föstudagur, janúar 19, 2007

Völvuspá Davíðs Þórs


Þar sem ég veit að lesendur þyrstir í að ég deili með þeim þekkingu minni og skilningi á öllum sviðum tilverunnar ákvað ég að gera þeim þann greiða að setjast niður og glápa í kúlur, rýna í flug fugla, svif lóar, atferli Kisu og sjá þannig fyrir helstu atburði ársins 2007.
Hér er niðurstaðan:

Kosningaþátttaka verður ekki sú besta í sögu þjóðarinnar.
Pólitískt vandræðamál á eftir að koma upp fyrir kosningar, brigður verða bornar á heilindi einhvers frambjóðanda.
Samt verður kosið og sumir frambjóðendur munu að sönnu fagna sigri, öðrum mun finnast sem sanngjarnara hefði verið að vegur þeirra hefði verið meiri.
Ný ríkisstjórn verður mynduð, en það mun ekki gerast átakalaust.
Fíkniefnavandinn verður áfram í sviðsljósinu og niðurlögum hans verður ekki ráðið á nýju ári.
Háskólinn verður enn fjársveltur og umræðan um skólagjöld á eftir að skjóta upp kollinum.
Þjóðkirkjan mun sæta gagnrýni fyrir að meina samkynhneigðum hjónavígslu.
Glæpamál munu koma upp, þeim verður slegið upp á forsíður blaða og þjóðin mun súpa hveljur í kortér.
Því miður munu verða nokkur alvarleg slys.
Íslenskir kaupsýslumenn eiga eftir að braska mikið og fjárfesta í útlöndum. Það á eftir að vekja athygli.
Misskipting auðs og lífsgæða á eftir að aukast.
Við munum áfram fá fréttir af því að íslenskir listamenn veki athygli langt út fyrir landsteinana, jafnvel þótt það fréttist hvergi annars staðar í heiminum.

Vona ég að þetta nægi til þess að þið getið róleg tekið á móti þessu ári og ekkert þurfi að koma ykkur á óvart.

6 ummæli:

Kaffikella sagði...

sveimérþá ef þú ert ekki betri í að kúlulestri en Völvan sjálf í vikunni.

Anna Kristjánsdóttir sagði...

Það hefur ávallt verið erfitt að spá, sérstaklega í framtíðina. Þú hefðir alveg getað slegið völvu Vikunnar við með því að spá hengingu Saddams og Íslandsferð Eltons Djonn.

Nafnlaus sagði...

Ó þér véfrétt! Vér drjúpum höfði. Samt hefði mátt geta þess að margir verði um hituna í kosningunum í vor.

Nafnlaus sagði...

Súpa hveljur ? Það er nú ekkert miðað við hvað menn eru að froðufella út af þessu Byrgsismáli núna. Satt!

Nafnlaus sagði...

Svo á handboltalandsliðið eftir að ganga í gegnum sveiflukennt tímabil þar sem skiptast á skin og skúrir.

Nafnlaus sagði...

Vitna nú bara í skáldið: Komandi tíð mun verða hörð en bærileg. Frétti það á spjalli við löngu látinn mann.