þriðjudagur, október 31, 2006

Upp um alla veggi og súlur

Fyrir nokkrum árum þýddi ég sjónvarpsþætti sem hétu Otrabörnin (PB&J Otter). Þættirnir fjölluðu um þrjú systkin sem bjuggu við Húrravatn (Lake Hoohaw) og ævintýri þeirra og vina þeirra. Þættirnir höfðu uppeldislegt gildi og í þeim var mikið sungið, tvö lög voru í hverjum þætti. Þættirnir voru 65 talsins þannig að auðvelt er að reikna það út að í þeim voru 130 sönglög sem ég þurfti að gera texta við. Sæmilegt það.
Þegar maður er á tímakaupi við að yrkja 130 söngtexta verður maður stundum að hugsa „þetta er fínt fyrir þennan pening“, rumpa þessu af og halda áfram með vinnuna. Ég hugsaði ennfremur á erfiðustu köflunum: „Ólafur Haukur myndi ekki hika við að senda þetta frá sér.“ En meðal þess ólýsanlega amböguhroða sem hann hefur látið frá sér fara má nefna: „Við steypumst beint úr lofti / eins og helekopti ...“ Í öllum þessum 130 söngtextum gerði ég aldrei neitt svona skelfilega slæmt. Ólafur hefur að vísu þann status að hjá honum heitir þetta „persónulegur stíll“.
Þessum textum mínum er ég hins vegar búinn að steingleyma öllum með tölu, nema hluta af einum þeirra. Það er af því að ég er svo óánægður með hann. Hann er við lag sem á frummálinu hét: „Blowing Bubbles“. Í þeim þætti voru börnin að blása sápukúlur. Ég orti: „Blásum saman sápukúlur / upp um alla veggi og súlur.“ – sem auðvitað er mér alls ekki samboðið. En það er bara enginn hægðarleikur að finna rímorð við „sápukúlur“. Gallinn er bara að við Húrravatn er ekki ein einasta súla til að blása sápukúlur „upp um“. Þetta myndi ekki bögga Ólaf Hauk en er enn að naga mig.
Þess vegna langar mig að biðja alla vini mína og velunnara að temja sér að segja „upp um alla veggi og súlur“ hvenær sem færi gefst. Í þarsíðasta bloggi mínu kom ég þessum orðum lævíslega fyrir í textanum þannig að þið getið séð það sjálf að þetta er ekkert mjög erfitt ef maður reynir að gera sér far um það. Næst þegar þið ætlið að segja „út um allt“, eða „í stöflum“ eða „í massavís“ gætuð þið sagt „upp um alla veggi og súlur“.
Þannig er hægt að lauma þessu inn í málið og fyrir vikið hljómar það ekki eins afkáralega þegar sagnfræðingar framtíðarinnar fara að garfa í þessu. Þeir hugsa ekki: „Rosalega er þetta klúðursleg þýðing hjá honum,“ heldur: „Þarna hefur þýðandinn haganlega komið hinu þekkta orðasambandi „upp um alla veggi og súlur“ fyrir í textanum.“ Með þessu móti geta allir sem þykir vænt um mig lagst á eitt um að bjarga mannorði mínu gagnvart komandi kynslóðum og um leið auðgað daglegt talmál sitt.
Með fyrirfram þakklæti fyrir hjálpina.

25 ummæli:

Harpa Jónsdóttir sagði...

Þetta er auðvitað mjög mikilvægt og ég skal gera mitt besta.

Nafnlaus sagði...

Þú hefðir getað reddað þér með því að snúa þessu við:

Sápukúlur saman blásu
líkt og sæmd var að hjá ásum.

En allir vita að mikil sæmd þótti að sápukúlublæstri hjá ásum. Menn voru upp um alla veggi og súlur að blása sápukúlur.

Nafnlaus sagði...

Heldur þú að ég hafi ekkert betra að gera en að hlaupa upp um alla veggi og súlur að hjálpa þér við að búa til nýtt orðasamband? Og það kauplaust? Heldurðu að hjá mér séu tími og peningar uppi um alla veggi og súlur? Það er greinilegt að skynið er ekki uppi um alla veggi og súlur hjá þér.

Farðu nú samt vel með veggina þína og þó sérstaklega súlurnar.

Siggi sagði...

Það er eitthvað sem segir mér að þetta orðasamband eigi ekki eftir að verða lífseigt en það má alltaf reyna.

Nafnlaus sagði...

Þú ert slægur maður.

Nafnlaus sagði...

Ég verð nú að viðurkenna að ég efast um að mér gæti orðið þetta orðalag tamt, því ég fer alltaf að ímynda mér klettaveggi og fjallið Súlur sem hvortveggja blasir við hér út um gluggann hjá mér og það er örugglega ekki í stíl við Húrravatn.

Alda sagði...

Slæmt að þú varst ekki með bloggsíðu í þá daga. Þá hefðirðu getað kallað eftir aðstoð.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta innlegg eiginlega vera upp um alla veggi og súlur...

kerling í koti sagði...

Hvað er þetta? Hafið þið aldrei heyrt talað um "að vera upp um alla veggi og súlur" ef mikill fyrirgangur er á fólki? Laumum þessu að Orðabók háskólans.

Nafnlaus sagði...

Ekki málið ... mun hjálpa til við að koma þessu í umferð!

Nafnlaus sagði...

Hei smart orðasamband akkurat það sem ég þurfti en hér eru börnin upp um alla veggi og súlur

Hjörtur Howser sagði...

"upp um alla veggi of súlur" ?

Dabbman ! Hvað ert'að reykja ?

HH.

Nafnlaus sagði...

HH er greinilega sá sem hefur verið að reykja eitthvað sterkara en njóla, ekki sé ég neins staðar í textanum "...veggi OF súlur."... ;)
En ég skal byrja á þessu strax á morgun og eftir helgina verður þetta komið í frasaforða hálfs höfuðborgarsvæðisins !!!

Nafnlaus sagði...

Jahá. Svo þú ert maðurinn á bakvið ekkisens núðludansinn sem sunginn var hér upp um alla veggi og súlur á tímabili.

[Blótar herfilega og rífur hár sitt]

Kannse skárra en "Notaðu sellurnar! Sellur, dönsum selludans!"

Æ.

Nafnlaus sagði...

Það er nú lyginni líkast hvað sumir þessara teiknimynda texta sitja fastir í manni. Ég hef gengið með þennan í maganum í hart nær 15 ár - og það aðeins eftir að hafa slysast til að horfa á viðkomandi teiknimynd með einhverjum... Ég man ekki hverjum (en ég man þetta!!!)

Fíllinn hún Nellý sér flýtti af stað
Í frumskóginn vildi flytja
Hún lagði af stað með lúðraþyt
Trútt. Trútt. Trútt.

Forystufíllinn kallar
Af fjarlægri strönd.
Hve ljúft það væri að lifa þar
Og leiðast hönd í hönd.
JÁ!

Fíllinn hún Nellý sér flýtti af stað
Í frumskóginn vildi flytja
Hún lagði af stað með lúðraþyt
Trútt. Trútt.
HÍHÍHÍHÍHÍ!
TRÚTT!

Þetta er náttúrulega upp um alla veggi og súlur....

Nafnlaus sagði...

Jæja þarna kom það! Í stofunni hjá mér eru tvær súlur og þegar mikið gengur á er fólk (aðallega börn) en má líka nota í fjörugum parýum upp um alla veggi og súlur. Verst fyrir þig að fólk heldur sennilega að ég hafi fundið upp á þessu sjálf. Hér á bæ mun fólki verða tamt að nota þetta orðasamband.

Hjörtur Howser sagði...

Helgi B, ert þú einn af þessum fullkomnu einstaklingum sem aldrei slá feilnótu?
Ég er blessunarlega laus við það að vera fullkominn og svo eru "f" og "g" við hvor við annars hlið á mínu lyklaborði. Ég hélt að allir sæmilega skyni bornir menn myndu leiða hjá sér jafn augljósa innsláttarvillu og þessa sem ég lét frá mér fara hér að ofan.
Ég veit að Davíð, vinur minn og minn helsti ráðgjafi í öllu er varðar íslenska tungu, hefur horft framhjá þessum mistökum og frekar reynt að sjá þann gráa húmor sem í skilaboðunum var fólginn.
Þig bið ég hinsvegar forláts á skelfilega lélegri vélritunarkunnáttu minni.
Davíð, þetta orðasamband er komið í fulla dreifingu meðal félaganna, þér til heiðurs.

Hjörtur Howser sagði...

Og sjá: einu "við-i" ofaukið í textanum, svona einsog til að undirstrika ófullkomleikann.

Nafnlaus sagði...

Hjörtur minn kæri, þú ert vonandi að gantast frá A-Ö. Þetta lá bara svo beint við að skjóta þessu í góðu gamni. Vissulega er ég ekki fullkominn. Ef ég væri hógvær, þá fyrst væri ég fullkominn... ;)
Sendi bara faðmlag á þig, kallinn. :)

Rustakusa sagði...

Ég geri mitt besta,
kem þessu upp um alla veggi og súlur.

Hjörtur Howser sagði...

Auðvitað fylgir allri alvöru nokkurt gaman.
Faðmlag þegið.
En látum gott heita áður en Davíð vísar okkur út úr partíinu og við endum upp um alla veggi og súlur.

Nafnlaus sagði...

hehe, samþykkt ! ég býð í glas ef ég hitti á þig á skralli... :)

Nafnlaus sagði...

Kom auga á "upp um alla veggi og súlur" í nýjum pistli Breka Logasonar í Sirkus.

spritti sagði...

Við vorum úti á sjó og fiskuðum alveg upp um alla veggi og súlur.

Jon Steinar sagði...

Já, ég kannast við að finna hroll, þegar ambögur og nauðrím hafa ratað á blað úr pennanum mínum. Þarna hefði mátt hugsa um hvort betra væri að segja: "Sápukúlur blásum saman." því það rímar svo vel við "gaman".

Blessuð börnin læra víst það sem fyrir þeim er haft, svo ábyrgð okkar er stór og herðarnar gisnar.