fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Áskorun til íslenskra hönnuða

Reykingar eru ósiður sem ætti að leggja niður. Þetta vita allir. Þær eru ofboðslega óhollar og skaðlegar samfélaginu. Samt reykir fjöldi manna, sífellt færri að vísu, en dágóður hopur samt. Ýmsar aðferðir hafa verið fundnar upp til að hjálpa fólki að hætta að reykja. Margar þeirra eru eru í því fólgnar að aðeins reykingunum sjálfum er hætt – ekki er sigrast á nikótínfíkninni sem slíkri. Undir þetta flokkast nikótínplástrar, tyggjó og nikótínsoghólkar.
Mín tilfinning er sú að þeir, sem setja þessi ósköp á markaðinn, hafi hins vegar brugðist þeirri skyldu sinni að kynna sér hugarfar og sjálfsmynd markhópsins, þ.e. reykingamanna, og því sé árangurinn af erfiði þeirra minni en hann gæti verið.
Staðreyndin er sú að við reykingamenn eru hégómlegir. Við byrjum að reykja af því að okkur finnst það töff, ekki af því að okkur finnist það gott. Það kostar mikinn sjálfsaga og jafnvel sjálfspíslir að koma sér upp nikótínfíkn. Sígarettan, vindillinn eða pípan verður þannig að leikmun (propsi) eða því sem tískuhönnuðir kalla „accessorie“ sem þjónar þeim tilgangi að skapa ímynd, segja það um reykingamanninn sem hann vill að fólk haldi um sig.
Pípureykingamenn eru flokkur út af fyrir sig. Pípureykingamaður veltir því gaumgæfilega fyrir sér hvernig pípu hann eigi að fá sér. Pípan verður að ríma við „karakter“ hans. Hann dundar sér við það að hreinsa hana og skafa, troða í hana og púa. Pípureykingamaður sem ekki hefur stillt sér upp fyrir framan spegil með pípuna sína í kjaftinum til að gá hvernig hann tekur sig út með hana er jafnfáséður og gleraugnaglámur sem ekki skoðar sjálfan sig í spegli með gleraugun á nefinu áður en hann festir kaup á þeim.
Þess vegna er það með öllu ofvaxið mínum skilningi að framleiðendur nikótinsoghólka skuli láta sér detta það í hug ófullir að nokkur reykingamaður með sjálfsvirðingu vilji láta sjá sig opinberlega með þessi plasthylki uppi í sér. Það er akkúrat ekki neitt töff við þau. Þetta er úr hvítu sjúkrahúsplasti og líkist einhverju sem rifið er úr sótthreinsuðum pappírsumbúðum í Blóðbankanum, ekki handverki eða hönnun sem keypt er af lista- eða handverksmanni eða stimamjúkum eiganda notalegrar, persónulegrar tóbaksbúðar á borð við Björk og fjölda verslana í útlöndum. Að vera með nikótínsoghólk í kjaftinum er jafn töff og að vera með næringu í æð.
Samt er þetta sáraeinfalt tæki. Þetta er bara rör með hólfi sem nikótínhylkið smellur í þannig að innisigli rofnar með þeim afleiðingum að loft sem dregið er í gegn um rörið blandast nikótíninu. Þetta eru engin geimvísindi.
Af hverju hefur þá engum dottið í hug að framleiða hólka fyrir þessi hylki sem eru dálítið smartir. Af hverju eru þeir ekki til langir og stuttir, beinir og bognir, úr leðri, roði, bambus og harðviði, útskornir og mynstraðir? Af hverju get ég ekki sett nikótínhylkið mitt í eitthvað „accessorie“ sem ég get verið svolítið ánægður með heldur bara í sjúkrahúshvítt plasthylki sem lætur mig líta út eins og asma- eða langlegusjúkling?
Ég skora á íslenska hönnuði og handverksmenn að ráða bót á þessu. Þannig geta þeir lagt sitt af mörkum til baráttunnar við þann heilbrigðisvanda sem tóbaksreykingar eru. Þannig geta reykingamenn lagt sígarettuna, vindilinn eða pípuna á hilluna og svalað nikótínfíkninni með vönduðum hlut sem þeim getur þótt vænt um, sem svalar að einhverju leyti hégómleik þeirra og þeim finnst vera í stíl við þann „karakter“ sem þeir vilja sýna umheiminum. Það „accessorizar“ enginn með þeim soghólkum sem nú eru í boði.

5 ummæli:

Birgir Baldursson sagði...

E-sígó og e-pípur eru eina raunverulega lausnin sem í boði er.

Tinna Gígja sagði...

En var ekki eitthvað vesen með að fá að flytja e-retturnar inn? Minnir að Siggi Hólm hafi verið að reyna það, en ekki fengið...

spritti sagði...

Það er ekki nema ein leið til að hætta að reykja og það er að reykja ekki. Það virkaði hjá mér.

ill Brilla sagði...

Þú líkir þessu sem jafn töff og að "vera með næringu í æð", en það er spurning hvort það sé ekki líka töff?
Sem Barn þá dró ég mínar hugmyndir um "hvað sé töff" út frá tónlistarmönnunum í hljómsveitinni KoRn og öðrum slíkum karakterum. En svo fór ég á KoRn tónleikana árið 2004 og tók eftir því að feitabollan Jonathan Davis andaði reglulega að sér úr súrefnisgrímu.. og samkvæmt hugmyndum mínum sem barn þá flokkast það undir "töff".

... og Hvað með Grunge "ídolið" Kurt Cobain.. Honum tókst að gera sprautur töff ...

læknadót ýtir bara undir heroin cheek týpuna.


En þetta með hégóman er samt alveg satt, áróðurinn "flýtir fyrir öldrun húðar" virkar best gagnvart gúmmí töffurum (ég hef þessar heimildir frá "THE" gúmmí töffara alheimsins Dave Navarro).

Sjálfur byrjaði ég að reykja vegna þess að ég var alltaf fullur og fannst tóbakið gott ofan í vímuna, en ekki vegna þess að mér þætti það töff.... hinsvegar byrjaði ég að vera alltaf fullur út af þessum "Töff" rokkara fyrirmyndum. (Pabbi hefði aldrei átt að láta mig hlusta á Hendrix)

Áhugavert að eina fíknin sem ég bað ekki um sjálfur er sú eina sem er eftir í lífi mínu (tóbak)..

ps. Ætla að hætta á þessu ári,..

ill Brilla sagði...

Ég er með Meistaragráðu í löngum komentum... Þú sérð það samt ekki á pappírum vegna þess að Bifröst er búið að ógilda gráðuna mína, en ég get samt skráð hana á vefsíðum ef mér þóknast.

-til að fatta þennan brandara þarf að vera meðvitaður um þessa frétt-
http://www.visir.is/article/20100218/FRETTIR01/220099492

(mætti halda að ég væri með gráðu í samtíma fjölmiðlanna)