laugardagur, maí 16, 2009

Vegna síðustu færslu ...

.. og viðbragða við henni langar mig að koma þessu frá mér:

Ofstækisfullt fólk myrðir annað fólk. Það telur sig af einhverjum ástæðum hafa rétt til þess af því á því er brotið, annað fólk er fyrir því, það stendur í vegi fyrir að það nái markmiðum sínum, kúgar það eða er á einhvern hátt fulltrúar „hinna“ sem viðkomandi stendur ógn af. Vegna þess hve sagan er full af því að fólk skilgreini sig út frá trúarbrögðum hafa hinar ýmsu erjur fengið á sig trúarlega réttlætingu – þótt í grunninn standi ágreiningurinn um allt annað en trúarbrögð. Nærtækt dæmi gæti verið Norður-Írland. Þar var ekki trúarbragðastyrjöld á milli kaþólisma og prótestantisma heldur stríð á milli þjóða sem deildu sama landi. Forsendur átakanna voru m.ö.o. ekki trúarbrögð. Það vildi aftur á móti þannig til að deiluaðilar voru upp til hópa hvorir af sínum meiði kristinnar trúar og því var talað um átök mótmælenda og kaþólikka. Reyndar hefur aldrei verið barist um trúarbrögð í mannkynssögunni, þau hafa verið notuð til að réttlæta stríð um lönd, auðlindir og pólitísk ítök í heimhlutum. Jafnvel krossferðirnar voru ekki trúarlegar heldur pólitísk aðgerð. Yfirgangur Spánverja og Portúgala í Suður-Ameríku var klassísk nýlendustefna. Frelsisstríð Spánverja var háð við Mára, ekki af því að þeir væru Múslimir heldur af því að þeir voru erlend herraþjóð, en sú staðreynd að þeir voru annarrar trúar var notuð til að réttlæta ofbeldið. Allt sem deilir fólki í „okkur“ og „hina“ getur réttlætt ofbeldi, trúarbrögð hafa engan einkarétt á því. Það að þorri Þjóðverja deildi trú með restinni af Evrópu kom ekki í veg fyrir seinni heimsstyrjöldina. „Við“ vorum herraþjóðin, „hinir“ voru óæðri. Ef litið er á sögu Evrópu undanfarna áratugi mun koma í ljós að knattspyrna ber ábyrgð á fleiri dauðsföllum en trúarbrögð, „hinir“ héldu me röngu liði. Hvar eru samtök herskárra knattspyrnuandstæðinga sem hægt er að skrá sig í?

Sjálfsvígsárásir eru neyðarúrræði fólks sem grípur til örþrifaráða til að berjast gegn ofurefli. Sjálfsvígsárásir tíðkuðust t.d. í Víetnam-stríðinu gegn bandarísku innrásarliði. Þar komu trúarbröð hvergi við sögu. Reyndar voru það kommúnistar, yfirlýstir trúleysingjar, sem þar beittu því. Að tengja sjálfsvígsárásir einvörðungu við átök sem réttlætt eru með trúarlegum ágreiningi fær því alls ekki staðist.

Kúgun kvenna hefur viðgengist um allan heim frá örófi alda, eins og trúarbrögð. Hún hefur, eins og trúarbrögð, verið hluti af menningunni og oft réttlætt með trúarlegum rökum. Hún hefur líka verið réttlætt með ýmsu öðru móti, t.d. líffræðilegum, heimspekilegum og félagslegum rökum. Var Platon kannski feministi? En Darwin? Ef tengja á kúgun kvenna í gegn um aldirnar einhverju sérstöku í fari mannkynsins væri það einna helst öndun súrefnis.

Dauðarefsingar hafa tíðkast frá fornu fari og ákvæði um þær verið í lögum flestra þjóða. Reynslan sýnir að trúarlög hafa engan einkarétt á því að kveða á um dauðarefsingar. Í dag eru dauðarefsingar hvergi algengari en í Kína, hjá trúlausu kommúnistunum. Í Bandaríkjunum er skýrt kveðið á um algeran aðskilnað ríkis og kirkna. Þar hafa dauðarefsingar verið landlæg plága.

Þjóðkirkjan fær greidd sóknargjöld sem ríkið sér um að innheimta fyrir hana eins og öll önnur trúfélög. Hún hefur engar tekjur af fólki sem ekki tilheyrir henni og því með öllu úr lausi lofti gripið að væna hana um þjófnað. Auk þess fær hún greiðslu fyrir afnot ríkisins af eigum sínum, samkvæmt þaraðlútandi samningi. Deila má um sanngirni þess samnings, en hann er ekki þjófnaður. Sumum finnst býsna vel í látið, aðrir vilja meina að ef kirkjan fengi aðeins eina kirkjujörð til baka, t.d. Garða í Garðahreppi (nú Garðabær), væri hægt að hafa af henni meiri tekjur en samningurinn kveður á um.

Tvískinnungurinn, hræsnin, viðbjóðurinn og yfirskinið innan kirkjunnar hefur farið framhjá mér. Ég viðurkenni að gera þarf átak í kirkjuaga gagnvart prestum Þjóðkirkjunnar, eins og sorgleg, nýleg dæmi sýna. Ákveðinnar siðbótar er þörf þar innandyra. En að halda því fram prestar og annað starfsfólk kirkjunnar auk fjölda óeigingjarnra sjálfboðaliða séu upp til hópa hræsnarar, að starfið sem þar er unnið sé „yfirskin“ (væntanlega fyrir vafasamar fyrirætlanir) og að þar sé stundaður „viðbjóður“ er rakalaust níð. Ég skora á hvern mann sem þykist þess umkominn að sanna að sjálfboðaliðastarf mitt eða einhvers annars fyrir Nessókn, svo dæmi sé tekið, sé tvískinnungur, hræsni, viðbjóður eða yfirskin.

Á Íslandi er trúfrelsi, málfrelsi og skoðanafrelsi, bæði innan kirkjunnar og utan. Að því getur komið að skoðanir einstaklinga eru of ólíkar skoðunum kirkjunnar til að þeir eigi þangað nokkuð erindi. Kirkjan er þeim samt opin, enginn er spurður um trúfélagsaðild eða yfirheyrður um hreinleika trúar sinnar þegar hann af einhverjum ástæðum kýs að leita til kirkjunnar. Hugsanakúgun hefur einkum verið vandamál í kommúnistaríkjum þar sem trúleysi var hin opinbera stefna ríkisins sem knúin var fram af algjöru miskunnarleysi.
Kristnir menn hafa aðeins eitt boðorð: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22.37-39) Þeim hefur vissulega gengið misvel að fara eftir því. En það getur varla gert nokkurn að verri manni að aðhyllast þessa lífsskoðun. Morð, sjálfsvígsárásir, kúgun kvenna, dauðarefsingar, þjófnaður, tvískinnungur, hræsni og annar viðbjóður samrýmast henni að mínu mati afar illa.

Guð blessi alla sem þessar línur lesa.

6 ummæli:

Óli Gneisti sagði...

Ég hef oft sagt þér Davíð að þú ættir að lesa Vantrú. Það að þú gerir það ekki verður til þess að þú heldur að umfjöllun þín hér um stríð sé rök gegn okkar rökum. Kíktu á þessa grein á Vantrú: http://www.vantru.is/2008/04/07/08.00/

Þarna geturðu lesið meðal annars athugasemd frá mér um Norður Írland. Skemmtu þér vel.

Mér finnst áhugavert að þér finnst sanngjarnt að ég skuli þurfa að borga fyrir skuldbindingar sem íslenska ríkið gekk í árið 1907 til þess að bjarga kirkjunni sem þá var gjaldþrota. Það hlýtur að kalla á þá spurningu hvort þér þætti sanngjarnt að afkomendur þínir þurfi eftir hundrað ár enn að borga fyrir gjaldþrot íslensku bankanna 2008.

Unknown sagði...

Reyndar erum við alveg sammála um það að í flestum tilvikum eru trúarbrögð notuð sem réttlæting eða afsökun fyrir voðaverkum ofstækisfólks. Þau eru ekki hin raunsanna ástæða nema í undantekningartilvikum. En ég spyr: Hversu mörg voðaverk hafa verið framin í nafni trúleysis? Það er þess vegna sem mér ofbýður hugtakið fulltrúar ofstækisfulls guðleysis, þegar það eina sem þeir hafa gert til að vinna sér inn þann stimpil er að vera kjaftforir, á stundum sóðakjaftar, sem eru ósammála þér. Lítið ofstæki í því.
Þjófnaður ríkiskyrkjunnar er svo annað mál sem rekja má mjög langt aftur í aldir til þess er kaþólska kirkjan hafði jarðir af íslenksum höðfingjum með mjög svo umdeilanlegum hætti, en á þessum jarðeignum hvílir núverandi staða hennar.
Megi þér líða vel í guðlausum heimi kæri bróðir.

Davíð Þór sagði...

Voru voðaverk ríkisstjórna, sem höfðu guðleysi á stefnuskrá sinni, gegn kirkjunnar þjónum ekki framin í nafni trúleysis? Hins vegar er kannski rangt að tala um ofstækisfullt trúleysi í íslensku samhengi. Þar á ég einfaldlega við trúleysi sem boðað er af meira offorsi, ef ekki meira, en flestir boða sína trú með. Síðan er það spurning hvort trúleysi, sem ekki felur í sér að viðkomandi einfaldlega er trúlaus heldur aðhyllist hann trúleysi sem á einhvern hátt þarf að iðka og boða, jafnvel af meiri elju en meðaltrúaður maður iðkar og boðar sína trú með, sé í raun nokkurt trúleysi - jafnvel þótt engar Guðs-hugmyndir sem slíkar séu hafðar með í ritúalinu. Beinist trúin þá einfaldlega ekki bara að guðlausri heimsmynd og hugmyndakerfi í staðinn?

Óli Gneisti sagði...

Fara trúleysingjar inn á leikskóla að boða trúleysi?
Fara trúleysingjar inn í grunnskóla að boða trúleysi?
Fara trúleysingjar á sjúkrahús að boða trúleysi?

Nei, voðaverkin voru framin í nafni stjórnmálastefnu eða öllu heldur í valdabrölti ákveðinna manna.

Lastu greinina og athugasemdina sem ég vísaði á?

Nafnlaus sagði...

Það er líka afskaplega áhugavert að skoða hlutföll þeirra sem eru trúaðir/trúlausir í BNA og þeirra sem aðhyllast dauðarefsingar - sérstaklega þegar að þessu er spurt í sömu könnun...

Matti sagði...

"Helstu fulltrúar ofstækisfulls guðleysis á Íslandi hafa m.a. orðið uppvísir að því að fullyrða að aðeins 51% þjóðarinnar segist trúa."

Ég held að Davíð ljúgi þessu.