miðvikudagur, júní 02, 2010

Um andfeminísk viðhorf mín

Ég hef þrisvar sinnum gengið til liðs við framboð með þeim hætti að bjóða fram aðstoð mína í sjálfboðavinnu. Í öll skiptin var það vegna þess að ég hafði trú á einstaklingunum sem voru þar í forsvari og vildi fá að leggja meira af mörkum en bara atkvæðið mitt.
Fyrst þegar það gerðist hafði ég reyndar ekki einu sinni kosningarétt. Það var árið 1980, ég var fimmtán ára og Vigdís Finnbogadóttir var í forsetaframboði. Mér fannst hún langglæsilegasti frambjóðandinn og ég studdi hana með ráðum og dáð. Það gerði pabbi líka. Mamma studdi Pétur og Danni bróðir, sem þá var 9 ára, studdi Guðlaug. Ég vona að ég sé ekki að afhjúpa fjölskylduleyndarmál með þessu. Á kjördag stóð ég því í kaffiuppáhellingum og vöfflubakstri í kosningakaffi Vigdísar í Gúttó í Hafnarfirði. Hún kom í heimsókn og áritaði „Veljum Vigdísi“ límmiða fyrir mig sem lengi hékk innrammaður uppi á vegg í herberginu mínu.
Árið 1994 var eins og flokkakerfið væri í uppstokkun og margt ungt félagshyggjufólk átti sér draum um sameiningu. Mér er sérstaklega minnistætt að eftir að hafa starfað með Röskvu í Háskólanum, þar sem eining og samstaða ríktu, skyldi ég hitta félaga mína af þeim vettvangi í Háskólabíói þar sem þeir voru að dreifa kosningaáróðri fyrir þrjá stjórnmálaflokka. Mér fannst sárgrætilegt að við skyldum ekki geta unnið saman á landsvísu líka. Þegar leið að borgarstjórnarkosningum og vinur minn, Helgi Hjörvar, sagði mér að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gæti hugsað sér að leiða sameiginlegt framboð þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um. Þegar R-listinn varð til mætti ég því gallvaskur og eyddi nokkrum dögum í að ganga í hús með bæklinga og blöð.
Haustið 1994, að mig minnir, varð Þjóðvaki líka til. Mér fannst það tilraun til sameiningar á landsvísu að fyrirmynd R-listans, ekki síst í ljósi þess að listann leiddu frambærilegustu einstaklingarnir úr flokkunum sem mér fannst að ættu að vinna saman. Auðvitað var það þó oddvitinn, heiðarlegasti og einarðasti stjórnmálamaður þess tíma, Jóhanna Sigurðardóttir, sem réði úrslitum um stuðning minn. Ég skipulagði því tónleika vítt og breitt um Reykjavík á vegum Þjóðvaka þar sem ungar hljómsveitir fengu tækifæri til að sýna sig og frambjóðendur flokksins fengu tækifæri til að hitta unga kjósendur. Í þetta eyddi ég nokkrum dögum af lífi mínu.
Reyndar er ég að gleyma allri sjálfboðavinnu minni fyrir VG árin 1997 – 2004, en þá var það eiginlega eiginmannsskylda mín að leggja eitthvað af mörkum. En, vel á minnst, þá þjónaði framlag mitt líka þeim tilgangi að styðja efnilegan stjórnmálamann, núverandi menntamálaráðherra.
Ég er nú bara að rifja þetta upp vegna þess að ég hef verið vændur um að vera ekki mikill feminsti. Ekki veit ég hve mikill feministi ég er, ég læt lesendum eftir að meta það út frá verkum mínum. En þegar ég hef gefið tíma minn og vinnu í að afla framboðum fylgis hefur það undantekningalaust verið til að koma konum til valda.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er þá ekki akkúrat tilganginum náð hjá öfga-femínistunum ;-)
Að sjálfsögðu er þetta tvíbent, og ber maður virðingu fyrir fólki með hugsjónum. Aftur á móti verður ekki undan því hlaupist að femíninismi eins og hann er skilgreindur hjá flestum sem eru í grasrótarsamtökum er mjög öfgakenndur, í þeirri skilgreiningu að hugur fylgir oft ekki máli, og þröngsýnin er allsráðandi.
Reynar er "femínismi" eins og hann er presenteraður í dag miklu meira nálægt nettum "anarkisma/fasisma". Þetta er búin að vera þróun í all-nokkurn tíma. Það er alltaf þannig með öfga að þegar fólk fer að af stað í vegferð með öfga(ekki beint róttæklingar), þá verður aldrei neitt nógu gott, og öfgarnir verða bara meiri og meiri, alvega sama hvað er gert til að "þjónkast" þessum hópi. Þetta er eins og fíkniefni(ef við höldum þeirri þreyttu samlíkingu gangandi), þá ef þau fá einn skammtinn uppfylltan þá er löngunin í næsta of freistandi.
Reyndar er "femínismi" í dag ekki hugsjón. Þetta er hugjsónarsýndarmennska, nánast massíf hagsmunagæsla þröngs hóps, sem afbakar og slær sér endalaust upp til riddara á kostnað samfélagsins.
Guðmundur

kerling í koti sagði...

Góður pistill. Þarf reyndar að gera eina litla athugasemd. Það er rétt að lengst af fannst mér Pétur álitlegastur frambjóðenda til forseta á þessum tíma. Ástæða þess að ég studdi ekki Vigdísi, þrátt fyrir að ég sé einlægur jafnréttissinni, er sú að mér ofbauð persónudýrkunin sem mér fannst áberandi hjá vinkonum mínum. Líka fannst mér Vigdís ekki samnefnari fyrir íslenskar konur og hafði ekki að mínu mati þurft að reka sig á ýmsa veggi og glerþök og síst af öllu fannst mér hún dæmigerð einstæð móðir. Hitt er svo annað mál að það endaði með því að ég kaus Vigdísi vegna þess að daginn fyrir kosningarnar var ég í fjölskylduboði og þar ofbauð mér hvernig kynsystur mínar töluðu um Vigdísi án þess að geta rökstutt orð sín. "Það er bara svona," var svarið þegar ég bað um frekari rökstuðning. Og auðvitað vann Vigdís hug og hjörtu landsmanna fljótlega eftir kjörið, líka fyrrnefndra kvenna.

Nafnlaus sagði...

hhmmm,
Þetta er undarlega athugasemd sem ég hef lesið. Þú ætlaðir ekki að kjósa Vigdísi, vegna þess að þér fannst hún persónudýrkunin vera of mikil, og að hún væri ekki "týpísk" einstæð móðir. Síðan ákveður þú að kjósa hana vegna þess að einhverjir aðrir gátu ekki rökstutt hvers vegna þeim leist ekki á hana(kannski að þeim hafi litist betur á aðra), og í framhaldi af því kýst þú hana..........vá, þvílíka dellu hef ég aldrei heyrt áður!!!

eva hauksdóttir sagði...

Það er enginn sérstakur stuðningur við baráttu feminista að kjósa konur. Enginn þeirra kvenna sem þú nefnir hefur verið sérstakur talsmaður þeirra viðhorfa sem helst einkenna yfirlýsta femínista.

Nafnlaus sagði...

Þessi pólitíska rétthugsun sem er búið að tröllríða vesturlöndum síðustu ár er löngu komið út úr böndunum. Það má ekki lengur segja skoðanir sínar án þess að vera vændur við rasisma, femínisma, antí-femínisma, kynjamisrétti og hvaðeina.
Það kemur í veg fyrir að einstaklingar myndi sér skoðanir og tali um þær því þeir eru of hræddir um að vera stimplaðir hitt og þetta.

Femínismi er asnalegt hugtak og ættu því fólk frekar að huga að jafnrétti, líka á hinn veginn.

kv. Sævar

spritti sagði...

Sammála síðasta ræðumanni.