fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Átta örsamtöl við asna

(svo það fari ekki á milli mála hvað ég átti við í síðasta bloggi, jafnvel þótt með þessu sé ég að virða að vettugi gáfulegustu ráðlegginguna sem ég hef fengið á bloggferlinum)

D = ég, A = asni

1.

D: Ég stend mig stundum að því að vera haldinn fordómum gagnvart ýmsu mjög nálægu, t. d. Laugvetningum, þótt ég þykist mjög umburðarlyndur náungi. Í þessu er ég að reyna að vinna.
A: Ég hata þig fyrir að tala svona um Laugvetninga.

2.

D: Mér finnst þetta blað orðið neikvætt og leiðinlegt aflestrar.
A: Þú ert semsagt á móti prentfrelsinu?

3.

D: Mér finnst þið dónalegir.
A: Hvernig dettur þér í hug að halda því fram að þú sért yfir gagnrýni hafinn?

4.

D: Ástin, fegurðin og trúin eru handan rökhugsunar mannsins.
A: Hvaða vitleysa. Það er mjög rökrétt að biðja til Guðs ef það lætur manni líða betur, bara ef maður passar sig að trúa ekki á hann.

5.

D: Ástin, fegurðin og trúin eru handan rökhugsunar mannsins.
A: Hvernig dettur þér í hug að halda því fram að hinn mælanlegi sannleikur skipti engu máli?

6.

D: Ástin, fegurðin og trúin eru handan rökhugsunar mannsins.
A: Þú þykist semsagt yfir það hafinn að þurfa að rökstyðja nokkurn skapaðan hlut sem þú segir?

7.

D: Mikið er nú gott að geta stundum slappað af.
A: Svo þú þykist of góður til að vinna fyrir þér eins og aðrir?

8.

D: Það er gott fyrir sálina að lifa góðu kynlífi.
A: Best að loka dóttur sína inni.

P. S. Rétt er að taka fram að samtöl sjö og átta eru skáldskapur, en ég reikna fastlega með því að ég myndi fá þessi viðbrögð ef ég léti þessar skoðanir í ljós.

P. S. P. S. Öllum asnaskap verður eytt úr orðabelgnum af fullkomnu miskunnarleysi.

11 ummæli:

Valur sagði...

„Ástin, fegurðin og trúin eru handan rökhugsunar mannsins.“ Þetta er vel sagt hjá þér Davíð. Það er hugsanlegt að ég vitni í þig.

Sindri sagði...

Ég ætla að minna á að broskallinn í endann á þessari athugasemd er að benda á að þetta sé góðlátlegt grín.

Þessi mynd útskýrir ágætlega vandamálið sem þú ert að fást við.

:)

Fæst af þessu fólki hefði sagt neitt þessu líkt uppí opið geðið á þér.

Hjörtur Howser sagði...

Elsku Davíð minn.

Kv.
HH..

Nafnlaus sagði...

Þykir mér þú hugaður að kalla þetta annars ágæta fólk (þegar það er ekki á internetinu að grafa aðra í commentum) asna.

"There is quality, and then, there is quantity"

Þessi lýður er ekki með gæði, hann er hinsvegar með magn. Og það mikið, mikið, mikið .. MIKIÐ. Einnig er hann mjög góður í að misskilja allt sem maður segir. Hef verið þarna, hef rifist við það. ( Eitt skipti endaði það í blöðunum eftir að einstaklingurinn setti Íslandsmet í útursnúningum )

Mæli með að þú hundsir þetta fólk, eða setjir þér kvóta. 2 mótsvör per topic per asnahjörð.

Gangi þér sem best :)

P.s. komdu svo bráðlega með gleðilegt blog. :)

Jimy Maack sagði...

Já, ég hef starfað í ýmsum dead end þjónustustörfum í áraraðir og ég verð að segja að það er dapurlega stór hluti íslensku þjóðarinnar sem flokkast undir áðurnefnda asna. Hér á Íslandi eru nefnilega merkilega oft bakarar hengdir fyrir smiði.

Nafnlaus sagði...

Ég dáist að þér, hversu margir einstaklingar (þjóðþekktir sem og sauðsvartur almúginn) þora að tjá sig opinberlega eins og þú gerir? Meðan munnræpan úr öðrum slettist upp um alla veggi og súlur undir nafnleynd.

Ég vil í þessu samhengi benda á athugasemdir Davíðs Þórs sem hann skrifar einmitt undir nafnleynd.

Sjálfur skrifa ég alltaf undir nafni og það gera flestir þeir trúlausir sem ég þekki, að undanskildum þeim sem óttast að nafnbirting undir skoðunum þeirra geti skaðað þá félagslega og fjárhagslega. Við lifum nefnilega á tímum þar sem fremur lítið umburðarlyndi er gagnvart því að trúarskoðanir séu gagnrýndar.

Fæst af þessu fólki hefði sagt neitt þessu líkt uppí opið geðið á þér.

Ég treysti mér til að viðra skoðanir mínar umbúðalaust upp í opið geðið á hverjum sem er og veit að það gildir um flesta aðra sem tjá sig um trúmál af sjónarhóli trúleysis.

Nafnlaus sagði...

Birgir: Ég veit það sjálfur að þú og þínir orða hlutina töluvert umbúðalausara á bak við skjól tölvuskjásins en í eigin persónu. Það er sjáðu til munur á því að tjá skoðun sína og að drekkja fólki í gífuryrðum.

Annars vil ég bara ítreka það sem ég hef sagt áður, að þessi ágæta vefsíða er með skemmtilegustu bloggsíðum sem ég hef séð, og hef ég ávallt gaman af því að líta hér inn.

Heimir Björnsson sagði...

Ég venjulega vil ekki blanda mér í neinar svona umræður, hef aðallega gaman af því að lesa þær en núna get ég ekki þagað...

Birgir Baldursson:
,,Við lifum nefnilega á tímum þar sem fremur lítið umburðarlyndi er gagnvart því að trúarskoðanir séu gagnrýndar."

Er það virkilega?

Er einhver tími sem þú getur sagt að trúmál og skoðannir hafi ekki verið viðkvæm?

Ég nenni ekki útí nein kílómetra skrif hérna, þannig að ég læt þetta nægja.

Nafnlaus sagði...

Hey Davíð,

taktu til baka, að ég sé asni. Ég var bara reyna tala við þig.

Kkv,

-haukur s magnússon

Nafnlaus sagði...

Er það virkilega?

Já. Þegar samfélagið sekúlaríseraðist í kjölfar upplýsingarinnar fór gagnrýni á trúarbrögð að verða viðurkennd iðja. Thomas Jefferson og stofnfeðurnir félagar hans voru gátu t.d. verið ómyrkir í máli um kristindóminn. Thomas Paine, Robert Ingersoll, George H. Smith og Carl Sagan eru t.d. allt dæmi um menn sem fengu að vaða uppi með gagnrýni án þess að mikið væri að gert.

Það er á síðustu fimm til tíu árum sem orðið hefur gríðarlegt bakslag í þessum efnum. Forkólfar kristninnar eru hver um annan þveran farnir að kalla eftir því að trúarskoðunum skuli auðsýna virðingu og að rökræða og gagnrýni eigi þarna ekki heima heldur samræða.

Birgir: Ég veit það sjálfur að þú og þínir orða hlutina töluvert umbúðalausara á bak við skjól tölvuskjásins en í eigin persónu.

Af hverju heldurðu það? Geturðu bent á dæmi slíks?

Það er sjáðu til munur á því að tjá skoðun sína og að drekkja fólki í gífuryrðum.

Og hvar er öll þessi gífuryrði að finna? Ekki dettum við niður á það plan að fara að kalla fólk asna upp úr þurru. Ef menn eru kallaðir lygarar er það vegna ærinnar ástæðu, þ.e. ef þeir hafa gert sig seka um að ljúga.

Einhverju sinni spurði ég í fyrirsögn hvort Örn Báður væri lygari eða hálfviti. Þetta voru engin gífuryrði, heldur var góð ástæða fyrir því að spyrja að þessu, margoft búið að leiðrétta þá hluti sem hann hélt enn og aftur á lofti, bæði í fjölmiðlum sem og á vefsíðum þeim er hann les.

Ekki hrakti hann rökin í þessum leiðréttingum heldur annað hvort botnaði ekki í þeim eða þóttist ekki skilja þau - skilningsvana ellegar skrökvandi.

Hvort ætli það hafi verið?

Davíð Þór sagði...

Ég bið Hauk S. Magnússon hér með afsökunar á því að hafa kallað hann asna. Það var gert í retórískum og stílrænum tilgangi en ekki af persónulegri sannfæringu eða löngun til að valda honum sárindum. Ég lýsi því hér með yfir að slík ummæli um hann eru ómerk og dregin til baka.