þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Vont er þitt frjálslyndi

Íslenskan er skemmtilega gegnsætt mál nema þegar kemur að pólitík. Sá flokkur sem harðast gengur fram í því að undirselja landið erlendu herveldi kennir sig við sjálfstæði, flokkurinn með úreltustu framtíðarhugmyndirnar kennir sig við framsókn og sá flokkur sem erfiðast er að tengja frjálslyndi í einhverri óbrjálaðri merkingu orðsins kallar sig Frjálslynda. Þar virðast allir velkomnir sem hrekjast úr öðrum flokkum vegna óvinsælda.
Einn þeirra, Valdimar L. Friðriksson, lýsti því nýlega yfir að hryðjuverkamenn hefðu verið handteknir hér. Þegar í ljós kom að þetta var bull réttlætti hann ummælin með því að fíkniefnasmyglarar væru í hans augum hryðjuverkamenn.
Refsigleði er ekki bara afar ógeðfelld heldur einnig fullkomlega gagnslaus. Reynslan hefur sýnt æ ofan í æ að refsiþyngd hefur engin áhrif á glæpatíðni. Hvergi í hinum siðaða heimi eru dómar þyngri en í Bandaríkjunum. Fyrir vikið er hvergi hærra hlutfall þjóðar á bak við lás og slá, en óvíða eru glæpir samt tíðari. Þar var dauðarefsing tekin upp að nýju í þeirri von að morðum myndi fækka. Sú von brást.
Reynslan hefur ennfremur sýnt að það sem best hefur gefist í baráttunni við fíkniefnavána er að meðhöndla hana sem heilbrigðisvandamál, að líta ekki á fíkla sem glæpamenn heldur sjúklinga og meðhöndla þá sem slíka. Enda eru þeir fyrst og fremst veikir. Þeir eru haldnir banvænum sjúkdómi sem lýsir sér í andfélagslegri hegðun og gerir þá hættulega sjálfum sér og umhverfi sínu. Sjúkdóminn má þó meðhöndla og sé einlæg löngun fyrir hendi er bati mögulegur. Langflestir smyglarar eru neytendur sem grípa til örþrifaráða til að fjármagna og viðhalda eigin neyslu. Þar á bak við er sjaldnast einbeittur vilji til að vera vondur og skaða aðra sér til ánægju og afþreyingar.
Í huga Frjálslyndra eru fíklar hins vegar ekki bara glæpamenn heldur beinlínis hryðjuverkamenn. Eina ráðið sem þeir kunna er að refsa fleirum þyngra, lengur og harðar. Væntanlega í þeirri trú að nýliðun í stétt smyglara sé engin, að fíkniefni hverfi af markaði bara ef nógu mörgum er stungið inn nógu lengi. Það hefur víða verið reynt og hvergi skilað öðru en hörmungum.
Fársjúkt fólk á rétt á skilningi og aðstoð. Frjálslyndir bjóða því Litla-Hraun.

Bakþankar í Fréttablaðinu 18. febrúar 2007

15 ummæli:

Jimy Maack sagði...

Nú ertu svolítið að kasta múrsteinum úr vinstri-grænu steinhúsi minn kæri Davíð.

Ég er sjálfur meðlimur í Frjálslynda flokknum, þó ég teljist til vinstrisinnuðustu flokksmanna þar og er ég sjálfur hlynntur lögleiðingu eiturlyfja og með því útrýmingu neðanjarðarhagkerfisins sem ríkisvaldið skapar með því að banna neysluvöru sem fólk útvegar sér hvort eð er . Ég ræddi þetta mál mikið við hina ýmsustu meðlimi flokksins á síðasta flokksþingi og voru margir hverjir, rétt eins og ég, sammála J.S. Mill um að frelsi einstaklingsins eigi aðeins að takmarkast við það sem skaðar aðra. Þar með er ekki hægt að dæma heilbrigða fíkniefnaneitendur, klámskoðendur, drykkjubolta eða fótboltaáhugamenn sem óæðri mannverur nema að áhugamál þeirra geri það að verkum að þeir fari ýmist vísvitandi eða ósjálfrátt að skaða aðra með áhugamáli sínu.

Þetta voru allir viðmælendur mínir, utan tveggja manna sem virtust full mikið við skál, sammála mér um. Það að mála allan flokkinn sem ómálefnalega illa forpokaða hálfvita vegna einhverja framámanna sem hafa hálfbrenglaðar skoðanir er einfaldlega rangt, og svipar helst til þess að segja alla Vinstri Græna vera forpokaða hvað varðar erótískt efni vegna skoðanna margra flokkssystra þinna...

Nafnlaus sagði...

ég vildi að ég gæti tekið heilann á ykkur báðum blandað þeim saman og sett inn í mig

Nafnlaus sagði...

http://blog.central.is/burtmedframsokn

Nafnlaus sagði...

Ég vil koma því á hreint, hið snarasta, að það er ekki ég sem hef þessa óra um að fá úr ykkur heilann, heldur virðist sem meðal vor sé svikari sem skrifar undir mínu nafni!

Davíð Þór sagði...

Þá höfum við það á hreinu. Sá mundi sem ekki kann greinarmerkjasetningu er annar mundi en mundinn sem kann hana.

Jimy Maack sagði...

Gætum við því kallað þá Hugmund og Merkimund.

Ég vil benda þeim seinni, Merkimundi hinum Kommuglaða, á að ég og Davíð deilum ekki heila þótt við séum um margt sammála.

Jimy Maack sagði...

Reyndar sýnist mér, eftir að hafa lesið þetta yfir aftur, að þörf sé að benda þeim báðum á þetta.

'Heilann á ykkur báðum' ætti frekar að vera 'heila ykkar beggja' eða eitthvað á þá vegu, til þess að það fari örugglega ekki á milli mála að ég er ekki útvöxtur á höfði Davíð sem skaut upp skrokkinum úr kolli hans skömmu fyrir 17 ára afmæli hans. Við erum tvær aðskildar lífverur og því með sinn hvorn heilann.

Nafnlaus sagði...

Vá, ég skil ekkert hvað þið eruð að segja, eru þið að drulla yfir. Mig?

Nafnlaus sagði...

Davíð Davíð Davíð Þór!

"To be or not to be," sagði W. Shakespeare. "To be is to do," sagði J.P. Sartre. Og Sinatra toppaði allt þegar hann söng: "Skúbídúbídú..." Allir hittu þessir ágætu menn naglann á höfuðið og saman mynda þeir frábært tríó. Vegurinn til glötunar er nefnilega varðaður góðum ásetningi. Nú les ég frábært viðtal við þig í Blaðinu, Davíð minn Þór, þar sem þú talar um það sem ég kallaði eftir fyrir nokkrum dögum hér á kommentakerfinu. Samt ætlar þú að styðja Vg, forræðishyggjupakkið sem þar fer fyrir og veit hvað þér og mér er fyrir bestu, ekki vegna þess hvað flokkurinn gerir og stendur fyrir heldur vegna þess að fólki þar innanbúðar hefur einhvern veginn tekist að sannfæra þig um að það sé öðrum fremur innst inni gott og vel meinandi. Og best til þess fallið að fara með kærleiksofbeldi á hendur öðrum. Nú þekki ég þína trúgirni, þinn velvilja en þetta er einhvern veginn tú möts.

Kveðja,
Jakob

Nafnlaus sagði...

Ps. Hvernig mér tókst að rugla saman Önnu Mjöll með sitt skúbbídú og Sinatra ("do be do be do...") er mér sjálfum hulin ráðgáta.
Jakob

Nafnlaus sagði...

Hvað er að heyra Davíð, er nú refsigleði frjálslyndra farnin að hrjá þig, þú sem styður VG, sem haldnir eru refsigleði á lokastigi.

Ég sem hélt að þú værir bæði Grandvar og Hógvær í málflutningi, en kemur svo með svona sleggjudóma á aðra en sérð ekki hina löngu krumlu VG sem vill jafnvel seilast inní svefnherbergi fólks til að finna einhvern til að refsa.

Jafnvel fröken málefni er í kasti yfir þessa, kannski rétt hjá þér að skreppa á kamarinn og skella fram vísu til að friða lýðinn?

Davíð Þór sagði...

Kæri Jakob. Á ég að kjósa einhvern sem talaði af skynsemi í klámmálinu? Þá þyrfti ég að skila auðu. Á ég ekki að kjósa forræðishyggjuflokk? Þá þyrfti ég líka að skila auðu. Var það ekki Steinunn Vala sem átti upphaflegu hugmyndina að því að setja NetNanny á allt internetsamband við útlönd? Sjáðu fjóshauginn hjá Samfylkingunni áður en þú ferð að agnúast út í lambasparðið hjá VG.

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð!

Mikið rétt! Um mig fór ískaldur hrollur við þessa þverpólitísku samstöðu sem byggist á lýðskrumi og forræðishyggju. (Merkilegt hversu mjög þessi hugtök vilja haldast í hendur.) Og Samfylkingin er að fæla frá sér stóran hóp frjálslynds fólks vegna undirtekta sinna við svo ógeðfelld fyrirbæri. Úldin arfleifð Kvennalistans er þar uppvakningur í forystusveit með uggvænlegum afleiðingum. Líklega þeim að Sjálfstæðisflokkurinn græðir mest þrátt fyrir gamla góða Villa og verður líklega í lykilstöðu að loknum kosningum. Við kjötkatlana sem fyrr. Eini maðurinn sem þorir að segja eitthvað innan Samfylkingar er Gummi Steingríms. Jakob Frímann flúinn og svo er með fleiri krata sem finna sér ekki skjól lengur innan Samfylkingar. Kapphlaupið um öfgafemínismastimpil er með ólíkindum misráðið skref hjá ISG. En óneitanlega er forræðishyggjan stækust hjá VG, beinlínis skrifuð inn í stefnuna, sem hefur til dæmis tekið öfgafemínista upp á sína arma og gert að forystuafli í flokknum. Ég var til dæmis að lesa síðu Katrínar Önnu sem er að lesa bókmenntir sem greinilega eru henni ekki hollar. Og hefur í hávegum: "[Catharine A. MacKinnon]...vill meina að tjáningarfrelsi sé tæki sem notað er til að viðhalda kúgun kvenna." Hvað á nú að segja um svona?

Kveðja,
Jakob

Nafnlaus sagði...

Jimy Maaack viltu vera vinur minn!

Jimy Maack sagði...

Jájá...