fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Fjölgun á heimilinu


Þá eru það fréttir af heimilislífinu. Í gærkvöld varð fjölgun á heimilinu. Hún Kisa varð þá léttari og gaut fjórum myndar- kettlingum, enda tímabært – hún hefði sprungið í loft upp ef þetta hefði dregist mikið lengur, hún var orðin svo ofboðslega, ofboðslega ólétt (ég veit að læður verða ekki óléttar heldur kettlingafullar, en hún var orðin svo geigvænlega kaskettlingafull að mér finnst "ólétt" eiginlega lýsa því betur). Faðirinn er hafnfirskur eðalfressköttur sem kom hingað í heimsókn fyrir nokkrum vikum, öskugrár og glæsilegur, kelinn og blíður, Jan Olaf að nafni. Ég veit að þetta er hvorki hafnfirskt né glæsilegt nafn, en kötturinn er glæsilegur þótt smekkur eigenda hans á kattanöfnum sé það ekki. Lundarfar og líkamsbygging katta erfist hins vegar, þannig að hér eru á ferðinni fjórir eðalkettir undan tveim fyrirtaks heimilisköttum sem svo heppilega vill til að verða akkúrat orðinir sjö vikna gamlir og kassavanir um jólin og farnir að leita sér að nýju heimili.
Kettlingur 1: Grár, einlitur (lifandi eftirmynd föðurins).
Kettlingur 2: Grár og hvítur (hvítur á kvið, loppum og trýni með samhverfa (symmitríska) blesu upp á hvirfil).
Kettlingur 3: Svartur, einlitur.
Kettlingur 4: Svartur og hvítur (hvítur á kvið, loppum og trýni með vinstrisinnaða blesu upp á enni (ósamhverfur í andliti), svartur blettur á höku).
Þannig að ef einhvern langar að deila heimili með fyrsta flokks ketti og taka við honum um jólin þá er byrjað að taka við pöntunum hér á þessari síðu. Ég á eftir að kyngreina þá, það er erfitt þegar þeir eru svona nýfæddir, en ég skal gera grein fyrir kyni kettlinganna um leið og trúverðugar upplýsingar um það liggja fyrir. Ég á von á sveitastelpu sem ég þekki mjög vel í heimsókn á laugardaginn til að skoða þá og kyngreina, en hún er sérfræðingur í svoleiðis.

1 ummæli:

Karna Sigurðardóttir sagði...

Vá - fallegu kisur!

En hvað er svona óglæsilegt við nafnið hans Janka, hann hefur nú verið kallaður Kóngurinn með Punginn á tyllidögum... en hann getur lítið gert að því að vera skandínavískur!