þriðjudagur, júní 01, 2010

Það sem Vinstrigræn fatta ekki

Viðbrögð einnar ónefndrar ungvinstrigrænnar fésbókarvinkonu minnar við hruninu á fylgi flokksins í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík sl. laugardag voru í því fólgin að lýsa því yfir í stöðunni sinni að hún væri hrifnari af sóleyjum en fíflum. Við þessu er í sjálfu sér ekkert að segja, hver hefur rétt til að vera haldinn eins flokksblindri sjálfsréttlætingu og hann kýs. En ég fékk það nánast á tilfininguna að á kosningaskrifstofu VG hljóti að vera töfraspegill sem með reglulegu millibili er spurður: „Spegill, spegill, herm þú mér / hvaða flokkur bestur er.“ Vitaskuld getur svar spegilsins aðeins verið í því fólgið að spegla það sem honum er sýnt. Komi svo í ljós að flokkurinn fari úr 13,5% fylgi niður í 7%, þá hafa einfaldlega 93% kjósenda rangt fyrir sér. Spegillinn sagði þeim það. Spegillinn sagði þeim alla vega ekki að oddvitinn þeirra hefði hrakið helming kjósenda frá flokknum. Ástæðunnar hlýtur því að vera að leita í því hvað kjósendur eru mikil fífl.
Á kosninganóttina sagði önnur ungvinstrigræn vinkona mér að henni þætti sorglegt að Sóleyju skyldi vera refsað á þennan hátt fyrir að vera feministi. Ég hef fréttir handa henni. Sóley var ekki refsað fyrir að vera feministi. Flokknum var refsað fyrir að velja sér oddvita sem ófær er um annað en að leggja einatt, með þindarlausu offorsi, kvenpíslarvætti og helmingaskipti kynjanna að jöfnu við kvenfrelsi og afgreiða, eins og hún eigi persónulega einkarétt á hugtakinu, alla aðra túlkun feminisma sem ranga. Önnur túlkun sést nefnilega ekki í töfraspeglinum hennar. Þetta er því eins og að segja að þeir sem ekki fíli kæsta skötu hljóti að hata sjávarfang. Halló! Það er ekki sjórinn sem er vandamálið. Það er fnykurinn.
Svo sanngirni sé gætt er þó rétt að benda á að ekki aðeins Vinstrigrænum var refsað í Reykjavík. Úrslit kosninganna í heild voru áfellisdómur kjósenda yfir íslenskum sjórnmálum. Allir hefðbundnir sjórnmálaflokkar fengu á baukinn. Í Hafnarfirði, þar sem fjórflokkurinn var einn í framboði, kaus ríflega þriðjungur kjósenda að sitja heima og af þeim sem mættu á kjörstað kusu 14,6% að skila auðu, 130 kjósendum meira en kusu VG. Kjósendur ældu á fjórflokkinn.
Önnur villa sem vinstrigræn eru haldin er sú að þeir séu ekki hluti af fjórflokknum. Fjórflokkurinn sé ekki til, hann sé illgjörn lygi andstæðinga VG til að draga þá ofan í svaðið með hinum flokkunum. VG hafði engin völd, kom ekki að hruninu og er því að mati þeirra gersamlega „stikkfrí“ frá allri ábyrgð á þeim hörmungum sem flokksræðið á Íslandi leiddi yfir þjóðina. Þetta er alrangt. Fjórflokkurinn er staðreynd sem verið hefur við lýði á Íslandi, með litlum breytingum, eins lengi og ég man, þótt hann hafi vissulega að ytra formi tekið breytingum með tilfærslu einstaklinga, nafnabreytingum og kennitöluflakki stjórnmálahreyfinga þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag urðu að Samfylkingu og VG. VG er óaðskiljanlegur og innmúraður hluti af kerfinu sem kjósendur höfnuðu. Það að VG hafi ekki haft nein völd breytir engu um það. Kerfið gerði aldrei ráð fyrir því að þeir hefðu nein völd hvort sem er, nema í stutta stund í einu á meðan hinir flokkarnir þurfa frí til að gróa sára sinna. Og kerfið er að virka.
VG er nefnilega eins og matrixið við hliðina á matrixinu, sérútbúið fyrir þá sem verða að hafa það á tilfinningunni að þeir séu ekki í matrixi. Þeir eru frávikið sem tölfræðin gerir ráð fyrir og tekur með í reikninginn. Þeir eru lopapeysuhippahólfið í kerfinu sem þjónar þeim tilgangi að þeir sem eru á móti kerfinu geti verið hluti af því án þess að fatta það. Þótt þeir hafi ekki haft völd breytir það engu um þá staðreynd að í aðdraganda hrunsins stuðluðu þau staðfastlega að áframhaldandi stöðugleika kerfisins, með því að sýna að innan þess rúmast víst áhyggjur af litnum á ábreiðunum á fæðingardeildinni, súludansi í Kópavogi og skorti á nýjum og framsæknum hugmyndum um list í opinberu rými. Þeir voru því alveg jafnmiklir leikarar í hildarleiknum og allir hinir, þótt þeim hafi verið tæpkastað í hlutverk fíflsins.
Niðurstaða kosninganna er ekki sú að kjósendur sé andfeminískir kvenhatarar. Niðurstaðan er ekki heldur sú að fólk flykki sér um leikara og poppstjörnur án þess að vita fyrir hvað þær standi. Fólk veit af biturri reynslu fyrir hvað kerfið stendur og kaus því hvað sem er annað, í trausti þess að hvað svo sem hið óþekkta standi fyrir hljóti það að vera skárra, þótt ekki nema sé vegna þess að með því er kerfinu sagt stríð á hendur. Og vinstrigræn geta ekki þvegið hendur sínar af aðildinni að kerfinu.
Góðu fréttirnar eru auðvitað þær að í Reykjavík nýtur hin nytsama lækninga- og matjurt fífilllinn fimmfalt meiri vinælda en litfagra illgresið sóley. Og það er ekki vegna þess að kjósendur séu fífl. Fíflið hlýtur að vera sá sem var allsendis ónæmur á hina þungu undiröldu í þjóðfélaginu og klórar sér svo í hausnum eftir á, gjörsamlega orðlaus af forundran yfir því að fólk skuli ekki taka mark á töfraspeglinum hans.

20 ummæli:

Unknown sagði...

Heyr, heyr,
Davíð ég öfunda þig af pennafærni og innsæi þínu. Les bloggið þitt reglulega og finnst það með því besta sem gerist.
Kv.
Barbara Ósk

Nafnlaus sagði...

"Þetta er því eins og að segja að þeir sem ekki fíli kæsta skötu hljóti að hata sjávarfang. Halló! Það er ekki sjórinn sem er vandamálið. Það er fnykurinn."


mér finnst þetta vera þræl fyndið og vel orðað :)

kv Loori.

Guðmundur Brynjólfsson sagði...

Algjörlega frábær greining hjá þér, félagi Davíð.
Ég tek undir hvert orð NEMA þetta með að það sé fnykur af skötu - hér fellurðu í pólitískt ofstæki!

Kv,
Guðmundur Brynjólfsson

Nafnlaus sagði...

Klárlega besta greiningin á kosningunum sem ég hef lesið. Takk fyrir.

Einar Maack sagði...

Þetta er alveg frábær greining. 100% sammála.

Nafnlaus sagði...

Manni liggur við að segja að þetta er allt of góð greining og texti til að vera saminn á vettvangi bloggara!!
Hafsteinn

Nafnlaus sagði...

Hér kemur kurteisleg athugasemd. Er ekki full djúpt í árinni tekið að segja: "... og (fólk) kaus því hvað sem er annað ... (en hefðbundna flokka)". Þrátt fyrir allt kusu nær 65% í Reykjavík hefðbundna stjórnmálaflokka og höfnuðu með því grínframboðinu. Sigur Besta flokksins er ekkert minni, þó menn oftúlki ekki niðurstöðurnar.

Nafnlaus sagði...

Þetta lýsir fyrst og fremst ótrúlegum hroka ákveðinna einstaklinga innan VG. Forsjárhyggjan í þeim sem kemur fram í að skipta sér af lífi fólks með boðum og bönnum er líka ein birtingarmynd þessa hroka. Það vantar alla auðmýkt og virðingu fyrir öðrum skoðunum...

Andrés sagði...

Ég er svo svakalega sammála þér, ég vildi bara óska að ég væri nógu góður penni til að koma þessari hugsun svona vel frá mér.

Skál fyrir þér Davíð.

Nafnlaus sagði...

Þú ert snillingur Davíð!
Verst að þú varst ekki í framboði fyrir Besta flokkinn, eða varstu það kannski?

Unknown sagði...

Hvar hefur Sóley Tómasdóttir farið fram með þindarlausu offorsi?

Þú þarft að rökstyðja fullyrðingar þínar betur. Sjálfur hefurðu hingað til ekki verið álitinn mikill femínisti, eða hvað?

Nafnlaus sagði...

Það er skemmtilegt að sjá meðlim í stjórnmálaafli sem er tilbúinn að skoða málin og mynda sér skoðun. Með því er ég ekki að halda því fram að þeir sem séu ánægðir með vinstri græna og þeirra útspil skoði ekki málin. En það er augljósara þegar lýst er andstæðum skoðunum við ríkjandi stefnu. Ég er sammála þessari greiningu að mestu leyti. Hins vegar tel ég að frekari skýringu megi finna á þessari útreið flokksins. Hún sé algjört getuleysi og svik loforða VG í ríkisstjórn. Stjórnmálamenn eru þekktir fyrir að svíkja loforð og engan þarf að undra að slíkt komi upp. Steingrímur hlýtur að hafa slegið einhver hraðamet í svikum, þegar hann myndaði ríkisstjórn með Samfylkingu og sveik öll helstu grundvallarmálefni VG, þá mest áberandi stenfa í Icesave og ESB. Þekki ég ófáa sem kusu VG eingöngu til að forðast inngöngu í ESB, það sýður á þeim mönnum nú í dag. Þess ber þó að geta að þeir aðhylltust ekki þá né nú stefnu VG en töldu að betra að leyfa forsjárhyggju að lemja á sér og halda sjálfstæðinu. Forsjárhyggjan hefur ekki leynt sér en sjálfstæðið er ekki í minni hættu en áður.

StashDiva sagði...

Góður pistill, mér finnst nefnilega fórnarlamba feminismi sá sem Sóley of stöllur hennar standa fyrir vera þannig að ég get ekki skrifað undir hann.
Ég tek fram að ég er kona, hef stundað nám í kynjafræði og mér hefur gengið vel á vinnumarkaði, þannig að ég hef séð ansi margar hliðar á þessum málum.
Ef jafnrétti á að ríkja þá þarf líka að skoða hvaða ofbeldi konur beita t.d. en það er eitt af því sem á helst alls ekki að tala um. Ef einhver gerði sér nú ferð inn á súlustað þá sæu þær auma sjón, karlmenn sem eiga ekki séns í eitt eða neitt féfletta af dansmeyjunum í von um að þær líti náðasamlegast á þá. Ég hef meira að segja rætt við þó nokkrar af þessum dansmeyjum og þeim ber saman um að þetta sé ágætis djobb sem gefi vel af sér.

Hallveig sagði...

Hallelúja! Satt og rétt!

Nafnlaus sagði...

Hvað er svona slæmt við "helmingaskipti kynjanna"? Ert þú á móti því að konur deili áhrifum og völdum til jafns við karla? Eða að karlar njóti samvista við fjölskyldu og fjölskylduábyrgðar til jafns við konur?

Unknown sagði...

Til "Nafnlauss" hérna fyrir ofan:


"helmingaskipti kynjanna" eru í andstöðu við jafnan rétt þegnana.


Skoðaðu hvernig "hlutfallaskipting kynþátta" í Suður Afríku hefur leikið fyrirtækin og þjóðfélagið í heild.

Hvar ætlar þú að finna þúsundur kvenna á Íslandi sem þekkja til fyrirtækjareksturs, hvað þá sem eru samkeppnisfærar ?

Nafnlaus sagði...

Ég skil ekki hvernig helmingaskipti kynja á að segja til um hvort Davíð er á móti því að konur hafi áhrif og völd jafnt á við karla. Helmingaskipti er skref aftur á bak í baráttunni um jafnrétti, hæfasti einstaklingurinn á að vera valinn til að sinna starfinu sem hann sækir um í hvert skipti. Kyn á ekki að hafa nein áhrif. Að leiða það inn tekur örugglega lengri tíma en að skipta stöðum upp eftir kynjahlutfalli, en þá er þetta allavega gert rétt.

Davíð Þór sagði...

Ég hef tjáð mig um helmingaskipti kynjanna áður: http://deetheejay.blogspot.com/2008/09/minnisvarar-og-millmetrafemnismi.html

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill. Takk.

Snowfox sagði...

Frábær pistill.

Feministar virðast gleyma því yfirleitt að karlmenn eiga allir eða hafa átt mæður, við eigum margir eiginkonur og ansi margir dætur. Ég á sjálfur tvær dætur og vill þeirra veg sem mestan eins og foreldra er siður en guð forði þeim frá svona ofstækisfemisma sem virðist ganga út á að hafa vit fyrir konum því þær eru of veiklyndar til að taka ákvarðanir sjálfar (eða það virðist mér vera línan hjá þessu fólki).

Svo er þessi óþolandi árátta fyrir boðum og bönnum á alla kanta komin langt út fyrir velsæmismörk.