laugardagur, maí 03, 2008

Dans um stræti og torg

(Ivy Jo Hunter/William Stevenson/Marvin Gayeísl. þýð.: Davíð Þór Jónsson)

Hrópum allan heiminn á:
„Viltu heyra alveg nýjan brag?“
Um stræti'og götur glymur þá
tær gleði nótt og dag.

Látum borgarbúa
bæði'og dreifara
bökum saman snúa.

Ljúfir ómar líða mjög víða,
um laut og dal og fjörð.
Nú skal þeyta skífur, skaka bífur,
skrall um alla jörð. Ó!

Í spjarir þeirra spáð ei er
sem í sprellið skila sér.
Og því skal halur hver hrífa sprund
um heimsins alla koppagrund.
Enda dunar
dans um stræti'og torg.

Og í hófið kalla skal heimsbyggð alla
svo hljómi borg úr borg.
Látum hamingjuna fossa, funa
og flæða'um stræti'og torg.

Austur á Egilsstöðum,
á Ólafsvík og á Hlöðum,
í Keflavík og Kópavogi
kyndill stuðsins logi,
á Bíldu- og Búðardal
brjála lýðinn skal.

Ljúfir ómar líða mjög víða,
um laut og dal og fjörð.
Nú skal þeyta skífur, skaka bífur,
skrall um alla jörð. Ó!

Í spjarir þeirra spáð ei er
sem í sprellið skila sér.
Og því skal halur hver hrífa sprund
um heimsins alla koppagrund.
Enda dunar
dans um stræti'og torg.

4 ummæli:

kerling í koti sagði...

Bara ein spurning.
Hvar mun þessi snilld svo hljóma?

Davíð Þór sagði...

Hún mun bara hljóma næst þegar einhver hefur áhuga á að syngja íslenskan texta við þetta skemmtilega lag. Þetta var ekki samið af neinu sérstöku tilefni. Það tók sig bara upp "Þorsteins Eggertssonar heilkenni" hjá mér þegar ég var að keyra um landið fyrir skömmu. Þetta er ekki verri hugarleikfimi en hvað annað.

Sigga sagði...

Hvaða staði gæti maður hrópað þarna í upphafi? "Ókei, Reykjavík! Ísafjarðarbær! Akureyri! Vík! Skagaströnd! Blönduós! Borgarneees!" Það er mín tillaga.

Nafnlaus sagði...

Frábær þýðing. Þú kannt sannarlega að gefa orðum annara líf. :) Bestu kveðjur frá Stokkhólmi. Baldur Baldursson