
Ég ætlaði loksins að láta að því verða að kaupa mér nýjan síma í stað þess hálfbilaða sem Þórunn Gréta lánaði mér eftir að minn blotnaði og varð ónothæfur. (Hálfbilaður merkir að það er hægt að nota hann til alls nema að senda SMS. Hver takki getur aðeins skrifað staf númer tvö í vali. Davíð verður þannig "Ebuhe" sem enginn skilur auðvitað.) Mér til mikillar gremju kom hins vegar í ljós að verslun Símans við Laugaveg hefur verið lokað og er viðskiptavinum bent á verslanir Símans í Ármúla, Kringlunni eða Smáralind. Ég bý í miðborg Reykjavíkur, en ef ég ætla að kaupa mér farsíma verð ég að fara upp í eitthvað iðnaðarhverfi eða verslanaklasa í úthverfi. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirtæki á borð við sjálfan Símann eigi að sjá sóma sinn í að vera sýnilegt í miðborginni, mér finnst það nánast siðferðileg skylda þess. Hvaða fyrirtæki með sjálfsvirðingu er bara með útibú í Kringlunni, Smáralind og Ármúla?
Ég man að ekki alls fyrir löngu kom upp einhver umræða um að styrkja verslun við Laugaveginn í sessi og virtust allir vera á einu máli um nauðsyn þess. Samt sem áður var biðröð langt út á plan fyrir utan BT í Skeifunni þar sem fólk beið í klukkustund af því að þar var hægt að kaupa Hringadróttinssöguspilið fimmtánhundruð krónum ódýrara en Hjá Magna – þar sem varla sást kjaftur.
Orð eru ódýr – verkin tala. Klasa-og úthverfavæðing Íslendinga virðist vera komin á það stig að núorðið sé auðveldara að selja farsíma uppi í Ármúla en við Laugaveginn. Heimur versnandi fer.