þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Áfram, Eiríkur!


Í fyrradag hlustaði ég loks á þrjú eurovisionlaganna í ár í heild sinni. Þau voru leikin í sjónvarpinu, flutt af Friðriki Ómari, Jónsa og Eiríki Haukssyni. Nú hef ég, eftir að hafa brætt þetta með mér alllengi, myndað mér þá skoðun að ekki sé enn fullreynt með Eirík Hauksson í Eurovision og að hyggilegast væri því að senda hann. Hyggst ég nú rökstyðja þetta álit mitt.
Fyrst og fremst er það auðvitað testósterónið sem vinnur mig á band Eiríks. Þannig eru þeir Friðrik og Jónsi til dæmis báðir afbragðssöngvarar, en það verður að segjast eins og er að sviðsframkoma þess fyrrnefnda er hálftestósteronsnauð og hjá Jónsa er eiginlega eins og karlmennskan hafi mest farið í upphandleggsvöðvana og skorti því svolítið í útgeislunina. Nú er ég ekki að halda því fram að testósteron og karlmennska séu nauðsynleg til neins, en með það í huga hvaða hópur karla virðist einkum heillast af þessari keppni tel ég þó ekki fráleitt að prófa að veðja á þetta svona einu sinni og sjá hvað gerist. Við höfum engu að tapa.
Eiríkur Hauksson er nefnilega að mínu mati mesti núlifandi töffari þjóðarinnar. Hann er svo töff að hann getur talað norsku án þess að missa kúlið. Hann er eini maðurinn sem ég veit til þess að geti það. Alla vega hefur engum Norðmanni tekist þetta ennþá, að því er ég best veit. Hvers vegna haldið þið að Morten Harket, söngvari A-ha, hafi talað ensku þegar hann kom hingað? Af því að norska er svo töff tungumál?
Eiríkur Hauksson getur sungið jólalög og verið töff. Það leikur enginn eftir. Ég er jafnvel ekki frá því að hann gæti sungið jólaög á norsku og samt verið töff, en reyndar gæti mér skjátlast hvað það varðar. En nú hefur hann semsagt sýnt að hann getur tekið þátt í forkeppni Eurovision og samt verið töff. Þetta hefur öðrum mistekist til þessa.
Ég efast því ekki um að Eiríkur héldi kúlinu á sviðinu í Helsinki. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að hann dúkki upp með svuntu eða í allt of stórum fermingarfötum sem búið er að rífa ermarnar af. Um sigurlíkur þarf hvort sem er ekki að fjölyrða, þær eru auðvitað engar. Dæmin sanna að það besta sem við getum vonast eftir er að komast þokkalega klakklaust frá þessu.
Við erum örugg með Eirík!

Bakþankar í Fréttablaðinu 4. febrúar 2007

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það þíðir ekkert að senda jónsa eða Friðrik eða bara einhverja svona hnakka. Við höfum alltaf drullaðu uppá bak í eurovision með svona gaura. Stebbi og Eyvi, eitthvað beat bull sem er enganvegin grípandi. Áfram með Eirík.

Nafnlaus sagði...

Allt er í heiminum afstætt. Ég er nefnilega á síðari tímum orðin svo ansi svag fyrir Eiríki, og einkum í sér í lagi eftir að hafa horft sí og æ á unga, bragðdaufa, karlmennskusnauða karlmenn. Fyrirgefið Friðrík Ómar, Jónsi, Rip, Rap og Rup og hvað þið nú heitið.
Eurovision skandallinn þetta árið ætlar nú samt að taka öllu fíaskói fyrri ára fram. X-factor verður að hámenningarlegu fyrirbæri við hliðina á þessu, og er þar þó menningin heldur skorin við nögl.
Eða er ég bara gargandi barnalandskelling eins og ÞG kallar sumar kynsystur sínar sem slæðast inná bloggið hennar?
Takk fyrir góða síðu, DÞJ!

Þórunn Gréta sagði...

Ha??? Ég??? Hvenær í ósköpunum hef ég notað orðið barnalandskelling? Eða vænt þær um garg??? Ja, mér er bara spurn. Ég legg mig í líma við að vera kurteis dags daglega. Nema kannski stundum þegar ég er með smá skítkast út í ríkisstjórnina, en ég hef aldrei kallað hana gargandi barnalandskellingu. Held ég.

kerling í koti sagði...

Ég held að átt hafi verið við Þórdísi Gísladóttur, Norðurmýrardrottningu, í þessu sambandi. Hún var eitthvað að tala um Barnalandskerlingar fyrir stuttu. Sem sagt sömu uphafsstafir.

Nafnlaus sagði...

HAHAHAHAAAAAAAA ég þarf ekki að kommitera á þessa grein neitt frekar nema að hún fékk mig til að skella uppúr við tölvuna - og það gerist ALDREI!!!!
Kíp on góing mæ frend...

Nafnlaus sagði...

HAHAHAHAAAAAAAA ég þarf ekki að kommitera á þessa grein neitt frekar nema að hún fékk mig til að skella uppúr við tölvuna - og það gerist ALDREI!!!!
Kíp on góing mæ frend...

Nafnlaus sagði...

Ups, ég hló nú bara einu sinni - sko. Tæknileg mistök urðu til þess að hlátur minn vafrar nú um veraldarvefinn að mér forspurðri...

Hjörtur Howser sagði...

ég hló ...tvisvar ....

jólalög á norsku !!!

svuntan og ermalausu fermingarfötin !!!


reyndar hló ég miklu oftar því pistillinn er frábær..

HH