föstudagur, september 19, 2008

Er heimurinn orðinn hundleiðinlegur ...

... eða er fréttamat fjölmiðla bara orðið svona hræðilega óáhugavert? Ég var að myndast við að hlusta á útvarpsfréttir áðan og það eina sem var í fréttum voru vogunarsjóðir, fasteignalánasjóðir, verðbréf, kauphallir og gengi hlutabréfa og gjaldmiðla. Síðan komu íþróttafréttir og þá var sagt frá golfi! Þetta var semsagt það sem gerðist í dag: Fólk keypti og seldi með þeim afleiðingum að verðmæti hins og þessa fór ýmist upp eða niður - og svo var farið í golf. Hvergi urðu pólitískar sviptingar, hvergi var blásið í ófriðarelda, hvergi varð eilítið friðsamlegra umhorfs og ekkert átti sér stað í menningar- eða listalífinu. Það var ekki einu sinni farið í fótbolta!
Ég man þá tíð að maður þurfti ekki að berjast við að halda sér vakandi yfir kvöldfréttunum. Þá voru sagðar fréttir af fólki sem ekki sat á rassinum í jakkafötum allan daginn og stundaði íþróttir þar sem hlegið hefði verið að mönnum fyrir að mæta til leiks í prjónavesti. Heimur versnandi fer.

1 ummæli:

spritti sagði...

Heimurinn hefur alltaf verið hundleiðinlegur.