þriðjudagur, september 16, 2008

Jörð, gleyptu mig ... núna!

Þótt maður reyni að hafa ekki of miklar áhyggjur af því hvað fólk heldur um mann reynir maður auðvitað alla jafna að verða ekki að undrum á almannafæri. En stundum er hreinlega eins og lífið bregði fyrir mann fæti í þeirri sjálfsögðu viðleitni.
Til dæmis fór ég ekki alls fyrir löngu í verslunarleiðangur í Hagkaup í Kringlunni. Eftir að hafa fyllt innkaupakörfuna fórum við hjónaleysin í biðröðina við kassann. Konan á undan okkur var með heilmikinn varning sem hún var að hlaða upp á færibandið með töluverðum bægslagangi. Þá sá ég útundan mér að einhver smávara datt á gólfið. Að sjálfsögðu tók ég hana upp. Þetta var einhvers konar kremtúba af smærra taginu. Ég rétti konunni hana og sagði: „Fyrirgefðu, þú misstir þetta.“ Konan leit forviða á mig og neitaði því svo flissandi. Skrítnara þótti mér þó að nú hreytti unnusta mín í mig: „Hvað er að þér, maður? Þetta á að vera hérna!“ Með það reif hún af mér túbuna og setti upp í hillu sem er þarna yfir færibandinu.
Það tók drykklanga stund að afgreiða konuna svo ég leit betur á hilluna sem túban hafði dottið úr. Þá rann upp fyrir mér ljós. Í túbunni var krem sem ætlað er að auka ánægju fólks af því að hafa samfarir. Gott ef orðasambandinu „kitlandi unaður“ brá ekki fyrir í vörulýsingunni. Ég fann hvernig roðinn færðist í kinnarnar á mér við þessa uppgötvun, en ekki fannst mér ég þó geta beðið konuna afsökunar. Þá hefði ég verið að gefa í skyn að það ætti að segja sig sjálft að vöru af þessu tagi gæti hún alls ekki verið að kaupa. En þarna hafði ég semsagt í barnslegu sakleysi mínu staðið með þennan sóðaskap í höndunum, otað honum að bláókunnugri manneskju og svo gott sem gapað: „Afsakið, fröken, en þér misstuð kynnautnasmyrslið yðar.“
Til að konan sæi ekki að ég var blóðrauður af skömm reyndi ég að grafa andlitið á mér ofan í tímarit á meðan hún lauk sér af og unnusta mín barðist við að halda niðri í sér hlátrinum. En maður hlýtur að spyrja: Hvað á það að þýða að hafa þessa vöru einmitt þarna? Það er bara verið að bjóða heim hættunni á svona löguðu. Á maður ekki heimtingu á því að geta farið út í búð án þess að eiga það á hættu að verða sér í hrekkleysi sínu til slíkrar skammar að maður óskar þess helst að jörðin gleypi mann?
Bakþankar í Fréttablaðinu 14. sept. 2008

Engin ummæli: