þriðjudagur, apríl 06, 2010

Utan af landi

Konan mín er utan af landi en ekki ég. Þótt þetta valdi ekki oft misskilningi á heimilinu getur þó einstaka sinnum komið fyrir að menningarlegur bakgrunnur okkar er of ólíkur til að samstundis sé fyllilega ljóst hvað átt er við með sama orðalaginu. Til dæmis stakk konan mín upp á því við mig um daginn að við færum og kíktum á gosið þegar veður væri heppilegt til þess. Þetta leist mér vel á og samþykkti ég hugmyndina samstundis. Þegar farið var að ræða ferðatilhögunina ítarlegar kom aftur á móti í ljós að það að „kíkja á gosið“ hafði ekki sömu merkingu í huga okkar beggja. Ég sá fyrir mér bíltúr út á Kambabrún til að athuga hvort við sæjum gosstrókinn bera við himin, hún sá fyrir sér göngu á Fimmvörðuháls.

Til að flækja málin enn meir þá heyrðist henni ég segja „Klambratún“ þegar ég sagði „Kambabrún“. Eftir að hún hafði þusað heillengi um höfuðborgarhyski sem bæri ekkert skynbragð á vegalengdir og víðáttur landsins okkar tókst þó að leiðrétta þann misskilning. Að vísu sárnaði mér dálítið að konan mín skyldi álíta mig svo veruleikafirrtan Reykjavíkurplebba að ég teldi mér virkilega trú um að líklegra væri að sjá gosið af Klambratúninu en héðan af Hjarðarhaganum. Henni þótti það aftur á móti ekkert ótrúlegt að reykvískum miðborgarrottum fyndust þær vera komnar langleiðina út á land þegar þær væru komnar vestan úr bæ alla leið á Klambratúnið og að þar kynni jafnvel gosið í Eyjafjallajökli að bera fyrir augu þeirra.

Það verður að viðurkennast að hugmyndin um langar gönguferðir um óbyggðir vekur með okkur mjög ólík hughrif. Ég á í raun erfitt með að lýsa því með orðum hve mér finnst tilhugsunin um að ganga tímunum saman yfir móa og grjót til þess eins að sjá móa og grjót, sem er alveg eins og móinn og grjótið þar sem við lögðum bílnum, lítið heillandi. Ef vegurinn hefði verið lagður þar hefðum við lagt bílnum þar og gengið þaðan til að sjá móann og grjótið þar sem við lögðum af stað og fundist hann miklu merkilegri en móinn og grjótið sem ferðinni var heitið að sjá.

En samband byggir á því að gefa og þiggja og þess vegna læt ég mig hafa það einu sinni til tvisvar á sumri að þramma eitthvert út í bláinn í fylgd konu minnar. Og þegar heim er komið er ég nú reyndar yfirleitt mjög ánægður. Tilhugsunin um ferðina reynist einatt mun kvíðavænlegri en ferðin sjálf.

Bakþankar í Fréttablaðinu 3. 4. 2010

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll, takk fyrir þennan pistil (og alla hina líka auðvitað). Oft hef ég verið þér sammála en sjaldan eins og nú varðandi móann og grjótið. Eins og talað út úr mínu hjarta. (Svo er líka nokkuð til í þessu með tilhugsunina versus upplifunina. En það viðurkenni ég auðvitað helst ekki :p) Kv. Solveig