föstudagur, febrúar 22, 2008

Þankar um þanka


Fyrstu Bakþankar mínir í Fréttablaðinu birtust 30. apríl 2006. Síðan hafa birst pistlar eftir mig á baksíðu þess hálfsmánaðarlega, með einhverjum undantekningum vegna helgidaga. Ég hef algerlega frjálsar hendur varðandi umfjöllunarefni og efnistök, aldrei hefur verið gerð tilraun til að hafa nein áhrif á skrif mín. Ég hef skrifað um það sem mér hefur verið efst í huga hverju sinni, þjóðfélagsmál, pólítík, skipulagsmál, pælingar um lífið og tilveruna og ... trúmál. Síðastnefndu skrifin virðast einatt vekja mesta athygli. Einhver spurði mig hvers vegna ég væri alltaf að skrifa um trúmál, hvort ég hefði ekki áhuga á neinu öðru.
Þetta fékk dálítið á mig, því víst hef ég áhuga á öðru, svo ég fletti í gegn um Bakþankana mína og komst að því að 10 – 13 þeirra 46 pistla sem ég hef skrifað fjalla um trúmál. Nákvæmlegur fjöldi fer eftir því hvernig hugtakið er skilgreint. Eru öll andleg málefni trúarleg? Eru pælingar um lit jólaskreytinga trúarlegar? Ef við förum milliveginn og segjum að 11,5 Bakþanka minna hafi snúist um trúmál er hlutfallið nákvæmlega 25%. Ég er kristinn guðfræðinemi. Ég hef áhuga á trúmálum. Myndi pólitískur sjórnmálafræðinemi skrifa minna um pólitík en ég geri um trúmál? Myndi rithöfundur eða bókmenntafræðingur skrifa minna um bókmenntir? Myndi leikhúsfræðingur, leiklistarnemi eða leikari skrifa minna um leikhús? Ég leyfi mér að stórefa það, a. m. k. í síðastnefnda tilvikinu (ég þekki slatta af leikhúsfólki).
Síðustu bakþankar mínir hafa orðið tilefni til umfjöllunar. Hún byggir á því að mér finnist helvíti fallegt fyrst ég leyfi mér að vera þeirrar skoðunar að það sé fallegur boðskapur að öllum standi til boða eilíft líf fyrir náð Guðs. Þetta er auðvitað ekki svaravert. Höfundurinn skýtur af sér hausinn í þriðju málsgrein og liggur eftir örendur í guðlausu blóði sínu, svo ég beiti fyrir mig stíl sem er vinsæll (en umdeildur) um þessar mundir.
Aðrir lesa út úr þessum þönkum að ég sé að boða réttlætingu fyrir verkin, sem sé í andstöðu við grundvallarkenningu vorrar evangelísk-lúthersku kirkju sem boðar réttlætingu af trú. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið mjög spenntur fyrir akkúrat þessari trúfræðilegu pælingu, því ég hef það á tilfinningunni að aðspurður hefði Jesús ekki svarað spurningunni um réttlætingu af trú eða réttlætingu fyrir verk með því að segja afdráttarlaust annað hvort eða. Flestar dæmisögur hans fjalla nefnilega um verk. Eða minnist hann einu orði á trú miskunnsama Samverjans? Sjálfur segir hann meira að segja: „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.“ Páll postuli segir að Guð muni „gjalda sérhverjum eftir verkum hans: Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika, en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu“ (Róm. 2:6-8). Í Jakobsbréfi 2:14-17 segir ennfremur: „Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann? Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi og einhver yðar segði við þau: "Farið í friði, vermið yður og mettið!" en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það? Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.“ Ég held að kjarninn í kenningu Lúthers sé þessi. Okkur ber að gera góðverk, ekki til að vinna okkur inn náð Guðs heldur einmitt vegna þess að við njótum náðar Guðs.
En fyrst vikið var að miskunnsama Samverjanum er einmitt áhugavert að Jesús skuli velja Samverja í dæmisöguna en ekki gyðing. Reyndar ganga tveir gyðingar, prestur og levíti, fram hjá fórnarlambinu og sinna því ekki. Strangt til tekið hegðuðu þér sér með því óaðfinnanlega samkvæmt lögmálinu, en þar voru skýr ákvæði um að prestar mættu ekki snerta lík. Presturinn hætti semsagt á að saurga sjálfan sig og brjóta lögmál Móse með því að sýna kærleik í verki og taka sénsinn á því að maðurinn væri á lífi. Þannig segir Jesús kærleikann æðri lögmálinu. Sagan endar ekki á því að Samverjanum er kastað til eyðingar (þ. e. í eldsofninn) til eilífrar refsingar (sem felst í því að vera eytt að eilífu) fyrir að hafa ekki verið kristinn. Þvert á móti er erfitt að skilja söguna öðruvísi en sem dæmisögu um rétta breytni samkvæmt kenningu Jesú. En af hvaða tilefni sagði Jesús annars söguna um miskunnsama Samverjann? Jú, hann var einmitt að svara spurningunni: „Hvað þarf ég að gera til að öðlast eilíft líf?“ Sagan hlýtur að útiloka það sem kristna afstöðu að allir sem ekki játi Jesú sem sinn persónulega frelsara kveljist í helvíti að eilífu, eins og sumir halda fram, því það gerði miskunnsami Samerjinn sannarlega ekki.
Jesús kenndi í mörgum dæmisögum. Hins vegar virðist guðleysingjum vera meinilla við að tal Jesú um helvíti sé skoðað allegorískt. Jafnvel þótt hann segi „Guðs ríki er innra með yður“ (Lúk. 17:21) má alls ekki líta svo á að það gildi líka um andstæðu þess. Reyndar talar Jesús ekki um „helvíti“ heldur „Gehenna“, sem er Hinnómsdalur suður af Jerúsalem þar sem úrgangi frá borginni var brennt. (Þannig mætti hugsanlega færa rök fyrir því að „Sorpa“ væri betri þýðing en „helvíti“.)
Bakþankar eru mjög stuttir, um 350 orð. Þessi færsla er þrisvar sinnum lengri. Frá 30. apríl 2005 eru nákvæmlega 664 dagar. Það þýðir að sl. tæp tvö ár hafa pistlar um trúmál eftir mig að jafnaði birst á 58 daga fresti. Það hlægir mig að 350 orð um trúmál á 58 daga fresti geti gert einhvern „þreyttan á svona prédikunum á baksíðum“. Viðkomandi er greinilega haldinn erfiðari þráhyggju gagnvart trú en ég.
Það sem ég hef gert hér í þessari færslu er að nota grísku- og söguþekkingu mína til að reyna að skilja orð Jesú í samhengi. Þetta er stundum kallað guðfræði og er kennt í háskóla. Sumum finnst þessi þekking mannskemmandi. Getur þekking verið mannskemmandi? Ég held ekki. Hins vegar veit ég af eigin reynslu að þráhyggja getur verið það.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Baksíðuþankarnir þínir eru alltaf góðir og vekjandi hvort sem þú ert að tala um trúmál eða nagladekk. Ég mun segja upp Fréttablaðinu ef þeir hætta að birtast þar.

Varríus sagði...

Og þetta er svo glæsilegur pistill!

Nafnlaus sagði...

Þeir eru fáir einstaklingarnir sem tjá sig um trúmál á þann hátt sem mig skortir orð til en hefði svo gjarnan viljað segja.
Eftir á að hyggja eru 58 dagar hreinlega of langt á milli...

Bestu þakkir.

Bára

Nafnlaus sagði...

Eins vel máli farnir og Vantrúarmenn eru og greinilega bráðgáfaðir, þá finnst mér að það myndi snerta við fleirum ef þeir myndu sýna betur fram á hvað vantrú þeirra er að gera gott fyrir þá, í stað þess að vera (að mér finnst..kannski misskilningur) í sífelldri vörn og hamra á ómöguleika trúarbragða sem hafa hjálpað svo mörgum í gegnum aldirnar.

Kveðja
Olga Björt

Nafnlaus sagði...

Og ég svara.

Davíð Þór sagði...

Gott hjá þér. Guð blessi þig.