föstudagur, september 29, 2006

Smiðshöggið rekið á níðingsverkið

Í gær hófst vatnssöfnun í Hálslón. Skrúfað hefur verið fyrir Jöklu. Ómetanlegri náttúruperlu verður drekkt á næstu mánuðum. Stærsta ósnortna víðerni Evrópu verður fórnað til að íslenskir skattgreiðendur geti niðurgreitt raforku til mengunarframleiðslu á Reyðarfirði, verkefni sem þvingað var í gegn með skjalafölsunum, atvinnurógi og kúgunum þvert á landslög.
Það sem einna helst gerir það að verkum að við þetta missir maður trúna á manninn er sú staðreynd að þetta var lýðræðisleg ákvörðun. Hún var samþykkt á Alþingi með 44 atkvæðum gegn 9. Margir þessara fjörutíu og fjögurra hafa reyndar skipt um skoðun síðan og gagnrýna nú háværum rómi hvernig staðið var að verki.
Af einhverjum ástæðum þurftu níu stallsystkin þeirra þó ekki á þeim skoðanakönnunum að halda né viðbótarupplýsingum sem síðan hafa komið fram í dagsljósið, til greiða atkvæði gegn virkun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal þegar árið 2002. Níu þingmönnum þóttu nægar upplýsingar til að taka skynsama afstöðu liggja fyrir þá þegar.
Þar sem margir þjóðníðinganna sem að umhverfishryðjuverkinu stóðu reyna nú í aðdraganda kosningavetrar að þvo hendur sínar af þessum glæp gegn landinu er við hæfi að rifja upp hverjir þeir eru – svo fólk sem vill elska sitt land geti forðast að greiða þeim atkvæði í næstu kosningum.

Þjóðníðingarnir 44 eru:

Arnbjörg Sveinsdóttir, Sjálfstæðisflokki
Árni M. Mathiesen, Sjálfstæðisflokki
Ásta Möller, Sjálfstæðisflokki
Bryndís Hlöðversdóttir, Samfylkingu
Drífa Hjartardóttir, Sjálfstæðisflokki
Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki
Einar Oddur Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki
Einar Már Sigurðarson, Samfylkingu
Geir H. Haarde, Sjálfstæðisflokki
Gísli S. Einarsson, Samfylkingu
Guðjón Guðmundsson, Sjálfstæðisflokki
Guðmundur Hallvarðsson, Sjálfstæðisflokki
Guðni Ágústsson, Framsóknarflokki
Guðrún Ögmundsdóttir, Samfylkingu
Halldór Ásgrímsson, Framsóknarflokki
Halldór Blöndal, Sjálfstæðisflokki
Helga Guðrún Jónasdóttir, Sjálfstæðisflokki
Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki
Ísólfur Gylfi Pálmason, Framsóknarflokki
Jóhann Ársælsson, Samfylkingu
Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingu
Jón Kristjánsson, Framsóknarflokki
Jónína Bjartmarz, Framsóknarflokki
Karl V. Matthíasson, Samfylkingu
Kjartan Ólafsson, Sjálfstæðisflokki
Kristinn H. Gunnarsson, Framsóknarflokki
Kristján L. Möller, Samfylkingu
Kristján Pálsson, Sjálfstæðisflokki
Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingu
Magnús Stefánsson, Framsóknarflokki
Margrét Frímannsdóttir, Samfylkingu
Páll Pétursson, Framsóknarflokki
Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki
Sigríður Ingvarsdóttir, Sjálfstæðisflokki
Sigríður A. Þórðardóttir, Sjálfstæðisflokki
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki
Sólveig Pétursdóttir, Sjálfstæðisflokki
Sturla Böðvarsson, Sjálfstæðisflokki
Svanfríður Jónasdóttir, Samfylkingu
Tómas Ingi Olrich, Sjálfstæðisflokki
Valgerður Sverrisdóttir, Framsóknarflokki
Vilhjálmur Egilsson, Sjálfstæðisflokki
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki
Össur Skarphéðinsson, Samfylkingu

Megi smán þeirra vera í minnum höfð svo lengi sem land byggist.

44 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fjarri mér að verja níðinganna en enn verri voru þeir níðingar sem lugu að þingi og þjóð. Það mætti bæta þeirra nöfnum við...

Nafnlaus sagði...

HEYR HEYR!!!!!

Nafnlaus sagði...

Vantar ekki Don Oddsson á þennan lista? Hvar var hann þegar þetta var samþykkt?

kerling í koti sagði...

Heyr! Heyr! En var Alþingi ekki líka blekkt?

Nafnlaus sagði...

bölvuð hræsni er þetta drengur....


Smá pælingar:

1.
Ísland er að langstærstum hluta óbyggt land eða rúmlega 80% ef ég man rétt.

2.
Svæðið í kringum Kárahnjúka er eins og margir aðrir staðir á hálendinu....það er vatn þarna, það er gras og drukkupollar, sandur, steinar og eflaust einhverjar hæðir og "fjöll".

3.
Það hefur aldrei verið neinar skipulagðar ferðir þarna - engir ferðamenn - ekkert merkilegt við þetta svæði því eins og áður sagði - svona svæði skipta þúsundum á hinu strjálbýla Íslandi.

Öllum var drullusama um þetta blessaða svæði.....þ.e. þangað til að ákveðið var að virkja þarna.

4.
Allt í einu ákveða sumir náttúrusinnar - að þetta svæði sé mikil náttúruperla og að virkja þarna og skapa atvinnu og uppbyggingu fyrir þúsundir íslendinga sé "mesta" umhverfisslyss íslandssögunnar".

Allt í einu skiptir þetta roksvæði in the middle of nowhere rosalega miklu máli - svæði sem enginn heimsótti eða lét sig neinu skipta áratugum saman.......

ég leyfi mér að fullyrða að þessir 15.000 íslendingar sem löbbuðu laugaveginn að vel innan við 500 manns hafa komið og skoðað þetta svæði.

Þau hafa ekki hugmynd um hvað þetta svæði er eða hvernig það lítur út.

Það hinsvegar grípur orð eins og "náttúruperlur" og "Mesta umhverfislys sögunnar" og mótmælir eins og sönnum íslendingi sæmir - þvi hjarðhegðun Íslendinga er með eindæmum eins og Eurovision sannar......

Þetta svæði er bara venjulegt gras-drullupolla-sand-grasa-bali úti í rassgati. Enginn skiptir sér af því before - og enginn ætti að skipta sér af því núna ef fólk vill nú vera samkvæmt sjálfu sér.


Ekki mótmæla einhverju sem fólk hefur ekki hugmynd um....ekki vera fúll á móti bara til þess að vera fúll á móti.

Þessi virkjun hefir komið með tugþúsundir milljóna inní íslenskt samfélag og skapað vinnu handa þúsundum að auki.

sandrok-rassagata-grasbali og drullupollar þarna úti á landi verða bara að víkja....því eins og Trabant eigendur sögðu í gamla daga: SKYNSEMIN RÆÐUR !!!

Over and out.

Davíð Þór sagði...

Don Oddsson var fjarverandi.

Anonymous (engin tilviljun að þú valdir þér þetta pennanafn) Lið fyrir lið:
1. Sem gerir þetta land einmitt svo verðmætt. Hvergi annars staðar í álfunni var jafnmikið ósnortið víðfeðmi.
2. Heitirðu nokkuð Siv?
3. Ég hef aldrei komið til Ísrael. Get ég þá haft skoðun á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafsins?
4. Tja ... hvar á að byrja? Lónið mun væntanlega valda gífurlegum uppblæstri og sandstormum á Austurlandi. Við að Jökla er stoppuð af eykst landbrot við Héraðsflóa með þeim afleiðingum að Húsey með sitt einstaka lífríki mun hverfa í sæ. Ég leyfi mér að kalla það hryðjuverk, það er nefnilega ekki bara verið að sökkva landinu við Kárahnjúka. Hvaða áhrif breytt hitastig Lagarfljóts mun hafa á svæðinu er anybody's guess. Hvað milljarðana varðar þá er arðsemi framkvæmdarinnar í besta falli vafasöm - ef hún er ekki hreint fjárhagslegt glapræði. Þúsundirnar sem fá vinnu þarna vinna hjá fyrirtækjum eins og Impregilo og Alcoa sem á alþjóðavísu eru talin ófyrirleitnustu slúbbertar í heimi. Í Mexíkó var Alcoa með ribbalda á launum við að ganga í skrokk á verkalýðsleiðtogum til að halda launakröfum verkafólks í skefjum? Af hverju ætti það að haga sér skár hér, það er ekki eitthvað annað Alcoa sem hér er að störfum. Af hverju heldurðu að fyrirtæki í siðuðum löndum, t. d. Norsk Hydro, hafi forðað sér frá framkvæmdinni um leið og ljóst var út á hvað hún gekk?
Annars hef ég engu við það að bæta sem fram kemur í Draumalandi Andra Snæs, nema að ég lít á ÞÁ STAÐREYND AÐ EKKERT ÞEIRRA 44 SEM ÞARNA ERU NEFND SKULI HAFA GERT SVO MIKIÐ SEM TILRAUN TIL AÐ VÉFENGJA EITT ORÐ AF ÞVÍ SEM ÞAR ER SAGT SEM STAÐFESTINGU Á ÞVÍ AÐ ÞAR SÉR ALLT SATT OG RÉTT OG ÞAU VITI UPP Á SIG SKÖMMINA.

P.S. Bið að heilsa öllum á Reyðarfirði.

Davíð Þór sagði...

Og mamma ... jú, blekkingum var beitt, en þó létu ekki allir blekkjast.

Karna Sigurðardóttir sagði...

Og fari þau öll til andskotans, og brenni þar vel og lengi.

Það er nú gott alþingi ef það fellur fyrir einhverjum blekkingaleik.

Nafnlaus sagði...

Umhverfis-frúrnar!
Sigríður A. Þórðardóttir, Sjálfstæðisflokki
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki
Jónína Bjartmarz,
Framsóknarflokki


Uppí hvaða rassgati var höfuðið á þeim???

Nafnlaus sagði...

Þú þarft ekki að fara til Ísrael til að hafa skoðun á etnísku stríði sem þar geysar, þó það myndi eflaust skerpa sýn þína á atburðina. En það er einfeldningslegt að kalla landsvæði, sem maður hefur ekki séð, náttúruperlu. Og bera þetta tvennt saman er ekki boðleg þrætubókarlist.

kerling í koti sagði...

Auðvitað er hægt að kalla land sem maður hefur aldrei séð náttúruperlu alveg eins og það er hægt að kalla það sandroks-drullurassgat. Eða má kannski bara kalla það öllum illum nöfnum?

Þórunn Gréta sagði...

Andstaða við Kárahnúkavirkjun og Reyðarálverið snýst ekki bara um fegurð landsins. Þetta er í alla staði vafasöm framkvæmd. Líftími virkjunarinnar verður í mesta lagi 100 ár... ef hún hrynur ekki fyrr af því hún stíflan stendur á sprungusvæði fyrir neðan eldfjall. Það er bara ein kynslóð fattiði, ekki langur tími! Ég er búin að lifa 1/4 af þeim tíma. Og súrál er engin mjólk! Og þetta eru bara 2 atriði af 2000 ef ekki 20000 sem eru vafasöm varðandi þetta. Ég kom upp að Kárahnúkum í fyrsta skiptið fyrir margt löngu og er alin upp með Snæfellið fyrir augunum. Allt í lagi að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, en að fórna landinu fyrir súrálsmengun og nokkrum mannslífum í leiðinni er ... jafn ógeðslegt og orðið legslímuflakk.

Davíð Þór sagði...

Ég hef aðeins séð Taj Mahal á mynd. Mér má því ekki finnast það falleg bygging, bara ljót.

Hjörtur Howser sagði...

Anonymous sá sem hér comenterar að ofan er sýktur þeirri blekkingarveiru sem svo margir aðrir hafa greinst með undanfarið. Að ætla að hrauna yfir skoðanir náttúverndarsinna með þeim rökum að stærstur hluti landsins séu ósnorti víðerni kemur upp um viðkomandi, sá sem hefur inn á hálendið komið talar ekki svona. Ósnortin eru þau víðerni ein þar sem ekki sér mannanna verk. Háspennuraflínur með tilheyrandi staurasjónmengun eru allvíða þvers og kruss á hálendinu, þau svæði teljast ekki ósnortin þó óbyggð séu. Verndunargildi þess svæðis sem nú var svívirt er ekki síst að þar voru fá eða engin spjöll af manna völdum og meira gróið land í yfir 500 metra h.y.s en er að finna annarsstaðar á Íslandi. Um röksemdarfærsluna; fólk hefur aldrei komið þarna uppeftir og á því ekki að hafa skoðun á svæðinu, hirði ég ekki að tjá mig, slík ummæli dæma viðkomandi en ekki okkur hin. Ég hef komið inn á hálendið, fer reyndar þangað uppeftir á hverju sumri og ég mun aldrei framar hugsa til svæðisins norðan Vatnajökuls nema með sárum trega og eftirsjá. Söknuði þess sem misst hefur það sem honum var kært.

Nöfn föðurlandssvikaranna á listanum, og einnig þeirra sem ekki eru þar skráðir, verða í minnum höfð.

Siðblindir forkólfar Austfirðinga mættu líka vera nefndir, menn eins og Smári Geirsson og hans líkar eru ekki hvítþvegnir af glæpnum, þó þátttaka þeirra hafi verið óbein.

Meira svona Davíð Þór, nú þekki ég minn mann.

Kv.
HH..

Nafnlaus sagði...

Enn þori eg ekki að koma undir nafni en comment mitt að ofan um vitleysuna varðandi kárahnjúkavirkjun hefur kallað fram á góð viðbrögð sem er gott....comment mr.Howser nokkurs hljóma ekki vitlaus..og comment Davíðs varðandi fegurð, þ.e. hvort viðkomandi hafi komið uppá svæðið eður ei sé forsenda þess að mega hafa skoðun á því er ekki heldur vitlaus.

megin pkt þó í gagnrýni minni að það fara 15.000 manns í þessari hjarðhegðun okkar með litlum sem engum fyrirvara að að mótmæla einhverju sem þau hafa ekkert rosalega mikið vit á....og aldrei komið þarna.

ein stærsta mótmælaganga sögunnar er mér sagt.

Það er ekki verið að mótmæla arðsemi virkjunarinnar eða efnahagsforsendum sem mér finnst mun skynsamlegra að mótmæla enda margt sem er loðið þarna og EINA ástæðan fyrir því að ég er soldið efins um þessa virkjun. Með fullri virðingu fyrir græningjum þá er þetta svæði ekkert merkilegt og þjóðarskömm er just to much to say.

Leyfi mér að pósta hérna grein sem ég fékk í pósti sem er býsna fróðleg en hana skrifaði Hörður Arnarson, forstjóri Marels.

Mér finnst að umræðan eigi að snúast um þessa hluti og þessi feluleikur um arðsemina er auvðitað mesta þjóðarskömminn...alveg eins og lokað bókhald stjórnmálaflokkana.

Greinin er svohljóðandi:
Arðsemi virkjana
Umræða um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar er að vísu ekki ný á nálinni, en því miður hafa þar oft blandast inn náttúruverndarsjónarmið og byggðasjónarmið sem eiga þó fullan rétt á sér en flækja arðsemisumræðuna. Það er einnig slæmt að þeir fjölmörgu aðilar í íslensku fjármálaumhverfi sem hafa mikla sérþekkingu á arðsemi fjárfestinga og hafa náð afburðaárangri í fjárfestingum á undanförnum árum skuli ekki tjá sig um jafn þjóðhagslega mikilvægt mál.
Landsvirkjun hefur upplýst að arðsemi eiginfjár sé viðunandi af Kárahnjúkavirkjun eða um 11%. Sú niðurstaða byggist á því að ríkið niðurgreiðir framkvæmdina með því að veita fyrirtækinu tekjuskattfrelsi og ríkisábyrgðir sem tryggir framkvæmdinni óeðlilega lága vexti en virkjunin er að mestu fjármögnuð með lánsfé.

Einföld leið til að meta arðsemi fjárfestinga er að meta hvað annað hefði verið hægt að kaupa fyrir sambærilega upphæð. Þetta er í raun það arðsemismat sem flestir einstaklingar gera þegar þeir ráðstafa fjármunum sínum. Á fyrrnefndu viðskiptaþingi hélt forsætisráðherra áhugaverða ræðu m.a. um mjög vel heppnaða einkavæðingu undanfarinna ára. Þar kom fram að á þessum tíma hefði heildarsala á ríkisfyrirtækjum skilað ríkissjóði rúmum 140 milljörðum. Líklegt er að heildarkostnaður vegna orkuöflunar í tengslum við Kárahnjúka verði um 70% af þeirri fjárhæð eða a.m.k. 100 milljarðar. Síminn var t.d seldur fyrir nokkrum mánuðum fyrir um 75 milljarða, þannig að ef menn telja að virkjunin skili ásættanlegri arðsemi miðað við Símann, þá þarf hún að skila um 35% hærri arðsemi en Síminn. En það verður að öllum líkindum Síminn sem mun skila mun meiri arðsemi þrátt fyrir skattfrelsi og ríkisábyrgðir virkjunarinnar.

Önnur einföld leið til að meta arðsemina er að skoða árlegar tekjur (ekki hagnað) af raforkusölu frá Kárahnjúkavirkjun, sem verða líklega um 6-8 milljarðar. Ef það er sett í samhengi við 100 milljarða fjárfestingu þá þarf ekki flókna útreikninga til að sýna að arðsemi framkvæmdanna er afar slök.


Sértækar aðgerðir fyrir stóriðju
Í álverinu verða til um 400 ný störf, stjórnvöld eru því tilbúin að fjárfesta um 250 milljónir í hverju starfi sem skapast án þess að gera eðlilegar kröfur til arðsemi fjármagnsins.
Í ofanálag við þessa slöku arðsemi raforkuframleiðslunnar og miklu fjárbindingu þá eru stjórnvöld og sveitarfélög einnig tilbúin að gera sértæka samninga við stóriðjufyrirtækin. Þessir samningar eru nokkuð breytilegir milli fyrirtækja, en sem dæmi má taka nokkur atriði úr samningnum við Fjarðaál. Fyrirtækið fær 90% afslátt af stimpilgjöldum, það er undanskilið vörugjöldum, markaðs- og iðnaðarmálagjaldi og greiðir 5% tekjuskatt af arði í stað 10%. Þá fær fyrirtækið verulegan afslátt af leyfisgjöldum vegna byggingarframkvæmda og umtalsverðan afslátt af fasteignagjöldum til frambúðar. Það þarf ekki að taka fram, að hátæknifyrirtæki, þjónustufyrirtæki og önnur fyrirtæki í eigu Íslendinga fá engar þessara ívilnana.


Áhrif á starfsmenn og eigendur annarra fyrirtækja
Þessi atvinnustefna með gríðarlegum inngripum stjórnvalda hefur haft mikil áhrif á fyrirtæki í útflutningsiðnaði og samkeppnisiðnaði. Skýrustu dæmin sem endurspegla lakari kjör og atvinnuóöryggi starfsmanna þessara fyrirtækja eru launalækkanir sjómanna um 20-30% og uppsagnir starfsmanna í fiskvinnslu. Í raun hafa starfsmenn allra annarra fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisiðnaði orðið fyrir sambærilegum áhrifum. Hluthafar fyrirtækjanna hafa einnig orðið fyrir mikilli eignaskerðingu og jafnvel hefur komið til gjaldþrota fyrirtækja vegna langvarandi erfiðra rekstrarskilyrða.

Frekari stóriðja
Nú er mjög í umræðunni frekari uppbygging stóriðju. Það er að mínu mati alger grundvallarkrafa ef á að verða af frekari uppbyggingu virkjana fyrir stóriðju hér á landi, að það verði án beinna afskipta ríkis og sveitarfélaga.
* Ekki verði um að ræða ríkisábyrgðir og skattleysi fyrir virkjanirnar.

* Virkjanaframkvæmdir verði boðnar út sem einkaframkvæmdir, þar sem framkvæmdaraðilinn greiðir fyrir aðgang að náttúruauðlindum.

* Stóriðjufyrirtæki búi við sömu starfsskilyrði og önnur fyrirtæki sem starfa hér á landi.

Þá verður ekki deilt um arðsemi framkvæmdanna og önnur fyrirtæki geta ekki kvartað undan ruðningsáhrifum þeirra.

Höfundur er forstjóri Marel hf

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Hjörtur Howser sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...

Góð grein hjá þér Davíð. Það má vel minna á að það var ekki bara framsóknarflokkurinn sem ákvað að byggja Kárahnjúkastíflu, heldur meginþorri þingheims.

Davíð Þór sagði...

Það virðist gerast að sama athugasemdin fari aftur og aftur inn, ég held að þetta hafi eitthvað með tæknina að gera, en á því sviði er ég algjör skussi. Hér hafa aðeins endurteknar athugasemdir verið þurrkaðar út (og Hjörtur að gera grín að fólki fyrir að lenda í því sama og hann hefur lent). Ég veit ekki af hverju þetta gerist.

Og já, auðvitað væri ástæða til að nefna fleiri, en þetta eru bara atkvæðin 44 á Alþingi sem samþykktu frumvarpið um virkjunina árið 2002.

Nafnlaus sagði...

Takk Dabbi fyrir innleggin þín, skír og hnitmiðuð. Ekki veitir af að hamra á þessu öllu saman. Ég mun aldrei geta fyrirgefið þessum þingmönnum, sumt getur maður bara ekki fyrirgefið! Jesú gamli fór létt með það á krossinum, vorkenndi hinum fávísu mönnum en ég held reyndar að hann hafi allan tímann vitað að þetta mundi enda vel hjá honum, smá óþægindi og svo himnaríki með pabba... Aftur á móti þurfum við að búa áfram með og jafnvel undir stjórn þessa fólks sem tók ákvarðanirnar um allt ruglið. Það virðist vera meira og minna undir hælunum á köllum sem eiga gröfur, hafa lánað peninga fyrir gröfum eða eru túrbínuheildsalar! Hendum þessu liði út og fáum inn ný viðmið!

Nafnlaus sagði...

Persónulega bíð ég spenntastur að sjá hve mörg af þessum störfum sem skapast á Austfjörðum verða mönnuð af pólverjum.

Unknown sagði...

Nafnlaus segir: "megin pkt þó í gagnrýni minni að það fara 15.000 manns í þessari hjarðhegðun okkar með litlum sem engum fyrirvara að að mótmæla einhverju sem þau hafa ekkert rosalega mikið vit á....og aldrei komið þarna."

Hvað veist þú um það hvort að fólkið sem var í göngunni hafi "ekkert rosalega mikið vit á" þessu máli eða ekki?

Ég fór í þessa göngu, sem og móðir mín, nokkrar vinkonur og fleiri sem ég þekki. Allar höfum við velt þessu málum talsvert fyrir okkur. Sumar okkar hafa komið á þetta svæði. Sumar okkar stóðu í undirskriftasöfnunum gegn virkjun við Eyjabakka og hafa barist gegn virkjana- og álvershugmyndum fyrir austan allar götur síðan.

Þannig að þessi mótmæli voru ekkert "með engum fyrirvara" hjá okkur. Fólk er búið að hafa marga mánuði og ár til þess að kynna sér þessi mál og einmitt þess vegna voru svo margir tilbúnir til þess að fara í gönguna.

Nafnlaus sagði...

Ein villa í þessum lista þínum, Einar Már Sigurðarson er í Samfylkingunni en ekki Sjálfstæðisflokknum.

Mér finnst líka sárlega vanta á þennan lista borgarfulltrúana sem samþykktu virkjunina á sínum tíma. Þeir bera fullt eins mikla ábyrgð og þingmennirnir.

Nafnlaus sagði...

Öll mannanna verk orka tvímælis. Ætli Reykjavík og nærsveitir sé ekki stærsta umhverfisslysið frá sjónarhóli náttúrunnar?

Það er ekki geðslegt að lesa ofstækið sem birtist hér á þessari síðu í garð þeirra sem tóku þá ákvörðun að virkja fyrir austan.

Þetta kvörtunarfólk á eftir að heimta hærra kaup og stærri jeppa næsta vor, sjálfsagt til komast inná hálendið og gráta skaðann.

Verður ekki að vera einhver hagvöxtur til að standa undir þeim kröfum? er til öðru að dreifa en álbræðslu og virkjunum núna þegar græðgi íslendinga er búin að rústa fiskimiðunum?

Davíð Þór sagði...

Andri Thorstensen: Ég þakka ábendinguna, bið Sjálfstæðismenn og Einar afsökunar. Sjálfsagt vantar borgarfulltrúana á listann, þingmenn sem sátu hjá eða voru fjarverandi, hugmyndafræðinga álbrjálæðisins og fleiri og fleiri. Ég vildi ekki að þetta yrði of líkt aftökulista og nennti ekki að setja mig í dómarasæti um það hver bæri ábyrgð og hver rétt slyppi við að lenda á listanum. Þetta eru bara þeir 44 þingmenn sem greiddu atkvæði með virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal 2002.

Galló: "Er öðru til að dreifa en álbræðslu og virkjunum?" Ertu að gera grín að þínum eigin málstað? Eða trúir þú því virkilega að Valgerður Sverrisdóttir sé hið eina endanlega átórítet um það hvað hægt sé að aðhafast sér til viðurværis? Er ekki haus á herðunum á þér eða færðu hugsanir og skoðanir lánaðar hjá Valgerði? Hver er hjarðmennið?

Nafnlaus sagði...

Er ekki upplagt að skella líka inn þessum níu sem voru á móti?

Nafnlaus sagði...

Ég vil bara þakka þér fyrir frábær greinarskrif. Það er merkilegt að sjá þennan lista, ég er viss um að margir verða farnir að halda að Samfylkingin hafi ekkert komið nálægt þessu eftir að þeir verða búnir að fara í ímyndar-þvottavélina. Haltu þínu striki maður. Þinn kollegi.

Þorsteinn Guðmundsson.

Nafnlaus sagði...

Ég heyrði athyglisverða skýringu á meginforsenndu Kárahnjúkavirkjunnar. Skýring sem sett er fram að hörðum hægribolta..

Ástæða þess að virkjunin við Kárahnjúka var byggð var linnulaus þrýsingur fasteignaeigenda á austurlandi. Um leið og þeir gátu selt húsin sín þá fóru þeir... Þetta er staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá...

Khomeni

Hjörtur Howser sagði...

Fjarri mér að ætla að hæða menn fyrir tæknileg atriði sem þeir bera ekki nema takmarkaða ábyrgð á. Það sem gerist stundum (á síðunni þinni Davíð og öðrum líka) er að menn eru óþolinmóðir og styðja aftur, og jafnvel ítrekað, á enter-takkann í stað þess að bíða staðfestingar á móttöku skilaboðanna. Þau rata nefnilega oftast rétta leið í kerfinu við hvert "enter" en birtast þá eins oft og viðkomandi studdi á lykilinn. Sem er náttúrulega ósanngjarnt í meira lagi, svona eins og ef maður þyrfti að fara aftur og aftur með lyftunni á sömu hæðina bara af því maður, í stresskasti, studdi oft á valhnappinn. En háð var mér ekki efst í huga, nema þá kannski kalt.
Svolítið óþægileg tilfinning að láta stroka sig út. Svona Orwell-ískur hrollur.
Kv.
HH.

Nafnlaus sagði...

Ég hef velt fyrir mér þessu Íslenska brjálæði. Ál, ál, ál og aftur ál. Góður finnskur vinur minn sem vinnur hjá stóru alþjóðlegu iðnaðarfyrirtæki sagði fyrir nokkrum misserum að við Íslendingar værum að gera stórkostlega hluti, yrðum að virkja það væri framtíðin okkar. Ég bauð honum og fjölskyldu hans í ferðalagu um landið s.l. vor. Nú segir hann; Eru þið brjáluð... Flestir eru sammála um að arðsemi virkjunarinnar við Kárahnjúka sé lítil kannski engin þegar allir póstar sem á að taka inni svoleiðis reikning eru með, nefnilega niðurrif og frágang eftir líftíma framkvæmdarinnar. ég er hinsvegar sannfærður um að ef vatni lónsins verði skolað í burtu fari fyrst að verða von um að þessi mannvirki skili arði. Hingað munu flykkjast ferðamenn sem vilja koma og skoða þessa ótrúlegu skammsýni og afleiðingar hennar. Og ekki hvað síst að bera það land augum sem bjargað var með miklum kjarki. Ekkert mun markaðssetja Ísland, íslenska ferðaþjónustu og djarfa íslendinga betur.

Nafnlaus sagði...

Anonymous: "að það fara 15.000 manns í þessari hjarðhegðun okkar með litlum sem engum fyrirvara að að mótmæla einhverju sem þau hafa ekkert rosalega mikið vit á"

Samt þarf ekki nema hvað marga alþingismenn að styðja eitthvað sem þeir hafa alls ekkert vit á...

Alda sagði...

Amen.

Nafnlaus sagði...

Alveg merkilegt hve sumir hafa lélega sýn á föðurlandið sbr. komment frá nafnlausum hér að ofan. Ef þetta er sú sýn sem stjórnmálamennirnir hafa, sem virðist vera raunin, þá er heldur ekki við góðu að búast. Hvernig land er það sem er þess virði að friða? þarf að vera skógur? þarf að vera gras? Ég fullyrði að maður sem lætur svona útúr sér hefur aldrei þangað komið. Ég hef ferðast mikið þarna uppi, gengið og veitt, bæði fisk og fugla og ef einhver staður hér á jörð kemst nálægt því að vera himnaríki fyrir mér, þá er það þar.

Nafnlaus sagði...

þetta lón verður fyllt af vatni. Vonandi verður allt ok þ.e. græjurnar virkji og allt.(úr því að þetta fór svona)
En aðal atriðið er "verður hagnaður og þá ásættanlegur"?
Mér finnst eins og þessi Landsvirkjun funkeri eins og Sovét-pakki. ER KANSKI LEYNI-LEYNI DEILD Í GANGI?
Það leiðir hugan að ýmsu. Verða valdhafar "kreisí" með tímanum og er lýðræðinu ógnað?

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir frábærann pistil Davíð Þór, Ég er einmitt oft búinn að leiða hugann að þessu fólki sem ber ábyrgð á þessari martröð og sérstaklega samfylkingarfólkinu og R-listanum. Skömm þeirra er ekki minni en íhaldsinns og framsóknar. Enda veldur það mér mikilli ógleði að sjá og heyra Ingibjörgu Sólrúnu, Hjörvar, Össur og fleira samfylkingar lið tala um umhverfisvernd og þeirra lausnir í þeim málum. Bla bla bla. Þetta er fólkið sem gat komið í veg fyrir þessa óráðsíu en gerði ekki.
V.G. og Ólafur F. eru eina stjórnmálafólkið sem að þessu kom sem sagan mun ekki dæma sem landráðafólk.
Takk aftur.

Hildigunnur sagði...

hver sagði nú aftur að þetta væri líka dýrasta aðgerð sem nokkurn tímann hefði verið lagt í til að bjarga atvinnuástandinu í Póllandi?

Nafnlaus sagði...

Það er erfitt að taka mark á fólki sem situr í sófum á kaffistofum í 101 og hjalar um þjóðníðinga vegna þess að það hefur ekki komið með eina einustu hugmynd um hvernig ætti að koma í veg fyrir þessa virkjun, hvað ætti að gera í staðinn til þess að skjóta stoðum undir atvinnulíf fyrir austan, utan að tína fjallagrös.

Á hverju ætlar þessi mannskapur þjóðinni að lifa? Auglýsingagerð? Textasmíð? Fjölmiðlasnakki? Íþróttaálfinum? Hönnun betrekks?

Honum væri holt að draga hausinn út úr sínum volga hringvöðva posterior og skoða lífið handan Ártúnsbrekkunnar (ef það þá veit hvar hún er), því þar snýst það um meira en sjálfhverft hugmyndafroðusull þar sem hver sýpur úr annars hóffari og nennir varla að bera ábyrgð á sjálfum sér, en þykist þess umkominn að prédika sjálfumglatt yfir "dreifbýlispakkinu" og þá sérstaklega um það sem hann hefur hvorki heyrt né séð.

Það er ekki mikið mark á fólki takandi sem rétt nennir að dratthalast í góðu veðri á eftir athyglissjúkum Ómari niður Laugaveginn en hefur ekki manndóm til að leggja á sig ferð austur á land til að sjá um hvað málið snýst, kýs frekar að mæma þruglið úr rauðgræna mussuliðinu sem hefur verið á móti öllu sem til framfara hefur horft á Íslandi, meira að segja litasjónvarpi!

Og svo kallar þetta fólk sig náttúrusinna, fólk sem flest kann ekki skil á einföldustu bótaníu, en þekkir hins vegar alla flóru artífartípartíanna.

Nafnlaus sagði...

Æi greyin mín eigið þið núna engann samastað í náttúrunni? Hafiði enga alvöru vinnu? Eru allir þeir sem hata náttúruna vondir við ykkur? Ekkert mál. Fariði bara niður í miðbæ, fáið ykkur mokkakaffi og horfið á einhvern gjörning framdann af rískisstyrktum listamanni í svifryksmenguninni. Og ef þið eruð heppin þá gætuð þið séð Davíð og Stein bregða fyrir með sína frábæru kúk og piss-brandara. P.s. Ég er hættur að hlusta á Orð skulu standa. Djö.. eins og ég hafði gaman af því.

Nafnlaus sagði...

Já og eins og fróður maður sagði: Þið grænhöfðar hafið aðeins tvennt á stefnuskránni hvað varðar atvinnumál íslendinga. Þ.e.


1. Árabátasjómenska
2. Lopapeysuframleiðsla

Nafnlaus sagði...

Ósköp getur fólk verið orðljótt og málefnafátækt. Þú fylgjandi stóriðju á Íslandi og allra þeirra lóna sem sökkva eiga hálendinu, afkomendur þínir verða vafalaust glaðir að taka við draslinu eftir þig. Það væri gaman að vita hversu margir austfirðingar hafa komið að Kárahnjúkum, hvað þá lengra inn eftir hálendinu. Frábær hugmynd þetta með árabátasjómennsku og lopapeysur. Danir vinir okkar og frændur hafa engin álver en lifa samt, reyndar á hönnun. Þetta með að engar hugmyndir hafi komið í staðinn er hreinlega rangt... næstum ligi. Uppblásið stjórnmálamannablaður. Ef allir þeir peningar sem gefnir eru erlendum stórglæpamönnum og fyrirtækjum, já ef allir þessir peningar hefðu farið til uppbyggingar á ferðaþjónustunni, íslenskri hönnun, bættum samgöngum, eflingu smábátaflotans og útflutnings á hreinu íslensku vatni, - væri arðurinn margfaldur á við það sem hugsanlegt er að þessar álversframkvæmdir geta nokkurtíman gefið afsér. Þið sem trúið á álið, erlend stórfyrirtæki, bætt atvinnuástand í Póllandi og víðar, þið... hvaða hugmyndir hafið þið fyrir Ísland, íslendinga og afkomendur ykkar. Trúið þið að það sé framtíð í þessum framkvæmdum, framtíð fyrir Ísland, fyrir Íslendinga? trúið þið að eftir 70 - 100 ár verði þér þökkuð þessi framsýna framkvæmd? eða getur verið að þetta sé skammsýn framkvæmd sem við eigum að skammast okkar fyrir?

Davíð Þór sagði...

Takk kærlega fyrir að minna mig á að litasjónvarpið var einmitt langstærsta framfaraspor sem stigið var á Íslandi á 20. öldinni. Því var ég næstum búinn að gleyma. Og hvað svifryksmengunina varðar þurfa Austfirðingar ekki að öfundast út í okkur á Suðvesturhorninu lengur, enda manngerð eyðimörk og mengunarnáma á leiðinni til ykkar. Gaman að því að dreifbýlismenn skuli geta bruðgið fyrir sig menntuðum slettum eins og "posteríor". Það lyftir umræðunni upp á mjög hátt plan, svo hátt að við liggur að kúk- og pissbrandarnir okkar Steins virki beinlínis lágkúrulegir í sambanburði. Þó ekki alveg.

Nafnlaus sagði...

já og svo sagði Össur kallinn þetta í þinginu:
http://www.althingi.is/altext/128/12/r10133611.sgml

Nafnlaus sagði...

.. Það er stórfurðulegt að nokkrir aðilar á þingi geti svo "auðveldlega" tekið þetta stóra ákvörðun án samráðs við íslendinga um þjóðlendur þeirra. Ég efast stórlega um að það sé til eitthvað lýðræði lengur á Íslandi .. voða lítið af því allavega. Var það ekki eitt sinn þannig að náttúran ætti að fá að njóta vafans?

Nafnlaus sagði...

Þetta er mikil sorgar saga. En:
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Sverrir Hermannsson sem og viðstaddur þingflokkur VG, greiddu atkvæði gegn þessu Frumvarpi.

Katrín Fjeldted og Guðjón A. Kristjánsson sátu hjá.