föstudagur, ágúst 29, 2008

Abkasar, Kósóvar, Ossetar, Téténar og nótt í Kríunesi

Það er fallegt af Rússum að hafa samúð með sjálfstæðistilburðum Abkasa og S-Osseta í Georgíu og viðurkenna sjálfstæði þeirra. Hins vegar er vandræðalegt hvað þeir eiga erfitt með að hafa viðlíka samúð með uppreisnarhópum og sjálfstæðistilburðum þjóðarbrota innan sinna eigin landamæra. Sagði einhver Téténía? Sömuleiðis er fallegt af Vesturveldunum að hafa samúð með Kósóvó-Albönum og viðurkenna héraðið sem sjálfstætt ríki. Hins vegar er það vandræðalegt hvað þeir eiga erfitt með að sýna Abkösum og Ossetum viðlíka samúð. Hver er munurinn á Abkasíu, Kósóvó, S-Ossetíu og Téténíu? Í raun er eini munurinn í því fólginn hverra hagsmunum sjálfstæði hvers og eins þeirra þjónar, hvort héröðin heyra undir Rússa og lagsmenn þeirra eða lagsmenn Vesturlanda. Það er deginum ljósara að afstaða bæði Vesturveldanna og Rússa til hvers og eins tilfellis byggir að engu leyti á prinsippatriðum og öllu leyti á þeirra eigin hagsmunum. Það er erfitt að fylgjast með alþjóðapólitíkinni um þessar mundir án þess að fyllast viðurstyggð á öllum deiluaðilum.
Á sama tíma ...
... hafa íslenskir fjölmiðlar einna mestar áhyggjur af 72.000 kalli sem eytt er í vinnuhelgi fyrir sjö manna nefnd, rétt eins og það sé höfuðatriði hvar á landinu hún hafi verið haldin. Hvað þarf að vera forpokaður sófasossi til að nenna að gera veður út af því? Það er ekki eins og um sé að ræða milljónir til að fara með einn ráðherra og hennar nánustu á einn kappleik, henni sjálfri til ánægju og einskis annars nema allmikils vinnutaps hjá ráðuneytinu? Vera hennar á vellinum skipti nákvæmlega engu máli. Hún hefur reynt að halda öðru fram, en hafi hún rétt fyrir sér hefði hún að mínu mati átt að hafa vit á að þegja um það. Þeir fóru ekki að tapa fyrr en hún dúkkaði upp.
Fjölmiðlamenn sem leggja þetta tvennt að jöfnu eru að bera saman kettling og tígrisdýr. Þeir stjórnast greinilega frekar af moldviðrisfíkn en sannleiksleit.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvaða hvað! Oh, mér fannst svo sætt af henni að bjóða síns eigins manns með.
Ég held að ráðherrann sé í þann mund að fatta að það er efnahagskreppa í landinu, amk sagði hún það í útvarpið - eftir að hún kom heim úr heimsreisunum. Eða var henni sagt það?

Kveðja,
Anna Guðný