þriðjudagur, nóvember 02, 2010

Gerum lífið skemmtilegra

Við skemmtilegra lífið gerum.

Lesin vítt og breitt við erum

í biðröðum við búðarkassa.

Blaðið hefur mikinn klassa.

Lítill texti, margar myndir

mæra flestar dauðasyndir

svo þið kannski síður kvartið.

Sjáið kjólana og skartið!

Vissulega er voða gaman

að vita hverjir eru saman

og flestir líka vísast vilja

vita hverjir eru að skilja.

Með stjörnunum við fylgjast fáum

og fréttir af því jafnótt sjáum

ef þær sýna úti í búð

appelsínuhúð.

Í ræktina ef frægt lið fer

fréttir af því birtast hér

og ekki fer það fram hjá þér

ef fer það út og skemmtir sér.

Já, allt sem gerir fólkið fræga

er fjallað um með lotning næga,

en auðvitað kæmi það engum við

ef það væruð þið.

Auglýsingar okkar lita

umhverfið og frá sér smita.

Hver gleðst ei ef uppi á vegg er

Ásdís Rán eða Gilzenegger?

Við skemmtilegra lífið gerum

litlausum og heimskum verum

sem innan í sér eru dauðar,

andvana og gleðisnauðar.

Engin ummæli: