þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Mikilmennin sem sagan gleymdi 1: Thedore Q. Television

Theodore Quincy Television fæddist 23. september árið 1898 í smábænum Urbandale, skammt frá Des Moines í Iowa í Bandaríkjunum. Roger faðir hans var bifvélavirki og rak varahlutaverslun í þorpinu, en móðir hans, Shirley, var heimavinnandi eins og flestar konur á þeim tíma. Theodore átti einn bróður, Roger Jr, sem var þremur árum eldri en hann. Alla tíð var náinn vinskapur með þeim bræðrum.
Ted litli var með endemum ódæll í æsku, þótt snemma þætti ljóst að ekki væri það vegna greindarskorts. Honum gekk vel í skóla þótt ekki væri hann vinsæll meðal skólasystkina sinna, enda einfari að upplagi. Einkum þótti bagalegt hve eirðarlaus Ted litli var á samverustundum fjölskyldunnar á kvöldin, en í upphafi aldarinnar var það sem kunnugt er alsiða hjá bandarískum millistéttarfjölskyldum að sitja saman í betri stofunni og horfa á húsgögnin. Of þurfti að grípa til þess ráðs að senda Ted litla til móðurafa síns, Teds eldri, sem orðinn var ekkill og bjó einn skammt frá heimili fjölskyldunnar, til að aðrir fjölskyldumeðlmir hefðu næði til að horfa á kommóðuna, sem var langáhugaverðasta húsgagnið á heimili foreldra hans og horft var á flest síðkvöld. Til gamans má geta þess að kommóða þessi er nú álitin langverðmætasti safngripurinn á byggðasafninu í Urbandale og talið er að ár hvert leggi vel á sjöunda þúsund ferðalanga leið sína þangað, gagngert þeirra erinda að líta kommóðu þessa augum.
Næsta víst er að Ted litli varð fyrir miklum áhrifum af speki og visku móðurafa síns, sem hann hét í höfuðið á, en sá var lífsreyndur grúskari og sjálfmenntaður heimspekingur. Verk Chaucers voru í sérstöku uppáhaldi hjá honum og varð Ted yngri fljótt vel að sér í þeim. Ekki leið á löngu uns til þess var tekið sérstaklega í Urbandale og nágrenni hve sérkennilegur í háttum og orðfæri Theodore litli væri orðinn.
Sá atburður sem tvímælalaust setti mest mark á unga manninn og mótaði þá stefnu sem hann átti eftir að taka í lífinu átti sér stað í ágúst 1911, þegar hann var þrettán ára, en þá var Roger bróður hans, sem orðinn var fimmtán ára, boðið í dagsferð til Des Moines í tilefni af sextán ára afmæli skólabróður síns og nágranna, Pauls Bogles. Ted litli lét í ljós eindreginn vilja til að fá að fara með og linnti ekki látum fyrr en látið var undan þrákelkni hans. Geta má nærri um hvort ekki hafi verið mikil lífsreynsla fyrir ævintýragjarnan og öran ungling eins og Theodore Quincy Television, sem aldrei hafði séð annað af heiminum en sinn litla heimabæ og næsta nágrenni hans, að heimsækja stórborg, iðandi af mannlífi, eins og Des Moines var á þessu mikla hagvaxtarskeiði í bandarískri sögu.
Meðal þess sem gert var sér til skemmtunar í Des Moines var að fara í kvikmyndahús. Kvikmyndin var Ramona með Mae Marsh í aðalkvenhlutverkinu. Theodore Quincy sagði síðar frá því að þarna hefði heimsmynd hans breyst, þarna hefði hann ákveðið hvað hann skyldi taka sér fyrir hendur í lífinu. Kvalræðinu, sem öll börn á þeim tíma þekktu, að vera pínd til að horfa á skápa og hillur, borð og stóla, skatthol og kommóður, kvöld eftir kvöld, skyldi linna. Theodore Q. Television einsetti sér að finna upp húsgagn sem hægt væri að horfa á tímunum saman án þess að fá aðkenningu að banvænum lífsleiða.
Allir vita nú hvernig fór. Árum saman lagði Theodore nótt við dag til að fullkomna hugmynd sína, lítinn skáp með skjá þar sem síkvikar myndir myndu birtast með dáleiðandi áhrifum á nærstadda. Þótt gríðarmikil þróun hafi átt sér stað á þeim tíma sem liðinn er frá því að frumgerð húsgagnsins loks leit dagsins ljós til vorra daga byggir útfærslan enn á grunnhugmyndinni sem Ted litla flaug í hug þennan mikla örlagadag í kvikmyndahúsinu í Des Moines fyrir rétt tæpri öld.
Telvision drukknaði í sundlauginni við heimili sitt í Malibu Beach í Kaliforníu árið 1979, áttræður að aldri. Talið er að hann hafi orðið bráðkvaddur við sundiðkun. Hann var ókvæntur og barnlaus, enda að eigin sögn kvæntur ævistarfi sínu. Við útför hans minntist Edwin Clarke, samstarfsmaður hans til margra ára, lífsspeki hans og sagði meðal annars: "I seriously doubt that anyone has affected an entire hemisphere the way he did with his marvellous invention," sem útlagst gæti á íslensku: "Ég stórefa að nokkur maður hafi haft viðlíka áhrif á heilan heimshluta og hann hafði með sinni stórkostlegu uppfinningu."
Þetta eru óneitanlega orð að sönnu, enda má heita að það heyri til algerra undantekninga að vestrænar fjölskyldur eyði samverustundum sínum nú á dögum í að horfa tímunum saman á önnur húsgögn en hina mögnuðu uppfinningu Theodores Q. Televisions sem á erlendum tungum ber einmitt nafn hans og er til á nánast hverju heimili í hinum siðmenntaða heimi.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Datt engum í hug að fá sér fiskabúr til að horfa á?

Alda sagði...

Ótrúlega heppilegt að nafnið hans skyldi falla svo vel að uppfinningunni!

Nafnlaus sagði...

Jahá. Það er einmitt það. Jæja. Hérna...já.
[Ræskir sig]

Nafnlaus sagði...

Jú, Freddie W. Fishtank.

Hjörtur Howser sagði...

Í afskekktari byggðum höfðu menn uppfinningu hins mæta Woodrow B. Fireplace til að horfa á. Og fátæklingar horfðu auðvitað á sína veggi og súlur.

Jimy Maack sagði...

Já, þetta minnir mig á söguna sem ég heyrði af Jónasi B. Sjálfrennireið sem var Austfirðingurinn sem fyrstur fann upp hestvagninn.