miðvikudagur, janúar 31, 2007

Íslensku tónlistarverðlaunin


Ég ætlaði að horfa á Íslensku tónlistarverðlaunin. Mig langaði að sjá hver yrði valinn textahöfundur ársins. Ég hef nefnilega alveg afskaplega gaman af vel ortum textum. Sú tónlist sem ég alla jafna ber mig eftir á það yfirleitt sameiginlegt að það eru textarnir sem lyfta henni í hæðir. Ég hlusta oftast ekki síður á textana en tónlistina.
Ýmsir góðir textahöfundar hafa fengið þessi verðlaun í gegn um tíðina. Ég hef sjálfur einu sinni verið tilnefndur til þeirra, fyrir þýðingu mína á Hárinu, en það ár vann Andrea Gylfadóttir verðskuldað. Mig minnir að þetta hafi verið árið sem hennar frábæri texti Gott mál sló í gegn.
Hins vegar er ENGINN tilnefndur sem textahöfundur í ár né undanfarin ár. Svo virðist sem þegar þessi hátíð var „öppgreiduð“ og töffuð til á sínum tíma hafi þessi verðlaun verið látin fjúka. Einhvern tímann heyrði ég að það væri af því að þetta væri orðinn slíkur aragrúi af verðlaunum að einhverju hefði þurft að fórna. Og þetta varð úr.
Það skiptir semsagt of miklu máli að verðlauna poppplötu ársins, rokkplötu ársins, dægurplötu ársins, ýmsa-plötu ársins, sígilda plötu ársins, djassplötu ársins, myndband ársins, útrás Reykjavíkurloftbrúar, Hannes Smárason og jafnvel plötuumslag ársins til að hægt sé að hugsa út í það í hálfa mínútu að hið sungna orð yrkir sig ekki sjálft.
Þetta sýnir nákvæmlega þá virðingu sem íslenskir tónlistarmenn bera fyrir söngtextum. Annað sem sýnir hana vel er reyndar líka textarnir sem þeir syngja og yrkja sjálfir. Sennilega er þetta gert til að letja fólk til að yrkja texta, enda myndi tónlist langflestra íslenskra tónlistarmanna skána mikið við að þeir hættu því og syngju í staðinn bara „trallala“. Flatneskjan myndi stinga minna í eyrun og ambögurnar hyrfu.
Langflestra, segi ég. Ekki allra. Það komu nefnilega út plötur í fyrra (sem ég sjálfur kom ekki nálægt), sem fyllilega hefðu verðskuldað að minnst hefði verið á það – svona á uppskeruhátíð íslenskrar tónlistar – að textarnir á þeim væru þokkalega vel ortir.
Þeim sem standa að þessari hátíð er hins vegar greinilega alveg skítsama um það.

23 ummæli:

Hildigunnur sagði...

sammála! Hefði sannarlega átt að halda þessu inni, frekar en til dæmis umslögunum, að mínu mati. Textar (þó það séu náttúrlega alls ekki textar við alla tónlist) eru mun óaðskiljanlegri hluti músíkurinnar en plötuumslög, sérstaklega núna þegar tónlist er iðulega keypt (eða henni stolið) af netinu.

(hana, þar móðga ég myndlistarmenn :-D )

Nafnlaus sagði...

Þetta var góður pistill hjá þér Dabbi Þór Radíusson. Sorglegt hversu, í raun, lítil virðing er borin fyrir alvöru textahöfundum. Kannski gáfust allir upp eftir Skímó tímabilið (fögur og flott, þetta er svo gott og etc.). En ekki ég og vil nú að góðir textahöfundar séu viðurkenndir og verðlaunaðir í samræmi við lagahöfunda og flytjendur. Góður texti er silfurs ígildi og það sama á við um gott lag. saman komið verður þetta gulls ígildi. Bestu kveðjur frá Hafnarfirði og bókasafni bæjarins, Svanur

Alda sagði...

Ég horfði á Íslensku tólistarverðlaunin í gær og leiddi ekki hugann að þessu eitt augnablik. (E.t.v. vegna þess að ég horfði ekki á þau á þeim tíma þegar þessi verðlaunaflokkur var inni.) Ég er í hópi þeirra sem hlusta alltaf fyrst á texta (fíla trúbadora í tætlur) og þegar þú minnist á þetta finnst mér hneyksli að þetta skuli hafa verið tekið út. Pú!

Saumakona - eða þannig sagði...

Heyr fyrir einum af bestu málsvörum íslenskrar tungu! Ég hlusta mjög oft á Orð skulu standa og hef gaman af, dáist að því hvað þú er fróður og getvís. Og takk fyrir góða prédikun.

Ingvar Valgeirsson sagði...

Verð að taka undir þessi orð þín, Davíð.
Eins mætti veita skammarverðlaunin "leirburðarstagl ársins" og og kaghýða einhvern þeirra fjölmörgu sem veitt hafa manni klýgju, gæsahúð og nábít af tærum viðbjóði síðastliðið ár.

Nafnlaus sagði...

Er það ekki blessað meikið, sem nú er viðtekið, sem gerir? Lunginn syngur á ensku. Hvurjum er ekki skítsama um það hvort einhverjir íslenskir poppdraumóramenn eru að gera góða hluti þar eða gloríur? Kemur manni varla við. Þá stendur ekki mikið eftir, ekki feitan gölt að flá þegar menn vilja tilnefna. Ár eftir ár bara tveir um hituna: Skerjafjarðarskáldið og Júróvisíónskelfirinn og svo DÞJ.

Kveðja,
Jakob

Nafnlaus sagði...

Víst Jabok var hérna og Dabbi er hérna og Howser í blogginu hérna neðar í götunni þá brennur mér eitt á mér kæru kátu piltar: Hvenær kemur út plata, sem ég las um á sínum tíma að væri í bígerð, þar sem meðlimir hafnfirsku hljómsveitanna, Kátir Piltar og Botnleðja, leiða saman hunda sína? Ég er mikill aðdáandi Kátra Pilta og hef alltaf haft gaman af Botnleðju. Svarið mér nú, svarið mér nú. Kveðja, Svanur Már

Nafnlaus sagði...

Sammála er ég en ekki fékk ég nú verðlaun fyrir texta minn "Út í heim" af plötunni Partý með hljómsveitinni Fjallkonan þar sem hendingin "...ég fer í Ríkið og kaupi mikið" kemur fyrir. En ég skil það nú reyndar. :-)

Nafnlaus sagði...

Svo er fólk að furða sig á því að stærstur hluti íslenskra tónlistarmanna (verð að viðurkenna að ég er sjálfur þar í hópi, að minnsta kosti oft) syngi á ensku. Hvatningin til að hafa móðurmálið í fyrrirúmi er ekki mikil þessa dagana. Og sveitaballahljómsveitirnar reka svo smiðshöggið með vandræðalega vondum textum sem sannfæra fólk endanlega um það að íslenskur söngkveðskapur sé ekki á færi neinna nema atvinnumanna. Og þar sem ég veit að það er svakalegt mál að yrkja góðan söngtexta (efast um að mér hafi nokkru sinni tekist það sjálfum - í besta falli þolanlega og stundum svolítið skondna) finnst mér út í hött að verðlauna slíkt ekki þegar vel tekst upp. Til dæmis eru textarnir á Lögum til að skjóta sig við bestu textar sem ég man eftir að hafa heyrt á íslensku, og finnst fráleitt að þeir hafi ekki verið verðlaunaðir. Þú færð allavega hlustendaverðlaun Eyvindar Karlssonar sem textahöfundur Íslands. Það er ekki oft sem ég tárast yfir fallegum textum (mun oftar sem ég græt ambögur í íslenskum popplögum).

Ingvar Valgeirsson sagði...

Þeim mun meiri nauðsyn er að verðlauna þá sem vel gera. Legg ég til að ýmis stórfyrirtæki verði nú fengin til að hvetja til vandaðrar textagerðar á ástkæra og ylhýra með styrkjum á næstu sjálfshátíð tónlistarmanna. Verðlaun fyrir mest hressandi textann gætu því orðið forljót glerstytta, árskort í World Class, gjafabréf í Bónus, farmiði með Icelandair til Quala Lumpur, bretti af Pepsímax og ársáskrift að Stöð tvö.
Góð hugmynd eða hvað?

Nafnlaus sagði...

Ætli Baggalútur hefði ekki hirt textaverðlaunin? Nú, eða Lög til að skjóta sig við, auðvitað...

Unknown sagði...

Ég heyrði viðtal við Pétur Ben á Rás 2 í gær þar sem hann var beðinn um athugasemdir um lagið sem hann hafði sungið á hátíðinni. Hann sagði m.a. að það væri sungið til dóttur sinnar sem er sex ára. Síðan var lagið spilað og var það þá á ensku... Ég efast þó stórlega um að sex ára dóttir hans skilji ensku.
Þakka annars fyrir skemmtileg skrif...

Þórunn Gréta sagði...

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst alveg jafn hrollvekjandi að hlusta á vondan texta á ensku en vondan texta á íslensku...

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að benda á þetta. Ég er einn af þeim sem tók ekkert eftir þessu, en það helgast sennilega af því að ég hef megnustu óbeit á svona verðlaunahátíðum og dettur ekki í hug að horfa á þær. Ég las hins vegar um þær og hjó ekkert eftir þessu.

Þó að ég efist um að möguleikinn á tónlistarverðlaunum verði mönnum hvatning til að syngja á íslensku frekar en ensku, er þetta náttúrulega hneyksli. Legg ég nú á og mæli um að þú nýtir þér aðstöðu þína á afturenda útbreidds dagblaðs á eyju þessari og boðir þennan boðskap við sem flesta.

Davíð Þór sagði...

Ég var einmitt að velta því fyrir mér, en finnst eiginlega að einhver sem ekki á beinna hagsmuna að gæta (þ. e. er textahöfundur) ætti að gera það. Mínar umkvartanir yrðu skildar sem röfl yfir að fá ekki að vera með. Hvet þá sem eru sammála mér og ekki textahöfundar sjálfir til að taka við kyndlinum.

Nafnlaus sagði...

En er það ekki bara eðlilegt að textahöfundur veki athygli opinberlega á hagsmunamálum sínum ef þau eru um leið hagsmunamál allra sem unna íslenskri tungu?

Enda held ég að flestir geri sér grein fyrir því hve fáránlegt þetta er. Það þarf ekki annað en að horfa til STEFs og Félags tónskálda og textahöfunda hvað þetta varðar.

Þú ert í þeirri aðstöðu að geta vakið athygli á þessu, þó ég skilji reyndar hik þitt. Mér finnst hins vegar einboðið að fjölmiðlamenn sem lesa þessa síðu taki málið upp. Jakob Bjarnar hvar er úttektin í Fréttablaðinu? Freysi hví er Síðdegisþátturinn ekki búinn að spyrja umsjónarmenn verðlaunanna um þetta?

Nafnlaus sagði...

Afsakið rausið. Verð bara að benda á yfirlýst markmið með Stef sem finna má á heimasíðu samtakanna:

"...að tryggja eigendum tónlistar og texta sanngjarna þóknun fyrir afnot af tónlist þeirra og stuðla þannig að því að alltaf sé samin ný tónlist."

Þar á bæ gera menn sér s.s. grein fyrir því að ný tónlist verður ekki samin án texta.

Nafnlaus sagði...

Já, það þarf að huga betur að textagerðinni finnst mér. Mér hálf leiðast þessir óstuðluðu og illrímandi textar margra laga.
Það er nú það.

Nafnlaus sagði...

Textarnir gera oft lögin af því sem þau eru. Afhverju er þetta ekki með lengur? Fáránlegt. Plötuumslag ársins? shit...Að finnast það vera mikilvægara en textar. Þvílíkt rugl. Davíð, þú ert snilldar textahöfundur.

fangor sagði...

ég syrgi líka textaverðlaunin. þykir hins vegar vel ortur texti engu síðri þó hann sé á öðru tungumáli en íslensku.

Hjörtur Howser sagði...

Já ! Hvar var Sviðin Jörð þegar allt þetta fór fram ?

Maður bara smyr sig ?

Einar Agust sagði...

Þú hlýtur að eiga einhvern snilldartexta samda af snillingnum sjálfum þér til að deila með okkur litli kall? Þess ber að geta að textinn sem þú vísar til var akkúrat saminn svona að vel hugsuðu máli, honum var ætlað það hlutverk að vera nákvæmlega svona. Þú treður einhverjum lopasokk á fóninn og fílar þig bara ;-)

Davíð Þór sagði...

Hér: https://silfurgeitin.wordpress.com/category/kvedskapur/