Það er erfitt að dæma um hvað séu sanngjörn laun fyrir hina ýmsu vinnu. Hví skyldi rakari þéna meira eða minna en kennari? Er eðlilegt að vörubílstjóri búi í lúxusvillu? Hver eru sanngjörn laun fyrir ráðherra? Í dýrðarríki sósíalismans hafa mennta- og ráðamenn lægstar tekjur, þeirra laun eru starfsánægjan. Þeir hæst launuðu eru verkamennirnir sem vinna erfiðustu störfin sem veita minnsta gleði. Þetta er óneitanlega langt frá því gildismati sem við eigum að venjast.
Um daginn sá ég heimildamynd um efnahagshrunið. Þar sást vörubílstjóri koma heim til sín í glænýtt tvílyft einbýlishús, hlamma sér í breiðan leðursófa og vorkenna sjálfum sér ógurlega yfir reikningunum sem hann þurfti að borga. Góðir vörubílsstjórar eru gulls ígildi og ekki sé ég eftir einni krónu í kaup handa þeim. Þó gat ég ekki varist þeirri hugsun að útlendingum, sem þetta sæju, myndi líklega finnast einkennilegt að hér þætti sjálfsagt mál að vörubílstjóri gæti veitt sér slíkan lifistandard. Alltjent stórefa ég að evrópskir vörubílstjórar búi almennt svona ríkmannlega. Ekki vegna þess að þeir eigi það ekki skilið. Kaupin á eyrinni gerast bara einfaldlega ekki svona í löndunum sem við viljum bera okkur saman við þegar það hentar okkur, eftir því sem ég best veit.
Sömuleiðis vil ég taka fram að ég efast ekki um að allar fjárhagslegar áætlanir þessa ágæta vörubílsstjóra hafi staðist þær forsendur sem honum voru gefnar á sínum tíma og hann tók trúanlegar. Ég ætla honum ekki að hafa eytt um þau efni fram sem þær gerðu ráð fyrir og skil vonbrigði hans þegar þær brugðust. Í mínum huga sýnir þetta þó fyrst og fremst hve þessar efnahagslegu forsendur voru orðnar brjálaðar fyrir hrun og úr öllu samhengi við þann raunveruleika, sem grannþjóðir okkar búa við.
Í myndinni var talað við fleiri, meðal annars konu sem örvænti um framtíð sína og atvinnureksturs síns í kjölfar hrunsins. Hún var að íhuga að flytja hann til Noregs. Hún vann við að greiða hundum.
Hafi tilgangur myndarinnar verið að sýna órétt sem heiðarleg og vinnusöm smáþjóð er nú beitt óttast ég að það hafi mistekist. Myndin sýnir nefnilega að mínu mati samfélag sem lét glepjast, missti veruleikaskynið og fór á límingunum þegar kom að skuldadögum. Það er þó huggun harmi gegn að norskir hundar verða snyrtilegir í framtíðinni.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. 1. 2010
3 ummæli:
Svar mitt er felst í minni útfærslu á "Platóisma",...
Sanngjörn laun fyrir ráðherra er "ölmusa" (gæti verið sniðugt að hún sé í brauð formi til þess að komast hjá því að peningar séu misnotaðir),
Þar af leiðandi mun enginn spilltur einstaklingur hafa vilja né hvata til að verða ráðherra, vegna þess að hann græðir ekkert á því,
Þeim ber að Búa í tunnum og klæðast lökum eða vera naktir, vegna þess að þeir trúa ekki á nein veraldleg gæði,
Afnemum Lýðræði vegna þess að það ýtir undir popularisma, látum bara gáfaðasta og góðhjartasta fólkið sem þráir svona stöður fá þær.
ooog..
Konur fá Jafnrétti loksins.. En SAMT, skulu þær þurfa að viðurkenna og sætta sig við það að þær eru konur í þessu lífi vegna illra gjörða úr fyrra lífi.
Einnig vil ég að það ríki platónískt samband milli ríkistjórnar og alþýðu alveg eins og platónískt samband milli karls og konu, -
-semsagt;
við reynum að redda öllum málum á jöfnum grunni, í staðin fyrir að sitthvor aðili sé bara að reyna að ríða hinum.
Berjumst fyrir algebru vitund í samfélaginu og fáum fleiri íþróttatíma í grunnskólum.
og að lokum; Enginn ófróður í rúmfræði fær að ganga inn í byggingar.
ps. þessa skoðun skal ekki taka alvarlega, *þó má hver og einn sía út góðu punktana fyrir sjálfan sig*
Ekki veit ég hvort það vantar hárgreiðslufólk fyrir hunda í Noregi. Það vantar hins vegar 100 presta. Ég reikna með að þú sért á leiðinni Séra minn.
Sorglegt samt að búa í þjóðfélagi þar sem undirstöðuatvinnugreinar eins og hundagreiðsla og nornavörukaupmennska geti ekki tryggt fólki framfærslu.
Skrifa ummæli