mánudagur, febrúar 06, 2006

Ísland

Ísland er glæsihöllin mín háa,
heim þangað glaður ég sný.
Ísland er kotið mitt kalda og lága
sem kúldrast ég dapur í.

Ísland er ferskt eins og angan úr grasi
og ylhýrt sem vorsins þeyr.
Ísland er gamall og úreltur frasi
sem enginn skilur meir.

Ísland er sigrar og ánægjustundir,
afrek og hetjudáð.
Ísland er byrði sem bogna ég undir
er brestur mig þrek og ráð.

Ísland er sanna ástin mín stóra,
ástríðna logandi bál.
Ísland er gömul og útjöskuð hóra,
örmagna á líkama og sál.

Ísland er gæfa sem ákaft við þráðum
og ólán sem féll oss í skaut.
Ísland er núna og áður og bráðum
í einum hrærigraut.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já sko--genginn er aftur, eða kominn er nýr Dagur Sig...ataður brundi og blóði,flott

Daníel Freyr sagði...

Þú getur fengið Civilization IV á 2000 í Elko núna.

Nafnlaus sagði...

Flott kvæði, gæti hugsanlega verið sterkara að sleppa síðasta erindinu?

Nafnlaus sagði...

Þetta er það besta sem éghef séð lengi ! Congrats

Davíð Þór sagði...

Finnst ykkur síðasta erindinu ofaukið? Án þess fannst mér einhvern veginn vanta niðurlag eða niðurstöðu eða ... einhvern punkt með pælingunni.