þriðjudagur, september 02, 2008

Batnandi mönnum ...


Í síðustu viku varð afar ánægjulegur atburður sem fór ekki eins hátt og mér fannst efni standa til, enda bar hann að í miðju handboltaæði. Hann fólst í því að kenískur hælisleitandi sneri aftur til landsins eftir að ákveðið var að taka mál hans til sérstakrar skoðunar. Honum hafði verið vísað úr landi á forsendum svonefnds Dyflinnarsamkomulags, sem heimilar að fólk í hans sporum sé sent aftur til síðasta viðkomustaðar síns. Hér á landi hefur heimild þessi jafnan verið túlkuð sem nánast ófrávíkjanleg regla og í þessu tilfelli sem mikilvægari en þau ákvæði allra mannréttindasáttmála að forðast beri í lengstu lög að tvístra fjölskyldum. Réttur stjórnvalda til að snúa manninum til baka var þannig metinn mikilvægari en réttur nýfædds sonar hans til að njóta umönnunar beggja foreldra, en hann er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar eru aðilar að.
Hins vegar er það einfaldlega ekki satt, sem heyrst hefur í þessari umræðu, að Íslendingar séu með allt niðrum sig í málefnum flóttamanna. Staðreyndin er að miðað við höfðatölu stöndum við okkur allvel í að taka á móti hópum þeirra. Í hita umræðunnar hefur meira að segja gleymst að núverandi dómsmálaráðherra hefur staðið fyrir markverðum umbótum í þessum málaflokki með nýjum útlendingalögum. Aftur á móti hefur hann, eins og allir forverar hans í starfi, til þessa einfaldlega fylgt eftir mjög skýrri pólitískri stefnu íslenskra ríkisstjórna. Hana má draga saman í eina setningu: „Okkar flóttafólk veljum við sjálf.“ Þeim sem hingað koma á eigin vegum hefur undantekningalítið verið snúið við strax.
Af þessum sökum var ég ekki bjartsýnn á að mál Pauls Ramsesar hlyti aðra meðferð í kerfinu en fordæmi eru fyrir um. Sú ákvörðun ráðherra að taka það til endurskoðunar kom því ánægjulega á óvart og er honum til sóma. Vonandi er hún fyrirboði um manneskjulegri vinnubrögð í framtíðinni. Ef til vill kemur á óvart að ég, yfirlýstur sósíalistinn, skuli mæra Björn Bjarnason, en rétt skal vera rétt. Heiður þeim sem heiður ber. Fram hjá því verður ekki horft að í ráðherratíð Björns hefur málefnum flóttafólks á Íslandi miðað í rétta átt. Að vísu of hægt og of stutt að mínu mati, en Guð láti á gott vita.

Engin ummæli: