miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Stjörnum prýdd veifa

(Francis Scott Key – íslensk þýðing: D. Þ. J.)

Ó, sérðu í sýn
gegn um sorta og ský
tákn um dirfsku og dug
meðan dagurinn rennur?
Yfir veraldar vél
blaktir vindinum í
merki ofsa og elds
sem í æðum oss brennur.
Þó að taki vort blóð
sprengjublossanna glóð
þá berjumst vér enn fyrir fullvalda þjóð.
Ó, blaktir enn fáni vor fagur og hýr
fyrir heimaland frjálst þar sem hugprýði býr?

Fyrir nokkrum árum fékk ég það verkefni að þýða til talsetningar kvikmynd sem hét Racing Stripes. Hún fjallaði um sebrahestinn Stripes, sem á íslensku hét Brandur, en hann átti sér þann draum æðstan að verða veðhlaupahestur. Auðvitað fékk myndin því nafnið Eldi-Brandur á íslensku. Þegar stóra uppgjörið verður í myndinni, veðhlaupið þar sem Brandur sýnir hvað í honum býr, rísa allir á skeiðvellinum á fætur og syngja þjóðsöng Bandaríkjanna, eins og tíðkast víst á allflestum íþróttaviðburðum þarna vestanhafs. Þetta gerði það að verkum að ég þurfti að finna íslenskan texta við lagið. Hófst nú æðisgengin leit að honum, en þótt ég nyti aðstoðar menningarfulltrúa bandaríska sendiráðsins við hana bar hún engan árangur. Það varð því úr að ég neyddist til að hnoða sjálfur saman einhverri þýðingu. Þannig varð textinn hér að ofan til. Sennilega er þetta þekktasti söngtexti sem ég hef gert tilraun til að snara. Um daginn var ég að taka til í þýðingamöppunni hjá mér og rak augun í þetta skjal. Þá datt mér í hug að leyfa lesendum mínum að njóta kveðskaparins með mér, ef í hópi þeirra skyldu leynast íslenskumælandi Bandaríkjamenn sem saknað hafa þess að geta ekki sungið þjóðsönginn sinn á því ylhýra. Það vandamál heyrir þar með sögunni til. En ef einhverjir sem álpast til að lesa þetta vita um aðra (og sennilega skárri) þýðingu eru ábendingar þegnar.

5 ummæli:

Varríus sagði...

Helvíti flott við fyrstu sýn.

Og þó svo ýmis uppátæki amríkana og belgingur geti pirrað mann þá verður að viðurkennast að þjóðsöngurinn þeirra er einstaklega fallegur.

Áhugavert væri að safna saman sem flestum íslenskum þýðingum á þjóðsöngvum. Man eftir þeim franska í leikskrá úr Nemendaleikhúsinu fyrir mörgum árum.

kerling í koti sagði...

Davíð, ég verð að segja að þetta er frábær texti hjá þér.

Tinna Gígja sagði...

Þrátt fyrir að vera sérlega óáhugasöm um þjóðrembu, er ég alltaf dálítið svag fyrir ættjarðarljóðum (á sama hátt og ég er veik fyrir ákveðnum sálmum þrátt fyrir algjört trúleysi). Sá bandaríski hefur mér alltaf þótt sérlega fallegur, þó ég sé hrifnari af America the Beautiful, og þessi þýðing er einstaklega falleg. Ég get hreinlega ekki ímyndað mér þýðingu sem betur nær að fanga anda textans.

Nafnlaus sagði...

Var rétt í þessu að stela þremur fyrstu línunum fyrir Simpsons þátt. Vona að þú erfir það ekki við mig.

kv,
Árni Friðriksson

Davíð Þór sagði...

Ekki málið, Árni. Mér er það heiður.
Kkv,
Davíð Þór