þriðjudagur, maí 15, 2007

Lifi Eiríkur!


Fyrr í vetur sagði ég hér á þessum stað að það besta sem Íslendingar gætu vænst úr Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva væri að komast klakklaust frá henni. Nú er keppnin yfirstaðin og komið í ljós að ég hitti naglann á höfuðið. Fyrir hönd íslensku þjóðarinnar vil ég því núna þakka Eiríki Haukssyni fyrir vasklega framgöngu hans og fyrir að hafa verið landi og þjóð til sóma í hvívetna eins og við var að búast. Meira var ekki hægt að fara fram á.
Allar væntingar um að við komumst upp úr forkeppninni eru nefnilega ekkert annað en hlægilegir bjartsýnisórar á meðan andrúmsloft og fyrirkomulag keppninar er eins og það er nú. Það kom mér verulega á óvart að heyra kynninn, minn ágæta vin Sigmar Guðmundsson, tala öðruvísi. Það var eins og hann væri slíkt barn að halda að einhvern tímann í ferlinu hefði raunverulega verið möguleiki á því að Eiríkur myndi standa á sviðinu úrslitakvöldið. Mér fannst ekki örgrannt um að hjá honum örlaði á eilitlum vonbrigðum með hina auðfyrirsjáanlegu niðurstöðu.
Auðvitað er það fyrir löngu orðið himinhrópandi augljóst að gæði tónlistarinnar skipta ekki næstum því jafnmiklu máli í þessari keppni og upprunaland flytjendanna. Aldrei hefur þetta verið jafnaugljóst og í ár. Á meðan ágætislögum sem eiga fullan rétt á sér á sínum eigin forsendum og fengjust jafnvel leikin í útvarpi þótt þau tengdust söngvakeppninni ekki neitt, var hafnað – t. d. framlögum Andorra, Noregs og Belgíu – var þeim ólýsanlega hroða sem Búlgaría og Georgía sendu til keppninnar veitt brautargengi. Þetta er engu að kenna nema landafræði, sögu og menningu. Austurevrópuþjóð á af landafræðilegum ástæðum mikinn fjölda grannríkja og af sögulegum ástæðum er hún öflugur þrýstihópur í þeim öllum.
Þetta vekur hins vegar upp spurninguna um tugmilljónirnar sem það kostaði að velja framlag Íslendinga. Hvað kostaði það eiginlega að draga þetta lag fram í dagsljósið – já, og Húsin hafa augu með Matta? Restin af lögunum á af skiljanlegum ástæðum aldrei eftir að heyrast leikin framar. Hefði ekki verið sniðugra að framleiða sjónvarpsdagskrá fyrir peninginn, fyrst það var hvort sem er fyrirfram ljóst að jafnvænlegt væri til árangurs að velja íslenska flytjandann með einu símtali?

Bakþankar í Fréttablaðinu 13. maí 2007

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála,

ég vitna bara aftur í eigin orð hér:
http://sigmarg.blog.is/blog/sigmarg/entry/206372/

en þau voru svona:

"Að mínu mati er þetta víðáttu hallærisleg keppni og fer frekar aftur ef eitthvað er.

Maður hefur líka bara húmor fyrir hallærisheitunum í takmarkaðan tíma, það er ekki hægt að hlæja að sama brandaranum endalaust.

Nú er ég ekki að segja að það eigi endilega að hætta keppni í Eurovision,

(og hvað er málið með Evróvision?, Evró er kannski íslenska en er vision þá líka íslenska!?!),

en ég væri til í að vita hvað það er að kosta Ríkisútvarpið.

Kosturinn við Eurovision þáttökuna er ákveðin örvun á íslenska tónlistarsköpun, því að þarna býðst tækifæri til að koma tónlist í sjónvarpið án þess að þurfa að kosta til miklum fjárhæðum í tónlistarmyndbandsgerð og tilheyrandi plöggi.

En væri ekki hægt að nota þá peninga sem RÚV borgar með keppninni (það sem stendur útaf borðinu eftir að kostunarsamningar og SMS-tekjur hafa verið rukkaðir inn) á annan hátt?

T.d. með því að sjónvarpa frá tónleikum á fimmtudags-, föstudags- eða laugardagskvöldum frá miðbæ Reykjavíkur eða annara þéttbýlisstaða.

Það gæti þá aukið mætingu á tónleika og þ.a.l. gert rekstrargrundvöll tónleikastaða traustari (auk þess sem tónleikar færu þá kannski að hefjast á auglýstum tíma).

Keppnisréttinn í Eurovision væri svo hægt að selja til hæstbjóðanda, þannig að þeir sem halda að þeir gætu grætt á keppninni til langsframa (t.d. lagasmiðir sem hafa hug á því að kynna sig á stærri markaði) gætu samt tekið þátt.

bara smá hugmynd.

H

H (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 12:45 "

Unknown sagði...

Ef þessi keppni er örvun í íslensku tónlistarlífi, þá er ég kanileðlan sem ég var sagður vera um síðustu helgi.

Þessi peningur ætti mikið frekar að renna í TÞM eða álíka staði, og þá kannski með þeim hætti að RÚV borgaði, og styrkti þá í tónleikahaldi. - Ef markmiðið er efling tónlistarlífsins altént

Nafnlaus sagði...

*Hóst* Ég og heilinn minn *hóst*

Það hafa nú fleiri lög fengið spilun...þó þau innihaldi kannske pínlegar rímtilraunir...

Nafnlaus sagði...

Ég vildi bara taka undir með H hér að ofan, þetta með orðskrípið "evróvisjón". Var þetta ekki einhver hallæristilraun Gísla Marteins til að íslenska orðið? Kannski fer ég rangt með, mér finnst bara svo mikill Gísla Marteins-keimur af þessu, hver man t.d. ekki eftir íslenskuframburðinum (sem hann reyndar tók í arf) á "jazz"?

Svo er það ég og heilinn minn.....(hrollur).

Nafnlaus sagði...

Ég held að landinn sé ekki enn búinn að jafna sig á 16. sæti Gleðibankans forðum daga.

Ef við kæmumst eitthvað áfram í þessari keppni (að ég tali nú ekki um að vinna væri enginn að röfla um hvort við ættum að taka þátt eða ekki.

Fátt annað fyllir þjóðina jafn miklu stolti og þessi keppni og þjappar öllum saman fyrir framan skjáinn. Það eitt verðskuldar að við höldum áfram að taka þátt.

Annars hljómar það nú voðalega tapsárt að kenna pólitík og landafræði um slæmt gengi Eiriks.
Lagið var einfaldlega LÉLEGT.