föstudagur, febrúar 24, 2006

Blað brotið í hingnun miðborgarinnar?


Ég ætlaði loksins að láta að því verða að kaupa mér nýjan síma í stað þess hálfbilaða sem Þórunn Gréta lánaði mér eftir að minn blotnaði og varð ónothæfur. (Hálfbilaður merkir að það er hægt að nota hann til alls nema að senda SMS. Hver takki getur aðeins skrifað staf númer tvö í vali. Davíð verður þannig "Ebuhe" sem enginn skilur auðvitað.) Mér til mikillar gremju kom hins vegar í ljós að verslun Símans við Laugaveg hefur verið lokað og er viðskiptavinum bent á verslanir Símans í Ármúla, Kringlunni eða Smáralind. Ég bý í miðborg Reykjavíkur, en ef ég ætla að kaupa mér farsíma verð ég að fara upp í eitthvað iðnaðarhverfi eða verslanaklasa í úthverfi. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirtæki á borð við sjálfan Símann eigi að sjá sóma sinn í að vera sýnilegt í miðborginni, mér finnst það nánast siðferðileg skylda þess. Hvaða fyrirtæki með sjálfsvirðingu er bara með útibú í Kringlunni, Smáralind og Ármúla?
Ég man að ekki alls fyrir löngu kom upp einhver umræða um að styrkja verslun við Laugaveginn í sessi og virtust allir vera á einu máli um nauðsyn þess. Samt sem áður var biðröð langt út á plan fyrir utan BT í Skeifunni þar sem fólk beið í klukkustund af því að þar var hægt að kaupa Hringadróttinssöguspilið fimmtánhundruð krónum ódýrara en Hjá Magna – þar sem varla sást kjaftur.
Orð eru ódýr – verkin tala. Klasa-og úthverfavæðing Íslendinga virðist vera komin á það stig að núorðið sé auðveldara að selja farsíma uppi í Ármúla en við Laugaveginn. Heimur versnandi fer.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

já það er eftirsjá að símabúðinni á laugaveginum.. eða hefði verið það ef sú búð hefði ekki verið jafn ÖMURLEG og raun bar vitni! Úrvalið lélegt og afgreiðslan arfaslæm. Mér finnst að Síminn ætti að sjá sóma sinn í að opna almennilega verslun í miðbænum. Eru þeir ekki alltaf eitthvað að þykjast vera hipp og kúl og flytja svo bara úr hundraðogeinum? Glatað.

Nafnlaus sagði...

Ég er alveg sammála þér með þetta allt, miðborgin er að verða illa úti og heldur snauð. Enda nenna svona landsbyggðarbomsur eins og við Daníel ekki að fara í 101 til að versla eða leita uppi búðir sem einhvern tíma voru starfandi en eru ekki lengur eða hafa flutt sig í úthverfin. Þá er bara hentugra að renna beint inn í Smáralind eða í Kringluna og klára öll erindi á einum stað ;o)
Eins og mér finnst nú hundrað sinnum meira gaman að rölta Laugaveginn eða Skólavörðustíginn, svo dæmi sé tekið.