þriðjudagur, janúar 23, 2007

Vinstrigræðgi valdagrænna

Því miður virðast mér nýleg orð formanns Samfylkingarinnar um að flokkurinn beri sjálfur ábyrgð á því hvernig fyrir honum er komið vera gleymd og grafin. Undanfarið hefur forysta flokksins nefnilega verið órög við að slá annan tón í opinberri umræðu: Þetta er valdagræðginni í Steingrími að kenna.
Þegar Steingrímur J. Sigfússon stakk upp á því í haust að stjórnarandstaðan stillti saman strengi sína til að bjóða öflugan valkost við núverandi ríkisstjórn gat formaður Samfylkingarinnar ekki stillt sig um að rifja upp þá tíma þegar gamli fjórflokkurinn ummyndaðist í þann nýja og ýjaði að því að um „sinnaskipti“ væri að ræða hjá Steingrími, því hann vildi ekki taka þátt í meintu kosningabandalagi vinstrimanna fyrir átta árum. Margrét Frímannsdóttir segir í völdum æviminningum sínum að það hafi verið af því að hann fékk ekki nóg völd þar.
Auðvitað hentar það Samfylkingunni mun betur að stilla Vinstrigrænum upp sem sundrungarafli á vinstri vængnum en að horfast í augu við þá staðreynd að sjálf yfirgaf Samfylkingin vinstri vænginn með manni og mús strax árið 1999. Eða var það kannski vinstristefnan sem á sínum tíma rak þáverandi formann flokksins á fund verndarans í vestri, gestgjafans í Guantanamo, til að grátbiðja hann að fara nú ekki með morðtólin sín af landinu? Voru þau skilaboð frá íslenskum vinstrimönnum?
Sömuleiðis hentar flokknum illa að rifja upp afstöðu sína til Kárahnjúkavirkjunar, nú á dögum almennrar umhverfisvitundar. Enda hefur hann komið sér upp glænýrri umhverfisstefnu, í beinni andstöðu við þá gömlu, fyrst skoðanakannanir benda til þess að slíkt sé líklegt til vinsælda. Um leið er umhverfisstefna Vinstrigrænna, sem hefur verið óbreytt frá 1999, úthrópuð sem lýðskrum.
En þetta með valdagræðgina veldur mér heilabrotum. Mig minnir nefnilega að fyrir átta árum hafi byrinn ekki beint verið með Steingrími í brölti sínu. Ef mig misminnir ekki var hann allur í segl Samfylkingarinnar. Hafi Steingrímur séð það fyrir þá að eftir aðeins átta ár yrði líklegra að þjóðin treysti honum en Samfylkingunni og hann því stofnað Vinstrigræna af einskærri valdagræðgi árið 1999 – verður að hrósa honum fyrir framsýnina. Slíkum manni er greinilega treystandi fyrir völdum!
Bakþankar í Fréttablaðinu 21. janúar 2007

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

spurning hvort réttsýnismaður eins og þú viljir ekki blogga líka aðeins um framsóknarklíkuna sbr.below....það er nú bara fyndið sú þöggun sem þar á sér stað á þessum málum.

....hinn rússneski eigandi Chelsea náði til sín nokkrum ríkisfyrirtækjum á
sínum tíma á réttum tíma og með aðstoð vel valinna manna og er nú einn ríkasti
maður heims. Ekki fer miklum sögum af "kaupverðinu" né heldur að öðrum hafi
verið leyft að bjóða þarna í fyrirtækin....neipp, þeim var skemmtilega komið
fyrir hjá hinum "útvöldu".

Okkar útgáfa af þessum manni hlýtur að vera Ólafur Ólafsson í Samskipum sem
"gaf" milljarð í höfuðstól um helgina og renna vextirnir af honum til
mannúðarmála og líknarmála - cirka 100-150 millur árlega sem er svipað og
ónefnd veisla kostaði.


er ekki tímabært að rifja aðeins upp hvernig menn fara að því að eignast
rúmlega 100 þúsund milljónir á innan við 5 árum á íslandi en hrein eign Óla
partýkalls er vel yfir 100 þúsund milljónir?

fyrir utan búnaðarbankann.....þá var VÍS skemmtilegt dæmi....en látum fyrrum
landsbankastjóra hafa orðið:

Hann skrifar þetta í morgunblaðið 4.oktober 2006:

"Rasphúsmenn


FYRIR þremur árum ákváðu bankaráðsmenn Landsbankans hf., þeir Helgi Guðmundsson

og Kjartan Gunnarsson, að selja hinum svonefnda S-hópi hlutabréfaeign bankans í

Vátryggingafélagi Íslands, tæplega 50% eignarhlut í VÍS. Einstöku vildarvinir
fengu að fljóta með í kaupunum, þar á meðal Skinney-Þinganes á Höfn í
Hornafirði, erfðagóss Halldórs Ásgrímssonar.
Kaupverð á bréfum Landsbankans í VÍS var 6,8 milljarðar króna; sex þúsund og
átta hundruð milljónir. Réttum þremur árum síðar seldi S-hópurinn og einkavinir

þeirra þennan hlut í VÍS fyrir rúmlega 31 milljarð króna; þrjátíu og eitt
þúsund milljónir. Mismunur 24,2 milljarðar - tuttugu og fjögur þúsund og tvö
hundruð milljónir.

Sæmileg ávöxtun það, enda sá Finnur Ingólfsson um veltuna.

Þegar kaup S-hópsins og co. fóru fram hafði Landsbankinn verið einkavæddur, en
allir hlutir í honum í opinberri eign, þ.e.a.s. í eigu almennings. Það var því
í umboði ríkisstjórnar, sér í lagi bankamálaráðherrans, Valgerðar
Sverrisdóttur, sem Helgi og Kjartan seldu, en þeirra er ábyrgðin skv. lögum um
viðskiptabanka. Þau vinnubrögð kallaði einn úr Einkavæðingarnefnd, Steingrímur
Ari Arason, fráleit, sagði sig úr nefndinni; gekk brott og grét beisklega.

Það hlýtur að verða fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar eftir næstu kosningar, að
skipa opinbera rannsóknarnefnd sem fari rækilega í saumana á allri svívirðunni,

sem Einkavæðingarnefnd lét eftir sig. Auðvitað verður einkavæðing þáverandi
utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, á Íslenzkum aðalverktökum líka tekin
með í reikninginn.

Þegar öll kurl hafa komið til grafar er spurningin ekki sú hvort hinir ábyrgu
verði dæmdir í rasphús heldur hversu langa tukthúsvist.

Framsóknarmenn höfðu um alllanga hríð unnið hörðum höndum að því að ná undir
sig Landsbankanum. Þegar núverandi Seðlabankastjóri yfirgaf stefnu sína um
dreifða eignaraðild og heimtaði að selja bankann einkavinum sínum, ærðust
framsóknarmenn og töldu Búnaðarbankann of rýran feng. Lausn var fundin með því
að gefa þeim milljarðana í VÍS til að jafna metin og var höfð í huga aðferð
Kambránsmanna að skipta þýfinu sem jafnast."


Síðan skrifar hann 14.oktober 2006 í moggan líka þetta:

"Bankaræningjar

ÞAÐ BLASIR við öllum með augu opin að vinnubrögð hinnar svokölluðu
einkavæðingarnefndar voru samfelldur fjármálalegur sóðaskapur af verstu gerð.
Þó virðast sölur ríkisbankanna taka þar öðru fram.


ÞAÐ BLASIR við öllum með augu opin að vinnubrögð hinnar svokölluðu
einkavæðingarnefndar voru samfelldur fjármálalegur sóðaskapur af verstu gerð.
Þó virðast sölur ríkisbankanna taka þar öðru fram.
Fyrir skemmstu rakti undirritaður í stuttri klausu í Morgunblaðinu aðfarir
bankaráðsmanna Landsbanka Íslands, Helga S. Guðmundssonar og Kjartans
Gunnarssonar, við sölu á hlutabréfum bankans í Vátryggingarfélagi Íslands, en
þær athafnir voru undanfari sölu bankans. Í ljós kom, að hlutabréf Landsbankans

voru seld S-hópnum svonefnda fyrir 6,8 milljarða króna. Þessi bréf seldi
S-hópurinn 3 - þremur - árum síðar fyrir rúmleg 31 milljarð króna. Mismunur
rúmir 24 milljarðar.

Á sölu hlutabréfa Landsbankans í VÍS á sínum tíma báru aðalábyrgð þeir Helgi S.

Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson, vafalaust að undirlagi þáverandi
bankamálaráðherra, framsóknarfrúarinnar frá Lómatjörn. Ærin ábyrgð hlýtur það
að teljast, enda tukthússök.

En sagan var ekki hálfsögð. Það kemur í ljós við kaup S-hópsins á FL-Group að
einn af aðalmönnum S-hópsins reynist vera hinn sami Helgi S. Bankaráðsmaðurinn
hefir sem sagt gefið sjálfum sér milljarðana við svokallaða sölu VÍS-bréfanna
til S-hópsins.

Það er ennfremur bókað að Kjartan Gunnarsson á vænan hlut í Landsbanka Íslands
og hefir sem bankaráðsmaður í fyrrum Landsbanka ráðið miklu um það verðlag, sem

hann sjálfur naut við kaup sín í nýja Landsbankanum.

Það er eftir öðru að Helgi þessi S skuli vera formaður stjórnar Seðlabanka
Íslands - eða kannski við hæfi.

Þessi dæmi sýna ljóslega hverskonar framsóknar-forarvilpu ríkisstjórnarmenn eru

sokknir í, enda munu þeir aldrei leyfa opinbera rannsókn á málavöxtum meðan
þeir sitja á valdastólum.

Eru það kannski þessir kónar sem nýi forsætisráðherrann á við þegar hann segir
í alþingi á dögunum: ,,Ég missi ekki svefn yfir því að einhverjir aðilar hafi
hagnast á viðskiptum."

Á hinu kynni að verða stutt bið að einhverjir af bankaræningjunum yrðu andvaka.


Höfundur er fv. form. Frjálslynda flokksins."Síðan var Icelandair tekið yfir...þeir komnir í FL group og Straum Burðaráss
o.fl. skemmtilegt....

Er það ekki einsdæmi í hinum vestræna heimi að sjálfur viðskiptaráðherra hætti
störfum og taki þátt í einkavæðingu sinnar eigin ríkisstjórnar - og nái á innan
við 5 árum nokkur hundruð þúsund milljónum til sinna manna og stýri núna einum
öflugasta fjárfestingarhóp landsins ???

Er ekki timabært að rifja aðeins upp hverjir tilheyra þessum hóp manna sem
undir forystu fyrrum viðskiptaráðherra Íslands eru orðnir meðal auðugustu manna
íslands....og það á vel innan við 5 árum ???


"Island er best í heimi.......við eigum öll skilið að fá Thule !"

Kv.
JS

Nafnlaus sagði...

vá, sjaldan séð annað eins sníkjublogg :-O

En satt segirðu annars, mér verður alltaf verr og verr við Samfylkinguna með hverjum deginum sem líður og hverri frétt sem ég les. Voða hrædd um að þau séu að stefna beint á samstjórn með Sjálfstæðismönnum...

Nafnlaus sagði...

Ég hef nýlokið lestri á endurminningum Margrétar Frímannsdóttur og þótti fróðleg lesning. Dæmin um valdagræðgi Steingríms fóru ekki fyrir brjóstið á mér því að mér virðist flestir sem eru í pólitík hafa áhuga á að komast til valda. Ingibjörg Sólrún er gott dæmi, hún vílar ekki fyrir sér að bjóða sig fram gegn fjölskyldumeðlim til að ná meiri frama. Það sem mér þótti verra voru dæmin sem hún nefnir um karlrembuna hjá Vinstri grænum og menntasnobbið. Það finnst mér ófyrirgefanlegt hjá flokki sem reynir að höfða til kvenna og þeirra sem eru ekki langskólagengnir, kv, Anna

Jimy Maack sagði...

Heyr heyr!

Nafnlaus sagði...

Vinstri grænir minna mig alltaf á menntaskólaklíku. Voða klárir og kórréttir með fínan fléttulista - en vantar allan þroska. Elín.

Nafnlaus sagði...

Já Margrét Frímannsdóttir er auðvitað best til að dæma um karlrembu og menntasnobb hjá Vinstri grænum. Hún vill þeim flokki allt vel og er ekki bitur út í velgengni hans og sár yfir stöðu eigin flokks. Það er því ekki við öðru að búast en að hún sé mjög hlutlaus í dómum sínum um flokkinn.

Þórfreður sagði...

Sæll, Davíð.

Ég – eins og margir í Samfylkingunni – er mjög áfram um að eftir kosningar verði mynduð ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna. Þess vegna er mér mjög illa við það að kosningabarátta vinstri-grænna skuli æ meir vera farin að beinast gegn Samfylkingunni í stað þess að spjótum sé beint gegn íhaldinu eða framsókn.

Halda vinstri-grænir virkilega að þetta sé rétta leiðin til myndunar vinstristjórnar á Íslandi?

Svo er eitt: Ég vísa því á bug að umhverfisstefna Samfylkingarinnar sé popúlismi og til komin vegna skoðanakannana. Umhverfisstefna Samfylkingarinnar – Fagra Ísland – er til komin vegna þess að innan flokksins eru margir sem hafa mjög heitar skoðanir á þessum málum og eru einlægir náttúruverndarsinnar. Má þar nefna fólk eins og Þórunni Sveinbjarnardóttur, Mörð Árnason, Dofra Hermannsson og Guðmund Steingrímsson. Þessi hópur hefur haft áhrif á stefnumörkun flokksins með skeleggum málflutningi sínum og því finnst mér rétt að halda til haga.

Því er svo ekki að neita að innan Samfylkingarinnar eru nokkuð skiptar skoðanir á þessum málum (rétt eins og í Sjálfstæðisflokknum). Það hefur leitt til þess að út á við hefur flokkurinn ekki alltaf verið samkvæmur sjálfum sér. Það er þó smám saman að lagast (sem betur fer) og má nefna sem dæmi að nú er það alveg kristaltært að Samfylkingin er á móti virkjun jökulánna í Skagafirði.

Að lokum tek ég það fram að ég unni vinstri-grænum þess alveg að fá góða kosningu í vor. Þeir hafa verið mjög samkvæmir sjálfum sér í náttúruverndarmálum allt frá upphafi og eiga vel skilið að njóta þess þegar talið verður upp úr kjörkössunum. Þess vegna finnst mér að Samfylkingin ætti heldur ekki að elda grátt silfur við vinstri-græna heldur einbeita sér að íhaldinu, framsókn og „frjálslyndum“ (já, „frjálslyndum“ í ljósi þess í hvaða átt þeir hafa þróast) og reyna að klípa af þeim sem allra mest fylgi.

Ég ætla því að grafa stríðsöxina, en ég hef áður staðið í karpi við vinstri-græna. Það breytir því ekki að árásum vinstri-grænna á Samfylkinguna læt ég ekki ósvarað – skárra væri það nú.

Með baráttukveðju,

Þórður

Unknown sagði...

Ég er sammála Þórði hvað það varðar að mér finnst það afar leitt hvað kosningabarátta margra í VG beinist aðallega og jafnvel eingöngu gegn Samfylkingunni.

Kona hefði haldið að VG væri í stjórnarandstöðu og myndi beina spjótum sínum mest að stjórnarflokkunum. Jafnvel að vinstri græn hefðu áhuga á stjórn með Samfylkingunni eftir kosningar.

En það læðist að mér æ oftar sá grunur að VG ætli sér í stjórn með Sjálfstæðsflokknum og þess vegna sé helsti óvinur flokksins Samfylkingin, en ekki stjórnarflokkarnir.

Davíð Þór sagði...

Hins vegar hefur náttúrlega aldrei neinn Samfylkingarmaður andað svo miklu sem hálfu styggðaryrði í garð VG, eða hvað?

Hildigunnur sagði...

nákvæmlega!!!

Ég sé nefnilega einmitt miklu fremur leiðindin í þá áttina. Ef ég er að missa af miklum fýluskrifum VG-liða gagnvart Samfylkingu biðst ég forláts, en ég hef bara mikið meira orðið vör við hitt.

Gjarnan vildi ég samstjórn vinstri aflanna hér á landi, ekki veitir af eftir síðustu áratugi græðgi og peningaafla. Reynum nú að hætta þessum kýtum og koma okkur saman.