föstudagur, desember 01, 2006

Litla, gula hænan: In memoriam



Ég fékk ökuréttindi snemma í janúar 1982 þannig að bráðum hef ég verið akandi í aldarfjórðung. Þegar þessi tímamót urðu í lífi mínu átti móðir mín forláta bifreið af tegundinni Autobianchi. Hún var ljósgul og af undirtegundinni Elegant. Á hlið bílsins var lítið málmskilti sem orðið „Elegant“ var letrað á og þóttu það hálfgerð öfugmæli, ef ekki beinlínis blatant lygi, eftir að bíllinn hafði verið í minni umsjá um hríð. Eftir að ég hafði haft bílpróf í einhvern tíma varð það nefnilega úr að ég fékk Autobianchi þennan til umráða.
Í minni fjölskyldu (og víðar þykist ég vita) er það til siðs að gefa bílum nafn. Þannig var fyrsti bíll fjölskyldunnar Trabant sem hét Gagarín og var skreyttur fjólubláum blómum. Mér skilst að Inda frænka hafi gefið þeim bíl nafn eftir að hann hafði drýgt einhverja hetjudáð þegar hetja augnabliksins var einmitt hinn geðþekki, sovéski geimfari. (Þó sennilega nokkrum árum síðar, þótt vissulega sýni þetta hvað ég er orðinn hundgamall.)
Autobianchi þessi fékk fljótlega nafnið Litla, gula hænan í vinahópnum – af því að hann var lítill og gulur. Í fyrstu þótti mér það ekki nógu virðulegt nafn, en smám saman varð ég að samsinna því að auðvitað var Litla, gula hænan hetja á sinni hátt. Alltjent var meira í hana spunnið en hún bar með sér þótt auðvitað sé siðgæði hennar óþrjótandi uppspretta pólitískra þræta. Og svo sannarlega var líka meira í bílinn spunnið en útlitið gaf til kynna.
Hann komst allt. Hann var svo léttur að þegar stærri og kraftmeiri bílar sukku á kaf flaut hann eins og snjóþota yfir hindranirnar. Og þá sjaldan að hann festi sig þurfti engan her heljarmenna til að losa hann. Og svo spratt hann af stað eins og gormur þegar maður gaf inn. Ég þori ekki að hengja mig upp á það, en ég held að þessi bíll hafi verið byggður á sömu grind og smæsti Fíatinn, sem ég held að heiti því frumlega nafni 126, en verið umtalsvert léttari og snarpari sem því nemur. Hægt var að taka 180 gráðu beygju á punktinum (í minningunni). Þessum bíl var svo auðvitað hægt að leggja hvar sem var, þótt á þeim árum hafi bílastæðavandamál ekki verið komin til sögunnar, enda ekki pólitískt markmið stjórnvalda á þeim tíma að hafa hvert mannsbarn á landinu yfir 17 ára aldri skuldsett áraraðir fram í tímann við að borga af sínum splunkunýja prívat bíl.
Þjarkur var þessi bíll líka. Við fórum fimm saman á honum í útilegu í Húsafell með farangur, nesti og allt tilbehör. Að vísu er mamma enn þeirrar skoðunar að hann hafi ekki borið sitt barr eftir það. Kannski má tengja það því að ég ók honum út í skurð í bakaleiðinni. Ég hafði ekið fullgreitt af því að bensínið fór að leka niður úr honum og við vorum að flýta okkur á bensínstöð áður en það yrði búið. Vegfarendur drógu okkur aftur upp á veg og á bensínstöðina komumst við heilu og höldnu. Þar náðum við Einar að gera við lekann með gúmmíhosu og tveim hosuklemmum. Það var varanleg viðgerð sem entist allan líftíma bifreiðarinnar og ekki sást að henni hefði orðið meint af volkinu.
Reyndar tók Litla, gula hænan að drabbast niður smátt og smátt eftir að ég tók við henni. Einu sinni tókst mér til dæmis að aka í veg fyrir jeppa með kerru. Jeppinn sveigði hjá, en kerran reif frambrettið farþegamegin af bílnum í heilu lagi. Ekki sást neitt á kerrunni. Steinn Ármann sat í farþegasætinu og ég held að hann hafi aldrei á ævinni orðið eins hræddur og þegar hann sá jeppatröllið koma æðandi að okkur sitjandi þarna í boxinu.
Síðar fór rafkerfið að bila og ég man að flautan var hætt að virka þegar eitthvað í bílstjórahurðinni klikkaði með þeim afleiðingum að hún lokaðist ekki og binda varð hana aftur með bandi. Einhvern tímann stöðvaði lögreglan okkur við rútínuathugun og fann ekkert athugavert sem betur fer, því ef hún hefði beðið mig um að stíga út úr bílnum hefði ég annað hvort þurft að príla yfir Stein og fara út farþegamegin eða skríða út um gluggann. Þegar við þetta bættist að fljótlega fór að vera erfitt að koma bílnum í gír var auðvitað ekki von á góðu.
Einhvern tímann vorum við að skutla einhverjum í Sparisjóðinn uppi í Norðurbæ og sátum úti í bíl og biðum eftir að hann kæmi til baka. Ég hafði staðnæmst fyrir aftan jeppa sem var þar í stæði. Þá gerðist það að bílstjóri jeppans þurfti að bakka út úr stæðinu. Jeppinn var jafnbreiður og Litla, gula hænan var löng og á háum dekkjum þannig að ekki sá hann mig út um baksýnisspegilinn. Flautan virkaði ekki, svo ekki gat ég varað hann við, og svo notaði bíllinn auðvitað þetta tækifæri til að komast ekki gír. Við gátum því aðeins setið þarna fullkomlega hjálparvana og beðið þess sem verða vildi. Jeppinn bakkaði á okkur og hélt því áfram án þess að ég fengi rönd við reist, alveg þangað til bílstjóri hans fann að þarna væri nú einhver fyrirstaða og fór að kanna málið.
Á þessum bíl lenti ég líka einu sinni í því að ég hélt að vélin væri komin í mask. Það var á malarvegi, ábyggilega á leiðinni úr Húsafelli eða af Hvítárbökkum, þegar þessir ofboðslegu skruðningar og læti tóku að glyma framan úr bílnum. Ég stöðvaði ökutækið, opnaði vélarhlífina og bjóst við að sjá rústir einar, en þar virtist allt í lagi (upp að því marki sem ég var dómbær á það). Í þessu botnaði ég ekki neitt þangað til ég sá að önnur skrúfan sem hélt uppi bílnúmerinu að framanverðu hafði brotnað með þeim afleiðingum að númerplatan var nú lóðrétt og plægði upp veginn eins og tönn í vélskóflu. Nú var ráfað um í sveitasælunni í smástund til að finna lausn sem birtist okkur í gömlu baggabandi sem fokið hafði og sest á nálæga girðingu. Númerið var bundið upp með baggabandinu og ekið sem leið lá í bæinn án frekari málalenginga. Mig rekur ekki minni til þess að baggabandinu hafi nokkurn tímann verið skipt út fyrir öflugri festingu, þótt líklega hafi það nú verið gert.
Einu sinni um þetta leyti var bíllinn í óvenjugóðu skapi og auðvelt að koma honum í gír. Þegar þetta gerðist var töluvert síðan búið átti að vera að skoða hann og greip ég því tækifærið og fór með hann í skoðun niður á lögreglustöð sem þá var við Suðurgötuna í Hafnarfirði, gegnt Gúttó. Skoðunarmaðurinn kom út, settist upp í bílinn og kom honum ekki í bakkgír. Ég settist upp í bílinn og reyndi það, en án árangurs. Þá prófaði hann aftur og tókst það, en bíllinn tók af stað afturábak – út á Suðurgötuna í veg fyrir umferð - án þess að kúplingin virkaði þegar maðurinn steig á hana svo hann steig á bremsuna og kæfði við það vélina. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, séð skoðunarmann beinlínis reiðan, enda nýsloppinn úr lífsháska. Bíllinn fékk rauðan miða með þjósti: Úr umferð – beina leið á verkstæði. Ég hef ekki heldur séð rauðan skoðunarmiða hvorki fyrr né síðar.
Það sem varð þessum undarbíl fyrir rest að aldurtila var sú frámunalega heimskulega ákvörðun mín að fara með hann í smurningu. Ég hafði heyrt talað um að svoleiðis gerðu menn með reglulegu millibili og þar sem ég átti aldrei þessu vant einhvern pening brá ég mér með hann upp á smurstöð, dældaðan, rispaðan og flekkóttan sem hann var orðinn af öllu slarkinu. Þar keyrði ég yfir gryfjuna og bað manninn að skipta um olíu á bílnum. Hann skreið ofan í gryfjuna og skrúfaði tappann neðan úr vélinni, en í stað þess að þaðan læki óhrein olía kom bara ryk svífandi. Hann skrönglaðist forviða upp úr gryfjunni og æpti á mig sárreiður: „Skipta um olíu? Það er engin olía á vélinni til að skipta um!“ Það vantaði bara að hann hnýtti við: „Það eru menn eins og þú sem gera þetta starf viðbjóðslegt! “
Þarna var ég semsagt, án þess að gera mér grein fyrir því sjálfur, búinn að finna upp eilífðarvélina, bílvélina sem ekki þurfti að smyrja. Því daginn eftir að olía var sett á bílinn brotnaði vélin í honum. Það var í Lönguhlíðinni á móts við Háteigskirkju. Bíllinn var dreginn upp í Gufunes þar sem hann er nú grafinn í jörðu.
Svo yndislegur þótti mér þessi bíll að skömmu síðar, þegar ég keypti mér minn eigin bíl í fyrsta sinn, varð einmitt annar Autobianchi fyrir valinu. Þessi var eilítið nýrri árgerð og hvítur. Hann hlaut sæmdarheitið Svanurinn. Átti nafnið að kinka kolli til forvera hans og vera vísun í annað ævintýri um lítinn fugl, andarunga í þessu tilviki. Svanurinn öðlaðist aldrei sömu sögu og sál og Litla, gula hænan, enda lenti hann aldrei í viðlíka ævintýrum, en þó dugði hann ágætlega. Eftir að hafa átt tvær Autobianchi bifreiðar get ég því ekki annað en gefið þeim mín bestu meðmæli.
Það skemmtilegasta við Litlu, gulu hænuna var þó sennilega límmiðinn sem mamma gaf mér til að setja í bakgluggann á henni. Hann var þar alla tíð og olli jafnan kátínu. Á honum stóð stórum stöfum: „PASSION WAGON“ og fyrir neðan, smærra letri: „Don't laugh, your daughter may be inside. “

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Oh hvað það var gaman að keyra þessu ítölsku smábíla, litlir og sprækir, kenjóttir og með sál. Annað en þessir meðalmennskuYarisar sem nú eru útum allt.

Hildigunnur sagði...

hahahahaha :D

Örugglega rétt hjá þér annars að Autobianchi sé á sömu grind og litli Fíatinn, Fíat átti Lancia.

Þetta voru eðaldruslur!

Nafnlaus sagði...

Hef því miður aldrei prufað að keyra svona kerru. Hef þó prufað margt. Ég nefni Rússajeppa, Moskquitz, Wolgu og Bjöllu. En gaman að sjá hvaða tilfinningar og ævintíri geta leynst á bak við eina bíltík.

Nafnlaus sagði...

Skemmtileg frásøgn.

Merkilegt hversu sterkar tilfinningar svona væskilslegur vagn getur vakid.

(Ek sjálfur Sítrónubragga og get ekki hugsad mér neitt betra. Ergo=Annadhvort er ímyndun mín jafnfábrotin og listinn yfir øryggistækin í theirri Litlu Gulu eda undirritadur er haldinn einhverjum óskilgreindum S&M hvøtum.)

Nafnlaus sagði...

Hundleiðilegi vinnudagurinn minn er ekki jafn erfiður eftir að lesa söguna af Passion Wagon..

Davíð ók um á Passion Wagon og "afkvæmi" Tarantino´s á Pussy Wagon
Great minds.. og allt það :)

Nafnlaus sagði...

Er jeppasagan kannski kveikjan að Skoda Radíus flugunni?

Davíð Þór sagði...

Þegar Radíusflugan um Skóda-hatarann varð til ók ég um á gömlum, beygluðum Skóda og Steinn á Dodge Ram Charger. Einhvern tímann þegar við sáum bílana okkar hlið við hlið kviknaði hugmyndin að flugunni. Seinna gaf ég Steina Skódann og hann kunni svo vel að meta hann að hann er enn Skódamaður, hefur a. m. k. átt eina tvo síðan, held ég.

Nafnlaus sagði...

Hólí makkaróní, þetta er enginn smáræðis hlemmur hjá þér, Davíð. En það er gaman að rifja upp þessar horfnu sortir; Sunbeam, Polonez, Volga, Moskwitz et al. Þarft og gott mál.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir frábæra sögu, nú er gamli, góði bíllinn þinn orðinn ódauðlegur á Netinu!

Nafnlaus sagði...

Annars áttir þú ágætan "banana" þegar þú bjóst í Svíþjóð. Sá bíll verður seint flokkaður með þeim fallegri, en "funktionell" var hann.

Nafnlaus sagði...

Eins og ég hafði gaman af þessum límmiða á sínum tíma. Hryllir mér við tilhugsuninni að dóttir einhvers hafði hugsanlega lent einhverntíman uppí þessum bíl, með þessum félagsskap..... takk fyrir söguna, og takk fyrir að fara ekki útí smáatriði varðandi þetta Hvítárbakkaferðalag.