þriðjudagur, maí 01, 2007

Heill her af ljóskum


Nú er búið að semja við Norðmenn um að verja landið. Mér finnst það allt of galið til að annað sé hægt en að vera í skýjunum með það. Það er svo arfavitlaust að maður getur ekki annað en borið einhverja ankannalega og öfugsnúna lotningu fyrir þeim sem hrinda þvílíku í framkvæmd. Og sjá ekkert athugavert við það.
Norðmenn eru semsagt ekki sætasta stelpan á ballinu heldur eitthvað sem gerir sama gagn, svo vitnað sé í pólitíska greiningu forsætisráðherra á ástandinu nýlega. Fyrir þá sem ekki skilja líkinguna þá er hún sótt í angist kynsveltra strákpjakka. Forsætisráðherra lýsti því m. ö. o. yfir að hann vildi fá her af sömu örvæntingu og siðferðilegu forsendum og kynsveltur unglingspiltur á þjóðhátíð í Eyjum drátt.
Til gamans má geta þess að forsætisráðherra finnst alveg hræðileg kvenfyrirlitning í því fólgin að kalla menntamálaráherra ljósku og minnast á það hvar hún starfar.
Andstæðingum hernaðar hefur verið núið því um nasir að vera andvígir Landhelgisgæslunni, hjálparsveitum og flugbjörgunarstarfi, því norskur her muni aðstoða við þetta allt. Í áróðursskyni mætti bæta við þetta ýmsu öðru sem ríkisstjórnin hefur vanrækt til jafns við þetta þrennt, svo sem aðhlynningu sjúkra og aldraðra. Væri ekki þjóðráð að láta norska herinn annast hana líka? Þá værum við hernaðarandstæðingar líka orðnir óvinir fatlaðra, aldraðra og öryrkja. Af hverju ætti það frekar að vera í verkahring ríkisstjórnar Noregs að annast landhelgisgæslu Íslendinga en að hjúkra Íslendingum?
Sniðugust finnst mér þó sú röksemdafærsla að hernaðarandstæðingar eigi að vera ánægðir með að fá herinn af því að norska ríkisstjórnin sé svo vinstrisinnuð. Þessi málflutningur ber vott um mun öflugra hugmyndaflug en maður á að venjast úr þessari átt. Öll þau ár, sem pólitísk sannfæring mín var þrungin andúð á Davíð Oddssyni og öllum hans verkum, datt mér aldrei í hug að þar sem hann væri sefasjúkur aðdáandi Margrétar Thatcher væri hann í hrópandi mótsögn við sjálfan sig fyrst hann flytti ekki kjarnorkuúrgang frá Bretlandi til landsins í stórum stíl.
Ég hafði einfaldlega ekki ímyndunarafl til að leggjast það lágt.

Bakþankar í Fréttablaðinu 29. mars 2007

1 ummæli:

Baddi sagði...

Að sjálfsögðu er þetta fáránlegra en orð fá lýst. Íslendingar hafa lomist upp með það að vanrækja landhelgisgæsluna og björgunarsveitir vegna þess að þeir gátu alltaf vísað á kanann. Bjargvætturinn mikli úr vestri kemur og hjálpar okkur. Hvað hafði maður ekki oft heyrt þá lummu að herinn mætti ekki fara, vegna þess að þá missum við þyrlurnar og hver ætti þá að sjá um björgunarstörfin. Nú loksins þegar við höfum tækifæri til að sýna að við getum sko alveg gert þetta sjálf, þá hleypur ríkisstjórnin eins og hræddur hundur sem þorir ekki að takast á við vandamálin til Noregs.

Það er gott að hafa vinstristjórn í Noregi - megi þannig stjórnir vera æi sem flestum löndum og við eigum örugglega eftir að eiga gott samstarf við þessa eðalfrændur okkar. En, við þurfum ekki þeirra her, ekki frekar enn annara þjóða.