Orðið „engill“ er myndað af gríska orðinu „angelos“ sem strangt til tekið merkir aðeins „sendiboði“. Það er af sama stofni og orðið „angelion“ sem merkir „frétt“. Með forskeytinu „ev-„ sem merkir „vel“ verður til orðið „evangelion“ sem merkir „gleðifrétt“, en hefð hefur skapast fyrir því að þýða það sem „fagnaðarerindi“.
Einu sinni varð mikið flóð í dal nokkrum. Fólk þusti til kirkjunnar því hún var uppi á hól. Presturinn var guðhræddur og grandvar maður og hann leiddi söfnuðinn í bæn til Guðs um að hann léti flóðinu linna. Þá var kirkjudyrunum hrundið upp og hjálparsveit kom til að bjarga fólkinu. Presturinn harðneitaði þó að láta bjarga sér. „Drottinn er minn hirðir,“ sagði hann. „Mig mun ekkert bresta.“ Hjálparsveitin hélt því leiðar sinnar án hans.
Enn hækkaði vatnið og presturinn varð að príla upp á þak kirkjunnar til að drukkna ekki. Þá bar þar að fólk á flekaskrifli sem það hafði tjaslað saman úr hinu og þessu. Fólkið vildi endilega bjarga prestinum, en hann harðneitaði enn og sagði: „Drottinn bjargar mér. Guð sér um sína.“ Fólkið neyddist því til að skilja hann eftir þarna á þakinu.
Áfram hélt vatnið að hækka og presturinn varð að klifra upp í kirkjuturninn til að drukkna ekki. Hann stóð ofan á krossinum og vatnið náði honum upp í höku þegar björgunarþyrla kom á vettvang. Sigmaður var látinn síga niður eftir prestinum, en hann barðist um á hæl og hnakka og vildi ekki sjá neina björgun. Hann var sannfærður að Guð myndi koma honum til bjargar, bænahiti hans og guðhræðsla væri með svo miklum eindæmum að annað væri óhugsandi. Þyrlan varð því að halda sína leið án hans.
Vatnið hélt áfram að hækka og presturinn drukknaði. Hann fór til himna og gekk á fund Guðs sársvekktur. „Ég hef verið góður og grandvar maður og hagað lífi mínu í einu og öllu eftir fyrirmælum þínum,“ sagði hann við Guð. „Hvers vegna komst þú mér ekki til bjargar þegar ég þarfnaðist þín?“
Guð svaraði á móti sárreiður: „Hvað meinarðu? Ég sendi hjálparsveit eftir þér, ég sendi þér fólk á fleka, ég sendi meira að segja heila björgunarþyrlu. Við hverju bjóstu? Kraftaverki?“
Boðskapur sögunnar er þessi: Ekki bíða eftir kraftaverki. Guð sendir þér engla sína. Ef þú ert með augu og eyru opin, að ekki sé minnst á hjartað, þá þekkirðu þá þegar þeir birtast. Ekki á vængjunum, heldur erindinu.
Bakþankar í Fréttablaðinu 6. 2. 2010
2 ummæli:
Bloggfærsla sem ég þurfti að lesa þar sem ég hef verið að nauða í Guði gegn um bæn að kraftaverk gerist. Þetta var spark í rassgatið. Takk.
Greater Comment:
Góð saga.. Það eru margir trúaðir sem þurfa að átta sig á því að; það að vera "trúaður" er ekki það sama og að vera undirgefinn óskynsemi.. (vantrúaðir þyrftu reyndar líka að átta sig á því).
Lesser Comment:
varðandi kraftaverk.. Þegar ég var krakki í grunnskóla þá steig ég óvart á gleraugu stærsta og versta Níðings skólans í frímínútum og braut þau.
Ég hljóp inn óttasleginn og bað til Guðs um að verða ekki barinn.
Eftir frímínúturnar gekk síðan seggurinn framhjá mér á göngum skólans og ég horfði inn í illugjörn augu hans gegnum gleraugun... Gleraugun sem þá voru allt í einu í fullkomnu ásigkomulagi.
...Ég álykta í dag að ég hafi ekki einu sinni brotið þau upphaflega og aðeins haldið það þegar ég flúði í ótta um að vera barinn, eða að hann hafi einfaldlega átt annað par og ekki þóknast að berja einhvern vegna þess að hann vissi ekki hver hefði brotið þau...
En samt tiltölulega hlý minning.
Skrifa ummæli