Ég hef yndi af orðum. Þau hafa persónuleika. Það er eins og sum orð beinlínis iði af lífi; „keikur“, „dillandi“, „kotroskinn“, á meðan önnur nánast lúta höfði í hljóðri auðmýkt; „náð“, „andvari“, „hógvær“. Sum orð eru þess eðlis að maður finnur næstum því ilminn og sér safann drjúpa af þeim; „þrunginn“, „höfgi“, „hrynjandi“. Og svo eru til orð sem eru jafnsafarík og þerripappír og með jafnspennandi persónuleika og rotnandi hræ. Þessi orð er einkum að finna í lagamáli og viðskiptum; „vaxtaálag“, „veðbókarvottorð“, „grunngjald“.
Fyrir allmörgum árum hugðist ég í fyrsta sinn festa kaup á fasteign. Mitt fyrsta verk í því augnamiði var að fara á fund ráðgjafa í banka og fá hjá honum upplýsingar um ferlið sem slík kaup færu eftir. Ekki hafði blessaður ráðgjafinn talað lengi þegar mér varð lífsins ómögulegt að halda einbeitingunni, ég sá hann hreyfa varirnar og heyrði óminn af rödd hans en orðin urðu að formlausum klið og fyrir eyrum mér var eins og hljómaði salsatónlist úr fjarska. Það varð því ekkert úr kaupum í það sinnið.
Síðan hef ég að vísu tekið mig á. Þótt ég segi sjálfur frá þá tekst mér sífellt skár að kynna mér eitt og annað misleiðinlegt og setja mig inn í málefni sem ég hef engan áhuga á en neyðist til að vera þokkalega samræðuhæfur um. Að verulegu leyti má eflaust þakka þetta hruninu, en það virðist hafa orskast af því að helstu hákarlar samfélagsins á sviði, sem mér var ekki aðeins lokuð bók heldur, hefði ég fengið að ráða, tætt, brennd og grafin bók, reyndust þegar til kastanna kom aðeins sandsíli með úttútnaða sjálfsmynd.
Öll mín viðleitni til að ráða bót á athyglisbrestinum, sem gagntekur mig þegar ég heyri of mörg þurrpumpuleg, marflöt og sálarlaus orð í sömu setningunni, má sín þó lítils þegar umræður um aðild að Evrópusambandinu eru annars vegar. Þegar ég heyri helstu spekinga þjóðarinnar tjá sig um hana til eða frá lendi ég fyrr eða síðar í sömu stöðu og í bankanum forðum daga. Ég heyri óm orðanna sem óljósan undirleik við salsatónlist úr fjarska.
Ég neyðist því sennilega til að byggja afstöðu mína til aðildar, þegar þar að kemur, á öðru en raunmerkingu orðavaðalsins. Hvort er líklegra að hafi rétt fyrir sér um það sem varðar heill og hamingju lands og þjóðar, Jóhanna Sigurðardóttir eða Davíð Oddsson? Þeirri spurningu er, að mínu mati, auðsvarað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli