föstudagur, nóvember 05, 2010

Baráttusöngur borgaralega byltingarmansins

Ég stóð upp úr leðursófanum svarta

og slökkti á flatskjánum nýja.

Í úlpu frá sextíu og sex gráðum norður

smokraði ég mér hlýja.

.

Svo fór ég á jeppanum fjórhjóladrifna

(mér finnst hann þvílíkt æði)

niður í bæ og var fljótur í förum,

en fann hvergi bílastæði.

.

Ég lagði því bílnum á umferðareyju

innan um fleiri jeppa,

fannst eðlilegt að ég ætti við sektir

og óþarfa vesen að sleppa.

.

Ég keypti í leiðinni kleinuhringa,

karamellufyllta,

og kókosbollu og café latte

með kortinu mínu gyllta.

.

Svo arkaði ég út á Austurvöllinn

og öskraði mikið og hátt

um það sem aðrir þurfa að gera

því að ég á svo bágt.

4 ummæli:

Sindri V sagði...

Öskrandi snilld.

Tinna sagði...

Þetta er gott - og satt.

Mér þykir það þó óneitanlega alltaf fallegri kveðskapur sem fylgir gnýstuðlareglum, en það er sjálfsagt bara einhver sérvizka í mér.

RR sagði...

Þessi athugasemd á kannski ekki heima hér en ég vildi skilja eftir komment um grein þína "Umburðarlyndi andskotans". Ég komst ekki í þá grein á bloggsíðu þinni svo ég set kommentið hér við þessa nýjustu færslu þína. Kommentið er eftirfarandi: það virðist sem boðskapur umræddrar greinar sé á endanum sá að við eigum ekki að umbera samtök sem beinast gegn trú af ákveðnum toga, í þessu falli trú múslíma. En hvað ef við erum þeirra skoðunar að trú múslíma standi í andstöðu við grundvallar hugmyndir um samfélagsskipan og mannréttindi á vesturlöndum, samanber vel rökstuddar skoðanir fólks eins og Ayaan Hirsi Ali (http://en.wikipedia.org/wiki/Ayaan_Hirsi_Ali)? Eigum við þá ekki einmitt að berjast gegn þeim áhrifum og ekki sýna "umburðarlyndi" eins og þú nefnir í grein þinni? Eigum við að "umbera" styrkingu trúar á Íslandi sem með beinum hætti boðar baráttu gegn mörgum þeim gildum sem grundvalla hugmyndir vesturlandabúa um mannréttindi? Boðskapur greinar þinnar er að mínu mati góður en niðurstaðan ekki nægilega ígrunduð og jafnvel í andstöðu við boðskapinn.

Davíð Þór sagði...

Tinna: Ég veit að þetta er óttalegur leir, einkum fyrsta erindið. Ég ákvað samt að láta þetta flakka. Mér fannst þetta nógu sniðugt og satt til að réttlæta bágborna bragfræði.
RR: Með fullri virðingu fyrir Ayaan Hirsi Ali þá hafa íslensk stjórnvöld ekki skuldbundið sig til að stjórnast af skoðunum hennar. Þau hafa aftur á móti skuldbundið sig til að virða mannréttindi eins og þau eru skilgreind, t.d. í mannréttindayfirlýsingu SÞ. Sjá nánar hér: http://deetheejay.blogspot.com/2010/11/enn-um-mosku-i-reykjavik.html