föstudagur, janúar 12, 2007

Um áttundu víxlspurningu tíundu viðureignar fyrstu umferðar

Varðandi 8. víxlspurningu tíundu viðureignar fyrstu umferðar, fyrstu viðureignarinnar í gær, sem var svona: "Eftir hverjum eru þessi orð höfð: "Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi"?" er kannski rétt að þetta komi fram:
Margir hafa viljað meina, og komið að orði við mig um það, að orðin séu höfð eftir Kára Sölmundarsyni og séu úr Njálu. Rétt er það að í Njálu segir:
"Húsfreyja spurði þá tíðinda og fagnaði þeim vel. Björn svaraði: "Aukist hafa heldur vandræðin kerling." Hún svarar fá og brosti að. Húsfreyja mælti þá: "Hversu gafst Björn þér Kári?" Hann svarar: "Ber er hver að baki nema sér bróður eigi og gafst Björn mér vel."
Í ljósi þessa hefði vissulega verið erfitt að gefa rangt fyrir fyrir Kára Sölmundarson, svar sem ekki kom. En ef litið er í Grettis sögu þá segir þar:
"Grettir hjó með saxinu til Víkars fylgdarmanns Hjalta Þórðarsonar og kom á öxlina vinstri í því er hann hljóp í tóftina og sneið um þverar herðarnar og niður hina hægri síðuna og tók þar sundur þvert manninn og steyptist búkurinn ofan á Gretti í tvo hluti. Gat hann þá ei upp rétt saxið svo skjótt sem hann vildi. Og í því lagði Þorbjörn öngull í milli herða Gretti og var það mikið sár. Þá mælti Grettir: "Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi." Illugi kastaði skildi þá yfir hann og varði hann svo Gretti rösklega að allir menn ágættu vörn hans."
Séu þessar tvær tilvitnanir bornar saman er ljóst að spurt er um þá síðari, þar sem segir "á bakinu" en ekki þá fyrri þar sem segir "að baki". Spurningin fær því staðist, hún er rétt.
Hitt er annað mál að færa má fyrir því rök að vafasamt hafi verið að spyrja um tilvitnun sem er svona líka annari og skal ég ekki þræta fyrir að svo geti verið, og get aðeins borið við fákunnáttu minni um Njálu. Tilvitnunina þekkti ég sjálfur aðeins úr Grettlu og sótti hana þangað. Ég bið afsökunar á því, finnist einhver ég hafa gert einhverjum rangt til með þessu.
Þorvaldur segir Kára eldri en Gretti og því sé rétt að gefa honum höfundarréttinn. En skyldi Grettir þá hafa verið hér að vitna í Kára (sem mér finnst skrýtið í ljósi þess að Illugi var vissulega bróðir Grettis en Björn ekki Kára), eða var þetta ef til vill orðið að orðtaki fyrir ritunartíma þessara sagna?

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð. Ég held að það geti nú allir séð að ekki er mikið tilefni til kvartana yfir þessari spurningu, sérstaklega ekki þar sem aldrei reyndi á mismunandi skilning.

Ég held hins vegar að þú verðir fljótt geðveikur ef þú ætlar að svara öllum Gettu betur kverúlöntum þessa lands sem setja fram athugasemdir um spurningar þínar. Þetta eru fínar spurningar og komi upp eitthvað alvarlegt vafamál - sem ég á engan veginn von á - getur verið tilefni til að svara fyrir það. Annars muntu ekki gera annað í vetur en að útskýra spurningarnar.

Rock on!

Nafnlaus sagði...

Hvernig var það með svörin sem ekki komu í hraðaspurningum fyrstu viðureignarinnar í gær? Gaman ef hægt væri að renna yfir þær í kvöld.

Nafnlaus sagði...

Spurningin um hvaða ríki bandarríkjanna er austast. strangt til tekið er alaska það austasta og það vestasta. skilurðu?

Nafnlaus sagði...

Huhhh!

Þetta er náttúrlega óafsakanlegt með öllu. Og aumur fyrirsláttur að tala um mun á "ber er hver á bakinu..." og "ber er hver að baki..." Og kárnar heldur gamanið og til marks um að spurningaljónið veit upp á sig skömmina, slúbbertaháttinn í vinnubrögðum, þegar hann fer að tala um að Illugi sé bróðir Grettis en Björn ekki Kára! Bróðir hefur miklu víðtækari skýrskotun í þessu samhengi en að það vísi eingöngu til blóðbanda.

hehehe... Hefurðu ekki gaman að þessu vesserbisserastagli?

Kveðja,
þinn bróðir Jakob

Kaffikella sagði...

Takk fyrir skemmtilega bakþankapistla, við notuðum þá í íslenskutíma í dag, mun skemmitlegra en 100 ára gamlar kennslubækur!