þriðjudagur, september 19, 2006

Drengurinn sem hrópaði: "Glatað! Glatað!"

Þegar DV kom út daglega var það kallað "hörð blaðamennska" sem þar var stundað. Slík blaðamennska á fullan rétt á sér, fjölmiðlum ber að vera ágengir, án þess auðvitað að vera ósanngjarnir eða óheiðarlegir. DV flaskaði hins vegar á því að þar var það beinlínis skylda að hafa stríðsfyrirsögn á hverjum degi og Ísland er bara hvorki nógu stórt né spillt til að standa undir 365 stríðsfyrirsögnum á ári. Því reyndist stormviðri dagsins stundum eiga sér stað í kaffibolla þegar að var gáð og sanngirnin hugsanlega umdeilanleg öðru hverju. Auðvitað þarf stundum að nota stóra letrið, en til hvaða leturs getur sá sem notar stærsta letrið á hverjum einasta degi gripið þegar þannig stendur á? Sá sem er alltaf uppi á háa C-inu getur ekki brýnt raustina þegar ástæða er til.
Eins á hörð gagnrýni fullan rétt á sér. Enginn er yfir gagnrýni hafinn. Stundum má gagnrýni meira að segja að vera sérstaklega ófyrirleitin, einkum þegar hún beinist að þeim sem gefa sig út fyrir að vera ófyrirleitnir sjálfir. Slík gagnrýni getur verið mjög skemmtileg aflestrar. Hárfínar, meinhæðnar athugasemdir eru sannkallaður gleðigjafi. En rýnir sem alltaf er ófyrirleitinn verður fljótt ómarktækur. Þegar maður getur gefið sér það fyrirfram að niðurstaðan sé að umfjöllunarefnið sé glatað, óháð því hvert það er, hættir maður að nenna að lesa, jafnvel þótt rýnirinn reyni að vera eins fyndinn og hann getur. Stundum getur verið rík ástæða til að rakka eitthvað niður, en hvernig ætlar sá sem aldrei hefur gert annað en að rakka allt niður sem hann fjallar um, að miðla því að eitthvað sé alveg sérstaklega niðurrökkunarvert?
Vera má að stundum sé nauðsynlegt að fara í fýlu (þótt sjálfum detti mér reyndar ekki í hug neinar kringumstæður þar sem önnur viðbrögð eru ekki bæði skynsamlegri og skemmtilegri). En það er með fýluna eins og punktastærðina í fyrirsögnunum hjá DV: Minna er meira.
Því skora ég á þá sem vilja nýta sér stjórnarskrárbundið tjáningar- og prentfrelsi sitt til að vera í fýlu að fara úr henni öðru hverju, þótt ekki sé nema til þess að maður sjái að þeir séu færir um það. Annars lýsa skrif þeirra þeim sjálfum miklu betur en því sem þeir fjalla um.
Bakþankar í Fréttablaðinu 17. 9. 2006

9 ummæli:

Sindri sagði...

Glatað!

Nafnlaus sagði...

Uppáhalds týpan mín af harðri fjölmiðlamennsku hefur alltaf verið í stíl við Kristján í Kastljósinu, sem gengur út á grípa fram í fyrir fólki í tíma og ótíma og krydda öll viðtöl sín með virðingarleysi fyrir viðmælendunum.

Aftur á móti var ég frekar hrifinn af nýja/gamla DV, þeir snertu á ýmsu sem mér þótti vanta uppá í íslensku fjölmiðlaflórunni. Mér virðist fall DV hafa stafað af því að þeir urðu hreinlega allt of uppteknir af eigin útlagahlutverki.

Dynamic sagði...

Veistu, þetta er með ömurlegri bakþönkum sem ég hef lesið. það er greinilegt að maðurinn sem þú hefur verið að tala um í bakþönkum, hann sindri, er að færa góð og gild rök fyrir skoðunum sínum og ef hann er á móti hugsjónasala, sem gerðist svo ógeðslegur að hórast í tryggingafyrirtæki og færir rök fyrir því, hvað er þá að því? ef þú myndir gefa þér smá tíma til þess að lesa tölublöð grapevine í heild, myndir þú sjá margar góðar gagnrýnir eftir umræddan dreng, t.d. um le poulet du romance og ekkium. það virðast því miður allir í þessu drullukuntu bananalýðveldi vera of uppteknir af því hvað menn eru búnir að gera margar plötur í stað þess að líta á gæði þeirra. í guðs bænum prófarkalesið þetta komment! annars veit ég ekki hvað ég geri.

Nafnlaus sagði...

Hvar hefur Sindri sett fram góð rök? Mér þætti gaman að lesa þau. Og þegar ég segi góð rök þá á ég við texta sem er ekki uppfullur af orðum eins og "heimska fífl" og "sæðissuga".

Hjörtur Howser sagði...

Nú eða "drullukuntu bananalýðveldi"?
Það er synd hve margir vaða í þeirri villu að stór og frekjuleg orð hafi meiri mátt. Sindri greyið er "drullu" pikk fastur með "horfylltan" hausinn á sér á bólakafi í þeim "rotna fjóshaug". Og margir vinir hans líka, að því er virðist. Synd og skömm með þessa kynslóð sem svo miklar vonir voru bundnar við.

Nafnlaus sagði...

Iss, þessir gæjar eru allir úr osti hvort eð er.

Davíð Þór sagði...

Hó! Hver var að tala um Sindra? Af hverju er það sjálfgefið að fólk sem er alltaf í fýlu þurfi að heita Sindri?

Nafnlaus sagði...

Segja þær væntingar ekki allt sem segja þarf?

Nafnlaus sagði...

DV er óttalegur drullupési. Skánaði samt smá þegar það fór að koma út bara um helgar. Annars var DV fínasta dagblað áður en Illugi Jökulsson og félagar eiðilögði það með skítlegri ritstjórnarstefnu sem svo síðar endaði með því að maður framdi sjálfsmorð. Held að Dv muni alltaf verða annálað skítablað sökum þessa, sama hver ritstjórnarsefna blaðsins mun verða. Sorrí blaðið er komið með skítastimpil.