Eitt heitasta málið í umræðunni í dag er tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um trúar- og lífsskoðanir í tengslum við leik- og grunnskóla borgarinnar. Þar hefur verið vaðið fram með ýktar yfirlýsingar og tillögurnar rangtúlkaðar. Illu heilli hafa ýmsir embættismenn þjóðkirkjunnar verið þar í fararbroddi. Þetta gerir það að verkum að hver sá sem lætur uppi efasemdir um þessar tillögur virðist gjarnan stimplaður talsmaður trúboðs í skólum. Og ef viðkomandi er aukinheldur á einhvern hátt tengdur kirkju eða trú, að ég tali nú ekki um guðfræði, er allt sem hann segir skoðað sem varnarræða fyrir forréttindi hinnar meintu ríkiskirkju umfram önnur trúfélög.
Ég vil fyrst taka það fram að ég álít þessar tillögur ekki vega að rótum trúarinnar. Rætur trúarinnar eru í hjarta einstaklingsins, ekki stofnunum mannanna. Það talar enginn trú inn í hausinn á annarri manneskju, hún er sjálfssprottin tilfinning en ekki niðurstaða rökleiðslu. Trúboð virkar ekki ef það er fólgið í áróðri. Eina trúboðið sem raunverulega virkar er fordæmi eftirbreytniverðs lífs og sáttar hins trúaða. Slíkt trúboð er ekki bannanlegt.
Mig langar líka að fram komi að ég er ekki þeirrar skoðunar að þessi mál megi ekki skoða og lagfæra og að allt sé óaðfinnanlegt í þessum efnum eins og því er nú háttað. Að börn sem ekki fermast skuli látin mæta í skóla ein á meðan hin eru í fermingarferðum er auðvitað með öllu óviðunandi. Evrópunefnd gegn kynþáttahyggju og umburðarleysi, ECRI (European Commission agains Racism and Intolerance) hefur skoðað ástand þessara mála hérlendis og sendi í kjölfarið frá sér skýrslu þar sem m .a. segir: „pportunities to learn about different religions and faiths.“ Sé mannréttindaráð hér að reyna að koma til móts við þessar athugasemdir álít ég það þó á villigötum. Þess vegna langar mig að setja hér fram á röklegan hátt þrjár ástæður þess að ég tel þessar tillögur ekki góðar þótt ég efist ekki um að þær séu vel meintar.
1. Í tillögunum segir: „Heimsóknir starfsmanna trúar- og lífsskoðunarfélaga á frístundaheimili, í leik- og grunnskóla, auglýsingar eða kynningar á starfi þeirra í þessum stofnunum sem og dreifing á öðru trúarlegu efni er ekki heimil í starfi barna á vegum Reykjavíkurborgar. Þar með er talin dreifing trúarrita s. s. Nýja testamentis, Kóransins, auglýsingabæklinga og annars kynningarefnis.“
Við þetta hef ég þrennt að athuga. Í fyrsta lagið að hugtakið „lífsskoðun“ er hvergi skilgreint. Er vísindahyggja lífsskoðun? Er það brot gegn rétti mínum til að ala börn mín upp í þeirri lífsskoðun sem ég kýs að þeim sé innrætt pósitífísk heimsmynd („raunhyggja“ skv. ordabok.is)? Er kennarinn þá orðinn talsmaður lífsskoðunar? Gildir þetta bara um „félög“ um lífsskoðun? Má kennari innræta börnum lífsskoðanir svo framarlega sem þær tengjast engu „félagi“ um trúar- eða lífsskoðunar? Er greinargerð mannréttindaráðs kannski „manifestó“ ákveðinnar lífsskoðunar? Á sú lífsskoðun meira erindi til skólabarna en aðrar?
Í öðru lagi fæ ég ekki betur séð en að tal um dreifingu trúarrita beinist gegn einu ákveðnu félagi, Gídeonfélaginu, sem áratugum saman hefur dreift Nýja testamentinu til tíu ára barna í skólum. Væntanlega hafa allir sem standa að þessum tillögum fengið Nýja testamentið að gjöf þegar þeir voru tíu ára. Sú gjöf virðist ekki hafa gert þá kristnari en svo að nú vilja þeir banna þetta. Í raun ættu trúleysingjar að fagna starfi Gídeonfélagsins því Íslendingar hafa aldrei verið trúlausari en einmitt núna, eftir að Gídeonfélagar hafa haft óheft aðgengi að æsku landsins í 65 ár.
Í þriðja lagi finnst mér einkennileg þversögn felast í því að banna það, sem enginn hefur mér vitanlega gert hingað til en er stórsnjöll hugmynd, að gefa börnum Kóraninn í íslenskri þýðingu, í sama plaggi og fullyrt er: „Réttindum innflytjenda hefur verið sinnt af alúð meðal annars í samstarfi við félagasamtök.“ Mér er óskiljanlegt að það geti á einhvern hátt stuðlað að auknu jafnrétti trúar- og lífsskoðana að tekið sé fyrir að börnum séu gefnar heimsbókmenntir á borð við Kóraninn. Það stuðlar áreiðanlega ekki að auknu læsi eða viðsýni. Víðsýni er afrakstur upplýsingar, ekki skorts á henni.
2. Í tillögunum segir: „Ferðir í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga, bænahald, sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi er hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk starfsmanna borgarinnar. Slík starfsemi á ekki heima í starfi með börnum í opinberum skólum. Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma frístundaheimila og leik- og grunnskóla.“ Segja má að lykilorðin hér séu „í trúarlegum tilgangi“ – að sá varnagli sé ekki bara sleginn við sálmasöng og listsköpun heldur ferðum í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga. Það megi m. ö. o. fara í kirkju, bara ekki í trúarlegum tilgangi. Næsta setning á eftir virðist þó útiloka þann skilning.
Í fyrsta lagi myndi þetta stangast á við aðalanámsskrá grunnskóla þar sem lögð er áhersla á vettvangsferðir í kennslu. Félag kennarra í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum (FÉKKST) telur að þetta „feli í sér skerðingu á möguleikum kennara í trúarbragðafræði til að beita fjölbreyttum kennsluháttum. Slíkar vettvangsferðir eru vænlegur kostur til að dýpka skilning nemenda á ákveðnum viðfangsefnum og þjóna þeim tilgangi að kynna fyrir þeim hlutverk og innviði þessara bygginga, trúartákn sem þar er að finna og skipulag. Umrædd fræðsla hefur ekkert með trú nemandans að gera. Þvert á móti er verið að efla víðsýni nemenda og leitast við að fyrirbyggja fordóma.“ FÉKKST er fagfélag innan Kennarasambands Íslands og eitt af meginmarkmiðum félagsins er að gæta hlutleysis og hlúa að greininni á faglegan hátt. Félagið er með öllu hafið yfir ásakanir um trúboð í skólum.
Í öðru lagi tel ég það hljóti að hefta alla kennslu í listum og þroskun sköpunargáfu nemenda að „listsköpun í trúarlegum tilgangi“ sé úthýst. Hvað er átt við með því? Verður amast við myndum af Jesúbarninu í jólaföndri? Er það ekki trúarlegur tilgangur? Mega bara trúlausu börnin gera Jesúmyndir því þá er pottþétt að tilgangurinn sé ekki trúarlegur? Má ekki setja nemendum það verkefni að tjá trú sína eða lífsskoðun í listaverki? Hvað með listaverk sem tjá óhefta vísinda- og raunhyggju? Er tilgangur þeirra ekki trúarlegur? Má tjá trúlausa lífsskoðun í list, en ekki trúaða? Er það jafnrétti trúar- og lífsskoðana?
Í þriðja lagi vil ég benda á – og það er ekki útúrsnúningur heldur bókstaflegur skilningur þessara tillagna – að með þessu er öllu höfundarverki stórkostlegasta tónskálds sögunnar, Jóhannesar Sebastíans Bachs úthýst úr tónlistarkennslu á vegum borgarinnar. Öll hans verk eru trúarleg og samin „í trúarlegum tilgangi“. Reyndar er hann oft kallaður „fimmti guðspjallamaðurinn“ einmitt vegna þess. Eða gildir það sama um Bach og Jesúbarnið, verður hann frátekinn fyrir trúleysingjana? Eða verður hann leyfður en þess stranglega gætt að enginn freistist til að leika hann í trúarlegum tilgangi? Merking orðasambandsins „trúarlegur tilgangur“ er einfaldlega allt of opin og víð til að það sé nothæft í þessu samhengi.
3. Í tillögunum segir: „Þess skal sérstaklega getið að ekki er verið að hrófla við öðrum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla.“ Það er óneitanlega kyndugt að lesa þessa setningu beint á eftir því sem að framan er nefnt. Hver er annar jólaundirbúningur? Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað átt er við með því. Er kannski átt við jólaundirbúning sem ekki er trúarlegur, heldur gengur út á að jólin séu fyrst og fremst sólstöðuhátíð, eins og ásatrúarmenn gera. En nú er Ásatrú ... jæja.
Helgileikir hljóta að flokkast undir „listsköpun í trúarlegum tilgangi“. Þeim er þá úthýst. „Heims um ból“ og „Bjart er yfir Betlehem“ eru sálmar (nr. 82 og 80 í Sálmabók Þjóðkirkjunnar) og eiga því ekki heima í jólaundirbúningi. Hvað með „Adam átti syni sjö“?
Ég ætla ekki að hætta mér út á þá braut að gagnrýna að í tillögunum skuli því „beint til stofnana borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð að tryggt sé að fagaðilar komi að sálrænum áföllum í stað þess að leitað sé til trúar- eða lífsskoðunarfélaga.“ Ég held að best sé að „fagaðilarnir“ sem hér er átt við meti það á faglegum forsendum hvort liðsinni presta sé æskilegt eða ekki við hverjar kringumstæður. Reyndar kæmi það mér á óvart ef fólk með sérfræðiþekkingu á sorg og sorgarviðbrögðum, huggun og líkn bæðist undan því að prestar tækju þátt í áfallahjálp. Víðast hvar þar sem áfallateymi eru starfandi sitja prestar í þeim. Ég veit ekki til þess að reynslan af því sé hræðileg.
En ég geri mér líka ósköp vel grein fyrir því að grunnmenntun presta, þ. e. kandídats- eða meistarpróf í guðfræði frá Háskóla Íslands, er engan veginn ítarleg sérmenntun á sviði sálgæslu eða áfallahjálpar. Á hitt ber þó að líta að fáir starfa meira að þessum málum en einmitt prestar, þannig að á vissan hátt finnst mér talað fjarskalega niðrandi um kærleiksþjónustu þeirra með því að fullyrða að þeir séu ekki „fagaðilar“ í þessum málaflokki. Hvað gerir mann að „fagaðila“ annað en fag hans? Ég fullyrði að allir sem hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sitja kúrsa í sálgæslu hjá sjúkrahúsprestunum okkar hafi orðið betri menn á eftir og margir hafa í kjölfarið aflað sér dýrmætrar framhaldsmenntunar á þessu sviði. Og þegar upp er staðið þá eru verkfæri manna við sálusorgun ekki guðfræði og kenningar, játningar og dogmatík, hvort sem menn hafa þekkingu á þessu eða ekki, heldur kærleiksrík návist. Allt annað er skilið eftir úti á götu áður en gengið er inn í sorgarhús.
Á heildina litið efast ég ekki um að tillögum þessum sé ætlað að stuðla að jafnrétti trúar- og lífsskoðana. Ég held bara að þær séu vanhugsaðar og muni því ekki ná því markmiði sínu. Ég held að til að stuðla að víðsýni og umburðarlyndi sé vænlegra að opna faðminn en loka honum. Og það er umhugsunarefni hve einstaklega vel þessar tillögur falla að lífsskoðunum lífsskoðunarfélagsins Siðmenntar, en varaformaður þess á einmitt sæti í mannréttindaráði Reykjavíkur. Mörgum finnast viðbrögð kirkjunnar manna ofsafengin, en skyldi Siðmennt hafa brugðist við með minni ofsa ef tillögur mannréttindaráðs hefðu fallið svona saumlaust að kristnum lífsskoðunum?
Loks hvarflar ekki að mér að Guði stafi nein hætta af þessum tillögum. Gamansaga ein segir frá því að trúleysisráð sovéska kommúnistaflokksins hafi einhverju sinni komið saman og verið gjörsamlega ráðþrota gagnvart því hve illa gengi að útrýma trúnni, jafnvel þótt prestarnir væru allir komnir í Gúlagið og kirkjurnar orðnar að kartöflugeymslum. Í örvæntingu sinni ákváðu þeir að senda nefnd til Svíþjóðar til að komast að því hvernig Svíarnir fóru að þessu.
Reynslan sýnir nefnilega að guðlaust ríkisvald er alls ekki versti óvinur trúarinnar. Steingeld og steinrunninn, ófrjó og værukær ríkiskirkja er miklu hættulegri. Kristnir Íslendingar standa í rauninni í þakkarskuld við mannréttindaráð Reykjavíkurborgar fyrir að ýta svona rækilega við henni.
8 ummæli:
Ágætur pistill og sumt mjög réttmætt.
En nokkrar yfirlýsingar hljóta að teljast nokkuð vafasamar.
„Það talar enginn trú inn í hausinn á annarri manneskju“
sem hjá þér breytir svo um merkingarblæ og verður eitthvað á borð við:
„það lætur engin sannfærast til trúar af rökum“
Trú sé „sjálfsprottin“ tilfinning sem þó er hægt að framkalla með því að verða vitni að hinum trúaða „í framkvæmd“.
Þú gefur hér í skyn að eina mögulega leiðin fyrir trúaðan mann til að stunda trúboð sé að ganga um eins og kyndill í myrkri og vonast til að aðrir opni augu sín fyrir ljósinu.
Þetta er allt gott og vafalaust blessað líka. En kommon. Svona hefur trúboð sjaldnast farið fram. Þvert á móti hefur trúboð yfirleitt farið þannig fram að fólki eru kenndar seremóníur og siðir, bænir og sálmar og því sagt að endurtaka þar til tenging næst við guðdóminn. Sumir halda raunar að það eitt að kunna seremóníurnar og siðina, bænirnar og sálmana geri þá trúaða. Og hafa enga guðfræðilegri dýpt í sál sinni en það.
Og þetta, að kenna börnum að tala við guð og segja þeim sögum af honum og hvernig hann sé vinur sama hvað á bjátar og að hann hafi dáið fyrir þau, það er trúboð - í öllum almennum skilningi þess orðs. Og það hefur farið fram í skólum. Og er vel bannanlegt.
Ég er sammála því að samskiptabann kirkju og skóla er fullmikið af því góða.
Ég er líka sammála að það er skammarlegt að börn utan þjóðkirkju skuli vera afskipt.
Ég er ekki sammála því að FÉKKST sé hafið yfir gagnrýni að þessu leyti. Einmitt ekki. Ég veit að innan FÉKKST er mikið af fólki sem er mjög virkt í kirkjulegu starfi í ýmsum söfnuðum og fullyrði að yfirlýsing þeirra beri þess óræk vitni að stjórn samtakana á einmitt í vanda með að átta sig á hlutleysi sínu (nánar um það á maurildi.blogspot.com).
Lífsskoðun er vissulega erfitt hugtak. Og hér er kjarni málsins. Á skólinn að kenna þróunarkenninguna þegar sú lífsskoðun sem hún byggir á stangast við trú sumra barna? Á skólinn að samþykkja samkynhneigð sem eðlilegan hlut þegar það er andstyggilegt í augum guðs annarra barna?
Skólinn þarf að taka afstöðu og skilgreina sig að þessu leyti.
En það er með þennan efa, eins og allan efa. Efi er það eina sem bítur á allt. En þegar þú sigar efanum á óvini þína þá sýnir þú ekki fram á þinn eigin óbrigðuleik.
Rök þín um Gídeonfélagið eru ónýt, þú veist það. Annaðhvort ber að skilja þau þannig að Gídeonfélagið sé meira og minna gagnslaust (og þ.m. skaðlaust) eða að það sé skaðlegt eigin málsstað. Hvorugt þarf að hugsa lengra til að sjá að það mælir ekki með áframhaldandi starfsemi þess.
Um það hvað trúarlegur tilgangur merkir bið ég þig að skoða áðurtilvísað blogg. Þú ert ekki að snúa út úr með umræðunni um Bach en þú hittir framhjá kjarnanum engu að síður.
Svo því sé haldið til haga, þá er afar stór hluti af höfundarverki J.S. Bach "veraldlegur" (e.secular) í eðli sínu. Það á við um stóran hluta af hljóðfæratónlist hans (DWTC, svítur og konserta fyrir ýmis hlóðfæri, Brandenburgar konsertana, fúgulistina....)
Vissulega eru messurnar, kantötur, sálmalög etc trúarleg, enda þau verk flest samin þegar Sebastian starfaði fyrir kirkjuna (aðallega í í Cöthen og Leipzig)
Sem "5ti guðspjallamaðurinn" má hann eiga það að inntakið í hans verkum er hreinna, fegurra, dýpra og samhengið meira en það sem finnst hjá þem hinum fjórum. Skiptir þá engu hvort hlustað er með trúuðum eyrum eða ekki.
Takk fyrir þetta Davíð, mikið gott að lesa ofstækislausa grein um þetta mál. Þeir aðilar innan kirkjunnar sem fara fram af offorsi hjálpa ekki málstaðnum, svo langt frá því. Við viljum jú langlangflest vinna saman og lifa saman í friði. Það á alveg að vera hægt. Sjálfsagt að snerpa og skýra bókunina og endilega reyna að gera slíkt til að friður náist um málið og fólki geti liðið vel.
Frábær og vel skrifuð grein Davíð!
Ég er sammála því að mér þykir stórundarlegt að formaður lífsskoðunarfélagsins Siðmenntar, Bjarni Jónsson, fái að sitja í Mannréttindanefnd og koma þar baráttumálum Siðmenntar á framfæri.
Í fundagerð Mannréttindaráðs taldi Sjálfstæðisflokkurinn að hann væri vanhæfur við afgreiðslu þessa máls, en hann fékk að sitja inni eftir að kosið var um það, atkvæðin fóru 3-2 Bjarna í vil, og var ástæðan sögð að hann hefði engra hagsmuna að gæta fyrir hönd Siðmenntar í þessum málum.. dæmi hver fyrir sig hvort maðurinn sé hlutlaus aðili eða ekki
http://sidmennt.is/author/bjarni/
Það sem lætur mig halda að baráttumál Siðmenntar séu við lýði í þessari tillögu er að Mannréttindanefnd einblínir á að loka fyrir samskipti trúfélaga/lífsskoðunarfélaga og skóla, í stað þess að gæta að mannréttindum minnihlutahópa og sjá til þess að þeir fái góða þjónustu við hæfi einnig.
En um þetta er sennilega hægt að rökræða endalaust, enda fylgja oft ólíkar skoðanir ólíku fólki.
Ég er þó á þinni skoðun, miðað við það sem ég les í þessum skrifum þínum.
Þakka þér fyrir áætan pistil og það er nauðsynlegt að skoða málið með spurningunni 'og hvað svo?' Mér er það umhugsunarefni hvernig lýðræðiskerfið getur farið svona grunnt í ígrundun áður en farið er í að taka ákvarðanir um innleiðingu nýrra og vanhugsaðra reglna. Hér eru reglurnar komnar á skön við mismunun sem varin er í stjórnarskrá, upplýsingu og menntun sem tekið er á í grunnskólalögum, færni, traust og þekkingu fagfólks sem vinnur að velferð barna og sálusorg í samfélaginu. Og þetta allt í nafni viðbragða við félagslegu og uppeldislegu viðfangsefni að hafa fjölmenningarsamfélag þar sem trú er hluti af okkar samfélagslega veruleika og allir eiga að geta verið bæði eins og öðruvísi án þess að líða illa eða bera skaða, - skárra væri það nú. TAKK
Takk fyrir athugasemdirnar. Ég verð að játa á mig vanþekkingu á hinum veraldlega hluta af höfundarverki Bachs, en hún ógildir ekki punktinn: Listræn sköpun í trúarlegum tilgangi er einfaldlega allt of stór hluti listasögunnar til að listmenntun sem úthýsir henni standi undir nafni sem slík.
Hér er það sem ógildir punktinn: í tillögunum er ekki bann við því að kynna börnunum list sem aðrir (t.d. Bach) hafa skapað í trúarlegum tilgangi — skárra væri það nú! — heldur bann við því að stýra börnunum sjálfum í það að skapa list í trúarlegum tilgangi.
„Þetta gerði Bach, efldur af trúnni og til að efla með sér trúna“ er í góðu lagi og enginn leggur til að banna það. „Þetta skalt þú gera, efld af trúnni og til að efla með þér trúna, núna“ er allt annar hlutur.
Þessi munur á fræðslu og boðun/innrætingu er kjarni málsins. En þeim sem líta á innihald boðunarinnar sem sannleika hættir skiljanlega til að rugla henni saman við fræðsluna.
… æ, ég vil samt ekki krota þetta hér án þess að taka líka undir það með Ragnari að þessi skrif þín eru um margt ágæt og sanngjörn. Ég er fjarri því skoðanabróðir þinn um trúmál, en biskupsstofa gæti gert (og gerir) margt vitlausara en að meðtaka þín sjónarhorn á þau.
Skrifa ummæli