, / að við litlu pönkarana væri hann ekki lengur jafngóður, / hann væri hættur að syngja um verkamenn / og menningarsnobbara, / hann væri sjálfur orðinn menningarsnobb / og héngi inni á Mokka-a-a-a-aaah! / Bubbi Morthens fær raflost! ..."
Þannig að ef það er einhver uppgötvun að Bubbi Morthens hafi svikið málstað farandverkamannanna þá er hún tæpum aldarfjórðungi of seint á ferðinni til að ég uppveðrist, en auðvitað kann að vera að þetta sé eitthvað sem "ungu, reiðu mennirnir" í dag eru nýbúnir að fatta og fyllir þá eldmóði. Gott hjá þeim. Sjálfur er ég hins vegar löngu búinn að taka þessa gatslitnu lummu af prógramminu hjá mér og farinn að flytja nýrra efni.
Misskilningurinn
Mér virðist að þeir sem brugðust illa við þessum þönkum hafi misskilið mig og auðvitað er aðeins við mig að sakast að hafa ekki tjáð mig skýrar. Mér sárnaði þessi umfjöllun um Bubba Morthens alls ekki fyrir hönd Bubba, eins og margir virðast hafa haldið. Mér sárnaði hún fyrir hönd The Reykjavík Grapevine. Blað sem ég hafði borið virðingu fyrir og þótt skemmtilegt að lesa var dottið ofan í pytt nöldurs og fýlu sem ég kærði mig ekki um að taka þátt í. Það sem verið hafði skemmtilegur félagsskapur var orðið beinlínis niðurdrepandi kompaní. Það má kannski vel vera að fólkið sem ekkert hefur nema aðfinnslur til málanna að leggja sé nauðsynlegt fyrir lýðræðislega umræðu, en það er ekki þar með sagt að manni beri einhver skylda til að finnast það skemmtilegt og návist þess eftirsóknarverð.
Mér finnst til dæmis miklu skynsamlegra að virða það við menn að vera góðir í fótbolta, að hafa náð þeim árangri í íþróttinni að vera atvinnumenn í henni og vera í hópi ellefu bestu knattspyrnumanna þjóðarinnar sem gera sitt besta til að halda uppi heiðri hennar á vellinum, heldur en að hanga við hliðarlínuna og æpa sig hásan af gremju yfir því hvað þetta landslið sé "paþþetikk" og lélegt af því að það tapar oftast fyrir stórþjóðum – án þess auðvitað að geta sjálfur sparkað bolta þótt maður ætti að vinna sér það til lífs.
Þannig finnst mér líka miklu aðdáunarverðara að vera á skjánum í alþjóðlegum sjónvarpsþætti að sýna sönghæfileika sína þannig að heimsbyggðin taki eftir þeim, heldur en að sitja límdur við skjáinn emjandi og veinandi, í keng yfir því hvað þetta sé hallærislegur þáttur og ömurlegur flutningur, auðvitað án þess að geta sjálfur sungið svo mikið sem Gamla Nóa skammlaust.
Sömuleiðis finnst mér miklu virðingarverðara að standa á sviði og flytja frumsamið efni sem þjóðin þekkir og elskar og tekur undir með, heldur en að sitja úti í sal, sjóðandi af bræði yfir því að gæinn á sviðinu sé svo kommersíal að hann njóti hylli og ennþá jafnmikið sellát og fyrir aldarfjórðungi.
Stærsti misskilingurinn er þó auðvitað sá að þetta sé einkenni ungra, reiðra manna. Svo er alls ekki. Þvert á móti. Þetta er einmitt það sem einkennir getulausa og krumpaða karlfauska.
Það er þess vegna sem ég stend mig æ oftar að verki við að taka undir með þessum gömlu körlum allra alda sem eipað hafa á unga fólkinu sem æskunni er svo sannarlega sóað á. Guð hjálpi framtíðinni að lenda í höndunum á þessum fúllyndu fauskum sem nú eru ungir menn.
Ég man að á tímabili var Þráinn Bertelsson sérstaklega iðinn við kolann. Hann skrifaði hverja greinina á fætur annarri í blöðin þar sem hann býsnaðist yfir því að fólk skyldi skemmta sér niðri í miðbæ og voga sér að leika tónlist á meðan. Ég held að ástæðan sé sú að hann hafi keypt sér íbúð í miðborginni og orðið ofsalega hissa þegar hann komst að því að það var ekki grafarþögn úti á götunni eftir miðnætti um helgar. Gott ef það var ekki hreinlega súludansstaður á jarðhæðinni hjá honum.
Friðrik Erlingsson er annar af þessum körlum. Það er merkilegt að annar eins ágætismaður og hann er að öðru leyti skuli alltaf leysast upp í náttúrulausan nítjándualdar siðapostula þegar hann stingur niður penna. Nú síðast tjáði hann sig í einhverju blaðinu um unga fólkið og verslunarmannahelgina af svo forpokaðri siðavendni að það hefði mátt halda að þarna væri verið að rifja upp einhver skrif sem voru aðdragandinn að stofnun Góðtemplarareglunnar á sínum tíma.
Þessi meinloka virðist reyndar vera innbyggð í mannskepnuna. Á öllum tímum hefur ráðsetta fólkið borið kvíðboga fyrir því sem ungu hálfvitarnir myndu taka til bragðs þegar þeim yrði rétt keflið. Einhvern tímann las ég meira að segja texta sem hefði getað verið eftir Þráin/Friðrik, en reyndist síðan vera eftir Sókrates. Boðskapurinn var einmitt sá að æskan væri ómöguleg og siðmenningin færi í hundana þegar hún myndi lenda í höndunum á henni. Hann reyndist ekki sannspár. Nema þetta séu hundarnir?
Þannig að ég ákvað ungur að verða aldrei Þráinn/Friðrik/Sókrates sem verður með reglulegu millibili að kveða sér hljóðs á obinberum vettvangi í þeim tilgangi að ná ekki upp í nefið á sér af hneykslan yfir smekk og framferði sér yngra fólks.
En svo koma fram fyrirbæri eins og Sigur Rós.
Sigur Rós
Ekki misskilja mig. Ég gleðst ofsalega yfir því hvað Sigur Rós hefur slegið í gegn í útlöndum, einfaldlega af því að þá er hljómsveitin sem mest þar og sem minnst hérlendis. Því eru nefnilega afskaplega lítil takmörk sett hvað mér finnst Sigur Rós ævintýralega vont band.
Það er til tónlist sem maður einfaldlega hefur ekki áhuga á af því að hún hreyfir ekki við manni, lætur mann algerlega ósnortinn. Síðan er til tónlist sem maður reynir beinlínis að forðast að sitja undir, maður rýkur til og slekkur á viðtækjum sem hún berst úr eða stillir í snatri yfir á aðra rás. Í mínu tilfelli eru þetta einkum Whitney Houston, Mariah Carey, Celine Dion og þessar helstu söngkonur sem mér virðast þenja í sér raddböndin í þeim eina tilgangi að ekki fari á milli mála hvað þær eru duglegar að þenja í sér raddböndin.
Síðan er til tónlist sem hefur þau áhrif á mann að manni finnst maður vera hjá tannlækni án deyfingar. Þannig tónlist leikur Sigur Rós. Tónlist sem er hrein þolraun að sitja undir. Ég hef ekki orðið fyrir þeirri upplifun af neinni annarri tónlist. Wagner-óperur eru beinlínis katsí í samanburði.
Líkamleg vanlíðan getur verið margs konar. Ein sú andstyggilegasta er tilfinningin sem maður fyllist þegar maður rekur puttann á sér óvart á kaf í rotinn ávöxt. Þetta er ekki beint sársauki. Maður getur ekki fullyrt að manni sé illt, að maður finni til, en þetta er samt vont á einhvern alveg sérstakan hátt. Maður grettir sig ósjálfrátt og eðlileg viðbrögð eru ekki að þau að kippa að sér hendinni snöggt eins og þegar maður brennir sig heldur dregur maður hana hægt að sér svona eins og maður hafi áhyggjur af því að hún hafi úldnað út frá skemmdinni og kunni að detta af manni fari maður ekki að öllu með gát. Þegar ég heyri í Sigur Rós verð ég fyrir tónlistarlegri hliðstæðu þessarar tilfinningar í mússíkeyranu. Ég rýk ekki að tækinu og slekk á því í offorsi heldur þagga ég niður í henni með fasi manns sem er að fjarlægja kúkableyju. Hann fer að öllu með gát svo óþverrinn subbi ekkert út, jafnvel þótt það þýði að hann þurfi að umbera fýluna aðeins lengur en ítrasta nauðsyn krefst.
Tónlistargagnrýni
Textanum hér að ofan er ekki ætlað að vera tónlistargagnrýni. Ég geri mér nefnilega grein fyrir því að hljómsveit sem veldur hlustendum þjáningum nær ekki vinsældum. Því tel ég sýnt að um heim allan hljóti stór hópur fólks að elska þetta skerandi surg sem Sigur Rós kallar tónlist, því varla seljast þessar plötur í bílförmum ef þær eru aðeins leiknar í þeim tilgangi að pynta fólk. Ég er því líklega ekki manna best til þess fallinn að gagnrýna hljómsveitina af sanngirni þótt ég hafi vissulega rétt til að finnast það sem mér sýnist um hana og segja frá því á þann hátt sem mig lystir.
Ef það yrði hringt í mig í kjölfar þessara yfirlýsinga minna um Sigur Rós og ég beðinn að skrifa tónlistargagnrýni um nýjustu hljómplötu sveitarinnar í víðlesið tímarit myndi það því óneitanlega hvarfla að mér að tilgangur ritstjórnarinnar með því væri ekki sá að sýna Sigur Rós sem mesta sanngirni. Reyndar er sennilegra að ég drægi þá ályktun að með því væri einmitt verið að fiska eftir sem neikvæðastri umfjöllun um sveitina.
Það er nákvæmlega þannig sem mér fannst The Reykjavík Grapevine koma fram við Bubba Morthens með því að fela Sindra Eldon það verkefni að fjalla um afmælistónleika hans. Um þá skoðun mína leyfði ég mér að skrifa bakþanka í Fréttablaðið (Reykjavík greip væl) sem ég síðan birti hér á þessari síðu. Það er skemmst frá að segja að engir bakþanka minna frá upphafi hafa fengið nálægt því jafnmikil viðbrögð, ekki bara í kommentakerfi þessarar síðu, heldur líka á förnum vegi og símleiðis. Langlanglangflest þessara viðbragða hafa verið vægast sagt afar jákvæð þannig að ég dreg þá ályktun að ég sé ekki einn um þessa skoðun.
Rétturinn til að vera sellát
Viðbrögðin hafa þó ekki öll verið á jákvæðu nótunum. Jafnvel hefur mér verið legið á hálsi að vilja meina reiðum, ungum mönnum að rífa kjaft. Að ég vilji bara samfélag jáara þar sem fólk með óvinsælar skoðanir er útskúfað, að ég vilji slá einhverja skjaldborg um heilagar kýr sem ekki megi gagnrýna, að menn sem ekki geti verið smekklegir og þægilegir aflestrar hafi ekki rétt til að munda stílvopnið.
Satt að segja er ég ekki yfir það hafinn að sárna slík viðbrögð, því ég efast um að margir Íslendingar hafi orðið fyrir eins miklum árásum fyrir tjáningarfrelsið og ég, eins miklum rógi og níði fyrir það sem stjórnarskrá lýðveldisins tryggir okkur réttinn til að setja á prent og segja opinberlega, eins miklum óþægindum fyrir að verja óvinsælar skoðanir. (Fyrigefið mér að slá mér aðeins á brjóst, en þessi síða er jú einu sinni mitt partý – eða eins og vitur maður mælti forðum: "Ég held mig ekkert á mottunni þegar ég á alla helvítis teppabúðina!")
Fyrir utan það þá hvarflar auðvitað ekki að mér að eyða orku í að vernda Bubba fyrir hnýfilyrðum utan úr bæ. Bubbi er stór strákur og hefur staðið margt verra en óhróður og skítkast af sér. Auk þess er ég sannfærður um að löngu eftir að þessi "ungi, reiði maður" verður dauður og grafinn og öllum gleymdur munu verk Bubba Morthens lifa góðu lífi með þjóðinni og halda minningu hans á lofti.
En ég get þó ekki stillt mig um að furða mig á því að reiði þessa meinta unga, reiða manns skuli beinist að því að Bubbi Morthens sé sellát! Árið 1983 var ég nefnilega í pönkhljómsveit sem hét Dossbaradjamm, en hún hélt einmitt eftirminnilega kveðjutónleika það ár. Meðal laganna á efnisskrá þeirra var lagið "Bubbi Morthens fær raflost" þar sem var sungið: "Þeir hringdu í morgun, sögðu að Bubbi væri orðinn óður, / að við litlu pönkarana væri hann ekki lengur jafngóður, / hann væri hættur að syngja um verkamenn / og menningarsnobbara, / hann væri sjálfur orðinn menningarsnobb / og héngi inni á Mokka-a-a-a-aaah! / Bubbi Morthens fær raflost! ..."
Þannig að ef það er einhver uppgötvun að Bubbi Morthens hafi svikið málstað farandverkamannanna þá er hún tæpum aldarfjórðungi of seint á ferðinni til að ég uppveðrist, en auðvitað kann að vera að þetta sé eitthvað sem "ungu, reiðu mennirnir" í dag eru nýbúnir að fatta og fyllir þá eldmóði. Gott hjá þeim. Sjálfur er ég hins vegar löngu búinn að taka þessa gatslitnu lummu af prógramminu hjá mér og farinn að flytja nýrra efni.
Misskilningurinn
Mér virðist að þeir sem brugðust illa við þessum þönkum hafi misskilið mig og auðvitað er aðeins við mig að sakast að hafa ekki tjáð mig skýrar. Mér sárnaði þessi umfjöllun um Bubba Morthens alls ekki fyrir hönd Bubba, eins og margir virðast hafa haldið. Mér sárnaði hún fyrir hönd The Reykjavík Grapevine. Blað sem ég hafði borið virðingu fyrir og þótt skemmtilegt að lesa var dottið ofan í pytt nöldurs og fýlu sem ég kærði mig ekki um að taka þátt í. Það sem verið hafði skemmtilegur félagsskapur var orðið beinlínis niðurdrepandi kompaní. Það má kannski vel vera að fólkið sem ekkert hefur nema aðfinnslur til málanna að leggja sé nauðsynlegt fyrir lýðræðislega umræðu, en það er ekki þar með sagt að manni beri einhver skylda til að finnast það skemmtilegt og návist þess eftirsóknarverð.
Mér finnst til dæmis miklu skynsamlegra að virða það við menn að vera góðir í fótbolta, að hafa náð þeim árangri í íþróttinni að vera atvinnumenn í henni og vera í hópi ellefu bestu knattspyrnumanna þjóðarinnar sem gera sitt besta til að halda uppi heiðri hennar á vellinum, heldur en að hanga við hliðarlínuna og æpa sig hásan af gremju yfir því hvað þetta landslið sé "paþþetikk" og lélegt af því að það tapar oftast fyrir stórþjóðum – án þess auðvitað að geta sjálfur sparkað bolta þótt maður ætti að vinna sér það til lífs.
Þannig finnst mér líka miklu aðdáunarverðara að vera á skjánum í alþjóðlegum sjónvarpsþætti að sýna sönghæfileika sína þannig að heimsbyggðin taki eftir þeim, heldur en að sitja límdur við skjáinn emjandi og veinandi, í keng yfir því hvað þetta sé hallærislegur þáttur og ömurlegur flutningur, auðvitað án þess að geta sjálfur sungið svo mikið sem Gamla Nóa skammlaust.
Sömuleiðis finnst mér miklu virðingarverðara að standa á sviði og flytja frumsamið efni sem þjóðin þekkir og elskar og tekur undir með, heldur en að sitja úti í sal, sjóðandi af bræði yfir því að gæinn á sviðinu sé svo kommersíal að hann njóti hylli og ennþá jafnmikið sellát og fyrir aldarfjórðungi.
Stærsti misskilingurinn er þó auðvitað sá að þetta sé einkenni ungra, reiðra manna. Svo er alls ekki. Þvert á móti. Þetta er einmitt það sem einkennir getulausa og krumpaða karlfauska.
Það er þess vegna sem ég stend mig æ oftar að verki við að taka undir með þessum gömlu körlum allra alda sem eipað hafa á unga fólkinu sem æskunni er svo sannarlega sóað á. Guð hjálpi framtíðinni að lenda í höndunum á þessum fúllyndu fauskum sem nú eru ungir menn.
18 ummæli:
Kveðja sér hljóðs væni, kveðja ekki kveða!
Þetta var ágætt þangað til í lokin þegar að rökþrot allrar gagnrýni á gagnrýni stakk fram hausnum - þeir sem eru að gagnrýna hafa ekki efni á því af því þeir geta ekkert betur sjálfir. Fæst myndum við ráða við að stjórna landinu, en það þýðir ekki að við getum ekki séð einhver merki þess þegar okkur þykir því illa stjórnað. Einhver kann að kalla dæmið ýkt en þar sem ég tel listir margfalt mikilvægari en þessi leiðinda stjórnmál þá finnst mér jafnvel enn mikilvægara að benda á ef okkur finnst eitthvað vera að á þeim bænum. Ég kann ekki að leikstýra bíómynd en ég er meira en nógu fróður um þær til þess að hafa ágætlega rökstuddar skoðanir á hvað er gott þar og hvað ekki. Ég þarf heldur ekki að kunna að syngja til þess að vera þreyttur á endalausri hræsni títtnefnds kóngs, Eldon er máski bara krakki (og oftast þreytandi krakki það sem ég hef lesið) en það þurfti greinilega krakka til þess að benda á það að keisarinn væri nakinn. Vissulega höfðu aðrir krakkar bent á það áður en alltaf gleyma hinir heldri fjölmiðlar landsins því jafnharðan og halda áfram að útvarpa bíla-, Hagkaups- og Essoauglýsingum á meðan kóngurinn sjálfur kemst aðallega í fréttirnar fyrir að skrifa undir risasamninga við stórfyrirtækin sem kosta svo afmælið hans. Getur ekki verið að rétt eins og þú sért minna að verja Bubba og að lýsa vonbrigðum með Grapevine séum við hin sem býsnumst yfir Bubba að gera það út af því að við erum orðin þreytt á því að flestir fjölmiðlar landsins eyða ómældu magni útsendingartíma og prentsvertu í gagnrýnislausa konungsdýrkun? Auðvitað nennir engin að gagnrýna lélegan trúbador sem kemst ekki lengra en í bílskúrinn (nema helst nágrannarnir) því hann er ekki fyrir neinum og treður sér ekki upp á neinn. En því meira áberandi sem einhver er því meiri ástæða til þess að láta andúð sína í ljós (sé hún til staðar), aðeins til þess að segja: ég greiði hér með atkvæði mitt með minni fjölmiðlaathygli um Bubba/Sigurrós/Magna af því ég veit um svo miklu betri tónlistarmenn sem eiga prentsvertuna frekar skilið.
Hins vegar er ég alveg sammála þér og Þórunni að einu leyti – fólki ber að hafa vit á hlutum þegar það fjallar um þá í fjölmiðlum (og Sindri virðist hafa þokkalega vit á tónlist þó hann sé svo óheppinn að vera ekki á sama aldursskeiði og Bubbi). Þar skortir sorglega mikið á hérlendis hjá öllum fjölmiðlum, gott dæmi um það er raunar fótboltagreinin nýlega í Grapevine sem ég reikna með að þú sért að vísa í þarna. Enn betra dæmi var óskrifandi uppgjafarrapparinn sem dæmdi bíómyndir í nýlega fyrrverandi dagblaði um árið. En það snýst ekki um jákvæði eða neikvæðni, það snýst um innsæi, hæfileika og þekkingu. Voru þessir pistlar illa skrifaðir, jafnvel heimskulegir? Afhjúpuðu þeir vanþekkingu? Eða varstu einfaldlega ósammála þeim? Þetta eru allt saman gild umræða, ekki sú að menn séu óhæfir gagnrýnendur fyrir aldurssakir.
Að endingu, varðandi pistlana um Magna: ef fjórir fyrstu pistlarnir um Rockstar eru lesnir þá er umfjöllunin um Magna miklu oftar jákvæð heldur en neikvæð. Jafnvel óhóflega jákvæð á stöku stað. Af hverju var þess hvergi getið í bakþankanum?
Hæ Davíð
heldur snautleg vörn, þó löng sé hún. Hallgríms Helgasonar-löng, jafnvel.
En já, fáir eru líklegri til að komast að niðurstöðum en æstur múgur, almannarómur og/eða dómstóll götunnar. Það sést líklega best á hóp stuðningsmanna sem þú ert búinn að sanka að þér hér að neðan.
Njóttu þín og þeirra vel,
-haukur sm
PS – þakka þér kærlega fyrir að verja dyggilega frelsi fjölmiðla til að taka vafasamar myndir af ný-sjálfráða stúlkum.
Eitt er að vera sellát, annað að gera hlé á tónleikum fyrir auglýsingar. Mér fannst upphaflega gagnrýni þín ekki snúast að því að Sindri hefði gagnrýnt Bubba fyrir að vera sellát, heldur einmitt fyrir að ná ekki til hans í tónlist sinni. Það fannst mér Sindri hins vegar alls ekki gera heldur einblína fyrst og fremst á sellát Bubba. Þú minntist hins vegar ekki á það í bakþönkunum.
Hins vegar er gagnrýni þín á Sigur rós einmitt gagnrýni eins og ég væri til í að lesa. Hvað hún tengist umfjöllun Sindra, sem talar m.a. um fallega tónlist Bubba, veit ég þó ekki. Báðar eru þær umfjallanir hins vegar fyndnar.
Ásgeir: Úps, það er eins gott að lesa það sem maður skrifar nokkrum sinnum áður en maður setur það hingað á síðuna. Þetta er auðvitað hárrétt hjá þér. Auðvitað þarf hvorki að vera knattspyrnumaður til að mega finnast landsliðið lélegt né tónlistarmaður til að hafa tónlistarsmekk, rétt eins og maður þarf ekki að vera stjórnmálamaður tl að hafa stjórnmálaskoðanir. Þakka þér fyrir ábendinguna. Hún er svo góð að mér finnst reyndar freistandi að taka setningarnar " ... án þess auðvitað að geta sjálfur sparkað bolta þótt maður ætti að vinna sér það til lífs" og " ... auðvitað án þess að geta sjálfur sungið svo mikið sem Gamla Nóa skammlaust" út úr blogginu því þær gera ekki annað en að óhreinka meininguna, en held að ég láti það ógert þótt án þeirra væri miklu skýrara hvað ég á við. Það væri einhvers konar fölsun í því, en vissulega eru þær til vansa. Ég stend enn á því fastar en fótunum að það sem Magni og landsliðið séu ólíkt virðingarverðari en þeir sem sitja heima og engjast yfir því hvað hvorir tveggja séu lélegir og hrauna yfir þá á netinu og í tímaritum, þótt mér detti ekki í hug að efast um rétt fólks til að gera það.
Hvað pistlana um Magna varðar þá er þeirra ekki getið í bakþankanum einfaldlega vegna plássleysis. En það er einmitt ágætt að fylgjast með þróun RGv til aukins væls með því að bera saman Magnapistlana frá tölublaði til tölublaðs, hvernig hann fer frá því að vera "charming" og "intelligent" og "demonstrating true talent" (að vísu var ekki hægt að una honum þess án þess að taka það fram í leiðinni að hann syngi "karaoke from hell") yfir í það að hann væri bara að níðast á líki Kurts Cobains.
hsm: Þakka þér kærlega athugasemdina um unglingsstúlkurnar. Það er nákvæmlega þetta sem ég átti við með að tala um að ég hefði orðið fyrir rógi og óþægindum vegna tjáningarfrelsisins. Það var því ágætt að fá þetta sýnishorn af því sem ég var að meina hingað inn á síðuna.
Því auðvitað hafið þið Kolbrún Halldórsdóttir rétt fyrir ykkur hvað það varðar að það eina sem ég var að gera á B&B var að birta myndir af allsberum nýsjálfráða unglingstúlkum (sem reyndar voru langlangflestar starfandi fatafellur í Reykjavík á þeim tíma, hvort sem aðstandendum þeirra var það ljóst eða ekki) en ekki að vekja fólk til umhugsunar um hættuna sem steðjaði að tjáningar- og prentfrelsinu og benda á hve löggjafinn væri nálægt því að skerða það út af smekksatriðum.
Sjálfum hefur mér hins vegar aldrei dottið í hug að skerða ætti tjáningarfrelsi nokkurs manns, sama hve lágkúrulegar mér hafa fundist skoðanir hans.
kolbeinn: Það hvort Sindri gagnrýndi tónsmíðar Bubba eða "sellát"-legt fyrirkomulag tónleikanna finnst mér ekki vera aðalatriðið, en mig minnir að hann hafi farið hörðum orðum um hvort tveggja, þótt hann hafi viðurkennt að einu sinni hafi Bubbi getað samið lög. Ég man hins vegar að hann lét í ljós þá skoðun að Diddú hefði afleita söngrödd, "neglur í krítaröflu" minnir mig að hann hafi kallað hana. Það er vissulega fyndin lýsing, en varla boðleg sem vitræn tónlistargagnrýni. Það sem ég minnist á í bakþönkunum er mun færra en ástæða hefði verið til, plássið er svo lítið að maður getur eiginlega aðeins drepið á það helsta og skrifað í stikkorðastíl.
Gagnrýni mín á Sigur Rós var einmitt ekki gagnrýni heldur persónuleg upplifun mín, sem ég reyndi einmitt að lýsa þannig að hún væri skemmtileg aflestrar. Ég tók það hins vegar skýrt fram að þar sem upplifun mín væri svona gersamlega á skjön við upplifun markhóps hljómsveitarinnar væri ég ekki fær um að skrifa gagnrýni um hana í blöðin, aðeins lýsa því hvað mér sjálfum finnst hún ævintýralega afleit. Hún kemur Sindra við að því leyti að hann er jafnhæfur til að fjalla um Bubba. Auðvitað er gott að texti sé fyndinn, en það er kannski mikilvægara að tónlistargagnrýni sé sanngjörn en fyndin.
Davíð,
mér þykir næsta grátlegt að hugsa til þess að þér hafi tekist að sjá þig sem einhverskonar krossbera málfrelsisins þegar þú – eins og þú reyndar bendir á, en mér dettur í hug að það eigi að vera kaldhæðni – gerðir ekki annað en að miðla ljósmyndum af nýsjálfráða stúlkum sem flestar störfuðu við nektardans og, merkilegt nokk, hafa margar hverjar birst í grát-og-eftirmeðferðarviðtölum í DV síðan blómaskeiði B&B lauk. En fólk gerir ýmislegt til að halda í sjálfsvirðinguna, líklegast.
Nei, en sjáðu. Ég hef alveg jafn gaman af berum gellum og næsti maður og skoðaði stundum blaðið þitt. Ekkert að því. Og þú stóðst þig vel í ritstjórastólnum, betur en forveri þinn sem og eftirmaður.
Það er hinsvegar kyndugt og fyndið að þú hafir séð það sem þitt meginhlutverk á þeim bænum að vera málsvari málfrelsisins. Larry Flynt-heilkenni? Fyrir hvað fékkstu eiginlega borgað og í hverju fólst vinnan?
Annars er þetta langt utan upprunalega umræðuefnisins og skiptir svosum engu máli. Þannig að bara …lago.
Annað: það eru alveg nokkrar aðferðir við að takmarka tjáningarfrelsi fólks og lagasetning er ansi lítilvæg í þeirra hópi, eins og ég býst við að þú vitir vel. Þá hefur oft gengið betur að spila á æstan múg og ‘sómakennd’ hans. Og kannski fáum við í staðinn opinbera aftöku! Ha ha.
Kkv,
-hsm
ps – Þegar maður er í Word að semja og liggja yfir löngum svörum til póstunar á bloggsíðum, þá er gott að hafa í huga að blogger og það skilja ekki ‘TAB’ takkann. Sniðugt er að gera bil með ENTER bara í staðinn. Þannig verður framsetning öll fallegri.
sammála þessu
Svo ég minnist á það aftur þá var titill greinarinnar "Pretty Music - Ugly Spectacle". Það segir ansi mikið um upplifun Sindra á tónlist Bubba annars vegar og tóneikunum hins vegar. Sérstaklega fyrir þann aragrúa sem hefur bara lesið fyrirsögnina.
Það sem sló mig var þetta. Ég las grein Sindra sem frábæra ádeilu á sellát Bubba Morhtens. Hvort aðrir hafa gert það á undan honum skiptir einfaldlega engu máli. Það eina sem D.Þ.J. minnist á í bakþönkum sínum um Sindra er að hann hafi gagnrýnt Bubba fyrir að miða ekki tónlistarsköpun sína að aldri Sindra sjálfs. Þarna upplifði ég að aðalatriðið í gagnrýni Sindra væri fullkomlega hundsað, þess í stað reynt að vera sniðugur með því að skjóta á ungan aldur Sindra og miða við fimmtugsafmæli Bubba.
Hins vegar finnst mér skrif Sindra minna mig á skrif Hunter S. Thompson. Hann fór á ráðstefnur og viðburði sem hann vissi algjörlega fyrirfram að hann mundi hafa fullkomna andúð á - t.a.m. lögregluráðstefnu. Engu að síður skrifaði hann um upplifun sína frá þessum viðburðum. Hann þóttist ekki vera að reyna að vega og meta hlutina - þetta var meira "svona fannst mér og mér er skítsama hvort þér fannst það eða ekki."
Mér fannst grein Davíðs um Sigur rós einmitt fyndin af því að hann reyndi ekki að gagnrýna tónlistina á hlutlausan hátt. Hann reyndi að lýsa upplifun sinni af því að hlusta á tónlistina - fyrir vikið var þetta mun áhugaverðari lesning en ella. Og það er einmitt það sem mér fannst um grein Sindra og finnst hún snúast um.
Hann hefur að mörgu leyti komið með nýja strauma inn í íslenska blaðamennsku. Í stað þess að viðurkenna hve gaman er að því að ekki séu allir eins í skrifum sínum, þá finnst mér allt of margir fordæma þau af því að stundum gengur hann of langt.
Ég skrifaði þetta í kommenti við bakþankana sjálfa, en það á örugglega enginn eftir að lesa það, svo ég segi þetta aftur:
Mér finnst út í hött að ætla að verja skrif Sindra á einhverjum öðrum forsendum en þeim að þetta sé tónlistargagnrýni. Hunter S. Thompson var ekki tónlistargagnrýnandi. Ef blaðamaður fer til að skrifa gagnrýni um tónleika ber honum skylda til þess að mæta á staðinn með opnum huga. Ef hann telur sig ekki geta það á hann að biðja einhvern annan að taka að sér verkefnið. Ég var sjálfur einu sinni blaðamaður í lausamennsku á Grapevine, og ég passaði mig að skrifa ekki um tónlistarmenn eða annað sem ég vissi að ég myndi hafa óbeit á. Ég skrifaði mikið af leikhúsgagnrýni, en mér hefði ekki dottið í hug að mæta á sýningu á verki sem ég þyldi ekki, eða eitthvað sem leikstjóri sem væri mér illa að skapi hefði sett upp. Þá hefði ég afþakkað verkefnið.
Sem dæmi um það vinnubrögð Sindra skrifaði hann ákaflega neikvæða gagnrýni um tónleika blústónlistarmannsins David Honeyboy Edwards sem kom hingað í nóvember síðastliðnum. Ég var viðstaddur þessa tónleika, og fannst mér eins og öðrum blústónlistaráhugamönnum þetta vera einn merkasti og besti blúsviðburður síðari ára á Íslandi. Stemningin var frábær og allir virtust skemmta sér vel. Nema Sindri. En það er svo sem ekki í frásögur færandi að gagnrýni hans hafi verið neikvæð. Það sem skýtur hins vegar skökku við er það sem tónleikahaldarinn sagði mér nokkru eftir að gagnrýnin birtist í Grapevine. Sindri var nefnilega ekki viðstaddur tónleikana, því honum var hent út á meðan upphitunarbandið var á sviðinu. Sindra var hent út fyrir að stela bjór sem var ætlaður tónlistarmönnunum. Það hindraði hins vegar ekki að hann skrifaði níðgrein um tónleikana, enda augljóslega skúffaður yfir að fá ekki að stela bjór í friði. Hvernig er hægt að taka mark á skrifum þessa manns um tónlist, þegar maður getur ekki einu sinni verið viss um að hann hafi yfir höfuð hlustað á hana?
Þetta er bara nokkuð skemmtilegur pistill og margt til í honum.
Ekki myndi ég t.d. taka að mér að skrifa bókmenntagagnrýni um tímaritið Bleikt og blátt, sem ég hef aldrei kunnað að meta (enda er ég varla í markhóp þess rits).
Ég myndi ekki heldur taka að mér að skrifa kvikmyndagagnrýni um hryllingsmynd, af því að ég hef óbeit á svoleiðis myndum.
Gagnrýnendur eiga ekki ausa lofi á allt og alla, en ef maður fer á einhvern viðburð með fyrirfram myndaða skoðun, þá er það ekki gagnrýni, heldur pistlaskrif.
Hafa menn rétt til að vera sellát? Það er skemmtileg pæling.
Mig minnir endilega að það hafi verið Nick Cave sem útskýrði í viðtali hvers vegna hann harðbannaði umboðsmanninum sínum að selja lögin sín í auglýsingar. Ástæðan var ekki sú að hann væri svo viðkvæmur fyrir því að sjá verk sín notuð í slíku samhengi (hann gæti þá a.m.k. grátið alla leið í bankann...) Hins vegar sagðist hann skilja að mörg laga hans hefðu mikið persónulegt gildi fyrir fjölda aðdáenda hans. Fólk tengdi oft lögin við dýrmætar minningar eða atburði í sínu lífi. Það væri rangt gagnvart þessu fólki að spila lögin undir auglýsingum um bílabón.
Þetta finnst mér áhugavert sjónarmið. Samkvæmt því er frelsi listamannsins til að vera sellát skert. Með sellátinu svíkur hann nefnilega ekki bara sjálfan sig, heldur annað fólk líka.
Þegar ég var ellefu ára fannst mér Bubbi frábær og var sannfærður um að hann yrði heimsfrægur, ef hann léti af þessu þjóðlega göfuglyndi sínu að syngja á ensku. Pistlar Jens Guð. á poppsíðu Æskunnar urðu síst til að grafa undan þessari trú minni.
Þegar ég var kominn í gaggó var Bubbi orðinn harla lítið rokkaður. Gott ef hann gerði ekki Kúbuplötuna um það leyti. Mér var alveg sama, enda ristu tilfinningaleg tengsl mín við tónlist Bubba ekki djúpt. Ég var bara farinn að hlusta á eitthvað annað.
Ég get hins vegar alveg skilið að sumt af því fólki sem hafði lifað og hrærst í tónlist Bubba hafi orðið hvekkt yfir þeirri stefnu sem hann tók á tíunda áratugnum. Þar sem Bubbi var (og er að sumu leyti enn) sérstaklega harður og berorður gagnrýnandi á það sem hann hefur talið aflaga fara, var sjokkið örugglega sérstaklega slæmt.
Það má örugglega færa fyrir því einhver rök að tónlistarmenn hafi rétt á að vera sellát, en þeir geta þá ekki orðið hissa þegar þeir fá á baukinn fyrir það.
Hitt er hins vegar annað mál að ég hefði haldið að Sindri Eldon væri svo ungur að honum hefði átt að takast að leiða Bubba Morthens hjá sér að mestu eða öllu leyti. Í það minnsta er hann í yngsta lagi til að geta upplifað sellát Bubba sem persónuleg svik við sig. Að því leyti skil ég reiði ykkar félaga í Dossbaradjamm miklu betur...
Orðahnippingar okkar Hauks eru, eins og hann segir sjálfur, komnar langt út fyrir upprunalega umræðuefnið, auk þess sem ég er að verða leiður á þeim, svo mig langar að taka undir með honum … lago.
Vegna orða hans um 'Larry Flynt' heilkennið mitt langar mig samt fyrst að útskýra svolítið fyrir honum og öðrum sem kynnu að hafa misskilið 'Teppabúðarávarpið' mitt litla. Hvort sem hann trúir því eða ekki að þjóðfélagið hafi verið svona afturábak fyrir jafn skömmu síðan og raun ber vitni, þá þurfti ég á ritstjórnarárum mínum á B&B að búa við það að vera með reglulegu millibili kallaður í yfirheyrslu hjá lögreglunni vegna gruns um að ákvarðanir sem ég var ráðinn til að taka í vinnunni vörðuðu allt að tveggja ára fangelsisvist. Þetta leyfi ég mér að kalla að verða fyrir óþægindum. Ég efast ennfremur um að margir Íslendingar hafi þurft að þola það að vera sakaðir um það í víðlesnu dagblaði að hafa dreift barnaklámi á netinu, eins og ég mátti þola fyrir það eitt að hafa verið ritstjóri á umdeildu tímariti. Þetta leyfi ég mér að kalla að verða fyrir rógi og níði. Á þessum tíma var það helsta baráttumál heils stjórnmálaflokks, sem óx stöðugt fiskur um hrygg í skoðanakönnunum, að gera útgáfu tímaritsins sem ég vann við ólöglega og var mér í fjölmiðlum á þessum tíma hvað eftir annað stillt upp við vegg til að verja gjörðir mínar. Þetta leyfi ég mér að kalla að verða fyrir árásum fyrir prentfrelsið. Við þurfum nefnilega ekki prentfrelsi til að prenta það sem víðtæk sátt ríkir um að sé smekklegt og fallegt heldur einmitt til að mega prenta það sem fólk vill ekki að sjáist, einkum það sem fólk vill ekki að aðrir sjái.
Mér dettur ekki í hug að spila mig einhvern "krossbera málfrelsisins" eða píslarvott mannréttindabaráttu á Íslandi. Til þess ber ég einfaldlega of mikla virðingu fyrir mannréttindabaráttu. En það þýðir hins vegar ekki að ég ætli að láta eins og það starfumhverfi sem mér var búið á ritstjórnarárum mínum á B&B hafi verið eðlilegt í þjóðfélagi sem þykist hafa tjáningar- og prentfrelsið í öndvegi.
Ég verð eiginlega að mótmæla því að það sé verið að draga nektarmyndir af ný-sjálfráða stúlkum inn í þetta mál, þar sem þær eru jú sjálfráða þegar þær myndir eru teknar og þó einhverjar séu í einhverjum eftirköstum eftir að hafa verið stripperar í denn, þá er það ekki við DÞJ að sakast.
Engu að síður; Góður pistill.
Ég kíkti að gamni á Sindrasíðuna.
Mikil lifandis ósköp hlýt ég að vera orðinn gamall, mér var bara farið að líða hálf illa af því að lesa þessi ósköp, gafst hreinlega upp, í sannleika sagt.
Hvað skyldi vera að baki þessari óskaplegu heift í drengnum?
Þetta kemur kannski ekki umræðunni beinlínis við, varð bara að koma þessu frá mér.
Heill og sæll Davíð. Það var skemmtilegt að lesa pistilinn um okkur karlfauskana, mig, Þráinn og Sókrates. Sjaldan hef ég verið spyrtur við jafn ágæta drengi. Og það sem meira er - ég er þér hjartanlega sammála í skilgreiningunni á okkur - nema, ég sé bara ekkert neikvætt eða athugavert við það að vera nítjándu aldar karlfauskur. (ég get ekki skrifað undir náttúruleysið, verandi nýbakaður stoltur faðir, á gamals aldri)
Á öllum tímum er æskan hirt og skömmuð af þeim sem telja sig hafa efni á að hirða hana og skamma - og á öllum tímum er æskan að rústa siðmenningunni. Það gerist æ ofan í æ - það er eðlilegt. Í tilfelli æskunnar heitir það gelgjuskeið, í tilfelli karlfauskanna heitir það miðaldurskreppa. Vandinn er að sumir vaxa aldrei uppúr gelgjuskeiðinu, óþarfi að nefna nein dæmi í því sambandi, en halda sér fast í hormónapólinn einsog brjálaður krakki sem rígheldur sér í slánna í strætisvagninum og vill ekki láta mömmu draga sig út á þessari stoppistöð.
Réttur okkar, karlfauskanna, til að þusa, byggir á þeirri sannfæringu, að við séum vaxnir uppúr gelgjuskeiðinu og höfum kannski aðra sýn á hlutina fyrir vikið. Í því sambandi er 19. öldin síst verri en margar aðrar, a.m.k. virkar hún svona frekar modern miðað við það síð-rómverska sukk og svínarí sem viðgengst í okkar samfélagi... Hrunadans, er það kallað, hér hjá okkur 19. aldar mönnum.
En svona er nú bara gangur lífsins, bylgjur rísa og hníga - og hér syndum við fiskarnir.
En svo ég leggi nú orð í belg varðandi þessa músíkumræðu, þá skil ég engan vegin hvað fólk er óskaplega upptekið af allri þessari músík, hvað fólk er eiginlega að reyna að flýja með öllum þessum ofuráhuga á því hvað þessi eða hinn er að spila eða syngja, hvað þessi eða hin hljómsveitin er að gera. Þetta er farið að jaðra við fótboltahysteríuna, nema að þegar músikin er annars vegar þá er engu líkara en það sé HM á hverjum degi. Það er engin maður með mönnum nema hann gangi með sarp á erminni, með þetta ca 5000 lög í handraðanum að hlusta á einhvern skrattann.
Fólk virðist vera farið að skilgreina sjálft sig útfrá því hvaða hljómsveitir það hlustar á. Skilur einhver þetta rugl? Ekki ég.
Sjálfur var í hljómsveit, meira að segja tveimur sem urðu talsvert þekktar, innanlands sem utan. Svo var það bara búið spil. Hljómsveitir eru ekkert merkilegar, nema rétt á meðan maður er krakki og finnst þetta spennandi.
Sumir gera tónlist að atvinnu sinni; það er svona svolítið einsog að vera flokkstjóri í unglingavinnunni, eða fóstra á leikskóla - og það er ekkert athugavert við það.
Í þessari ofsalegu músikdýrkun sýnist mér fólk vera orðið almennt sammála um það að flýja af hólmi inní bómullarveröld sem er ímyndun ein. Það getur varla verið mikið í gangi í þeim heilabúum sem hafa ekki undan við að skipta frá einu laginu yfir á það næsta.
Hvað þessum eða hinum finnst svo um þennan eða hinn tónlistarmanninn er einhver sú náttúrlausasta umræða sem yfirleitt er hægt að eyða tímanum í. Hvað verður það næst? Málþing um orðræðu í tónlistargagnrýni?
19. öldin sendir bestu kveðjur.
Þetta er orðin athyglisverð umræða um eðli tónlistardýrkunar. Mér fannst innleg Friðriks áhugavert og það rifjaði upp fyrir mér þegar við fænka mín (sem vorum dyggir aðdáendur Purrks Pillnikks) lömdum á glugga æfingarhúsnæðis þeirra mætu sveitar (á Vesturgötunni held ég) og æptum "Á ég að rota ykkur". Síðan hlupum við í burtu með hjartað í buxunum, handviss um að hinir brjáluðu pönkarar, Friðrik, Bragi Ólafs, Ásgeir og Einar Örn, myndu elta okkur og lemja fyrir að syngja eitt laga þeirra.
Hins vegar held ég að Friðrik sé á villigötum með að tengja dýrkun á tónlist og tónlistarmönnum við nútímann. Í gegnum söguna hafa þeir sem orðið hafa færir í að flytja tónlist eða semja sankað að sér aðdáendum. Lútu- og gömbuleikarar miðalda, Mozart, Paganini, Chopin... allir áttu þeir og svo ótal margir fleiri dyggan aðdáendahóp sem fylgdist með öllu sem þeir gerðu.
Tækni þess tíma bauð hins vegar ekki upp á að allur fjöldinn skellti sér með í fjörið. Yfirstéttarfólkið sat eitt um hituna, en það lét sitt ekki eftir liggja. Enginn var maður með mönnum nema hann vissi nýjasta skandalinn um Mozart, sögusagnir um að Paganini hefði selt djöfulinn sál sinni urðu til þess að hann sást aldrei öðruvísi en svartklædur og ótal margt fleira.
Aðdáun á tónlistarmönnum er því aldagömul og var einmitt í hávegum höfð á 19. öldinni sem Friðrik kennir sig við. Það að í dag séu allir með 5000 lög í handraðanum og geti hlustað á að vild er bara hluti að línulegri þróun sem gerði tónlistina aðgengileg fjöldanum, pöpulnum - vinsæla, popular music, poppmússík.
Það er nú varla nema gott um það að segja að við hinn sótsvarti almúgi fáum að velta okkur upp úr hegðan tónlistarhetja okkar líkt og aðallinn gerði forðum, eða hvað?
Þvílíkar og aðrar eins vinsældir... maður hefur ekki við að fylgjast með :) ég segi nú bara lifið í lukku og gott gengi, til hamingju með pönnukökurnar og gamanið! Læt allar pólitískar/málefnalegar skoðanir sitja á hakanum, góðanótt að neðan!
Ömmmm góðan dag öllsömul.
Ég geri mér grein fyrir því að innkoma mín í þessa umræðu er ansi sein -það er auðvitað gjörsamlega hallærislegt að ætla að hafa skoðanir hálfum mánuði á eftir öllum hinum, en ég er í óvæntu fríi um miðjan dag og það er tvennt í þessari umræðu sem veldur því að ég get ómögulega orða bundist lengur. Annars vegar hvað varðar blústónleika"skandalinn" hans Sindra í fyrra; voru þetta ekki sokkar sem hann átti að hafa stolið? Og hefur hann ekki varið þetta allt saman og hrakið sem lygi og kjaftasögur fyrir margt löngu?
Hins vegar varðandi klámumræðuna sem liggur eins og margoft hefur verið bent á langt fyrir utan tónlistargagnrýniumræðuna; er ekki ólöglegt að dreifa klámi á Íslandi? Eða var kannski ekki klám í B&B í ritstjórnartíð DÞJ? Eða stangast lög og stjórnarskrárbundin réttindi á þarna? Það er bannað að dreifa klámi en þar sem við höfum rétt til að tjá okkur, þá höfum við rétt til að dreifa klámi? Eða var/er tilgangur blaðsins (/hugsjónir blaðamanna og ritstjóra) ekki sá að dreifa klámi heldur að benda á þennan tvískinnung, árekstur milli laga og stjórnarskrár? HAHA!
Bestu,
Hildur Lilliendahl.
Skrifa ummæli