þriðjudagur, október 17, 2006

Alvöru martröð


Mig dreymdi að ég væri einn af dvergunum sjö. En okkur fannst við engir dvergar heldur ungir, menntaðir og fluggáfaðir menn í gáfulegum samræðum. Þá sagði ég: "Mikið ég elska konuna mína nú heitt og leiðist að heyra talað illa um hana!" Við þetta varð uppi fótur og fit og hinir litu hneykslaðir hver á annan.
Síðan sagði sá fyrsti: "Hvernig ætlarðu þá að afsaka það hvað hún var ódæll og leiðinlegur krakki?"
Sá næsti sagði: "Ertu fullkomlega siðblindur? Hvernig ætlarðu að réttlæta alla glæpi og grimmdarverk kvenfólks í gegn um tíðina?"
Sá þriðji bætti um betur, varð sár á svipinn og sagði: "Gerirðu þér ekki grein fyrir því hvað það er tillitslaust af þér að segja svona upp í opið geðið á mér, náttúruleysingjanum? Þú áttar þig greinilega ekki á fordómunum í garð náttúrulausra sem þjóðfélagshóps og hvað það er erfitt að vera náttúrlaus á Íslandi. Hvert sem maður lítur á góðviðrisdögum er ástfangið fólk að kjassast og kyssast. Hvernig væri að fólk héldi þessum tilfinningum fyrir sig? Þjóðfélagið gengur út frá því að allir hafi náttúru. Ég þarf meira að segja að búa við það að börnin mín fái kynfræðslu í skólanum!"
Sá fjórði tók næst til máls og sagði: "Þú hlýtur að átta þig á að ást er bara ímyndun. Menn bjuggu til þetta bull í fornöld til að útskýra það sem vísindin eru farin að afgreiða miklu betur í dag. Þetta er bara röskun á hormónajafnvægi líkamans sem þjónar þeim tilgangi að viðhalda tegundinni. Ég trúi ekki að þú takir mark á svona kukli og kjaftæði!"
Sá fimmti bætti við: "Og hvernig geturðu verið slíkur nautshaus að fullyrða að þessi kona sem þú ímyndar þér að þú elskir sé yfirhöfuð til? Enn hafa ekki verið færð nein óhrekjanleg rök fyrir tilvist efnisheimsins!"
Loks æpti sá sjötti afmyndaður af bræði: "Svo lýgurðu því, helvískur, að ég tali illa um konuna þína!"
Þá hrökk ég upp með andfælum. Fyrst fannst mér eins og þetta væri allt satt og rétt og ég að gæti aldrei framar treyst neinu. En svo hjúfraði ég mig upp að konunni minni sem lá við hlið mér, fann ylinn frá henni, þakkaði fyrir að þetta væri raunveruleikinn og sofnaði vært.
Svona vitleysu myndi auðvitað enginn láta út úr sér í alvörunni, er það?

Bakþankar í Fréttablaðinu 15. október 2006

17 ummæli:

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Ég fæ svitakast fyrir þína hönd þegar ég sé að athugasemdakerfið er opið.

Hildigunnur sagði...

úff, já! :-O

Nafnlaus sagði...

Er ekki viðeigandi að segja "amen" á eftir efninu? ;-)

Nafnlaus sagði...

Þú ert snillingur og það er spúsa þín reyndar líka:)

Nafnlaus sagði...

Næstum allt sanngjarnt (því að það gekk næstum allt út á að þú fengir að elska í friði), og mér hrýs hugur við að einhver telji mig til engisprettanna ...

... en ég verð að pota í agnúann: hvað ef kynfræðsla barna þriðja dvergsins gengi að hluta út á að innræta að náttúruleysi pabba þeirra væri ljótt og lélegt og öllu almennilegu fólki bæri að hafa náttúru?

Og ef það dugar ekki ... hvað ef þriðji dvergurinn væri ekki náttúrulaus heldur samkynhneigður? Og innrætingin væri að gagnkynhneigð væri falleg og rétt en samkynhneigð ljót og röng?

Væri bara „vitleysa“ að amast við því?

Hvort sem þriðji dvergurinn er gagn- eða sam- eða nonkynhneigður á hann auðvitað að meika það að ástfangið fólk kjassist og kyssist á góðviðrisdögum og ekki trufla það ... en þegar það dregur börnin hans með í þann leik, inni á sjálfri skólalóðinni, finnst mér ekki úr vegi að hann hreyfi einhverjum andmælum.

Það er eðlilegt að þér leiðist að heyra talað illa um lífsskoðun þína. Mér leiðist að heyra minni líkt við fötlun eins og náttúruleysi. Og slíkar óþarfa líkingar eru einfaldlega olía á eld þeirra sem langar að líta niður á lífsskoðun þína og úthrópa „trúmenn“ fyrir ósanngirni og fordóma.

Nafnlaus sagði...

Bíddu, varstu ekki hættur að skrifa um trúmál? :-/

Nafnlaus sagði...

Það er gott að þú elskar konuna þína; sjálfur hef ég líka mikið dálæti á henni.

Ég veit ég er að bera í bakkafullan lækinn með því að halda þessari umræðu gangandi en ég get ekki varist þeirri huxun að á allri þessari trúarumræðu sé alvarlegur galli, sumsé að hinar andstæðu fylkingar í umræðunni eru alls ekki að ræða sama málefnið.

Annarsvegar er trú einstaklingsins og hvað trúin gerir fyrir hann, sem er mjög jákvæður hlutur í flestum tilfellum og beinlínis illa gert ef menn vilja ræna aðra þeirri tilfinningu og hamingju

Hins vegar skipulögð trúarbrögð sem er slæmur hlutur í flestum tilfellum þar sem markviss hugsanastýring fer fram, gagnrýni á gildandi viðhorf er ekki leyfð eða amk ekki vinsæl og snýst um vald/stjórn/peninga.

Jón Gnarr orðaði þetta ágætlega í sýnum bakþanka ekki alls fyrir löngu þegar hann talaði um trú sína og endaði þá umræðu með því að segja að hann tryði (trúði?) á kærleikann, sanngirni og réttlæti. Það geri ég líka; mér finnst bara óþarfi að merkja það "Guði" eða kirkju. Þannig er ég frjáls til að haga mínu lífi eftir því sem samviskan, ástin og réttlætiskenndin býður mér, án tillits til aldagamalla bókmennta eða hvað _menn_ sem segjast geta túlkað vilja _Guðs_ segja. Trú==Góð, Trúarbrögð==Slæm.

Nafnlaus sagði...

Ávallt gaman að lesa þig. En ég verð að biðja þig um álit, sökum þess að þú ert áhugamaður um íslenska tungu. var að velt fyrir mér orðinu "idiot" á síðu minni svenni.blog.is og hvort það væri ekki eðlilegra að nota orðið "eðjótur", fyrst menn nota þetta orð á annað borð.

Nafnlaus sagði...

Bravó!

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð Þór

Mig vantar svo að ná á þér útaf Morðgátu uppákomu.
Getur þú gefið mér upp netfang eða sent á mig línu?
Netfangið mitt er astakr@internet.is

Besta kveðja

Ásta

Unknown sagði...

Ég er alveg viss um að kona Davíðs er ímyndun, þar sem ég hef aldrei séð hana. ;)

En til hamingju með að vera aftur kominn með kommentakerfi!

Nafnlaus sagði...

Eva elskar hana líka.

Silja sagði...

Heyr heyr. Hef samt lúmskan grun um að þú njótir martraðarinnar fyrst þú gefur kost á henni hér.

Nafnlaus sagði...

Og núna fyrst skil ég þennan undarlega bloggpistil Reykjavíkurdrömunnar.. svo bið ég kærlega að heilsa konunni þinni, sem mér finnst alveg hreint skínandi ágæt!

Nafnlaus sagði...

Samlíking þín á kristinfræðslu og kynfræðslu er alvarlega gölluð.

Ígildi kynfræðslu við siðfræðsla, þar sem farið væri yfir hugmyndir um samfélagsnorm, siði, venjur og átrúnað, komið inn á ýmsa trúarsiði margra trúarbragða.

Ígildi kristinfræðslu væru í þessu tilviki að endaþarmsmakafræðsla, eitthvað sem sumir aðhyllast, sumum hryllir við og þegar á botninn er hvolft skiptir aðra en það aðhyllast engu máli.

Nafnlaus sagði...

þarna datt út orð, "Ígildi kynfræðslu væri siðfræði" kæmi líklega betur út

Nafnlaus sagði...

Ég bið þig, fyrir mína hönd, að fara í meiðyrðamál við 1.dverg, ef þú hittir hann aftur í draumalandi.
Kær kveðja til ykkar.
Anna Guðný